24.11.1967
Neðri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fjhn. þessarar hv. d. hefur haft þetta mál til meðferðar, ef meðferð skyldi kalla. Nál. hafa ekki verið prentuð, eins og menn hafa heyrt. Fjhn. klofnaði í afstöðu sinni til þessa máls, og minni hl. hennar, þm. Framsfl. og Alþb., hafa skilað séráliti, sem ég mun nú leyfa mér að lesa, þar sem því hefur ekki verið útbýtt prentuðu, svo sem venja er til:

Nál. um frv. til l. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu.

Frá minni hl. fjhn.

Með frv. þessu staðfestir ríkisstj. þá fyrirætlun sína að ætla að lækka gengi íslenzkrar krónu um 24.6%, en það jafngildir hækkun á erlendum gjaldeyri um 32.6%. Slík stórkostleg breyting á verðgildi erlends gjaldeyris mun að sjálfsögðu hafa margvísleg og mikil áhrif á þjóðarbúskap landsmanna. Verðlag á innfluttum vörum mun stórhækka og allt verðlag í landinu og þjónusta mun fylgja á eftir.

Nú hefur ríkisstj. tilkynnt, að hún muni á næstunni leggja til, að numin verði úr l. ákvæðin um vísitöluuppbætur á laun í samræmi við verðlag á hverjum tíma. Afleiðingar þess hljóta því að verða mikil kjaraskerðing launafólks að óbreyttum kjarasamningum, og þá um leið mikil kjaraskerðing bænda. Telja má víst samkv. yfirlýsingu verkalýðssamtakanna, að þau uni ekki við þá skipan mála, að dýrtíð stóraukist án hækkunar á kaupi verkafólks. Með gengislækkun þeirri, sem ríkisstj. nú hefur ákveðið, og með lagasetningu um afnám vísitöluuppbótar á laun, er því augljóslega stefnt út í vinnudeilur, sem haft geta hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir atvinnulíf landsins.

Frv. það, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, fjallar ekki um nema lítinn hluta gengislækkunarmálsins. Í því er ekki að finna nein ákvæði um veigamestu þætti málsins, eins og þá, sem varða þróun verðlags- og verðlagningarmála, tolltekjur ríkissjóðs, launagreiðslur sjómanna og stuðninginn við atvinnuvegina.

Ákvörðun ríkisstj. um gengislækkun þá, sem ákveðin hefur verið, er í algerri mótsögn við yfirlýsingar hennar, sem gefnar voru fyrir fáum vikum um nauðsynlegar aðgerðir í efnahagsmálum. Þá var því haldið fram, að gengislækkun væri hættuleg og hefði í för með sér miklu meiri ókosti en kosti. Þá var talið réttast að leggja á nýja skatta og stórhækka verð á landbúnaðarvörum til þess að létta á útgjöldum ríkissjóðs.

Nú virðist ætlunin að halda fast við nýju álögurnar og verðhækkanirnar á lífsnauðsynjum almennings, en demba síðan ofan á allt saman stórfelldri gengislækkun.

Minni hl. fjhn. telur, að stefna ríkisstj. í efnahagsmálum sé í grundvallaratriðum röng og fái ekki staðizt. Stjórnin hefur nú staðið að þremur gengislækkunum á 8 árum, og eftir einstætt góðæri í mörg ár metur hún sjálf efnahagsástandið þannig, að enn verði að grípa til lífskjaraskerðingar með stórhækkandi verðlagi á öllum vörum í landinu. Minni hl. getur því ekki mælt með samþykkt frv., en leggur til, að það verði fellt.“

Hæstv. ríkisstj. beitti sér á sínum tíma fyrir þeirri lagabreytingu, að ákvörðunarréttur um gengi íslenzkrar krónu skyldi ekki vera í höndum Alþ., heldur fluttur til Seðlabankans. Hvers vegna var þetta gert? Hvernig var þetta rökstutt á sínum tíma? Það var rökstutt með því, að æskilegt væri, að gengisskráningarbreytingin tæki sem skemmstan tíma og málið væri sem stytzt til umr. á opnum vettvangi. Nú hefur það hins vegar skeð, að Íslendingar hafa þurft að draga það í allt að því viku að breyta sínu gengi, eftir að gengi sterlingspundsins var breytt, margfalt lengur heldur en nokkur önnur þjóð, og var ekki að sjá, að þessi tilraun til að fá skjóta afgreiðslu á gengisbreytingum á Íslandi hafi borið sérlega mikinn árangur. En það hefur líka komið á daginn, því hefur verið haldið fram hér við umr. í kvöld og ekki verið mótmælt af hálfu hæstv. ríkisstj., að ákvörðunin um lækkun krónunnar nú hafi raunverulega ekki verið tekin í Seðlabankanum, heldur hjá ríkisstj. Og þá fer svona að verða sýnt, hvað var verið að fara með því að taka ákvörðunina um gengisbreytingar úr höndum Alþingis. Þá var verið að ná ákvörðunarréttinum til ríkisstj. í raun og veru, þó að það sé látið heita svo, að Seðlabankinn framkvæmi breytinguna. Því hefur ekki verið mótmælt hér, sem sagt var við 1. umr. málsins, að það er fyrst í raun og veru, þegar allt er klappað og klárt, sem stjórn bankans er kölluð saman til málamyndaafgreiðslu á málinu.

Ég verð að segja það að öðru leyti um vinnubrögðin kringum þetta mál, að mér finnst þau vera fyrir neðan allar hellur. Það fer ekki á milli mála, að það er rétt, sem segir í nál. minni hl. og bent hefur verið á við 1. umr. málsins, að það er aðeins brot af þeim ráðstöfunum, sem koma til með að fylgja þessari gengislækkun, sem fjallað er um hér í hv. d. á þessu kvöldi, aðeins brot. Hæstv. forsrh. nefndi ekki, hvað margra frv. væri von frá hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi, en ég tók eftir því, að hann talaði ævinlega um frv. í fleirtölu, sagði, að sumt kæmi öðru hvoru megin við helgi og sum síðar. Það er þess vegna engin leið til þess að fá á þessu stigi nokkra heildaryfirsýn yfir það, sem er að gerast og kemur til með að gerast á næstu vikum í kringum þessa gengislækkun, sem nú hefur verið ákveðin. Það var beint nokkrum spurningum til hæstv. ríkisstj. við 1. umr. málsins áðan, en hún sá ekki ástæðu til þess að svara neinni þeirra. Og ég get varla hugsað mér, að það sé hægt að sýna hv. d. meiri óvirðingu undir meðferð þýðingarmikils máls heldur en þessa framkomu hæstv. ráðh. En það er hins vegar hægt að segja, að vinnubrögðin í þessu máli eru í nokkuð góðu samræmi við vinnubrögð ríkisstj. í efnahagsmálunum á undangengnu 8 ára tímabili og ýmis einstök viðbrögð í þeim málum.

Ég fer ekki langt út í þá sálma. Það má rétt minna á það enn, sem oft hefur hér verið bent á, að það var fyrsta loforð og fyrsta boðorð þessa meiri hl., þegar hann komst til valda, að koma rekstri íslenzkra atvinnuvega á heilbrigðan og traustan grundvöll. Það var einnig, og loddi auðvitað saman, eitt af allra fyrstu boðorðunum að stöðva verðbólguna. Allir landsmenn hafa séð, hvernig þetta hefur tekizt. Og þar á ég ekki við það, sem nú er að gerast, því að þetta er ekki fyrsta gengislækkunin hjá hæstv. ríkisstj., hvað þá að það sé fyrsta ráðstöfunin, sem gerð er til að bjarga atvinnuvegum, sem berjast í bökkum. Þær er búið að gera margar, en grundvöllurinn undir atvinnulífinu hefur aldrei á þessum 8 árum verið holgrafnari heldur en hann er einmitt nú í dag. En þrátt fyrir þetta hikar ekki núv. hæstv. ríkisstj. við að fara þess á leit við hv. Alþ., að það samþykki ráðstafanir eins og þær, sem boðið var upp á í efnahagsmálafrv. á dögunum, og eins og þær, sem nú er farið fram á, og eins og þær, sem eftir eiga að koma. Það virtist annars vanta í framsögu hæstv. forsrh. fyrir þessu máli áðan, að hann gerði grein fyrir því svona stuttlega, hvað ætti að verða um efnahagsmálafrv., sem lagt var fram hér á dögunum og þá átti að bjarga þjóðfélaginu og atvinnuvegunum, ef það næði fram að ganga. Eða a.m.k. að leggja grundvöllinn að því, að það væri þá hægt með pennastríki um áramótin að bjarga málunum. En þetta er ekki það eina. Það var eitt af loforðunum að afnema allar uppbætur og niðurgreiðslur. Þær hafa aldrei verið meiri en nú. Það átti að afnema tekjuskattinn eða svo hljóðaði ein fyrirsögn í hinni ágætu bók „Viðreisn“. Landsmenn þekkja, hvernig það var efnt. Það átti að taka vísitöluna úr sambandi við kaupið, og það var vissulega gert og þá talið mjög gagnlegt, en það voru ekki liðin nema nokkur ár, þegar það var orðið jafn mikið nauðsynjamál að setja hana aftur í samband að dómi þessara stjórnarflokka í júní-samkomulaginu. Og þeir rómuðu það mjög, að það samkomulag hefði stórkostlega þýðingu. Og svo núna er aftur þar komið, sem byrjað var, að nú á að taka vísitöluna úr sambandi á ný.

Þannig er þetta koll af kolli. Þetta eru auðvitað furðuleg vinnubrögð og verða aldrei of oft eða of harðlega átalin, því að þau bera vott um fullkomið ábyrgðarleysi, og ég vil segja fullkomið blygðunarleysi.

En nú hefur gengisfellingin verið ákveðin, og menn vita, hversu mikil hún er. Það hefur verið tilkynnt í dag, að gengi íslenzkrar krónu skuli lækka um 24.6%, sem þýðir það, að erlendur gjaldeyrir hækkar um 32.6%. Þessi gengisfelling á íslenzku krónunni hefur verið tengd falli sterlingspundsins. Það er hins vegar vitað, að útflutningur Íslendinga fer ekki nema að hluta til Bretlands, og til þess að útflutningsatvinnuvegirnir hefðu staðið jafnréttir eftir gengisfellingu pundsins, þurfti ekki nema lítið brot af þeirri lækkun íslenzku krónunnar, sem nú hefur verið ákveðin, til þess að atvinnuvegirnir stæðu jafnréttir gagnvart fellingu pundsins. Það eru ekki margar þjóðir í Norðurálfu, sem hafa horfið að því ráði að fylgja pundinu. Danir, sem hafa hlutfallslega miklu meiri viðskipti við Englendinga heldur en við og eiga þess vegna miklu meira undir gengi pundsins, felldu ekki sína krónu nema um lítið brot af því, sem við felldum okkar krónu. Norðmenn, sem í útflutningsverzlun hafa um sumt líka aðstöðu og Íslendingar, felldu alls ekki sitt gengi. Nú er þjóðinni sagt, að þær vandræðaráðstafanir, sem gripið hefur verið til, stafi af því og því einu, að verðfall hafi orðið á íslenzkum útflutningsvörum og að afli úr sjó hafi farið minnkandi. En ég held, að hæstv. ríkisstj. komist aldrei framhjá því, að hún er búin að sitja í tvö kjörtímabil við ágætt árferði í útflutningsframleiðslu, hækkandi verðlag á erlendum mörkuðum og vaxandi afla úr sjó og hver dugandi ríkisstj., sem rekur skynsamlega og hagkvæma efnahagsmálastefnu, hlýtur eitthvað að geta gert á slíku tímabili, eins og þessi hæstv. ríkisstj. hefur notið, til tryggingar heilbrigðri efnahagsþróun. Og það er varla hægt að hugsa sér betri aðstöðu til þess að standa við fyrirheitin um að koma atvinnuvegunum á heilbrigðan rekstursgrundvöll heldur en það að sitja allan þennan tíma við þessar aðstæður.

Nei, erfiðleikar atvinnulífsins voru áreiðanlega farnir að segja til sín og það svo að ekki varð um villzt, áður en kom til verðfalls á erlendum mörkuðum og áður en fór aftur að draga úr síldaraflanum, sem hafði verið vaxandi ár frá ári, þannig að magn og verðmæti sjávarafurðanna var eftir 6–7 árin orðið margfalt við það, sem það var, þegar þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Það þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að rökstyðja þá fullyrðingu, að erfiðleikarnir hafi verið farnir að segja til sín í atvinnulífinu, áður en verðfallið kom til. Það nægir að minna á ástandið hjá togaraflotanum, á erfiðleika frystihúsanna og erfiðleika margvíslegs innlends iðnaðar, enda fer það ekkert á milli mála, að hæstv. ríkisstj. hefur löngum sett megintraust sitt í tekjuöflun þjóðarinnar á annað heldur en hina íslenzku atvinnuvegi. Það er ekki langt síðan hún gerði álsamninginn, en í honum finnast ákvæði um verðlag og raforku, sem eru svo hagkvæm fyrir hinn erlenda aðila, að upplýst var á sínum tíma, að hvergi í víðri veröld hefði sá auðhringur náð slíkum samningum. Það gefur svona dálítið glögga mynd af skilningnum á þörfum íslenzku atvinnuveganna, ef maður hefur þetta annars vegar og svo til hliðsjónar, hvernig staðið hefur verið að raforku, framkvæmdum í ýmsum landshlutum, og hvaða kjör íslenzkur iðnaður hefur í sambandi við raforkuna. Ég ætla ekki að fara að eyða um það mörgum orðum, en eins og ég rakti hér í umr. um efnahagsmálafrv. um daginn, gerist það, að þegar síldveiðar margfaldast og allur þungi síldariðnaðarins færist í nýjan landshluta, er þar harla lítill litur sýndur á að greiða fyrir því, að hægt væri að vinna það gull, sem þar hefur verið unnið, með eðlilegum hætti. Og enn í dag býr sá landshluti við rándýra og ótrygga díselorku, þó að þar sé að finna vatnsföll, sem eru ágætlega fallin til virkjunar og einmitt af þeirri stærð, sem þarna hentaði.

Það mætti nefna ótal mörg dæmi um hinn takmarkaða skilning stjórnarvalda á þörfum íslenzkrar framleiðslu og íslenzkra atvinnuvega, þó að ég fari ekki langt út í það að þessu sinni. Það má þó minna á vaxtaokrið, sem hefur verið öllum atvinnurekstri fjötur um fót. Og það, hvernig haldið hefur verið á lánamálum atvinnuveganna að öðru leyti, segir líka sína sögu, t.d. það, hver þróun hefur orðið í endurkaupum Seðlabankans varðandi afurðalánin, sem aðeins jukust lítið eitt á sama tíma og verðmæti framleiðslunnar margfaldaðist. Ekki hefur þessi hæstv. ríkisstj. beitt sér fyrir aðgerðum vegna togaraútgerðarinnar, eins og ég minntist á áðan eða fyrir því að endurnýja togaraflotann. Það bólar ekkert á því. Og hvernig skyldi standa á því, að í Noregi finnast heil byggðarlög, sem hafa atvinnu af því að byggja fiskibáta fyrir Íslendinga, en ekki hefur verið talið rétt að framkvæma þær smiðar á Íslandi, til þess þá m.a. að undirbyggja traust atvinnulíf í einhverjum byggðarlögum?

Nei, ég held, að það verði ógerningur og það takist aldrei fyrir hæstv. ríkisstj. að hreinsa sig af því, að hún hefur á sínum valdatíma vanmetið íslenzka atvinnuvegi.

Og nú bíður ríkisstj. hæstv. um þriðju gengislækkunina á þessu 8 ára tímabili, sem hennar flokkar hafa farið með völd á Íslandi. Og hún biður um skjóta afgreiðslu um leið og það blasir við, að aðeins brot af málinu er lagt fyrir Alþ. og um leið og hún synjar því munverulega að svara nokkrum fsp. og gefa nokkrar frekari upplýsingar en fram komu í stuttri inngangsræðu hæstv. forsrh., áður en málið fór til n.

Við 1. umr. var beint mörgum spurningum til hæstv. ríkisstj. um kaupgjaldsmálin, hversu þau yrðu meðhöndluð, um verðlagninguna innanlands, hvernig með hana yrði farið og um hlut atvinnuveganna í þessu öllu saman, og ekkert svar. Og um hlut bænda sérstaklega og sjómanna og alveg sama.

Það hefur við þessar umr. og áður nú í haust við umr. um efnahagsmálafrv. verið sýnt fram á það með mjög ljósum rökum, hver áhrif stjórnarstefnan hefur haft á þessum 8 árum á efnahagslífið og atvinnuvegina. Og það er í sjálfu sér engin breyting boðuð á stjórnarstefnunni. Þess vegna er það rökrétt og eðlileg ályktun, að menn vænta ekki af gengislækkuninni neinnar framtíðarlausnar á vandanum. Hún lyftir máske eitthvað undir atvinnuvegina í bili, en með óbreyttri stjórnarstefnu er það varla hugsanlegt, að nú takist betur til heldur en á liðnum 8 árum, nema siður sé, því að við getum ekki vænzt þess að fá önnur eins toppaflaár og eins hagstæða verðlagsþróun og var lengst af á þeim stjórnartíma, sem genginn er. Það er þess vegna í sjálfu sér ógerningur að gjalda jáyrði við því frv. og þar með við þeirri gengisskráningu, sem nú hefur verið ákveðin, þegar þessa er gætt. Og það gerir það enn ófýsilegra, þegar það er haft í huga einnig, að alþm. hafa raunverulega ekki fengið neina fullnægjandi grg., hvorki fyrir ástæðunum fyrir gengislækkuninni, og þá enn þá síður fyrir því, hvað í henni felst í raun og veru og hvernig hún kemur til með að verka á hina ýmsu þætti efnahagsmálanna. Að okkar dómi, sem vorum í minni hl. í fjhn. þessarar hv. d., kemur þess vegna ekki til mála að samþykkja það frv., sem hér liggur fyrir, og eins og fram kom í því nál., sem ég las, leggjum við til, að það verði fellt.