21.02.1968
Sameinað þing: 40. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (2914)

132. mál, embættaveitingar

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það hafi verið á s.l. sumri, sem blaðið Alþýðumaðurinn á Akureyri birti skrá eða lista, sem áreiðanlega vakti athygli um allt land. Þessi listi var um veitingu sýslumanns og bæjarfógetaembætta síðan núv. ríkisstj. kom til valda. Þessi listi sýndi það að á þessum tíma hafa verið veitt milli 10 og 20 slíkra embætta eða a.m.k. talsvert á annan tug, og hann bar það með sér, að eingöngu hefðu komizt í þessi embætti menn sem fylgdu sama flokki og ráðh., sem embættin veitti. Og það var af þeim ástæðum, sem listinn vakti eins mikla athygli og raun bar vitni um. Mér er sagt, að þegar þessi listi birtist í Alþýðumanninum, hafi hann vakið alveg sérstakan úlfaþyt, eða fjaðraþyt væri kannske réttara að segja, í þeim flokki, sem hafði átt dómsmrh., sem að þessum embættisveitingum stóðu, og það hafi fyrst verið tekið til bragðs að gera lista yfir veitingar á skólastjóraembættum, sem höfðu farið fram á sama tíma. Og sá listi mun hafa leitt það í ljós, að það kom mjög sjaldan fyrir, að sá maður, sem hlaut skólastjóraembættið, væri ekki úr sama flokki og ráðh., sem embættið hafði veitt. Því aðeins mun það hafa komið fyrir, að ekki fannst flokksmaður ráðh., sem sótti um embættið að leita varð til annarra.

Dómsmrh. var nú það hygginn að hann beitti ekki þeirri hefndaraðgerð að birta listann yfir skólastjórastöðurnar, heldur notaði hann sér það við næsta tækifæri, þegar hann veitti allvænt embætti í Reykjavík, að setja þar mann úr Alþfl. Hann þekkti sinn samstarfsflokk, og þar með féll þessi deila niður. En hins vegar hefur það gerzt núna nýlega og nokkru eftir að þessi till. var flutt hér á Alþ., að það hefur komið fram í stjórnarblöðunum annað dæmi, sem ekki varpar síður ljósi á þetta mál. Félag ungra sjálfstæðismanna hér í borginni, Heimdallur, hélt nýlega fund, og eftir því sem Morgunblaðið segir s.l. laugardag, var rætt um það þar, hvaða afleiðingar stjórnarsamstarfið við krata hefði haft fyrir Sjálfstfl. Meðal þeirra, sem þar töluðu var einn af varaþm. Sjálfstfl., Guðmundur H. Garðarsson, sem sat hér á Alþ, s.l. haust, og eftir því sem Morgunblaðið segir frá s.l. laugardag, fórust honum orð eitthvað á þessa leið með leyfi hæstv. forseta:

„Benti hann jafnframt á þá staðreynd, að Alþfl. væri nú að verða embættis- og ríkisstarfsmannaflokkur, sem ætti hverfandi lítil ítök meðal launþega og atvinnurekenda og væri því lífsspursmál fyrir flokkinn að þenja út ríkisbáknið með það fyrir augum að koma fleirum sinna manna á ríkisjötuna. Flokkur, sem ekki ætti fylgi nema innan ríkisbáknsins, væri ekki líklegur til stórræða í atvinnumálum þjóðarinnar.“

Enn fremur segir svo í Morgunblaðinu að því er manni virðist um heildarskoðun fundarmanna þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Þá kom fram sú skoðun, að óeðlilegt væri, hve ungkratar misnotuðu ýmsar opinberar stofnanir, svo sem húsnæðismálastjórn, framkvæmdanefnd byggingaáætlunar o.fl., í þágu flokks síns. Þótti þetta raunar leiða í ljós, hvert hugur þeirra stefndi.“

Ég hygg, að það sé óþarfi að láta þessum ummælum fylgja mikla skýringu. Þau skýra sig sjálf, og þau sýna mat hinna ungu sjálfstæðismanna á því, hvernig annar stjórnarflokkurinn hagar sínum vinnubrögðum í sambandi við embættisveitingar, eða með fáum orðum sagt, á þá leið að hann leggur fyrst og fremst áherzlu á það að tryggja sína aðstöðu með því að koma sér sem bezt fyrir innan ríkisbáknsins, eins og þeir orða það í sambandi við stöðuveitingar.

Nú veit ég, hvert verður svar stjórnarsinna við því, sem ég nú hef sagt, og ég hef nú ekki gert annað en að vitna í málgögn þeirra. Þeir munu spyrja: Var þetta ekki eitthvað líkt því, sem var áður fyrr? Hefur það aldrei þekkzt fyrr en núna, að það hafi átt sér ótal pólitískar embættisveitingar? Ég skal alveg fullkomlega játa, að það hafa átt sér stað pólitískar embættaveitingar áður en núv. ríkisstj. kom til valda. Þær hafa átt sér stað alla tíð síðan ríkisstj. kom inn í landið og hér voru pólítískir ráðh. En hitt hygg ég að sé óumdeilanlegt, að þær hafi aldrei verið meira áberandi og aldrei farið meira í vöxt en nú allra síðustu árin. Og það sýna gleggst þær tilvitnanir, sem ég hef vitnað í. En ég hygg, að þetta allt saman sýni, að það sé orðið fullkomlega tímabært að taka þessi mál til nýrrar athugunar og þá sérstaklega með það í huga, hvort ekki sé hægt að finna eitthvert annað kerfi, annað fyrirkomulag við embættaveitingar en það sem nú er, þ.e. að það séu fyrst og fremst pólitískir ráðh., sem veita öll helztu embætti ríkisins. Það er vissulega óheilbrigt ástand, að þannig skuli vera komið að það skírteini, sem mestu skiptir, ef menn ætla að komast í embætti, er ekki prófskírteinið eða reynslan heldur flokksskírteinið. En óneitanlega er ástandið hjá okkur orðið þannig í dag og hefur smátt og smátt á undanförnum áratugum verið að færast í það horf. Ég held, að þegar menn gefa sér tíma til þess að athuga þetta, án alls ofstækis og án þess að vera of mikið bundnir af flokkum sínum, hljóti þeir að komast að þeirri niðurstöðu í þessum efnum, að það sé heilbrigðast fyrirkomulag, að embætti séu veitt eftir því, hverjir hæfileikar og þá ekki sízt hver reynsla þeirra manna sé, sem um embættið sækir. Við eigum þess vegna að taka saman höndum um það án tillits til þess, hvað hefur verið að gerast í landinu á undanförnum árum eða á undanförnum áratugum, að reyna að finna eitthvert annað heppilegra fyrirkomulag en það, sem nú er búið við í sambandi við embættaveitingar.

Það er með þetta í huga, sem sú till. er flutt, sem ég mæli nú fyrir. Efni hennar er í meginatriðum það, að Alþ. álykti að kjósa 5 manna nefnd hlutfallskosningu í Sþ. til að undirbúa heildarlöggjöf um embættaveitingar og starfsmannaráðningar ríkisins og ríkisstofnana. þar sem stefnt sé að því að tryggja sem óháðast og ópólitískast veitingarvald og starfsmannaval. N. skal kynna sér löggjöf og reglur um embættaveitingar í öðrum löndum og þá reynslu, sem þar hefur fengizt í þessum efnum. Þá skal n. einnig afla sér álits félaga embættismanna og annarra opinberra starfsmanna um það, hvernig þeir telji þessum málum vera bezt skipað, þannig að framangreindur tilgangur náist.

Ég held, að það sé óþarfi að skýra þessa till. með mörgum orðum, vegna þess að hún gerir það sjálf nokkuð glöggt. Það er í fyrsta lagi ætlazt til, að það sé verkefni þessarar n. að kynna sér, hvernig þessu er háttað í öðrum löndum og hvað við getum lært að þeirri reynslu, sem þar hefur fengizt, og svo í öðru lagi, að það sé haft samráð við samtök embættismanna um það, hvaða till. þeir hafi fram að færa í þessum efnum til tryggingar því, að það séu ekki pólitísk skírteini, sem ráði því fyrst og fremst, hvernig embætti eru veitt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessa framsögu lengri að sinni. Ég held, að allir hljóti að sjá og viðurkenna, hvað amar að hér í þessum efnum, og í raun og veru játi menn nauðsyn þess, að reynt sé að hefja embættaveitingar upp úr þeirri niðurlægingu sem þær eru komnar í, vegna þess hve pólitísk áhrif hafa ráðið þar miklu á undanförnum árum. Ég vil segja það, að ég hef orðið þess var, að yngra fólkið hefur alveg sérstakan áhuga fyrir því í þessum efnum, að horfið sé frá því fyrirkomulagi, sem hefur verið ríkjandi í þessum málum á undanförnum áratugum og ég hef nú verið að minnast á.

Ég vil vænta þess, að sú þn. eða þeir þm., sem fjalla um þetta mál í n., líti meira á málið frá heildarsjónarmiði og framtíðarsjónarmiði, en ekki fyrst og fremst frá því sjónarmiði, hvaða flokkar fari nú með völd eða hvaða flokkar séu líklegir til að fara með þau framvegis. Þeir gæti að því, hvað sé heilbrigðast og réttlátast í þessum efnum og hvernig hægt sé að koma embættaveitingum þannig við að þeir hafi a.m.k. sem oftast forgangsréttinn, sem eiga hann skilið vegna hæfileika sinna og reynslu.

Ég leyfi mér svo að leggja til, herra forseti, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.