22.03.1968
Neðri deild: 82. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil ekki láta því vera ómótmælt, að hv. þm. sagði, að tilgreind væri ákveðin tala um sparnað af flutningi fræðslumálaskrifstofunnar inn í rn. Þetta er misskilningur. Þær 2 millj. og 40 þús. kr., sem gert er ráð fyrir að spara á þessum lið, er sparnaður við fækkun námsstjóra og afnám tillags til fræðsluskrifstofunnar í Reykjavík nákvæmlega. En það kemur greinilega fram í grg. eða frv. sjálfu, að engin ákveðin tala er nefnd til sem sparnaður, sem muni hljótast af flutningi fræðslumálaskrifstofunnar inn í menntmrn., þ.e. af þeirri breytingu að gera hana að deild í menntmrn. Ef þetta frv. verður samþ., verður fræðslumálastjórinn, sem nú gegnir því embætti, raunverulega deildarstjóri í menntmrn., og hann verður deildarstjóri yfir þeirri deild, sem undirbýr málefni allra skóla annarra en Háskólans, og sá deildarstjóri í menntmrn. mun heita fræðslumálastjóri.