07.03.1968
Efri deild: 67. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

99. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég fellst alveg á það hjá 11. þm. Reykv., að óþarft er að ræða þetta atriði í löngu máli. Ég vil í upphafi þessara orða minna leiðrétta það, sem hann hafði eftir mér, að ég teldi, að lausn vinnudeilunnar gæti legið í þessu. Orð mín bar að skilja svo — hafi það ekki verið ljóst — að þetta ákvæði varð til á sínum tíma í sambandi við lausn kjaramála og niðurstaðan um það, með hvaða hætti vísitöluálag yrði á lán í framtíðinni, gæti m.a. haft áhrif á gang þessa máls, svo að þar er hlutunum gersamlega snúið við.

Hann talar um, að það sé fyrirsláttur af minni hendi að vilja koma í veg fyrir þessa breytingu nú, þar sem ég hafi látið í það skína í Sþ. fyrir skömmu, að ég teldi, að það ætti að leggja niður vísitöluákvæði á núgildandi húsnæðismálalánum. Það, sem ég sagði í Sþ. á sínum tíma, get ég afar vel endurtekið hér enn.

Ég tel, að þetta ákvæði með hliðsjón af breyttum aðstæðum þurfi endurskoðunar við. Ég sagði þá einnig í Sþ., um leið og ég lýsti þessum áhuga mínum fyrir endurskoðun, að það kæmi m.a. af því, að þegar þetta ákvæði var sett í lög á sínum tíma, þá var fyrir því hugsað, að almenn verðtrygging ætti sér stað á lánum til langs tíma. Þetta ákvæði þess frv., sem flutt var sérstaklega um það efni, hefur aldrei komizt í framkvæmd. Það er ein af höfuðástæðunum fyrir því, að ég tel að endurskoða þurfi þetta ákvæði húsnæðismálalaga, en að gera það með svo snöggum og einföldum hætti — að segja bara, að ríkissjóður, sem ekkert hefur á fjárlögum til þeirra hluta, eigi að borga tekjumismuninn. Það er óábyrgari afstaða en svo, að ég hefði trúað því, að hv. þm. stæði að flutningi slíkra till.