13.12.1967
Neðri deild: 38. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (403)

76. mál, söluskattur

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er, eins og segir í grg. þess, að fella niður undanþágu þá, sem nú er í l. um póst- og símaþjónustu, að hún sé undanþegin söluskatti. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. eigi e.t.v. erfitt með að átta sig á því, eins og frv. er orðað, hvað í því felst, en eins og 1. gr. frv. segir til um, er vitnað til 7. gr. núgildandi l., þar sem er tekið fram, hvaða þjónusta sé undanþegin söluskatti. Og í þessum 11. lið, svo sem er í gildandi lögum, stendur: „Póst- og símaþjónusta, svo og þjónusta banka og sparisjóða.“ Með breytingunni, eins og hún er orðuð, stendur aðeins eftir í gr., að þjónusta banka og sparisjóða sé undanþegin.

Ég vil taka það fram í sambandi við þetta frv., að með þessu er engu slegið föstu um það, að póst- og símaþjónusta verði gerð söluskattsskyld, vegna þess að eftir öðru ákvæði l. er ráðh. heimilt að nota ekki einstaka söluskattsheimildir, þannig að með þessu er ekki slegið föstu, að skylt sé að innheimta söluskatt af þessari þjónustu. Ástæðan til þess, að heimildarinnar er leitað, er hins vegar sú, að það er talið rétt að hafa þessa heimild, ef það kæmi í ljós, að nota mætti það fé, sem aflaðist með þessum hætti, á hagkvæmari hátt til þess að vinna gegn áhrifum verðhækkana í þjóðfélaginu vegna gengisbreytingarinnar heldur en með því að hafa þetta undanþegið söluskatti.

Svo sem hv. þm. mun kunnugt, var gert ráð fyrir því í efnahagsaðgerðunum í haust, að söluskattur yrði lagður á þjónustu pósts og síma og sjónvarps og hljóðvarps og gert ráð fyrir, að það veitti um 40 millj. kr. tekjuauka fyrir ríkissjóð. Síðan hefur eðlilega orðið á þessu breyting, þessari aðstöðu, þannig að það er ekki sama þörf á að krefja inn þennan skatt og því aðeins gert ráð fyrir, að haldið verði opnum þessum möguleika til að leggja söluskatt á þessa þjónustu, eins og ég sagði, ef talið yrði, að það væri hægt að nota þetta fé með betri og heppilegri hætti til þess að vinna gegn verðhækkunum almennt. Þetta dæmi hefur þó ekki endanlega verið gert upp nú og ég skal taka það fram, að ef á því veltur með þennan söluskatt, hvort hans vegna þyrfti að hækka þjónustu pósts og síma, verður heimildin tvímælalaust ekki notuð, þannig að það verður lögð áherzla á að halda niðri þjónustu pósts og síma og stefna að því, að hún þurfi ekki að hækka.

Eins og hv. þdm. mun kunnugt, var felld niður úr fjárlagafrv. 20 millj. kr. fjárhæð, sem gert var ráð fyrir, að póstur og sími gæti skilað sem beinum hagnaði til ríkissjóðs á næsta ári. Það mun verða skoðað rækilega niður í kjölinn, hvort hægt er að leggja tilkostnaðarauka vegna gengisbreytingarinnar á póst og síma í þeim mæli, að honum nægi þessar 20 millj. til þess að mæta auknum útgjöldum. Hins vegar tel ég það ekki endilega fjarstæðu á neinn hátt, ef þjónusta pósts og sima þarf að hækka hvort sem er að nota heimildina til þess að leggja söluskatt á þessa þjónustu. Þetta tel ég rétt, að komi skýrt fram. Hér er aðeins verið að leita heimildar í þessu efni, en engu slegið föstu um það, að sú heimild verði notuð, og það verður ekki gert nema að vel athuguðu máli.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.