15.03.1968
Neðri deild: 76. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mig langaði fyrst að víkja nokkrum orðum að einum liðnum í þessum firnalanga bandormi, sem hæstv. fjmrh. hefur lagt á borð okkar þm. Þar er um að ræða 9. lið frv., sem gerir ráð fyrir, að fjárframlag til safnahúss falli algerlega niður. Þar er aðeins um að ræða 11/2 millj. kr. eða rúmlega 1% af þeirri heildarupphæð, sem frv. fjallar um, svo að sumum kann að virðast, að þetta sé minni háttar atriði í þessu frv. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að það málefni, sem þarna er fjallað um, sé e.t.v. veigamesta málefnið, sem þetta frv. snertir. Ég hef nokkrum sinnum áður í vetur vikið að vanda hinna vísindalegu bókasafna á Íslandi og þeirri stórfelldu nauðsyn, að gert sé mikið átak í þeirra þágu, og tel óþarft að rifja þær röksemdir hér upp enn einu sinni. M.a. vék ég að þessu máli í sambandi við afgreiðslu fjárl., en þegar fjárlagafrv. var lagt hér fyrir s.l. haust, var ekki gert ráð fyrir neinu fjárframlagi til bókasafnshúss. Þá vék ég að málinu úr þessum ræðustóli og fór þess á leit við hæstv. fjmrh., að hann legði þessu máli lið. Hæstv. ráðh. tók þessu máli vel og átti ágætan þátt í því, að fjárveiting var tekin upp á fjárl. í fyrsta skipti. En nú á sem sé að fella niður þennan lið á nýjan leik, og þar tel ég, að um sé að ræða miklu alvarlegri niðurskurð en þann, sem bitnar á ýmsum öðrum verkefnum, vegna þess að hér er um að ræða fyrstu fjárveitingu.

Önnur áform þurfa ekki að raskast ýkjamikið, þó að framlög til þeirra séu felld niður í eitt ár. Ef við tökum t.d. stjórnarráðshúsið, þá er búið að leggja fé til þess á fjárl. árum saman, þannig að þar hefur nokkur sjóður myndazt, svo að niðurfelling á framlögum í eitt ár ætti ekki að þurfa að raska áformunum um byggingu þess húss.

En ég óttast mjög, að verði fyrsta fjárveiting til bókasafnshúss felld niður, muni reynast mjög erfitt að koma henni inn á fjárl. á nýjan leik. Af þessu máli er erfið reynsla. Ég vil minna á það, að það tók 10 ár frá því, að Alþ. samþykkti einróma þá stefnuyfirlýsingu, að sameina bæri hin vísindalegu bókasöfn í eitt þjóðbókasafn og þar til fé var veitt til þess verkefnis á fjárl. Og hér er um að ræða svo veigamikinn þátt í menningarþróun á Íslandi, að þetta mál þolir ekki aðra bið í viðbót. Ég mundi telja það allt annars eðlis, þótt hæstv. fjmrh. lækkaði þá fjárveitingu, sem hér er um að ræða niður í 1 millj. kr. eða jafnvel 1/2 millj. kr., ef verkefnið sjálft fengi aðeins að standa áfram í fjárl. sem skuldbinding til framtíðarinnar. Það bil, sem þannig kynni að myndast, ætti að vera auðvelt að brúa. Ég mundi t.d. treysta mér til þess að benda hæstv. ráðh. á verkefni af þessum sama vettvangi, sem hægt væri að haga á þann hátt, að nokkur sparnaður hlytist af. Ég flyt ekki neinar till. um þetta mál að svo stöddu, og ég fer ekki fram á, að hæstv. ráðh. svari þessum aths. mínum. Ég vildi aðeins mælast til þess við hann, að hann íhugaði þetta mál, hvort ekki væri unnt að hnika því til, án þess að hann teldi erfiðleika hljótast af. Hér er um að ræða mál, sem ekki er neinn ágreiningur um á milli flokka, þannig að ég mundi telja, að hæstv. ráðh. teldi æskilegt, að hægt væri að leysa það í bezta samkomulagi.

Annar liður þessa bandorms, sem mig langar til að víkja að örlítið líka, er það atriði, sem fjallar um lækkun á útgjöldum utanríkisþjónustunnar. Hæstv. ráðh. greindi frá því hér í gær, að það hefði verið samþ. innan ríkisstj. að leggja niður sendiráð í Ósló og Stokkhólmi, ef sú tilhögun mætti ekki allt of mikilli andspyrnu frá ríkisstj. Norðmanna og Svía. Hins vegar hefði reynslan leitt í ljós, að andspyrnan væri svo mikil, að það væri ekki talið framkvæmanlegt.

Ég heyrði í sambandi við fund Norðurlandaráðs í Ósló ræðu, sem forsrh. Norðmanna hélt þar í íslenzka sendiráðinu og fjallaði fyrst og fremst um þetta mál, og það er rétt, að forsrh. Norðmanna lagðist mjög eindregið gegn því, að sendiráð Íslands í Ósló væri lagt niður. Hins vegar vék Borten forsrh. að atriði í ræðu sinni, sem ég veitti athygli og sem mér finnst vert að benda á. Hann sagði, að sú hugmynd hefði komið upp og verið rædd nokkuð, að Norðurlönd öll felldu niður það fyrirkomulag að skiptast gagnkvæmt á sendiherrum. Og ég gat ekki betur heyrt en forsrh. Norðmanna væri hlynntur þessari hugmynd.

Ég tel, að það væri skynsamlegt, að ríkisstj. Íslands tæki þessa hugmynd upp og beitti sér mjög eindregið fyrir henni. Hún er í samræmi við breyttar aðstæður. Hún leggur áherzlu á þá staðreynd, að samskipti Norðurlandaríkja eru orðin önnur en samskipti ríkja yfirleitt um þessar mundir, og auk þess mundi hún hafa í för með sér fyrir okkur verulegan sparnað, sem hægt væri að hagnýta til þess að efla utanríkisþjónustuna á öðrum sviðum, þar sem hún er afar máttlaus. Ég vil hvetja hæstv. ríkisstj. til þess að taka þetta mál upp af alefli innan vébanda norrænnar samvinnu, og þá gæti hugmyndin um að leggja niður þau tvö sendiráð, sem um var rætt, í Ósló og Stokkhólmi, leitt til þess, að lagt væri í miklu víðtækari og skynsamlegri umskipti. Að öðru leyti mun ég ekki við þessa umr. fjalla um fleiri einstök atriði í þessu frv. Hins vegar þykir mér hlýða að fara nokkrum orðum um málið almennt.

Þetta frv. er nýjasti þátturinn í þeim hrakfallabálki hæstv. ríkisstj., sem hófst fyrir alvöru, þegar þing kom saman í haust og hefur einkennzt af því að ríkisstj. og Alþ. hafa verið að vinna sömu verkin upp aftur og aftur í fullkomnu ráðleysi. Ég skal minna á nokkrar staðreyndir.

Þegar þing kom saman í haust, var lagt fram fjárlagafrv. að vanda og enn fremur frv. um efnahagsaðgerðir, sem sagðar voru lausn á efnahagsvandamálum ríkisbúsins. Frv. um efnahagsaðgerðir var sagt það til lofs, að það leysti vanda efnahagsmálanna, án þess að lækka þyrfti gengið. Og hæstv. forsrh. lagði m.a.s. áherzlu á, að gengislækkun væri ekki lausn á vanda þjóðarbúsins um þessar mundir. Síðan var þetta frv. um efnahagsaðgerðir lagt í salt vegna andstöðu verkalýðshreyfingarinnar, og næst gerðist það, að ríkisstj. snarbreytti um stefnu og framkvæmdi mjög stórfellda gengislækkun þvert ofan í allar fyrri yfirlýsingar sínar. Þá var röðin komin að fjárlagafrv., og vegna gengislækkunarinnar þurfti að breyta svo til hverri tölu í frv.; þar stóð naumast steinn yfir steini. Því var lýst yfir, að gengislækkunin hefði verið reiknuð út nákvæmlega, svo að útflutningsatvinnuvegirnir yrðu reknir án styrkja og uppbóta, og var gengið frá fjárlagafrv. í samræmi við það. Naumast var þó fyrr búið að samþykkja fjárlagafrv. en ríkisstj. vitraðist sú staðreynd, að gengislækkunin næði engan veginn þeim tilgangi, sem henni var ætlaður. Teknir voru upp nýir samningar við útvegsmenn og frystihúsaeigendur og samið um nýja styrki og nýjar uppbætur upp á hundruð millj. kr., sem ekki hafði verið gert ráð fyrir, þegar fjárl. voru samþ. Því þurfti enn að grípa til nýrra efnahagsráðstafana, m.a. endurskoða fjárl. í þriðja skipti með þeim árangri, sem nú blasir við okkur.

Manni verður á að spyrja, hvort hæstv. ríkisstj. muni halda þessari iðju áfram, hvort við eigum von á því að eiga eftir að endurskoða fjárl. nokkrum sinnum enn, áður en þing verður sent heim, og hvort við eigum að samþykkja efnahagsaðgerðir, sem stangast á sitt á hvað. Öll minna þessi vinnubrögð á villta menn, sem hlaupa í ráðleysi sínu á hvað sem er í leit að réttri braut. Og maður hefði fyrirgefið margt, ef hæstv. ríkisstj. hefði að lokum tekizt að hitta á færa leið. En því fer mjög fjarri, að svo hafi verið.

Á meðan á öllu þessu fumi hefur staðið, hefur það öngþveiti, sem blasti við í haust, haldið áfram að magnast og hefur nú leitt yfir þjóðina algert neyðarástand. Eftir stórfellda tekjuskerðingu, atvinnuleysi og óðaverðbólgu hefur verkafólk beitt samtökum sínum sér til varnar í víðtækasta og alvarlegasta verkfalli í sögu þjóðarinnar, og það mætti vera hæstv. ríkisstj. mikið umhugsunarefni, hvernig að þessum stórverkföllum er staðið.

Nú er ekki um það að ræða, að hægt sé að segja, að verkföll þessi séu runnin undan rifjum stjórnarandstæðinga, því að í þessu verkfalli hefur það gerzt, sem sjaldan hefur skeð hér á landi, að um það er enginn pólitískur ágreiningur meðal verkafólks. Síðasta þing Alþýðusambandsins samþykkti einróma ályktun um nauðsyn þeirrar baráttu, sem nú er hafin. Sú ályktun var ítrekuð á þingi Verkamannasambandsins. Í verkföllunum miklu standa verkamenn úr öllum flokkum hlið við hlið. Í samninganefnd verkalýðshreyfingarinnar eru kunnir forystumenn úr öllum stjórnmálaflokkum. Þessi mikla vinnudeila er í rauninni allsherjaruppreisn verkafólks á Íslandi gegn efnahagsástandinu, sem orðið er óþolandi. Víst má segja, að það sé mannlegt, að forystumenn ríkisstj. vilja ekki ræða þetta neyðarástand í áheyrn alþjóðar. En slíkur feluleikur mun engu breyta um örlög ríkisstj. Það er fyrir löngu orðið tímabært, að núv. stjórnarflokkar horfist í augu við veruleikann af fullu raunsæi, að þeir meti stöðu sína í samræmi við þá atburði, sem nú hafa gerzt og dragi óhjákvæmilegar ályktanir af því mati.

Og hver er svo málsvörn ríkisstj.? Hún hefur verið hin sama alla tíð síðan í haust í þau þrjú skipti, sem fjallað hefur verið um nýja gerð fjárl., þ.e. þegar ríkisstj. ætlaði að forða gengislækkun, þegar hún framkvæmdi gengislækkunina til að komast hjá uppbótum og þegar hún réðst í uppbæturnar. Í hvert skipti höfum við fengið að heyra sömu tölurnar um stórfelld efnahagsáföll á síðasta ári, aflabrest og verðlækkanir á útflutningsafurðum okkar.

Ég skal taka það fram, eins og ég hef oft gert áður, að ég hef enga löngun til þess að gera lítið úr þessum örðugleikum. En við skulum ekki heldur mikla þá umfram staðreyndir. Hvernig var efnahagur þjóðarinnar eftir þetta mikla örðugleikaár í fyrra? Samkv. síðustu áætlunum Efnahagsstofnunarinnar voru vergar þjóðartekjur á markaðsverði 23,650 millj. kr. á s.l. ári, þ.e. tæpir 24 milljarðar kr. Meðaltekjur á hvert mannsbarn í landinu voru þannig um 120 þús. kr., þ.e. meðaltekjur á hverja fjölskyldu um 1/2 millj. kr. Eftir þetta erfiðleikaár vorum við enn þá í hópi auðugustu þjóða í heimi, að því er varðar meðaltekjur á mann. Aðeins örfáar þjóðir stóðu okkur jafnfætis eða framar allur þorri þjóða langt að baki. Fyrir því eru engin almenn rök, að þjóðfélag með þennan efnahag geti ekki tryggt öllu launafólki sómasamlegar lágmarkstekjur ásamt tryggingu fyrir því, að þær lágmarkstekjur haldist óskertar á verðbólgutímum. Fyrir því eru engin almenn rök, að slíkt þjóðfélag geti ekki tryggt landsmönnum þau lágmarksmannréttindi, sem kallast fullt atvinnuöryggi. Fyrir því eru engin almenn rök, að í slíku þjóðfélagi þurfi undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar að skrimta eins og þurfalingar á náðarbrauði úr ríkissjóði. Fyrir því eru engin almenn rök, að í slíku þjóðfélagi eigi hæstv. fjmrh. í eilífum vandræðum með að ná saman endum fjárl. og verði að endurtaka störf sín æ ofan í æ. Staðreyndirnar um þjóðartekjurnar á erfiðleikaárinu í fyrra eru mikilvægari rök en allar þær tölur, sem yfir okkur hafa verið þuldar síðan í haust. Þær mega vera hverjum landsmanni til sannindamerkis um það, að erfiðleikar ríkisstj. eru fyrst og fremst sjálfskaparvíti, sem þjóðin má ekki una stundinni lengur.

En af hverju stafar þá vandinn? Meginvandinn stafar af því, að hæstv. ríkisstj. neitar að horfast í augu við þá óhjákvæmilegu staðreynd, að stefna hennar hefur beðið algert skipbrot. Sú efnahagsstefna, sem tekin var upp 1960, hefur reynzt þess ómegnug að leysa vandamál íslenzks þjóðfélags. Það er fastheldni við hana, sem hefur magnað örðugleikana mánuð eftir mánuð, þar til þjóðin býr nú við algert neyðarástand. Hinar fálmkenndu ráðstafanir ríkisstj. hafa ekki fyrst og fremst haft þann tilgang að leysa þau vandamál, sem við blöstu. Forsenda þeirra allra hefur verið örvæntingarfull tilraun til þess að geta haldið viðreisnarstefnunni óbreyttri. Hún virðist vera ríkisstj. ámóta trúartákn og hinar heilögu kýr eru bjargarlausum Indverjum. Ríkisstj. heldur enn fast við það, að stjórnleysi í fjárfestingu og atvinnumálum verði haldið áfram, að erlend fyrirtæki verði að fá að hafa frelsi áfram til þess að taka verkefnin af íslenzkum iðnrekendum, að glundroðinn og sóunin í innflutningi verði að fá að halda áfram og að áætlunarbúskapur sé enn sem fyrr bannhelg hugmynd.

Gjaldþrot hæstv. ríkisstj. stafar af því, að viðhorf hennar til verkefna sinna er viðhorf ofsatrúarmannsins, sem tekur ekkert tillit til veruleikans, heldur einblínir á kreddur sínar. Tökum t.d. það frv., sem hér liggur fyrir. Hæstv. fjmrh. er glöggur maður og einbeittur, og ég dreg ekki í efa, að hann hafi lagt mikla vinnu í að koma þessu frv. saman og hann hafi orðið að vinna bug á margs konar erfiðleikum í því sambandi. Vafalaust er hæstv. ráðh. drjúgur yfir því með sjálfum sér, að honum skuli hafa tekizt að framkvæma bókhaldshagræðingu og sparnað, sem nemur 200 millj. kr. En þegar við erum að ræða um þetta frv. við 1. umr., hefur staðið yfir allsherjarverkfall í nærri tvær vikur, og þjóðhagslegt tjón af þeirri stöðvun nemur mörgum hundruðum millj. kr. Sá sparnaður, sem hæstv. ráðh. vill framkvæma, er aðeins brot af þeirri þjóðfélagslegu sóun, sem efnahagsstefna ríkisstj. hefur leitt yfir þjóðina síðustu vikurnar. Hæstv. ráðh. er í rauninni aðeins að nurla saman aurum, á meðan hann kastar krónunum.

Raunar er það alveg furðulegt, hversu erfiðlega íslenzkum ráðamönnum gengur að horfast í augu við einfaldar staðreyndir. Af hálfu ríkisstj. hefur vinnustöðvunin þann tilgang að reyna að klípa eitthvað utan af réttmætum kröfum verkafólks, þ.e. gera hlut þess minni en það á heimtingu á. En jafnvel þótt stjórnarvöldin nái þeim árangri, sem þau gera sér vonir um þessa dagana, mun hann aðeins nema örlitlu broti af þeim herkostnaði, sem lagður hefur verið á þjóðarheildina síðustu tvær vikurnar. Það hefði verið miklu ódýrara fyrir þjóðarbúið að fallast að fullu á allar kröfur verkalýðssamtakanna átakalaust, og hæstv. fjmrh. hefði gert miklu meira gagn, ef hann hefði kastað sparnaðarfrv. sínu í bréfakörfuna, en flutt í staðinn frv. um verðtryggingu launa.

Það er fyrir löngu kominn tími til, að hv. alþm. átti sig á því, að þau vandamál, sem alvarlegust eru í íslenzku þjóðfélagi, eru afleiðing af stefnu ríkisstj. fyrst og fremst, en ekki af utanaðkomandi ástæðum. Og þar ber að sjálfsögðu langhæst vanda íslenzkra atvinnuvega. Við megum aldrei gleyma þeim alvarlegu staðreyndum, að í tíð núv. ríkisstj. hefur togaraflotinn grotnað niður, þar til aðeins eru eftir fá og úrelt skip. Sá hluti bátaflotans, sem aflar hráefnis handa fiskvinnslustöðvunum, hefur dregizt stórlega saman og úrelzt með þeim afleiðingum, að hráefnisskortur hefur gert skynsamlegan rekstur fiskvinnslustöðvanna óframkvæmanlegan. Í tíð núv. ríkisstj. hefur iðnaðurinn, sem veitir flestum landsmönnum atvinnu, lotið í lægra haldi fyrir erlendum iðnaði, sem notið hefur sérréttinda á markaði hérlendis í skjóli rangrar stjórnarstefnu. Það er þessi vandi íslenzkra atvinnuvega, sem ætti að vera meginviðfangsefni Alþ. nú.

Ráðamenn hafa stundum vikið að því síðustu mánuðina, að þeir hafi jafnvel hug á því að taka erlend lán til þess að leggja vegi eða byggja íbúðir á Íslandi. Vissulega eru það ákaflega brýn verkefni, en haldi atvinnuvegirnir áfram að koðna niður, kemur fljótlega að því, að við höfum hvorki efni á því að aka á vegum né búa í íbúðum á Íslandi.

Endurreisn íslenzkra atvinnuvega er það verkefni, sem nú ber hæst, og það þolir enga bið. Ég er þeirrar skoðunar, að Íslendingar þurfi að taka stórlán erlendis í þeim tilgangi að efla undirstöðuatvinnuvegi sína, endurnýja togaraflotann, stórefla bátaflotann með nýsmíði innanlands og utan, skipuleggja fiskiðnaðinn samkv. nútímahugmyndum og hefja skipulagsbundna markaðsleit. Jafnframt ber okkur að komast að niðurstöðu um, hvaða iðnað við viljum hafa hér í landinu allt frá málmiðnaði til neyzluvöruiðnaðar, og veita þeim iðnaði þá aðstöðu, sem hann þarf á að halda, og þá vernd, sem honum er óhjákvæmileg.

Við erum ekkert efnahagsstórveldi, heldur smáríki, og verðum að haga stjórn efnahagsmála í samræmi við þá aðstöðu. En slík stefnubreyting er því aðeins framkvæmanleg, að við fellum niður stjórnleysisviðhorf viðreisnarinnar, þ.e. kreddutrúna á hin svokölluðu frjálsu markaðslögmál, og tökum í staðinn upp áætlunarbúskap í samræmi við íslenzkar aðstæður. Því aðeins, að við eflum undirstöðuatvinnuvegi okkar á markvissan hátt, getur sparnaður og hagsýsluviðleitni fjmrh. komið að gagni. En vilji menn láta svokallaðan sparnað koma í staðinn fyrir framtak í atvinnumálum, sökkva menn aðeins dýpra í ófæruna.

Ég minnist á þessi atriði hér, vegna þess að ég held, að það sé meginnauðsyn, að alþm. og flokkar þeirra taki að endurmeta viðhorf sín af fullri djörfung. Sú tilraun, sem upp var tekin 1960, hefur mistekizt. Reynslan hefur sannað, að sú stefna, sem þá var hafin, hentar ekki íslenzkum aðstæðum. Þeir, sem trúðu á tilraunina í upphafi, eru menn að meiri, ef þeir viðurkenna mistök sín og taka að leiðrétta þau í stað þess að leiða þjóðina æ lengra út í ófæruna með fastheldni við gagnslausar kreddur. Og ég held, að þetta endurmat sé þegar að hefjast innan stjórnarflokkanna, þótt þess sjáist því miður of fá merki á ytra borði stjórnmálaleiðtoganna. Endurmatið meðal almennings kemur glöggt í ljós í verkföllunum miklu, þar sem menn úr öllum flokkum standa hlið við hlið í allsherjaruppreisn gegn stjórnarstefnunni. En endurmatið hefur einnig komið fram í opinberum málgögnum Alþfl., eins og ég hef minnt á áður hér á Alþ. Enda má Alþfl. vera það ljóst, að þær vonir, sem hann batt við núv. stjórnarsamvinnu og taldi rætast um skeið, eru nú að engu orðnar og að nú er stefnt í öfuga átt við allt það, sem Alþfl. telur tilgang sinn.

Skýrustu merkin um uppreisnina í sjálfu forystuliði Alþfl. eru þau ummæli, sem birtust í Alþýðumanninum á Akureyri fyrir verkföll og ég minntist á í gær. Ég vitnaði þá í þau eftir minni, en mér þykir rétt að hafa þau hér yfir orðrétt, eins og þau eru í hlaðinu. Þau birtust 1. marz s.l. á forsíðu. Þar var birt í heild forystugrein, sem birzt hafði í Alþýðublaðinu nokkrum dögum áður, þar sem lýst var fullum stuðningi við kröfu verkalýðssamtakanna um fulla atvinnu og verðtryggingu launa. En inngangur Alþýðumannsins að þessari grein er svohljóðandi með leyfi forseta:

„Eftirfarandi grein birtist í Alþýðublaðinu s.l. miðvikudag sem leiðari blaðsins. Alþýðumaðurinn hirtir hana á forsíðu í dag og heitir um leið íslenzkri alþýðu stuðningi sínum í von um, að þjóðargifta afstýri því, að upp renni ný Sturlungaöld Íslands óhamingju að vopni. Alþfl. hefur oft borið klæði á vopnin, sem saga hans sannar — en ef það reynist eigi unnt nú, eiga ráðh. flokksins að víkja úr ríkisstj. — minnugir þess, að Alþfl. er fyrst og fremst flokkur alþýðunnar.“

Ég hef saknað þess að heyra ekki þessa sömu rödd hér frá einhverjum þm. Alþfl. í þingsölunum. Hins vegar veitti ég því athygli í gær, að hv. 9. landsk. þm. bað um orðið, eftir að ég minntist á þessa grein í Alþýðumanninum, en hv. þm. Bragi Sigurjónsson var lengi ritstjóri Alþýðumannsins og er vafalaust sá maður, sem mest áhrif hefur á stefnu þess blaðs. Ég tel víst, að hann hafi viljað úr ræðustóli lýsa stuðningi sínum við þessa afstöðu málgagns síns. En því miður brá svo undarlega við, að hæstv. forseti neitaði þm. um málfrelsi. Ég vil benda hv. þm. á það, að þess væri kostur að koma þessu sjónarmiði á framfæri hér í dag, því að ég vænti þess, að neitun hæstv. forseta tákni það ekki, að tekið hafi verið málfrelsi af þm. til frambúðar.