24.11.1967
Neðri deild: 23. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að hér eru sjö auðir ráðherrastólar og mér þætti það dálítið óviðkunnanlegt, þegar þetta mál kemur loksins til kasta Alþingis, að hér skuli ekki vera neinn ráðherra viðstaddur, svo að hægt sé að beina máli sínu til þeirra og fá svör við fyrirspurnum. (Forseti: Forseta þykir það miður, en eins og hv. þm. veit, þá hefur greinilega til fundarins verið boðað.) Já, mér finnst þetta vera afleit vinnubrögð hjá hæstv. ríkisstj. (Forseti: Það má búast við, að ráðh. muni birtast innan skamms.)

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu, sem ég mælist til þess, að hæstv. ráðh. séu viðstaddir, þegar málið er tekið hér til umr. Í nærfellt viku hafa ríkisstj. og sérfræðingar hennar unnið að útreikningum á stórfelldri lækkun á gengi ísl. kr. Þennan tíma hefur Alþ. ekki verið gerð nein grein fyrir viðfangsefnum og áformum hæstv. ríkisstj. Á mánudaginn var, eftir að vitað var að ríkisstj. Íslands ætlaði að hagnýta lækkun sterlingspundsins til nýrrar kollsteypu hér innanlands, voru hv. alþm. ómakaðir í þetta hús í þeim tilgangi einum að afgreiða kjörbréf tveggja varaþingmanna Sjálfstfl., svo að aðalmennirnir gætu komizt á annað þing, sem þeir höfðu meiri áhuga á, þing Atlantshafsbandalagsins. Hæstv. forsrh. var þá staddur hér í þingsölunum, en hann sá enga ástæðu til þess að gera Alþ. grein fyrir hinum nýju viðborfum og mati ríkisstj. á þeim. Síðari daga vikunnar hafa íslenzkum alþm. verið eftirskilin þau verkefni að deila um verðlagningu landbúnaðarafurða og loðdýr það, sem íslenzkum þm. er öðrum dýrum hjartfólgnara, minkinn. En um gengislækkunina, það stórmál, sem raskar högum hvers einasta manns í landinu, hefur ekki verið sagt aukatekið orð. Að vísu hafa hæstv. ráðh. haft einn eða tvo fundi með fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna og skýrt þeim þar frá atriðum og áformum með þeim fyrirvara, að um algert trúnaðarmál væri að ræða. En við Alþ. sem stofnun hefur ekkert verið rætt. Hinir kjörnu fulltrúar Alþingis í bankaráði Seðlabankans hafa verið leiknir á sama hátt. Ekkert samráð var haft við þá um málið fyrr en þeir voru kvaddir á fund í fyrradag með stuttum fyrirvara og þeim sagt að taka ákvörðun um tillögu, sem gerði ráð fyrir nær fjórðungslækkun á gengi ísl. kr., án þess að nokkur grg. fylgdi þeirri till. Ég fullyrði, að engri ríkisstj. í þingræðisríkjum þeim, sem ég þekki til, hefði komið til hugar að beita þjóðþing og stofnanir þess slíkum aðferðum, sýna þeim slíka óvirðingu. Hér er um að ræða mikið alvörumál, sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir alla þá þm., sem annt er um heiður og áhrif þessarar stofnunar, alveg án tillits til stjórnmálaágreinings.

Hvað gerist svo, þegar hæstv. ríkisstj. og embættismenn hennar hafa tekið ákvarðanir sínar og fengið leyfi fyrir þeim hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en ekki hjá Alþingi Íslendinga? Kemur þá ekki forsrh. Íslands með ýtarlega og rökstudda skýrslu, gerir hann Alþingi ekki nákvæma grein fyrir ákvörðunum þessum, forsendum þeirra og afleiðingum? Svörin við þeim spurningum höfðu hv. þm. fyrir augunum hér í þingsalnum áðan. Hæstv. ráðh. kom í ræðustólinn og fór fram á það eitt, að Alþ. leysti fyrir ríkisstj. einn lítinn þátt þeirra vandamála, sem tengd eru gengislækkuninni, og helzt í snatri og umyrðalaust. Tal hans var svo til allt um formsatriði. Hann lét sér ekki til hugar koma að greina í heild frá fyrirætlunum hæstv. ríkisstj. Hann gerði því engin skil, hvernig ráðstafanir þær, sem í frv. felast, eiga að falla inn í heildina. Alþingi sem stofnun hefur í rauninni ekki hugmynd um, hvað það er að gera, ef það samþykkir þetta frv. eitt. Ríkisstj. heldur enn fast við þau vinnubrögð að leyna okkur, hina kjörnu fulltrúa þjóðarinnar, staðreyndum. Hún lítur aðeins á Alþ. sem afgreiðslustofnun, þar sem menn eigi að samþykkja það, sem að þeim er rétt, án þess að hafa hugmynd um, hvað þeir eru að gera. Enginn þm. með sjálfsvirðingu getur sætt sig við slík vinnubrögð, alveg án tillits til þess, hvaða skoðanir hann hefur á efnisatriðum þeim, sem felast í þessu frv.

Það er ákaflega margt, sem alþm. eiga heimtingu á að fá að vita, áður en hægt er að ætlast til þess, að þeir fari að samþykkja einn hlekk í keðju, sem þeir þekkja ekki að öðru leyti. Hæstv. forsrh. greindi okkur þó frá einu atriði. Hann lét þess getið í lok ræðu sinnar, að löggjöfin um verðtryggingu launa yrði afnumin, þegar vísitöluhækkunin 1. des. væri komin til framkvæmda. Ætlun ríkisstj. er auðsjáanlega sú, að stórfelldar verðhækkanir skelli á launafólki, og a.m.k. bótalaust á öllum þeim, sem ekki hafa verkfallsrétt og nægilega öflug samtök til þess að knýja fram kauphækkanir. Verkalýðsfélögin hafa með verkfallshótun tryggt vísitölubætur 1. des., og þau munu eflaust rétta hlut sinn aftur, e.t.v. oft á ári, eins og 1963, ef þess gerist þörf. En hvað með aðra? Hvað með opinbera starfsmenn? Hvað með gamalt fólk, öryrkja og sjúklinga og einstæðar mæður, einmitt þá, sem ævinlega bera skarðastan hlut frá borði, þegar yfir dynja efnahagslegar kollsteypur? Og hvernig verður háttað aflahlut sjómanna? Fá þeir að njóta þeirrar fiskverðshækkunar, sem væntanlega verður afleiðing gengislækkunarinnar, eða ætlar ríkisstj. að ganga á samningsbundinn rétt þeirra? Hvernig hugsar ríkisstj. sér að tryggja afkomu bænda, þegar allar rekstrarvörur hækka stórlega í verði? Hvað hugsar ríkisstj. sér að gera til að rétta hlut sparifjáreigenda, þ. á m. aldraðs fólks, sem geymt hefur skildinga til elliáranna og óttast nú réttilega, að rænt verði drjúgum hluta af þeim spariskildingum? Það er ekki ég einn, sem er að bera fram þessar spurningar. Þannig spyr allur þorri þjóðarinnar í dag.

Og við höfum ástæðu til að spyrja um margt fleira. Hvernig ætlar ríkisstj. að haga verðlagseftirliti á þessum snöggu umbreytingatímum? Hvernig verður verðlagsákvæðum hagað? Eiga kaupsýslumenn að fá að sópa til sín stórfé með frjálsri álagningu á miklu hærri grunnupphæð en áður? Hvernig ætlar ríkisstj. að haga innheimtu sinni á innflutningstollum? Eiga þeir einnig að hækka í hlutfalli við gengisbreytinguna? Og hvernig verða efndirnar á því loforði, sem hæstv. forsrh. gaf hér á þingi í fyrra með býsna miklum stóryrðum, að ef gengið yrði fellt undir hans forustu, skyldu gengislækkunar- og verðbólgubraskarar fá að bera fyllilega sinn hlut? Hvenær er að vænta frv. ríkisstj. um það efni? Hvað á að felast í slíku frv.? Hvernig ætlar hæstv. forsrh. sér að leggja byrðarnar á braskarana? Við alþm. eigum heimtingu á að fá að vita, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar sér að bregðast við þessum vandamálum öllum, áður en hægt er að ætlast til þess, að við samþ. það frv., sem hér liggur fyrir og ákveður m, a. stórfelldar bætur handa kaupsýslumönnum, sem talið er að muni skaðast á gjaldeyrisbraski því, sem þeim hefur verið heimilað undanfarin ár.

Ég vil enn ítreka þá kröfu mína, að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir afstöðu sinni til þessara mála í heild, áður en nokkurt einstakt atriði er afgreitt hér á Alþ. Hæstv. ríkisstj. hefur truflað alla starfsemi banka og kaupsýslumanna í nærfellt viku, og ég fæ ekki séð, að það geri nokkurn skapaðan hlut, þótt nokkrir dagar bætist við, á meðan unnið væri að málum á eðlilegan hátt hér á Alþ. Og ég fæ ekki heldur séð, að nokkur sanngirni mæli með því, að Alþ. vinni að þessu frv. með forgangshraða og á annarlegum vinnutíma, eftir að ríkisstj. er búin að sniðganga Alþ. og halda því starfslausu alla vikuna. Raunar eigum við alþm. heimtingu á grg. frá ríkisstj. einnig af öðrum ástæðum. Gengislækkunin er ekki aðeins röskun á efnahagskerfi Íslendinga, högum hvers einasta manns í landinu, hún er einnig gerbreyting á þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur margsinnis lýst yfir. Hún brýtur m.a. gersamlega í bága við þá stefnuyfirlýsingu, sem hæstv. forsrh. flutti hér úr þessum ræðustól fyrir rúmum mánuði. Það hefur verið mál margra manna undanfarin tvö ár, að nú færi að koma að því, að krónan yrði lækkuð enn einu sinni, í þriðja skiptið á sama áratugnum. Ástæðurnar fyrir því mati voru ekki sízt sóttar í röksemdir ríkisstj. sjálfrar. Í bókinni Viðreisn, sem út kom 1960, er að finna fræðilega grg. fyrir forsendum gengislækkunarinnar, og þær forsendur hafa allar verið uppfylltar að undanförnu, uppbætur, niðurgreiðslur, margfalt útflutningsgengi, viðskiptahalli, rekstrarhalli á ríkissjóði o.s.frv., en þrátt fyrir allt þetta sóru hæstv. forsrh. og félagar hans, og margsóru raunar fyrir kosningar, að gengið skyldi ekki verða fellt. Þeir voru spurðir um það aftur og aftur, jafnt í ræðu sem riti, og svörin voru alltaf á eina og sömu lund. Og hér komu ekki aðeins til svardagar ráðherra, aðalbankastjóri Seðlabankans, dr. Jóhannes Nordal, æðsti ráðamaður efnahagskerfisins, sór einnig. Á aðalfundi Seðlabankans s.l. vor lýsti hann yfir því, að þau vandamál, sem við væri að etja af völdum aflabrests og verðlækkana, yrðu leyst á grundvelli óbreytts verðlags og óbreytts gengis, gengið yrði ekki fellt. Nú er það að vísu gömul reynsla, að svardaga þessara stjórnmálamanna og embættismanna ber oft að túlka sem öfugmæli. En þessir svardagar héldu áfram, einnig að kosningum loknum. Við heyrðum þá hér í þingbyrjun, í stefnuyfirlýsingu ríkisstj., eins og hún var flutt af hæstv. forsrh. Hann gerði þar grein fyrir því, að ríkisstj. hefði hugað að mörgum leiðum. Hún hefði velt fyrir sér söluskatti, en komizt að þeirri niðurstöðu, að hann mundi verða þungbærari en nefskattarnir. Hún hefði íhugað gengislækkun, en talið, að hún mundi alls ekki leysa þann vanda, sem við væri að glíma. Frv. um efnahagsráðstafanir var ekki sízt rökstutt með því, að því væri ætlað að koma í veg fyrir að lækka þyrfti gengið. Þegar verkalýðshreyfingin mótmælti þeirri kjaraskerðingu, sem í frv. fólst, urðu viðbrögð Morgunblaðsins þau að segja, að verkalýðshreyfingin væri að leiða yfir þjóðina vá nýrrar gengislækkunar. Það eru þannig ekki ýkjamargir dagar síðan aðalmálgagn ríkisstj, notaði gengislækkunina sem grýlu, þá sömu gengislækkun sem nú hefur verið ákveðin af ríkisstj.

Þannig hefur orðið algjör breyting á sjálfum grundvelli þeirrar stefnuyfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. flutti okkur hér í þingbyrjun. Hafi flutningur þeirrar stefnuyfirlýsingar átti að vera rétt þingræðisleg vinnubrögð, ætti það að vera óhjákvæmileg skylda ríkisstj. að gera Alþ. grein fyrir því, hvers vegna stefnuyfirlýsingunni hefur nú verið breytt í andstæðu sína á þessu sviði. Hvaða gagn er í stefnuyfirlýsingu í upphafi þings, ef ekkert mark er á henni takandi nokkrum vikum síðar? Þær afsakanir hafa sézt í stjórnarblöðunum, að óhjákvæmilegt hafi verið að fylgja sterlingspundinu. Þar hafi verið um að ræða utanaðkomandi áhrif, sem okkur hafi verið ósjálfráð og við höfum orðið að hlíta, nauðugir, viljugir. En hvað felst í því að fylgja sterlingspundinu? Aðeins tæpur þriðjungur af viðskiptum okkar er við Bretland, og lækkun pundsins hefur aðeins áhrif á þau viðskipti. Ef talið var óhjákvæmilegt að breyta skráningu íslenzku krónunnar af þeim sökum einum, hefði 4–5% gengislækkun trúlega nægt til þess að jafna metin. En ríki með sæmilega traustan efnahag hefði að sjálfsögðu getað staðizt þessa lækkun sterlingspundsins. Það sjáum við af viðbrögðum annarra. Í gjörvallri Evrópu eru aðeins tvö ríki, sem lækkuðu gengið um sömu hundraðstölu og Bretar, Spánn og Írland, einhver alræmdustu afturhalds- og óstjórnarríki álfunnar. Danir létu sér nægja að lækka gengið um 7.9%, og eru þeir þó mjög háðir brezka markaðnum með hinar viðkvæmu landbúnaðarvörur sínar. Öll önnur Evrópuríki, fyrir utan Ísland, héldu gengi sínu óbreyttu, þrátt fyrir lækkun sterlingspundsins, þ. á m. Norðmenn, sem alltaf hafa haft mjög stórfelld og náin efnahagstengsl við Bretland. Við Íslendingar erum ekki aðeins einsdæmi í Evrópu, við erum einsdæmi í heiminum. Ekkert annað ríki í víðri veröld hefur notað gengislækkun sterlingspundsins sem átyllu til jafnhrikalegrar kollsteypu og nú er orðin hlutskipti okkar. Í því efni höfum við við enga að sakast nema sjálfa okkur. Við eigum heimtingu á því, að sú ríkisstj., sem kallað hefur þetta hlutskipti yfir þjóðina, geri grein fyrir algjöru gjaldþroti stefnu sinnar, áður en hún getur ætlazt til þess, að aðrir rétti henni hjálparhönd.

Ég hef hér vikið að öldungis ósæmilegum og ólýðræðislegum vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. við framkvæmd þessarar stórfelldu gengislækkunar. Mér þótti óhjákvæmilegt, að lögð væri áherzla á þessi atriði um leið og málið sjálft er lagt fyrir Alþ., þótt aðeins sé örlítið brot þess. Um gengislækkunina sjálfa og mörg þau atriði, sem henni eru tengd, eigum við vafalaust eftir að ræða mikið. Hins vegar hlýtur það að vera frumskilyrði þess, að alþm. geti metið hvert atriði um sig, að þeir fái fyrirfram heildarvitneskju um það, hvert ríkisstj. er að stefna. Af þeim ástæðum einum er það, eins og ég sagði áðan, fjarstæða að afgreiða einangrað það frv., sem hér hefur verið lagt fram. Hins vegar er þetta frv. mjög fróðleg vísbending um það, hvað ríkisstj. ætlast fyrir með svokölluðum hliðarráðstöfunum sínum. Eins og hv. 4. þm. Austf. rakti hér áðan, er það einn megintilgangur þessa frv., að heimila heildsölum og öðrum innflytjendum að hækka vörubirgðir sínar í verði nú þegar, ef þær eru taldar keyptar fyrir erlent lánsfé. En þar er um að ræða mjög annarlega mismunun og stórfelld tækifæri til sviksamlegrar gróðasöfnunar fjárplógsmanna. Mér þykir rétt að minna hér á þrjá aðila, sem koma sérstaklega við sögu. Það eru olíufélögin þrjú. Þau hafa um skeið notið mjög mikilla forréttinda í viðskiptum, fengið stórfelld vörukaupalán í Sovétríkjunum með vöxtum, sem eru aðeins örlítið brot af venjulegum bankavöxtum á Íslandi. Með því fyrirkomulagi hefur loksins rætzt í verki þrálátt umtal manna um Rússagull og umboðsmenn þess hér á Íslandi. Þetta fyrirkomulag vilja olíufélögin nú fá að nota til þess að fá að hækka umsvifalaust vörubirgðir sínar. En það eru fleiri vandamál, sem eru tengd starfsemi þessara olíufélaga. Þau halda hér uppi, að óþörfu, þreföldu dreifingarkerfi, þreföldum skriffinnskukostnaði, þrefaldri forstjórahersingu og þrefaldri gróðasöfnun. Tilgangurinn með þreföldu dreifingarkerfi er ekki samkeppni um sem bezta þjónustu, eins og oft er talað um til réttlætingar óhagkvæmu skipulagi. Olíufélögin hafa lengi haft nána einokunarsamvinnu um alla hluti og sú samvinna hefur ekki sízt haft þann tilgang að skerða þjónustuna við neytendur. Það hefði sannarlega ekki verið neitt harmsefni, þótt þessi félög, eða einhver þeirra, hefðu orðið gjaldþrota, heldur mikið þjóðþrifamál. Ef ríkisstjórn hins frjálsa framtaks getur ekki unað því, að framtaksmenn séu ábyrgir gerða sinna, þá bar henni einmitt nú skylda til að þjóðnýta olíufélögin og koma á einfaldara, nútímalegra og ódýrara skipulagi. Á þann hátt hefði ríkisstj. getað vegið mjög mikið á móti þeirri stórfelldu hækkun á olíum og benzíni, sem verður ein afleiðing gengislækkunarinnar. En svo er að sjá sem ekkert slíkt sé fyrirhugað. Ríkisstj. ætlar aðeins að bjarga olíufélögunum þremur úr þeim vanda, sem þau hafa komið sér í á eigin ábyrgð, svo að þau geti haldið áfram hinu úrelta og kostnaðarsama kerfi sínu. Afkoma olíufélaganna er tryggð, en launamenn eiga ekki að njóta sams konar tryggingar hjá hæstv. ríkisstj.

Annars skortir mikið á, að alþm. hafi fengið nægilega vitneskju til þess að taka ákvarðanir um það frv., sem hér liggur fyrir, eða þann þátt þess, sem tengdur er því, að birgðir megi hækka, ef menn skulda erlendis fyrir þeim. Mér er forvitni á að vita: Hvað er Alþ. að ráðstafa miklum upphæðum, ef það samþykkir þetta atriði? Hversu miklum upphæðum nema stuttu vörukaupalánin í heild? Það er talað um 700 til 800 millj. kr., en hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð ástæðu til þess að skýra frá því hér á hinu háa Alþ. frekar en öðru. Hvað hækka stuttu vörukaupalánin um mikið að krónutölu við gengislækkunina? Hversu mikið af þeim vörum, sem fluttar hafa verið til landsins fyrir erlent lánsfé, er þegar selt, og hversu mikið bíður hér enn sem birgðir? Ætlar ríkisstj. einnig að veita þeim gengislækkunarbætur, sem búnir eru að selja vörur sínar, en skulda enn þá fyrir þær erlendis? Hvernig hugsar hæstv. ríkisstj. sér að fylgjast með því í framkvæmd, að kaupmenn hækki ekki vörubirgðir, sem greiddar voru að fullu fyrir gengislækkun, fyrst heimilað er að hækka sumar birgðir? Um öll þessi atriði þarf Alþ. að fá vitneskju, áður en unnt er að samþykkja þetta frv., ef um það á að fjalla á sómasamlegan hátt.

Gengislækkun sú, sem nú er verið að hefja umr. um, mun hafa í för með sér mjög stórfellda tilfærslu á fjármunum í þjóðfélaginu, og enn er engan veginn ljóst, hvernig þeirri tilfærslu verður hagað í heild, þótt þetta frv., sérstakar bætur til heildsala og yfirlýsing hæstv. forsrh. um afnám vísitölubóta eftir 1. des., gefi til kynna, að ríkisstj. hafi ekkert lært og engu gleymt. Með gengislækkuninni er ekki aðeins verið að framkvæma mjög stórfellda efnahagslega kollsteypu, þá þriðju á tæpum átta árum. Ef ríkisstj. ætlar að leggja byrðar gengislækkunarinnar einhliða á launafólk, eins og forsrh. hefur boðað, er hún jafnframt að efna til stórfelldra þjóðfélagslegra átaka. Ég er þess fullviss, og hæstv. ríkisstj. getur verið þess fullviss, að þeirri stefnu verður ekki unað. Hæstv. forsrh. fékk hingað í ræðustólinn áðan þá yfirlýsingu stjórnar Alþýðusambands Íslands, að kauptrygging væri grundvallaratriði í augum stjórnar Alþýðusambandsins. Og forsrh. veit af reynslunni, hvaða veruleiki felst á bak við þau orð. Hæstv. forsrh. hefur keypt af sér verkfall 20 þús. manna 1. des. með því að fallast á, að kauphækkun samkvæmt vísitölu komi til framkvæmda þann dag. Hæstv. ráðh. mun eiga þess kost að gera slík kaup margsinnis á næstunni. E.t.v. huggar hann sig við það, að fjögur ár liðu, frá því hann lækkaði gengið 1960 og afnam vísitölubætur á laun, og þar til kauptrygging var leidd í lög á nýjan leik með júnísamkomulaginu 1964. En hæstv. ráðh. skyldi minnast þess, að 1960 gerðu margir sér vonir um ýmsan jákvæðan árangur af viðreisninni. Menn töldu nauðsynlegt að ríkisstj. fengi vinnufrið til að sanna kenningar sínar. En nú bindur enginn maður slíkar vonir við núv. ríkisstj. Það mun líða miklu skemmri tími en fjögur ár, þar til samið hefur verið um kauptryggingu á nýjan leik. Hins vegar vita launamenn nú af reynslunni, að þá þarf að tryggja slíka samninga betur en með einum saman loforðum ráðh. Hæstv. ráðherrar munu fljótlega komast að raun um það, að sú hrossalækning, sem gengislækkun er, nægir ekki til þess að hleypa nýju lífi í viðreisnardrógina. Hún mun aldrei framar ganga í endurnýjun lífdaganna. Efnahagsmálafrv., sem lagt var fram í upphafi þings, var þjóðinni til marks um gjaldþrot viðreisnarstefnunnar, og gengislækkunin er mun stórfelldari sönnun um það sama. Vandamál Íslendinga verða ekki leyst með stefnu núv. ríkisstj., heldur aðeins með félagslegri stefnu, sem er í samræmi við sérstakar aðstæður þessarar fámennu þjóðar. Gengislækkunin mun ekki leysa nein vandamál, heldur magna þau. Áframhaldandi viðreisnarstefna mundi leiða til þess eins, að gengislækkanir verði ekki aðeins þrisvar á átta árum, eins og núv. ríkisstj, hefur afrekað til þessa, heldur mundi hún leiða yfir okkur það hlutskipti, að tekið væri að fella gengið oft á ári, eins og tíðkast í sumum viðreisnarríkjunum í rómönsku Ameríku. Enn sem fyrr eru það stjórnmálin, sem eru í brennidepli, engin vandamál verða leyst, nema breytt verði um ríkisstj. og stjórnarstefnu.