28.02.1968
Sameinað þing: 41. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í D-deild Alþingistíðinda. (2907)

125. mál, aðstoð við síldveiðiskip á fjárlægum miðum

Jón Skaftason:

Herra forseti. Það mál, sem hér er verið að ræða er að flestra dómi ákaflega mikilvægt og vandmeðfarið. Hv 4. þm. Austf., sem talaði fyrir þeirri þáltill., sem hér er verið að ræða, ræddi hana allýtarlega, og er ég um þau atriði, sem hann vék að, í flestum tilfellum algerlega sammála og skal því ekki eyða mörgum orðum í að endurtaka þau.

Það er auðséð að það er mjög nauðsynlegt, að einhver ákveðinn aðili taki að sér forustuna í sambandi við þær undirbúningsaðgerðir, sem hér eru nauðsynlegar. Ég fagna því þeirri nefndarskipun, sem hæstv. sjútvmrh. vék hér að. Ég tel, að n. sé vel skipuð og megi búast við góðum till. frá henni, þegar þar að kemur. En það er eitt, sem mig langar til að víkja örfáum orðum að, í sambandi við störf n., og það er, að hún hraði störfum sínum eins og mögulegt er. Það er öllum ljóst, sem starfa að þessum atvinnuvegi, verkun og síldarvinnslu, að mjög miklu lengur má ekki dragast, að ákveðnar till. séu settar fram og það tryggt, að hægt verði að framkvæma þær í tíma.

Ég vil sérstaklega víkja að einu atriði, sem undirstrikar þetta mjög vel. Og það er, að nú er orðið tímabært eða verður alla vega næstu vikurnar að hefja sölusamninga við erlenda kaupendur saltsíldar. Síldarsöltun hefur á undanförnum árum verið mjög verulegur þáttur í okkar þjóðarbúskap. Heildarverðmæti útfluttrar saltsíldar hefur numið um það bil 1/10 hluta af heildarútflutningi landsmanna undanfarandi ár og numið um 600 millj. kr. eða einhvers staðar þar um bil. Í þeim samningum, sem nú þarf að taka upp við erlenda kaupendur saltsíldar, munu þeir vafalaust spyrja mjög mikið að því, hvernig Íslendingar hyggjast bregðast við þeim breyttu aðstæðum um göngu síldarinnar, sem voru til staðar á s.l. ári, og margir gera ráð fyrir, að síldin muni halda sig á svipuðum slóðum og s.l. ár og kannske jafnvel enn fjær landinu en hún var. Það hefur ábyggilega verulega mikil áhrif á afstöðu þessara kaupenda, hvort þeir telja fyrir fram sennilegt, að við verðum í þeirri aðstöðu að geta afgreitt það samningsmagn, sem þeir eru reiðubúnir að kaupa og telja sig þurfa að fá.

Nú er aðstaðan gerbreytt, ef síldin heldur sig á svipuðum slóðum og í fyrra, frá því, sem verið hefur allt fram undir s.l. ár. Áður höfðu Íslendingar svo að segja einokunaraðstöðu um að afgreiða þessa mjög mikilvægu framleiðsluvöru, þar sem síldin gekk svo til upp að landssteinunum og við höfðum aðstöðu til þess að verka hana í landi og vanda þá verkunina umfram það sem aðrir höfðu aðstæður til að gera. Nú hins vegar, ef síldin heldur sig á svipuðum slóðum og í fyrra, er hún miklu nær t.d. Noregi en Íslandi, og þar af leiðandi hafa Norðmenn mjög vaxandi möguleika til þess að koma inn sem seljendur saltsíldarinnar og keppa um markaðina við okkur. Þess má enn fremur geta að Rússar hafa mjög verulega aukið fiskveiðiflota sína á undanförnum árum, og hefur verið á síldarmiðunum bæði hér við land og úti á hafinu sístækkandi floti rússneskra veiðiskipa, og það er ekkert leyndarmál, þó að frá því sé skýrt, að við því má búast nú þegar á þessu ári, og hefur raunar gætt þess áður, að Rússar eru orðnir keppendur okkar um vissa markaði saltsíldar og þá fyrst og fremst um Finnlandsmarkaðinn. Ég held þess vegna, að það sé mjög nauðsynlegt, að sú n., sem hæstv, ráðh, hefur skipað fyrir um hálfum mánuði, hraði mjög verulega störfum og skili till. sem fyrst.

Hæstv. sjútvmrh. vék að því hér áðan, að menn yrðu að gera sér grein fyrir, hvað það kostaði, áður en nokkuð yrði ákveðið Vissulega er nokkuð til í því. En ég bið hæstv. ráðh. að taka það líka með í dæmið hvað það muni kosta þjóðina sem heild, ef síldarúthald, sem við höfum stundað, leggst að mestu leyti niður. Við höfum átt á miðunum dýr og fullkomin skip, hátt á annað hundrað á s.l. ári, og á þeim hafa starfað þúsundir íslenzkra sjómanna. Ef mjög verulegur hluti þessa flota kemst ekki á veiðar af ýmsum ástæðum, skortir hann verkefni, og liggur því næst við að álíta, að hann hljóti að reyna að fara á miðin hér við land til þorskveiða og annarra slíkra veiða, en eins og menn vita hafa fiskifræðingar talið að sóknin hér við land í þorskstofninn og aðra skylda fiskstofna sé nú í algeru hámarki. Ég held því, að það þyrfti að taka ákvörðun um það nú mjög fljótlega af hálfu hæstv. ríkisstj„ hvort hún sé reiðubúin að setja ákveðið fjármagn til þess að standa undir þeim undirbúningsráðstöfunum, sem nauðsynlegar eru vegna komandi síldarúthalds. Það er ekki hægt að loka augunum fyrir því, að það mun kosta ríkissjóðinn eitthvert fé, og það er eðlilegt , að fyrst ríkisvaldið hefur tekið að sér forustu í þessu málí, sem ég tel, að það hafi gert í reyndinni með skipun þeirrar n., sem hér hefur verið minnzt á, þá sé nauðsynlegt, að nú þegar verði ákveðið af hálfu hæstv. ríkisstj., að verja nokkru fé til þessara framkvæmda. Það er svo rétt, að fleiri aðilar eiga hér mikið undir en hæstv, ríkisstj., og það er eðlilegt að leita samráðs við þá, og það er einnig eðlilegt, að þeir aðilar séu reiðubúnir til þess að leggja fjárhagslega eitthvað af mörkum, svo að undirbúningsstörfin geti borið nauðsynlegan árangur. En því miður hygg ég, að fjárhagslegar aðstæður þessara aðila séu nú þannig, að lítil fjárráð séu þar fyrir hendi nú og þess vegna þurfi þeir peningar, sem til þessa eru nauðsynlegir, að koma annars staðar frá, a.m.k. til að byrja með.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. En ég vil endurtaka að það er mjög áríðandi, að undirbúningsstörfum öllum verði hraðað. Ef það dregst úr hömlu að fá till. frá þessari n., er hætt við því, að þær komi okkur að litlu gagni, a.m.k. í sambandi við sölu á saltsíld á yfirstandandi ári.