15.02.1968
Neðri deild: 62. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

121. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um tollskrá o.fl., er komið hingað frá hv. Ed. lítillega breytt í minni háttar atriðum frá því, sem það var, er það var lagt fram. Eftir 1. umr. í Ed. voru haldnir um það tveir sameiginlegir fundir fjhn. beggja deilda, og mætti ráðuneytisstjóri fjmrn., sem jafnframt mun vera formaður tollskrárnefndar, sem undirbjó frv., á báðum fundunum. Gerði hann á hinum sameiginlegu fundum n. allýtarlega grein fyrir frv. og svaraði fsp., sem einstaka nm. beindu til hans. Þá gerði ráðuneytisstjórinn einnig grein fyrir þeim erindum, sem til tollskrárnefndar höfðu borizt, eftir að frv. var fullsamið. Einnig fékk tollskrárnefnd til athugunar þau erindi, sem fjhn. Alþ. höfðu borizt, eftir að frv. var lagt fram hér á hv. Alþ. Nokkur þessara, erinda tók fjhn. Ed. til greina og flutti í því tilefni brtt. á þskj. 271 og 272. Eru till. á þskj. 271 fluttar af n. sameiginlega, en till. á þskj. 272 af formanni n., hv. 12. þm. Reykv. Er af þessu ljóst, að málið hafði fengið allýtarlega athugun, er því var eftir 1. umr. hér í þessari hv. d. vísað til fjhn. d. N. tók frv. til umr. á fundi sínum í gær, og tel ég, að fram hafi komið, að allir nm. séu út af fyrir sig efnislega sammála frv., en minni hl. áskildi sér rétt til þess að flytja brtt. og tók þá afstöðu að skila séráliti.

Efni frumv. er, eins og fram kom í framsöguræðu hæstv. fjmrh., allveruleg tollalækkun á nokkrum helztu nauðsynjavörum almennings í því skyni að vega nokkuð á móti verðhækkunum þessara vara vegna gengisbreytingarinnar.

Þá er í öðru lagi um að ræða lækkun tolla á hráefnum til íslenzks iðnaðar til samræmis við lækkun tolla á hliðstæðum vörum, ef þær eru fluttar inn í landið fullunnar.

Í þriðja lagi er um að ræða lækkun tolla, sem leiðir af aðild Íslands að hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti GATT-landanna.

Og loks er um almenna tollalækkun að ræða í hæstu tollflokkum, þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að hæstu tollar verði nú 100% í stað 125%, eins og er í gildandi tollalögum. Þetta er í stórum dráttum innihald þessa frumvarps. Auk þess er um ýmsar smávægilegar breytingar að ræða, sem reynslan hefur sýnt, að nauðsynlegt er að gera, þegar tollskrá er tekin til endurskoðunar. Ég efa ekki, að margir þingmenn og kannske flestir mundu hafa í huga frekari breytingar á tollskránni, ef þeir teldu, að því yrði við komið. En eins og fram kom í framsöguræðu hæstvirts fjármálaráðherra við 1. umræðu um málið, er aðeins um ákveðna fjárhæð að ræða í sambandi við þá tollalækkun, sem fyrirhuguð er, og fyrirfram ákveðið, að hún yrði fyrst og fremst notuð til lækkunar á tollum á nauðsynjavörum almennings. Hafa þm. sýnt fullan skilning á þessum meginatriðum frv. og því ekki flutt við það brtt. svo að nokkru nemi, eins og þó hefði mátt vænta, ef um almenna endurskoðun á tollskránni hefði verið að ræða.

Tollalækkun sú, sem frv. gerir ráð fyrir, mun nema um 150–160 millj. kr. Við afgreiðslu fjárl. í desembermánuði var reiknað með, að nokkuð hærri fjárhæð yrði til ráðstöfunar til lækkunar tolla. Við athugun á rekstrargrundvelli bátaflotans og fiskiðnaðarins nú eftir áramótin kom hins vegar í ljós, að ekki yrði komizt hjá verulegu fjárframlagi úr ríkissjóði, ef útgerð ætti að hefjast með eðlilegum hætti nú á þessari vetrarvertíð. Gerði þetta aðstöðu ríkissjóðs til að mæta fyrirhugaðri tollalækkun að sjálfsögðu mun erfiðari. Ég tel ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta atriði, þar sem hæstv. fjmrh. gerði því full skil í framsöguræðu sinni.

Á þskj. 290 flytur fjhn. sameiginlega eina till., eina brtt., en hún er um það, að niður verði felldur 5. tölul. 2. gr. frv. í núgildandi tollalögum er heimild til handa ráðh. að gefa eftir gjöld af vélum til framleiðslu á niðursoðnum sjávarafurðum til útflutnings. 5. tölul. 2. gr. frv. gerir hins vegar ráð fyrir, að þessi heimild verði felld niður. Í grg. með frv. er þess getið, að þetta ákvæði hafi reynzt erfitt og viðkvæmt í framkvæmd og jafnframt er bent á, að hraðfrystiiðnaðurinn búi við 10–15% toll af algengustu vélum sínum. Hvort tveggja er þetta án efa rétt. Hins vegar telur n., að ábending hv. 4. þm. Vestf., sem kom fram við 1. umr. varðandi þetta atriði, hafi við rök að styðjast og telur n., að niðursuða sjávarafurða til útflutnings, sem fram að þessu hefur átt mjög erfitt uppdráttar hér á landi, gæti orðið, ef vel tekst til, verulegur þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar og gjaldeyrisöflun. Og því sé ekki óeðlilegt, að honum sé veitt sú sérstaða, að ráðh. hafi heimild til, ef hann telur þörf á, að láta fella niður gjöld af nauðsynlegum vélum í þessu sambandi.

Þá flyt ég á þskj. 291 að tilhlutan hæstv. fjmrh. till. um, að 1. tölul. 2. gr. verði niður felldur. Liðurinn hljóðar svo eftir 3. umr. í hv. Ed., með leyfi forseta:

„Að lækka gjöld af ritum á íslenzku, sem hafa menningarlegt gildi, sem svari því, að tollur verði greiddur af bókarefninu.“

Í gildandi tollal. er heimild til handa ráðh. að fella alveg niður þessi gjöld. Samkv. upplýsingum fjmrn. hefur þetta verið þannig í framkvæmd, að ef um hefur verið að ræða bækur vísindalegs eðlis eða fræðslurit, hefur ekki verið krafinn tollur af þeim. Verði till. samþ., verður engin breyting á um heimild til ráðh. í þessu sambandi.

Loks skal ég geta þess, að eftir að n. hafði afgreitt málið, skilað nál. í prentun og brtt. sinni, barst henni ábending um, að tollur af öryggisbeltum í bifreiðar mundi vera í mjög háum tollflokki. Við athugun kom í ljós, að tollskrárnefnd hafði úrskurðað öryggisbelti í bifreiðar í sérstakan tollflokk, 62.0503. og tollur var þar ákveðinn 35%. Það er hinn almenni tollur á varahlutum til bifreiða og véla. Hins vegar er það svo, að í núgildandi tollalögum eru öryggistæki, sem lögboðin eru, og einnig mun það vera um t.d. öryggistæki, sem Slysavarnafélagið flytur inn, að þau eru í nokkru lægri tollflokki eða 20%. Ég hef leyft mér að flytja brtt. í þessu sambandi, lagt hana inn til prentunar, en það hefur ekki náðst að útbýta henni, en ég vil leyfa mér að leggja hana fyrir forseta. Hún er þess efnis, að á þessum flokki, 62.05 03, öryggisbeltum, verði 20% tollur í stað 35% áður.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri.