22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Frsm. 1. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það hefur sjálfsagt ekki verið ofsögum af því sagt hér við fyrri umr. um þetta mál, hvernig unnið hefur verið að undirbúningi þess.

Nú á milli umræðna kemur hér erindi frá L.Í.Ú., varðandi Aflatryggingasjóð og Fiskveiðasjóð, og eins og vænta mátti, leggur stjórn Landssambandsins eindregið til, að þessir liðir verði ekki samþykktir, heldur felldir úr frv. Og stjórn L.Í.Ú. beinlínis vefengir það, að unnt sé fyrir fram að gera þær áætlanir um starfsemi Aflatryggingasjóðs á árinu, að á þeim megi byggja niðurfellingu á framlagi til sjóðsins. Nú er búið að kanna það hér í hv. d., hvort unnt sé að fá þessa liði fellda niður. Það hefur ekki tekizt og væntanlega situr við það sama. Hins vegar hefur komið í ljós, að breyta þarf öðrum þessara liða um Fiskveiðasjóðinn, til þess að niðurfellingin öðlist gildi. Og það er svona til viðbótar við annað, sem á hefur verið bent, sýnishorn af þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð eru víð undirbúning þessa máls.

Ég benti á það við 2. umr., hversu fáránleg sú afgreiðsla er, að fella þannig niður með einni lagagrein í slíku frv. sem þessu — sem samkv. eðli málsins er fyrst og fremst fjárhagsmál og fer til fjhn. — heila lagabálka eins og lögin um fræðslumálastjórn og breyta öðrum án þess þó að fella orðabreytingarnar inn í l. Hv. þd. féllst ekki á að fella þessa gr. niður, eins og við í 1. minni hl. fjhn. lögðum til. Það mætti kannske spyrja nú, hvað vinnist við samþykkt 7. gr. og hver sé tilgangurinn með því að hafa hana inni í þessu frv. Það er viðurkennt og enginn ágreiningur um það, að með því er ekki stefnt að neinum sparnaði á fjárl. yfirstandandi árs — alls ekki. Og í raun og veru hafa ekki verið lögð hér fram nein rök fyrir því, að sparnaður verði að breytingunni síðar, þegar hún tæki gildi. En eins og ég sagði við 2. umr., þá er ég ekki reiðubúinn að dæma um það mál á þessari stundu og skal ekkert um það segja út af fyrir sig, hvort spara megi eða finna hagkvæmara form á yfirstjórn fræðslumálanna. Ekki er það þó ósennilegt, þegar svo er komið, að fjármálahlið menntamálanna er meðhöndluð á einum þrem eða fjórum stöðum. En það breytir engu varðandi þessa málsmeðferð; hún er óhæfileg. Lagabreytingar varðandi stjórn fræðslumálanna eiga að fá eðlilega meðferð á þinginu, ganga til menntmn. beggja deilda og hljóta sjálfstæða athugun. Það eru tvö mál og í sjálfu sér óskyld, annars vegar hvað hægt er að spara með aukinni hagkvæmni á ýmsum sviðum ríkisrekstrarins og hins vegar á hvern hátt sé eðlilegt og heilbrigt að móta yfirstjórn jafnþýðingarmikils málaflokks og menntamálin eru.

Ég vil leyfa mér varðandi þetta eina atriði að leggja hér fram skriflega brtt. við 7. gr. frv. um, að gr. orðist svo:

Ríkisstj. undirbýr fyrir næsta reglulegt Alþ. frv. um hagkvæma skipan á yfirstjórn fræðslumála.