31.01.1968
Sameinað þing: 32. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í D-deild Alþingistíðinda. (2863)

71. mál, lækkun tolla á efnum og vélum til iðnaðarins

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég sagði nú í fyrri ræðu minni, að ég hefði engan áhuga fyrir því að hefja neinar deilur um þessi mál og skal heldur ekki gera það. Hitt er jafnnauðsynlegt, að við gerum okkur rétta grein fyrir hlutunum og höfum réttan skilning á því, hvað er að gerast í sambandi við iðnaðinn, hefur verið að gerast og er væntanlegt. Það er langt í frá, að fyrir mér hafi vakað þennan tíma, sem ég hef farið með iðnaðarmál, að það væri alveg þýðingarlaust að hugsa um iðnað að öðru leyti en örfá stóriðjufyrirtæki, eins og álbræðsluna. Í mjög miklum umr. sem fram fóru um það mál hér á þingi, kom greinilega fram að ég hef alltaf haft trú á því, að tvennu leyti a.m.k. mundi þessi álbræðsla geta orðið íslenzkum iðnaði almennt til verulegrar og stórkostlegrar styrktar Ég hef átt viðræður um það við samtök iðnrekenda og fleiri, að þeir athuguðu málið og einnig beðið hina erlendu aðila að leggja sitt af mörkum til þess að athuga, hvaða möguleikar þyrftu að vera hér fyrir hendi til þess að hægt væri að taka upp iðnað í aluminium, smáiðnað í aluminium og vinnslu úr því hráefni, þegar það væri til hér í landinu. En samkv. upplýsingum, sem margoft voru gefnar hér i þinginu og öllum er kunnugt um, sem til þekkja, er áliðnaðurinn einmitt langmestur í þeim löndum, þar sem álbræðslur eru. Þetta sést glöggt, þegar maður ber saman t. d. Dani og Norðmenn. Nú er það svo, að ég mundi telja eðlilegt, að slík athugun færi fram af hálfu þeirra, sem þessa atvinnugrein stunda en mér dettur ekki í hug annað en að hér hafi skapazt miklir möguleikar. En í ofanálag við þetta er það orkan, sem iðnaðinum er hvað nauðsynlegust, en hún var fyrst og fremst tryggð með samningnum við álbræðsluna. Það hefur ævinlega verið svo í sögu okkar, að þegar stórar framkvæmdir hafa átt sér stað í rafvirkjunum og framkvæmdum á því sviði, hefur það orðið aflgjafi, eins og skiljanlegt er, til iðnaðarframleiðslu sem stundum hefur búið við þau erfiðu kjör hér á landi að hafa enga orku til sinnar framleiðslu eða allt of dýra orku. Án þess að ég vilji taka upp deilur um rafmagnsverðið til álbræðslunnar, verður ekki um hina staðreyndina deilt, að einmitt vegna þess raforkusamnings, sem við hana var gerður, geta aðrir aðilar, bæði einstaklingar og iðnfyrirtæki, fengið ódýrari orku en ella, og einnig eru hafnar þær miklu virkjanir í sambandi við hana, sem eflaust munu halda áfram, hvort sem við bætast fleiri álbræðslur í sambandi við þá virkjun eða ekki. Hér hefur komizt af stað sú mikilvæga þróun sem á skömmum tíma á eftir að verða iðnaðinum gífurleg lyftistöng.

Hv. þm. taldi, að hann hefði lagt mikið af mörkum til að efla Iðnlánasjóð. Mér þykir vænt um, að hann hefur a.m.k. haft hug til þess, en ég verð að segja það eins og er, að í sambandi við þá löggjöf og fyrirgreiðslu og fjáröflun til þess sjóðs hef ég orðið ósköp lítið var við aðstoð eða hjálp þessa hv. þm. En það ber að taka viljann fyrir verkið og reyna að virkja þetta afl þá betur í framkvæmdinni. Iðnlánasjóður hefur þó ekki vaxið minna á s.l. árum en svo, að hann hefur haft til sinnar ráðstöfunar rúml. 130 millj. kr. á s.l. ári. Fyrir örfáum árum voru það bara nokkrar millj. kr., sem sjóðurinn hafði til ráðstöfunar, en á síðustu 4 árum eða svo hygg ég, að ráðstöfunarféð hafi vaxið úr einum 30—40 millj. kr. upp í það, sem núna er. Þetta er m.a. vegna þess, að sjóðurinn hefur meiri tekjur sjálfur. Það er iðnlánasjóðsgjaldið, sem sett var á með lögum 1963 og iðnaðurinn greiðir að vísu sjálfur, en það er sennilega um 20 millj. kr. á ársgrundvelli núna. Við þetta bætist enn fremur, að árlegt ríkissjóðsframlag hefur hækkað. Á árinu 1963 var það aukið upp í 2 millj., en síðan hefur það verið hækkað upp í 10 millj. frá ríkissjóði Einnig hefur verið stofnuð hagræðingardeild við Iðnlánasjóð Fjáröflun til hennar gekk því miður illa á s.l. ári, þagar við vorum komnir niður í þann öldudal, sem fyrst og fremst stafaði af erfiðleikum útvegsins. Hagræðingardeildin mun þess vegna ekki hafa haft til ráðstöfunar nema um 15 millj. á s.l. ári, en auk þess hlutaðist ríkisstj. til um aðra fjáröflun til sjóðsins eða lánsútvegun til sjóðsins. Þess er einnig að geta, að lánsheimildirnar höfðu verið hækkaðar í l. og auk þess voru framkvæmd l. um breytingar á lausaskuldum í föst lán, sem samtals námu á milli 130–140 millj. kr. á s.l. ári. Ég er ekki viss um, að meiri vöxtur hafi verið í öðrum stofnlánasjóðum atvinnuveganna á sambærilegu tímabili en í Iðnlánasjóði eða möguleikum hans til fjárráðstöfunar.

Það er einnig gott til þess að vita, að iðnaðurinn hefur ekki staðið verr að vígi um almenn rekstrarlán en aðrar atvinnugreinar. Hann hefur haldið sínu hlutfalli í rekstrarlánunum hjá öðrum bönkum en Iðnaðarbankanum. Allir þrír ríkisbankarnir, Útvegsbanki, Landsbanki og Búnaðarbanki, hafa lagt af mörkum mikið rekstrarfé til iðnaðarins, en auk þess hefur Iðnaðarbankinn sjálfur eflzt í ríkara mæli en flestir aðrir bankar á undanförnum árum, þar sem innlánaaukningar hafa jafnan verið mestar hjá iðnaðinum, og ber það að vísu ekki vott um neinar sérstakar þrengingar á þessu sviði. Mér er hins vegar ljóst, að hérna þarf að vinna ötullega að, og ég tel, að það sé mjög veigamikið nú, m.a. vegna erfiðleika hjá þessum atvinnugreinum og öðrum, að stuðla að því að auka eða gera sérstakar ráðstafanir til að auka rekstrarfjáröflun.

Hér hefur verið til umr. að taka upp endurkaup á afurðavíxlum og framleiðsluvíxlum iðnaðarins, Það hefur verið sínum takmörkunum háð. Engu að síður hefur Seðlabankinn hafið slík endurkaup og sett um þau reglur, en ég veit hins vegar, að iðnaðinum sjálfum finnst þær enn vera of þröngar. Það munu þó hafa verið í ýmsum endurkaupalánum um 35 millj. kr. nú um s.l. áramót, og allt telur þetta þess vegna nokkuð saman.

Það er svo loksins eitt atriði, sem við hv. 4. þm. Reykv. erum ósammála um, þrátt fyrir það, að við séum nú í meginatriðum sammála Hann vill í raun og veru setja innflutningshöft á erlendan iðnaðarvarning, því að hann taldi, að það væri stórhættulegt að taka upp heimild til þess að flytja inn erlendan iðnaðarvarning miðað við 10% af heimamarkaðinum. Það væri stórhættulegt og gæti alveg kippt fótunum undan þróun þessa iðnaðar. Þá er í raun og veru ekki um annað að ræða en að banna bara innflutning á iðnaðarvarningnum. Þarna er ég alveg á öndverðum meiði, og ég fullyrði, og athugun mun leiða það í ljós, og þessi n. mætti gjarnan reyna að kynna sér það að innflutningur á iðnaðarvörum hefur stórstyrkt margar greinar iðnaðarins á undanförnum árum. Ég sagði í minni fyrri ræðu að það hefði skapað ýmsa örðugleika, en það hefur líka rifið iðnreksturinn og iðnaðarframleiðsluna upp úr þeim öldudal, sem stafaði frá erfiðum tímum innflutningshafta og banna hér á þessu landi Og ekkert sýndi betur en hin mikla iðnsýning 1966, að fjölmargar greinar iðnaðarins, sem verið höfðu þá og undanfarið í samkeppni við erlenda framleiðslu, höfðu tekið algerlega stakkaskiptum, og mér er vel kunnugt um marga, sem furðuðu sig á því, hvað íslenzki iðnaðurinn á ýmsum sviðum, sem hann áður þótti lítils eða einskis megnugur á, var kominn langt og framleiddi góða og samkeppnisfæra vöru, bæði að verði og gæðum. Þess vegna er ég algerlega á móti því að loka íslenzka iðnaðinn inni, og ég teldi, að það mundi verða honum stórhættulegt, og ekki sízt, — ég segi það alveg eins og er, á tímum eins og á undanförnum árum, þegar Íslendingar hafa lagt svo mikið fyrir sig ferðalög til annarra landa og haft nokkuð rúmar hendur með gjaldeyri og annað til þess að kaupa þar iðnvarning, sem ég held að væri nokkuð öruggt, að hefði borið af því, sem menn áttu kost á hér. Hefði þetta haft í för með sér margvíslega örðugleika og ekkert síður fyrir íslenzka iðnaðinn sjálfan. Á sumum sviðum, þar sem mönnum hefur fundizt vera harkalegur innflutningur, eins og t.d. á kexi og brauðvörum og því um líku, er það þó staðreynd, að þar hefur íslenzka framleiðslan aukizt þrátt fyrir allt og náttúrlega stórum batnað. Það er engum blöðum um þetta að fletta, og hefði mátt vera fyrr, að slíkar umbætur hefðu komið fram.

Um samdrátt í iðnaðinum skal ég svo ekki fara að ræða. Það hefur svo oft verið gert hérna, en skýrslur Hagstofunnar og skýrslur þær, sem komið hafa frá iðnrekendum sjálfum, segja það að það hafi verið töluvert ör þróun og vöxtur á vissu tímabili undanfarinna ára, síðan lítill vöxtur, en um samdrátt hygg ég, að tæpast sé að ræða, nema e.t.v. þegar við sjáum niðurstöðurnar fyrir s.l. ár, sem er alveg einstakt í sinni röð hjá okkur Íslendingum. Og sjálfir hafa iðnrekendur talið að hagvöxturinn í iðnaði sé lítill árið 1966, en lítill hagvöxtur er auðvitað ekki samdráttur, nema menn noti einhverja alveg sérstaka merkingu í orðunum. Og 7—8% hagvöxtur var talinn vera hér í iðnaðinum á árunum 1962—1963, og auk þess, eins og ég sagði, hafa komið hér upp nýjar atvinnugreinar, mættu vera miklu fleiri. Þar á ég fyrst og fremst við skipasmíðar, gosdrykkjagerðir og ýmislegt fleira og margar umbætur á sviði iðnaðarins. Meginatriði málsins er það, sem við erum alveg sammála um, hv. 1. flm. og ég, að hvað sem segja megi um innbyrðis afstöðu hinna þriggja atvinnugreina hér á landi, iðnaðar, landbúnaðar og sjávarútvegs, verði iðnaðurinn í vaxandi mæli framtíðaratvinnureksturinn. Það er enginn vafi á því að mínum dómi, en þá verða bæði þm. að vera reiðubúnir til þess í löggjöf og við afgreiðslu fjárl., sem að miklu leyti er dreifing á fjármunum í landinu að vera reiðubúnir til þess að taka tillit til þessara staðreynda, en þar situr iðnaðurinn auðvitað við allt annað borð en landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn.

Ég er sammála Þórarni Þórarinssyni, hv. 4. þm. Reykv., um það, að það væri kannske út af fyrir sig praktískast að vera ekki að framleiða þessar landbúnaðarvörur. Við gætum fengið þær ódýrari, ef við flyttum þær inn, en ég býst við því líka, að við mundum vera sammála um hitt, að Ísland verður ekki lengur Ísland, ef við hættum og leggjum niður íslenzkan landbúnað, fremur en iðnað eða sjávarútveg.