13.03.1968
Sameinað þing: 44. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í D-deild Alþingistíðinda. (2939)

135. mál, akreinar á blindhæðum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort ég hef talað skýrt áðan, en það er ekki að heyra, að hv. 3. þm. Vesturl., Halldór E. Sigurðsson, hafi skilið það, sem ég sagði, því að hann var að tala um það, að hann hefði ekki fyrir fram viljað vantreysta mér, þegar lög um hægri handar akstur voru sett, og þess vegna hafi hann ekki fyrr en nú flutt þessa till. En það er hvort tveggja, sem hefur skeð, að hann hefur ekki skilið það, sem ég sagði áðan, eða ekki viljað skilja það, og hann hefur ekki heldur viljað sjá, þegar hann ferðast um vegi landsins, því að þegar hann ferðast um vegi landsins, má hann sjá, að á mörgum blindbeygjum og blindhæðum hafa verið gerðar tvær akreinar, mjög mörgum, þannig að síðan lög um hægri handar akstur voru sett, hefur verið unnið ötullega að þessari breytingu. En vegna þess að blindbeygjur og blindhæðir eru óteljandi á vegum landsins, er meira eftir en það, sem búið er að vinna að.

Hv. þm. verður nú, held ég, að fyrirgefa mér, þó að ég haldi því fram, að hann hafi bæði heyrt og skilið það, sem ég sagði áðan, og hann hefur líka séð það, sem gert hefur verið á vegunum, en hann hafi við þessar umr. viljað láta, líta svo út sem vegagerðin hafi haldið að sér höndum. En sá málflutningur dugir ekki og dugir ekki þessu máli til framdráttar.

Ég sagði áðan, að vegagerðin hefði hug á því að bæta úr þessu, eftir því sem unnt væri, um leið og ég fullyrti, að þetta væri óframkvæmanlegt á stuttum tíma og beinlínis engin hagsýni í því að gera tvær akreinar á blindbeygjum og blindhæðum á þeim vegum, sem eru óuppbyggðir, eins og kom fram í skýrslu og grg. vegamálastjóra.

Það, hvort aflað verður fjár sérstaklega til þessara framkvæmda í ár, kemur vitanlega fram síðar. En ég vænti þess, að ef till. kæmi fram um fjáröflun, verði hv. 3. þm. Vesturl. hjálplegur við það, ef til hans yrði leitað, og a.m.k., að hann snerist ekki öfugur, ef kæmi nú till. um sérstaka fjáröflun, kannske öðru vísi en að láni. En vitanlega mætti vinna að þessum framkvæmdum hvort sem væri fyrir

lánsfé eða fé, sem aflað væri með öðrum hætti.