18.03.1968
Neðri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

99. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er nánast samhljóða frv. því um verkamannabústaði, sem vísað var til 2. umr. fyrir örfáum dögum, en þetta frv. fjallar um hliðstæð ákvæði í lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Frv. þessi eru bæði flutt, svo sem fram kemur í grg. þeirra, til að tryggja sölurétt þeirra íbúða, sem byggðar eru á vegum þessara kerfa, og til þess að koma í veg fyrir, að íbúðir þær, sem eru smíðaðar á þeirra vegum, geti komizt á almennan sölumarkað, þar sem framboð og eftirspurn ræður verðlagi. Þetta þykir eðlilegt og nauðsynlegt nú vegna nýfallins hæstaréttardóms, sem féll 30. nóv. 1966, en í þeim dómi þykja vera bornar brigður á þessi ákvæði, sem um áraraðir hafa þó gilt og voru í huga manna við setningu þessara laga. Ég tel, að óþarft sé að hafa um frv. fleiri orð, nema sérstakt tilefni gefist til, en legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.