14.02.1968
Sameinað þing: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

198. mál, framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. S.l. miðvikudag, þegar þessi fsp. var til umr., kom hæstv. fjmrh. með nokkrar þær yfirlýsingar, sem mikla athygli hljóta að hafa vakið. Ég var búinn að kveðja mér þá hljóðs, þegar umr. var frestað, en ég átti satt að segja ekki von á því, að þetta mál yrði aftur tekið til umr., meðan ég yrði hér í þinginu. Þess vegna gerði ég nú þetta mál að umtalsefni s.l. mánudag við umr. um allt annað mál, Þar sem mjög fáir þm. voru þá viðstaddir og þar að auki var hæstv. ráðh. þar ekki, sé ég fulla ástæðu til þess að ræða hér enn á ný um nokkur aðalatriði málsins, sem ég var búinn að nefna þá.

Þær yfirlýsingar ráðh., sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á voru þær, að í Norðurlandsáætlun yrði aðeins fjallað almennt um það, sem gera þyrfti. Þar yrði ekki minnzt á neinar tilteknar framkvæmdir, engin sérstök áform eða fyrirtæki, sem yrðu þar byggð, heldur aðeins, eins og hann sagði aftur og aftur, kortlagning vandamálanna. Í öðru lagi lagði hann mikla áherzlu á það, að ástandið á Norðurlandi stafaði af langvinnu aflaleysi. Hann sagði, að það væru næg atvinnutæki til þess að sjá öllu vinnufæru fólki fyrir nægri atvinnu, en það væri sem sagt bara hráefnið, sem ekki fengist, og þar sem þetta fólk hefði ekki enn gefizt upp á sjávarútvegi og hefði ákveðið að þrauka og bíða þar til úr rættist, væri í raun og veru engin þörf á nýjum atvinnutækjum. Ég held, að þetta hafi nú verið það, sem ráðh. sagði hér.

Og við skulum þá athuga nánar, hvaða boðskapur felst í þessum orðum ráðh. Jú, það er nú vissulega orðinn býsna langur tími, sem atvinnuleysið hefur herjað á Norðurlandi, en það er ekki annað að sjá en það eigi allt að sitja við sama áfram þar um slóðir. Það á bara að bíða og sjá hvort ekki verður meiri fiskur í sjónum fyrir Norðurlandi. Það er vissulega rétt hjá ráðh., að Norðlendingum hefur ekki dottið í hug að hverfa frá sjávarútvegi, en hins vegar vildi ég útskýra þeirra mál með þeim einfalda hætti, að þeim hefur dottið í hug, að það gæti verið skynsamlegt, að sjávarplássin væru ekki algerlega háð útgerð og fiskiðnaði. Atvinnulíf hvers staðar verður að vera með nokkrum sveigjanleika, eins og menn skilja, og fiskaflinn er alltaf misjafni Þess vegna er þessum þorpum nauðsyn að koma sér upp einhverjum iðnaði, sem grípa má til.

Í þessum umr. hélt ég því fram, að atvinnuástandið á Norðurlandi væri afleiðing af rangri stjórnarstefnu. Vegna þess að ráðh. mótmælti þessu sérstaklega, sé ég ástæðu til að endurtaka þessi orð mín. Atvinnuástandið á Norðurlandi er eins og það er fyrst og fremst vegna. þess, að ríkisstj. hefur haldið að sér höndunum. Það er stefna hennar í samræmi við margyfirlýstar trúarkenningar, að ríkisvaldið eigi að hafa sem minnst afskipti af atvinnumálum, og þess vegna hefur hún lítið gert og ætlar sýnilega lítið að gera og þess vegna segir hæstv. fjmrh., að í Norðurlandsáætlun verði engin áform um tilteknar atvinnuframkvæmdir.

Það er út af fyrir sig rétt, sem fjmrh. segir, að meginorsök vandans er að sjálfsögðu aflaleysið. Nú þá er bara spursmálið, hvernig er hægt að bæta úr því, hver er skyldur að gera það? Vissulega væri gott, ef einstakir menn á þessum stöðum hefðu framtak til að leysa þetta mál endanlega. En það hefur sýnt sig. að á það hefur skort. Þessir staðir, þar sem langvinnt atvinnuleysi hefur verið ríkjandi, eru gersamlega fjárvana, og það sýnir sig, að menn ráða ekki við það ástand, sem þarna er. Þess vegna er það skoðun mín, en það hefur skýrt komið fram, að það er ekki skoðun ríkisstj., það er skoðun mín, að ríkisvaldið eigi að grípa þarna í taumana. Það eigi að hafa frumkvæði að nýjum atvinnuframkvæmdum, og t.d. gæti maður þá nefnt ríkisútgerð togara eða hráefnisflutninga, sem sæju þessum stöðum fyrir örugglega nægu hráefni. En þetta hefur sem sagt ekki verið gert. Til þess að þetta sé unnt, þarf að sjálfsögðu að skipuleggja hvað gera skal, og það er einmitt tilgangur þessarar Norðurlandsáætlunar.

Ég vil svo að endingu taka það fram, að í norðlenzku samningunum, sem gerðir voru 1965, kemur skýrt fram nákvæmlega það, sem ráðh. hélt fram, að væri ekki. Þar kemur það skýrt fram, að það á að gera áætlun um ákveðnar framkvæmdir og ákveðnar ráðstafanir í atvinnumálum. Ég hef því miður ekki tíma til að lesa upp úr þessum samningum, sem gerðir voru 1965, en ég vil sem sé undirstrika það, að hver, sem les það, sér, að það er beinlínis átt við, að ríkisvaldið hafi forgöngu um það, að gerðar verði alveg tilteknar ráðstafanir og meira að segja taldar upp skipasmíðar, veiðarfæragerð og margt annað, sem þar komi alveg sérstaklega til greina að taka til við. Og ég vil líka undirstrika þetta: Hvernig á að vera hægt að lofa öllu vinnufæru fólki á Norðurlandi viðunandi atvinnu með slíkri áætlun, ef ekki eiga svo í áætluninni að vera neinar ráðagerðir um neinar tilteknar framkvæmdir, engin áform um neitt ákveðið, heldur bara skýrslugerð, eitthvert almennt tal um það, hvernig hreyfing fjármagns og slíks skuli vera og sem sagt ekkert „konkret“? Það liggur í augum uppi, að það er útilokað að tryggja nægilega atvinnu með slíkri skýrslugerð. Ég vil sem sagt að endingu segja það, að ríkisstj. lofaði Norðlendingum raunverulegri framkvæmdaáætlun, en ekki einhverri venjulegri skýrslugerð.