25.11.1967
Efri deild: 21. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

64. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Meiri hl. fjhn. Ed. leggur til, að frv. þetta sé samþ. óbreytt. Fjhn. d. hefur fjallað um frv., fyrst á sameiginlegum fundi með fjhn. Nd. og síðan á fundi, sem haldinn var eftir 1. umr. málsins í háttvirtri deild nú fyrr í dag. N. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Eins og áður segir, er meiri hl. þeirrar skoðunar, að samþykkja beri frv., en minni hl., að fella skuli það.

Í frv. þessu eru eingöngu teknar til meðferðar þær beinu, nauðsynlegu ráðstafanir til þess að upp verið unnt að taka gjaldeyris- og bankaviðskipti á ný og því er beinlínis yfir lýst, að með vilja sé það gert að taka eingöngu þau atriði upp í þetta frv., en bíða með lagasetningu um ýmsar aðrar nauðsynlegar ráðstafanir þangað til betra tóm gefist til íhugunar um þau atriði, sem eru þá frekar matsatriði og álitamál. Ég verð því ekki langorður um þetta frv. Í umr. hér í d. hefur efni frv. lítið verið rætt, en hins vegar meira rætt almennt um breytingu á gengi íslenzku krónunnar, en með því að síðar gefst tækifæri til þess að ræða þau mál almennt nánar, sé ég ekki ástæðu til annars en að halda mig við efni þessa frv. sérstaklega.

Hv. 6. þm. Sunnl., Karl Guðjónsson, nefndi þó nokkur atriði í frv. efnislega og taldi, að sérstaklega væri hugsað um hag ríkissjóðs, verzlunarinnar og skipafélaganna í 1., 2. og 3. gr. gagnstætt því, sem væri um hag útflutningsins samkv. 4. gr. frv. Ég fæ ekki skilið, við hvað þm. á. Í 1. gr. eru ekki frábrugðin ákvæði þeim, sem verið hafa, þegar breytt hefur verið gengi íslenzku krónunnar, og að svo miklu leyti, sem ríkissjóður kann að öðlast auknar tolltekjur vegna verðhækkunar erlendra, innfluttra vara, má einnig reikna með því, að innflutningur í heild minnki, þannig að það dæmi er út af fyrir sig vandreiknað, hve mikið heildartekjur ríkissjóðs muni aukast. En að svo miklu leyti, sem um slíkt kann að vera að ræða, hefur það verið fram tekið, að til athugunar er, hvernig slíkum umframtekjum yrði varið til þess að gera afleiðingar breyttrar gengisskráningar léttbærari að öðru leyti og m.a. fer fram skoðun á því, hvort unnt er að lækka tolla á einhverjum vörutegundum. En sé um auknar tekjur ríkissjóðs að ræða að öðru leyti, hafa hv. þm. stjórnarandstöðunnar sýnt það, að þeir eru ekki í vandræðum með tillöguflutning, sem skapar ríkissjóði aukin útgjöld, ef út í það er farið.

Í 2. gr. vildi hv. þm. halda því fram, að hagsmunum verzlunarinnar væri sérstaklega ívilnað og nefndi til samanburðar hagsmuni sparifjáreigenda. Ég er hv. þm. ósammála. Þarna er algerlega jafnt að farið gagnvart verzluninni og sparifjáreigendum. Ákvæði gr. segja, að óheimilt sé að hækka verð á birgðum innfluttra vara, sem greiddar hafa verið á gamla genginu. Og við skulum taka tvær verzlanir sem dæmi. Önnur verzlunin á vörur í vörugeymslu, sem eru greiddar á gamla genginu. Hin verzlunin á peninga í banka og hefur ekki enn ráðstafað þeim til vörukaupa. Ég sé ekki neinn mun á hag þessara tveggja verzlana, þótt önnur sé verzlun, sem á vörur og verður og selja þær vörur á grundvelli gamla gengisins, eða verzlunarinnar, sem er sparifjáreigandi og getur ekki varið annað en óbreyttri krónutölu til vörukaupa. Á þann veg held ég, að komi skýrt fram, að í þessu er enginn mismunur fólginn á aðstöðu verzlunarinnar annars vegar og sparifjáreigenda almennt hins vegar. Hitt er svo annað mál, að þegar verzlunin selur slíkar vörur, getur hún keypt færri einingar á ný fyrir andvirði hinna seldu vara eins og sparifjáreigandinn.

3. gr. l. er til þess ætluð að gera skipafélögunum jafnt undir höfði og öðrum, og sérstaklega með það fyrir augum, að svo mun vera oft og tíðum, að flutningssamningar hljóði um greiðslu í erlendum gjaldeyri og þá kveður gr. svo á, að eigi sé unnt að innheimta flutningsgjöld að öllu leyti samkv. nýju gengi og eingöngu að svo miklu leyti, sem nemur útlögðum kostnaði skipafélagsins vegna þessarar flutningsstarfsemi sinnar, enda standi sá kostnaður sem skuld skipafélagsins í erlendum gjaldeyri.

Þegar svo talið er, að í 4. gr. sé sérstaklega hallað á útflutningsstarfsemina, er það ekki heldur tilfellið, því að samkv. þeirri gr. er um það sérstaklega getið, að það fé, sem komi inn, sá mismunur, sem er á því, sem útflytjendur fá samkv. gamla genginu og því, sem kemur inn fyrir afurðirnar, að svo miklu leyti sem þær eru greiddar með nýja genginu, öllum þeim mismun skuli varið til hagsbóta fyrir þá atvinnuvegi, sem eiga viðkomandi afurðaandvirði. Með því að þetta eru einu atriðin, sem fram hafa komið um efni þessa frv. við umr. þessarar d., takmarka ég orð mín við þau og ítreka, herra forseti, till. meiri hl. fjhn. um, að frv. verði samþ. óbreytt.