19.12.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

1. mál, fjárlög 1968

Bjarni Guðbjörnsson:

Herra forseti. Á þskj. 201 hef ég leyft mér ásamt tveimur öðrum hv. þm. að flytja tvær brtt. við fjárl. fyrir árið 1968. Þetta eru ekki veigamiklar breytingar og skipta ekki máli í heildarstefnu varðandi fjárl., en þær geta verið afdrifaríkar fyrir þá aðila, sem þær snerta.

Fyrri till. gerir ráð fyrir því, að ríkissjóður gangi til móts við þarfir íbúa Flateyrar með því, að veittar verði nú á fjárl. ársins 1968 1 millj. 500 þús. kr. til viðreisnar atvinnulífi þessa þorps. Eins og hv. alþm. sjálfsagt er flestum kunnugt, hefur atvinnulíf þessa staðar orðið fyrir miklum áföllum á undanförnum árum. Það er skammt síðan þaðan fórust tveir vélbátar og með þeim margir vaskir sjómenn. Ríkissjóður veitti þá fyrirgreiðslu, sem ber að meta og þakka, enda þótt það væri þá ekki með beinum fjárframlögum. Síðan hefur atvinnulíf þessa staðar og var raunar þegar orðið áður meira og minna í molum, og síðasta árið hefur keyrt um þverbak og síðast nú í haust var frystihúsinu á staðnum lokað. Atvinnuleysi hefur verið mikið á staðnum, en hitt er sýnu verra, að sú vinna, sem unnin var í frystihúsinu, hefur ekki fengizt greidd og verkafólk mun eiga um 460 þús. kr. ógreiddar hjá þessu fyrirtæki eða frystihúsinu á staðnum. Það er að vísu engin nýjung, að frystihús sé í erfiðleikum. En þetta ástand á Flateyri er búið að vara svo lengi, að óviðunandi með öllu er, að slíkt haldi áfram. Sjómenn og verkamenn hafa leitað burtu í atvinnuskyni og ef nokkur vertíð á að verða á Flateyri, verður ríkisvaldið að koma til skjalanna. Ástand frystihússins er því miður þannig, að starfræksla þess getur ekki hafizt aftur, án þess að þar verði framkvæmd þó nokkur viðgerð, sem kostar mikið fé. T.d. þarf að setja upp ný frystitæki, því að það er ógerlegt að framleiða fyrsta flokks útflutningsvörur á Ameríkumarkað með þeim tækjum, sem fyrir eru. En hreppsfélagið og einstaklingarnir eru þess ekki megnugir eins og stendur að leggja fram þá fjármuni, sem til þess þarf. Hins vegar hafa þeir látið það í ljós, að þeir mundu geta látið veð, ef hægt væri að fá fjármagn, svo að takast mætti að koma þessum málum í betra horf. Mönnum finnst það kannske með ólíkindum, að það skuli vera hægt að fá veð til þess að koma þessari starfrækslu af stað. En það byggist einfaldlega á þeirri augljósu staðreynd, að eignir á Flateyri verða einskis virði, ef atvinnulífið verður áfram svo lamað sem það hefur verið hingað til. Ég veit það, að allir hv. alþm. viðurkenna, að hér er um mjög alvarlegt ástand að ræða, og ég vænti þess, að þeir veiti þessum till. þann velvilja og þann skilning, sem dugar til þess, að úr þessu verði bætt af hálfu ríkisvaldsins.

Síðari till., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt þeim Steingrími Pálssyni og Sigurvin Einarssyni, er varðandi lækni á þessum sama stað. Það hefur verið læknislaust undanfarið á Flateyri, og Þingeyrarlæknirinn hefur verið settur til þess að gegna þessu héraði. En það er ekki nóg með það, að þar hefur enginn læknir verið. Það hefur hvorki verið hjúkrunarkona eða ljósmóðir, sem hægt hefur verið að ná í nema yfir fjallveg, sem hefur þurft að fara, og tilgangurinn með þessari till. er sá að halda opinni leið að vetri til, eftir því sem kostur er á, milli Flateyrar og Þingeyrar vegna læknisþjónustu og sjúkraflutninga. Það er auðvitað ekki ætlazt til þess að verið sé að moka í algerri vonleysu snjó á þessum stöðum, en þess er vænzt, að reynt verði að halda opinni leiðinni fyrir þessi byggðarlög, því að þar sem um er að ræða útgerð, ef hún á annað borð verður stunduð frá Flateyri, er það ógerningur, ef ekki er hægt að komast og vitja læknis. Til Ísafjarðar er ekki möguleiki að komast. Þar er yfir 600 m háan fjallgarð að fara, sem alltaf er tepptur af snjóum frá í nóv. og fram í maí, en öðru máli gegnir um leiðina milli Flateyrar og Þingeyrar. Þar er auðveldara við að fást.

Ég vænti þess, að báðar þessar till., sem eru fluttar af brýnni nauðsyn fyrir íbúa þessara staða, verði samþ. hér á hinu háa Alþingi.