26.03.1968
Efri deild: 75. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 920 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. og aths. þessa frv., fjallar það um annars vegar að taka út af fjárl. 1968 138 millj. kr. og hins vegar að fjármagna með lántökum innan ramma framkvæmdaáætlunarinnar framkvæmdir við menntaskóla og ríkisspítala, sem nema 62,6 millj. kr. á yfirstandandi ári. Með þessu móti á að létta á fjárl. 1968 um 200 millj. kr. í því skyni, eins og sagt hefur verið, að unnt sé að koma við sérstakri aðstoð við bátaútveginn og fiskvinnslustöðvarnar til viðbótar við þá hagræðingu, sem þessir aðilar væntanlega fengu við þá gengislækkun, sem framkvæmd var í nóvembermánuði s.l.

Og ég verð að biðja hæstv. fjmrh. að virða a.m.k. mér til vorkunnar, þó að ég taki öllum þessum útreikningum hæstv ríkisstj. og sérfræðinganna með hæfilegum fyrirvara. Það er í allan vetur búið að hringla með þetta vesalings fjárlagafrv. Okkur er þessi saga vafalaust öllum í fersku minni, en hún er í stuttu máli eitthvað á þá leið, að þegar Alþ. kom saman í haust, lá á borðum þm. allmyndarleg bók, fjárlagafrv. fyrir 1968. en jafnframt þessu var svo lagt fram frv. um efnahagsráðstafanir. Samkv. því átti ýmist að afla nýrra tekna eða fella niður ríkisútgjöld, sem námu 750 millj. kr. Þannig átti að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum á næsta ári. Og þegar þetta var sagt, þóttist hæstv. ríkisstj. ætla sér að standa við stóru orðin frá því í kosningunum í vor, þ.e. að standa vörð um gjaldmiðilinn; gengislækkun yrði ekki framkvæmd, enda skyldu þeir, sem fyrir henni stæðu, fá að kenna á henni fyrst og fremst, ef til hennar kæmi. Svona var þessi kenning orðuð í vor. Það var sem sé nákvæmlega reiknað út að það væri 750 millj. kr. bil, sem þyrfti að brúa. Á þessum málflutningi var þó auðvitað augljós galli — sem sé sá, að vanda atvinnuveganna var ýtt til hliðar. Menn létust ekki sjá hann í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu. Töfrabragðasnillingar ríkisstj. höguðu sér eins og þaulæfðir „kabarett“-skemmtikraftar og töluðu um eitthvað annað til að leiða athyglina frá því, sem raunverulega var að gerast.

Þetta var í okt., þegar þingið kom saman.

Í nóv. var svo framkvæmd mjög stórfelld gengislækkun. Verð erlends gjaldeyris var að öllum jafnaði hækkað um 33,6% — eða þess gjaldeyris, sem ekki var lækkaður í verði á sama tíma — og enn kom þessi töframaður fram á sviðið til þess að tilkynna þjóðinni, að aldrei í sögu landsins hefðu aðrir eins útreikningar legið fyrir til að byggja á nákvæma gengislækkun. Gengislækkunin þurfti að vera 25,4% alveg upp á brot úr prósentu, til þess að hægt væri að reka útflutningsatvinnuvegina styrkja- og hallalaust. Svokölluðum gengishagnaði var ráðstafað hingað og þangað, m.a. til þess að hyggja upp framtíðarsjóði fyrir atvinnuvegina, væntanlega af því að atvinnuvegirnir þyrftu ekki á þessum fjármunum að halda í svipinn; þeir gætu lagt þá til hliðar til að byggja upp fyrir framtíðina.

Samkv. þessum útreikningum var svo fjárlagafrv. afgr. sem lög í des. s.l., og jafnframt — eða svona um leið var sambandið milli kaupgjalds og verðlags fellt úr lögum, en til þess að draga úr áhrifum gengislækkunarinnar á lífskjörin var lofað tollalækkun, sem átti að verða 250 – 270 millj. kr. og bæta upp eða a.m.k. draga úr annars vegar áhrifum gengislækkunarinnar og hins vegar því, að nú skyldi ekki lengur greidd verðlagsuppbót á laun.

En svo kom jan. Þá komust sérfræðingar hæstv. ríkisstj. að því, að gengislækkunin dugði ekki. Forráðamenn útvegsins og hraðfrystihúsanna sannfærðu sérfræðingana um, að dæmið gengi ekki upp. Sjávarútveginn vantaði meira fé, og hraðfrystihúsin vantaði meira fé, og þegar niðurstöður þessara útreikninga lágu fyrir, kom í ljós, að 320 millj. kr. vantaði til þess, að þessi atvinnuvegur gæti starfað á ný.

Þar sem þessi staðreynd var viðurkennd í jan., þá var unnið að því í febr. að setja lög um aðstoð við hraðfrystihúsin upp á 202 millj. kr. og lofa stuðningi vegna fiskverðsins — um 120 millj. kr. eða eitthvað nálægt því. Þá var enn fremur í þeim mánuði unnið að því að framkvæma tollalækkun hæstv. ríkisstj. Hún varð að vísu ekki 250 millj. kr. — þaðan af síður 270 millj. kr., eins og sumir höfðu gert sér von um. Áætluð varð hún 159 millj. kr. Jafnframt var eins og hæstv. fjmrh. sagði áðan, verð á áfengi hækkað um 10% — og mig minnir nú, að í febr. hafi verið talið, að það mundi gefa 50 millj. kr. auknar tekjur, en nú er talað um 40 millj. kr. tekjur. Vera má, að salan hafi minnkað þannig, að þessi áætlunarfjárhæð lækki af þeim sökum. Ég skal engan dóm leggja á það, enda má það svo sem einu gilda í þessu sambandi.

Nú er kominn marz, og þá eru það fjárl. enn á ný, sem þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar, og þetta frv., sem hér um ræðir, er eins og áður segir, flutt til þess að létta á fjárl. um 200 millj. kr. til þess að brúa það bil, sem þarna hefur skapazt, eins og hæstv. ráðh. komst að orði.

Það skemmtilega og góða við þetta allt saman er það að enn þá eru þessar tölur alltaf jafnhárnákvæmar. Þrátt fyrir till. um meiri sparnað á sumum liðum kemur það í ljós, að slíkt er alls ekki hægt; það er nákvæmlega þetta, sem hægt er að gera, og ekki hægt að hnika því til. Það sýnir afgreiðslu á þeim brtt., sem fluttar voru í hv. Nd. og ekki fengu hljómgrunn þar. Og mér finnst þetta minna mig á það, að hér sé sjónhverfingamaður svo að ég haldi þeirri líkingu áfram — að reyna að blekkja áhorfendur, löngu eftir að áhorfendur hafa séð gegnum alla galdrana; það er ekki skemmtilegur þáttur.

Löngum hefur viljað brenna við, að hverjum þyki sinn fugl fagur. Það er einnig svo með hæstv. fjmrh. — ekkert síður þann, sem nú situr, heldur en aðra. Þeim hefur löngum þótt fjárlagafrv., eins og það hefur frá þeim komið, vera þannig úr garði gert, að sem allra minnst þyrfti að breyta því. Þegar fjárlagafrv. fyrir 1968 var hér til meðferðar í haust, var það sama uppi á teningnum. Þá var það mjög nákvæmt og vel undirbúið af hagsýslustjóra og fjmrh. og öllum þessum sérfræðingum, sem hæstv. ráðh. hefur sér til hægri handar, þegar þarf að fara með tölur. Þá var ekki hlustað á það sparnaðarhjal, sem maður og maður var þó að halda hér uppi og jafnvel að bera fram till. um. Það voru taldar óraunhæfar og óframkvæmanlegar till., sem yrði að afgreiða sem markleysu.

Nú hefur — sem betur fer, vildi ég segja — þó komið í ljós, að dálítið er hægt að spara. Það er kannske ekki alveg eins mikið og sumir hafa viljað vera láta í sambandi við þetta frv., en nokkur sparnaðarviðleitni skýtur upp kollinum í þessu frv., og það er alveg sjálfsagt að virða það og meta. Ég skal fyrstur manna klappa fyrir hæstv. fjmrh., þegar honum hefur tekizt að koma fram raunhæfum sparnaði, en það veit ég, að hann vill. Ég efast ekkert um, að hæstv. fjmrh. vill halda vel á almannafé, og ég vil láta hann njóta fyllsta sannmælis um það, en náttúrlega ekki fyrr en það hefur verið framkvæmt, því að fyrr er ekkert að þakka. Ég veit, að fyrr ætlast hann ekki til neins þakklætis fyrir þau störf. En þetta frv. verðum við að skoða, til þess er það lagt hér fram, og reyna að gera okkur grein fyrir því, hvað sé raunhæfur sparnaður í þessum till. Ég mun nú leyfa mér að athuga þetta frv. örlítið nánar, bæði að því er snertir sparnaðinn í 1. og 2. gr. og önnur ákvæði frv. eftir því, sem mér finnst tilefni vera til.

Mig langar til að byrja á því að minnast á það, sem 2. gr. frv. fjallar um. Eins og hæstv. ráðh. sagði hér áðan og greint er frá í aths. frv., er um það að ræða, að hluti af tilteknum framkvæmdum, skólum og sjúkrahúsum, sem samkv. fjárlagafrv. í upphaflegri mynd var ætlazt til, að yrði kostað af fé úr ríkissjóði, verði nú fjármagnaður samkv. framkvæmdaáætlun. Þeir, sem hafa starfað í bönkum, kannast dálítið við þessa fjármögnun samkv. framkvæmdaáætlun. Ég man ekki vel, hvað það eru mörg ár síðan, að bankastjórar hér í Reykjavík og grenndinni voru kallaðir til viðtals við hæstv. bankamálaráðherra, þar sem erindi hans var að gera við þá svokallaða frjálsa samninga um það, að þeir legðu fram fjármagn til þess að standa undir ríkisframkvæmdum samkv. framkvæmdaáætlun; þetta var fyrir nokkrum árum.

Þessir samningar tókust, og síðan hafa bankarnir keypt ríkisskuldabréf eða ríkistryggð skuldabréf fyrir 10% af sparifjármynduninni ár hvert. Þessar fjárhæðir hafa verið misháar auðvitað, eins og gefur að skilja. Ætli þær hafi ekki verið árið 1966 eitthvað um 90 millj. kr. en árið 1967 voru þær miklu lægri vegna þess, að sparifjármyndunin dróst þá saman, en ég ímynda mér, að þær hafi verið um 50–60 millj. kr. Þessar kvaðir eru lagðar á bankana til viðbótar þeirri almennu sparifjárbindingu, sem oft hefur verið rædd hér á hv. Alþ., þ.e. 30% af nýju sparifé, sem bönkunum er gert að geyma á bundnum reikningum í Seðlabankanum. Auk þess hefur ríkissjóður að undanförnu aflað sér lagaheimildar til þess að gefa út spariskírteini og skuldabréf með kjörum, sem bankarnir hafa ekki getað eða mátt taka þátt í og ekki getað staðið undir að fjármagna með afborgunum og greiðslum miðað við vísitölu.

Þessi binding eða bréfakaup vegna innlendra framkvæmdalána eru mjög erfitt bindingarform fyrir bankana — jafnvel verra en sjálf almenna sparifjárbindingin, vegna þess að þessi bréf eru yfirleitt til langs tíma — 15 ára gjarnan — og bankarnir fá ekkert til baka af þessu fé, þó að innistæður þeirra minnki. Aftur á móti er almennu bindingunni þó þannig fyrir komið, að verði sparifjárlækkun í einhverjum tilteknum banka, þá skilar þó Seðlabankinn aftur bundna fénu í næsta mánuði; það hefur oft komið fyrir. Ég hygg, að það hafi komið fyrir í flestum bönkum, a.m.k. hefur það komið fyrir í þeim banka, sem ég starfa við. Það dregur vitanlega svolítið úr þeim miklu erfiðleikum, sem skapast hjá peningastofnunum, þegar ráðstöfunarfjármagnið minnkar. En þessi framkvæmdalán greiðast sem sé á umsömdum tíma, þ.e. 15 árum.

Hins vegar er rétt að geta þess, að framkvæmdalánin eru með skaplegri vaxtakjörum en almenna bindingin. Almenna bindingin er náttúrlega með óheyrilega hörðum vaxtakjörum fyrir bankana, þar sem vaxtakjörin eru aðeins 1% fyrir ofan meðalinnlánsvexti í viðkomandi banka, í flestum 8% í stað 10%, sem bankarnir geta fengið á almennum markaði, og er að gera rekstraraðstöðu a.m.k. minni bankanna algjörlega ómögulega. Vera má, að stórir ríkisbankar þoli þetta, sem hafa hundruð millj. af eigin fé til þess að standa undir kostnaði sínum. En þeir bankar, sem eru að byrja starfsemi sína, hafa ekki neitt slíkt, og þeir þola ekki þessi kjör. Ég vonast til þess, að hæstv. fjmrh., sem þekkir þessi mál mjög vel, vilji beita áhrifum sínum til þess að koma einhverjum lagfæringum á í þessu, þó að það sé annað mál en er hér til umr., ég veit, að hann hefur fullan hug á því. Það er þess vegna ekki nema von, að hæstv. fjmrh., sem þekkir aðstöðu bankanna, tali um það, eins og hann minntist á hér áðan, að menn hafi haft grun um, þegar fjárlagafrv. var samið upphaflega, að það mundi vera ærið þröngt á lánamarkaði hjá lánastofnunum á árinu 1968 og þess vegna hefði hæstv. ríkisstj. ætlað að fjármagna sumar af þessum framkvæmdum með ríkisfé, en ekki með lánsfé, sem aflað væri á þann hátt, sem ég var nú að lýsa.

En því miður finnst mér, að þessi síðasta breyting bendi alveg eindregið í þá átt, að enn á ný — einu sinni enn — muni forráðamenn bankanna hér í Reykjavík og nágrenni verða kallaðir á fund einhvers hæstv. ráðh. og beðnir um að semja um það einu sinni enn að leggja 10% eða hvað það nú verður af nýju sparifé í framkvæmdaáætlunina.

Hvernig sem það verður, er það þó alveg ljóst, að þarna er ekki um neinn sparnað að ræða. Þarna er um að ræða lántökur í stað ríkisframlags. En það eru samt eftir 138 millj. kr. í þessu frv., sem ætti þá að vera sparnaður, eftir því sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan, en það er bara ekki alveg rétt. Þetta er ekki allt saman sparnaður. Það eru fleiri lántökur í þessu frv. en þær, sem nú voru greindar. T.d. er í 21. lið 1. gr. fjallað um framkvæmd umferðarbreytingarinnar frá vinstri til hægri; þær 18.4 millj. kr., sem felldar eru út af fjárl., eiga að nást með lánsfé. Samkv. 3. gr. frv. er heimilt að afla láns nákvæmlega sömu upphæðar — til þess að mæta þessum sparnaði, svo að þegar af þessari ástæðu verður að draga hér frá 18.4 millj. kr., og því er ekki hægt að tala um sparnað að því leyti, en samt eru eftir 120 millj. kr. — dálaglegur skildingur.

Það verður því miður að kroppa dálítið meira í þennan póst, því að 25. og 26. liður 1. gr. fjalla um kostnað við skyldusparnað og kostnað við framkvæmd orlofslaga. Ráðgert var að greiða póst- og símamálastjórninni úr ríkissjóði fyrir að hafa þessa framkvæmd með höndum. Samkv. þessu frv. fellur sú greiðsla niður, og þessi kostnaður verður eftir sem áður greiddur af Pósti og síma — hann verður m.ö.o. greiddur af þeim hluta ríkistekna, sem Póstur og sími innheimtir. Ekki er þetta neinn sparnaður; þetta eru sömu tölurnar. Þær eru greiddar af öðrum ríkistekjum heldur en þeim, sem fjárlagfrv. fjallar sérstaklega um. Þetta er bókhaldsatriði, en ekki sparnaðaratriði; það hljóta allir þm. að sjá og ekki sízt hæstv. fjmrh., sem veit þetta vitanlega manna bezt. Þessir tveir liðir eru rúmar 8 millj. kr., og þeir verða þá líka að dragast frá.

En það eru samt 112 millj. kr. eftir. Af þessum 112 millj. kr. er um það bil helmingur, sem er framlag hins opinbera í sjóði atvinnuveganna ýmsa sjóði atvinnuveganna. Tveir af þessum liðum a.m.k. eru hreinir áætlunarliðir. Það fjármagn til Ríkisábyrgðasjóðs, sem þarf, verður lagt fram, og niðurstaðan úr dæminu breytist ekkert, þó að við í bjartsýni okkar áætlum, að við getum sparað hér 10 millj. kr. Ríkissjóður verður að standa skil á þessum greiðslum að fullu, þegar þar að kemur, eftir öðrum reglum heldur en þeim, sem hér er talað um. Hvað hinum sjóðnum viðvíkur, Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins — það er að vísu ekki alveg rétt, að þar sé um áætlunarupphæð að ræða, ég tek það nú aftur — er ætlunin að lækka hlut ríkissjóðs úr helmingi í þriðjung. Hæstv. ráðh. gat þess hér áðan alveg sérstaklega, að reglum um greiðslur úr þessum sjóðum stæði ekki til að breyta. Það hlýtur þá vitanlega að þýða það, að þeim fjárhæðum, sem þarf að greiða úr sjóðnum verður að standa skil á, og eins og ég sagði um Ríkisábyrgðasjóð, þá er hér um áætlaða fjárhæð að ræða. Vel má vera, að þessi áætlun sé rétt, og sízt skal ég harma það, ef svo væri, en vissa fyrir því er vitanlega engin.

Þrjátíu millj. kr. af þessum hluta frv. eru framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs, sem hefur staðið í lögum árum saman og nú stendur til að fella niður. Vel má vera, að það sé skoðun hæstv. ríkisstj., að hún sé búin að gera svo mikið fyrir sjávarútveginn, að það sé óhætt og fært að fella þetta framlag niður. Mér fannst það koma fram hjá hæstv. fjmrh. En annað er að heyra á forráðamönnum þessarar atvinnugreinar, því að mér skilst — ég hef að vísu ekki getað fengið að sjá það bréf — að til hæstv. fjhn. Nd. hafi í gær borizt harðort mótmælabréf frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, þar sem því er mótmælt, að þetta framlag sé fellt niður, og talað um, að það sé full þörf á því að halda því óbreyttu. Ég býst við því og verð að segja það, að manni heyrist ástand atvinnuveganna a.m.k. vera þannig — og þá þessa atvinnuvegar ekki síður en annarra – að það sé full þörf á allri þeirri aðstoð, sem lögleidd hefur verið til þeirra, og þess vegna sé það misráðið og eigi eftir að hefna sín að fella þessar greiðslur niður.

Þegar verið var að semja um kaup og kjör síðast, var hljóðið afskaplega dauft í þeim, sem sátu atvinnurekenda megin við borðið. Ég tók eftir því t.d., að í Morgunblaðinu, dagana eftir að verkfallinu lauk, voru mörg viðtöl við forystumenn þessara atvinnuvega, þar sem þeir báru sig hörmulega og sumir gengu m.a.s. svo langt að segja, að hver hækkun, sem samið væri um, yrði að koma úr ríkissjóði eða annars staðar frá — sjálfir gætu þeir ekkert á sig tekið. Kannske er þetta bara ástæðulaus barlómur, sem ekki er vert að hlusta á, og mér sýnist að sú ráðstöfun að leggja niður ríkisframlagið, sem staðið hefur árum saman til Fiskveiðasjóðs, beri vott um það, að þannig sé litið á á æðstu stöðum.

Ég ætla ekki að rekja þessa liði hvern fyrir sig. Eftir að ég er búinn að tala um það, sem hér hefur verið nefnt, þá eru samt eftir 61 millj. kr., sem á að spara á yfirstandandi fjárlagaári eða þyrfti að spara á þessu fjárlagaári til þess að ná endum saman. Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. sagði það æðioft í sinni framsöguræðu, að þetta mundi ekki koma að liði á þessu ári. Ég ætla ekki að fara að telja það upp, hvaða liðir það voru. Sumt af því voru smáir liðir, en það er náttúrlega skylt að taka viljann fyrir verkið, og sá sparnaður kemur að gagni, sem ráðgerður er núna, þó að það verði ekki fyrr en síðar, en hann jafnar náttúrlega ekki dæmið á fjárl. 1968.

Það er auðvitað alltaf mikið matsatriði og erfitt — það skal ég fúslega viðurkenna — að ætla sér að ákveða, þegar á að fara að spara, hvað á að fella niður. Það kemur alltaf illa við einhvern, þegar greiðslur, sem staðið hafa á fjárl., eru felldar niður, og ég ætla ekkert að fara að deila á hæstv. fjmrh. fyrir þær till., sem hann gerir hér til sparnaðar. Sumar þeirra eru alveg sjálfsagðar, og þarf engan rökstuðning fyrir þeim, t.d. eins og það að lækka stjórnarráðskostnaðinn, risnuna og nefndakostnaðinn. Ef það er hægt að lækka hann um 2 millj. kr., þá er það sjálfsagt og hefði átt að vera búið að því áður. Og það er enginn heldur að deila á það, að ekki séu keyptar ríkisbifreiðar eða reknar fyrir 1 millj. kr. minna heldur en gert var á s.l. ári. Úr því að hæstv. ráðh. telja sér kleift að komast leiðar sinnar fyrir 2,6 millj. kr. á þessu ári og aðrir þeir, sem þessara bifreiða njóta, þá er það góðra gjalda vert og virðingarvert. Og þannig eru náttúrlega nokkrir liðir í þessu frv., sem sjálfsagt er að taka vel.

Ég vil þó aðeins leyfa mér að benda á, að af þessari 61 millj. kr., sem eru eftir, eru 16.7 millj. kr. — eða núna 16.2 — ætlaðar menntamálunum í landinu í einni eða annarri mynd. Háskólinn á að lækka um 575 þús. kr.; það á að fresta að skipa þar í prófessorsembætti, sem mér skilst, að hafi verið liður í 10 ára áætlun Háskólans, sem verður þá einu árinu lengri eða svo. Á rekstri skóla á að spara 6.6 millj. kr., á skólabyggingum 5 millj. kr., á fræðslumálaskrifstofunni 2 millj. kr., á Kennaraskólanum 1 millj. kr. og á safnahúsinu 1 millj. kr.

En ég nefni þessi mál alveg sérstaklega vegna þess, að ég óttast það, að við séum að dragast aftur úr nágrannaþjóðum okkar í menntamálum þrátt fyrir allt okkar fræðslukerfi og þrátt fyrir það vissulega töluvert mikla fjármagn, sem til þessara mála er varið. Í heiminum nú er það menntunin, sem hefur úrslitaáhrif á hag og afkomu þjóðanna. Okkur er það blátt áfram lífsnauðsyn að fá börnum okkar góða og raunhæfa menntun til þess að geta hagnýtt auðlindir landsins og staðizt samkeppnina við aðrar þjóðir. Nú er það fyrst og fremst sérhæfingin, sem gildir, ekki þetta gamla: Löngum var ég læknir minn, lögfræðingur, prestur o.s.frv., heldur sérhæfingin. Það var einu sinni gott að vera þúsund þjala smiður, og það var einu sinni nauðsynlegt að vera það til þess að geta lifað, en nú er það sérhæfingin fyrst og fremst, sem áherzlu verður að leggja á.

Ég sá það um daginn í erlendri bók eða blaði, að það eru fleiri en Íslendingar, sem þurfa að gera sér grein fyrir því, hvers virði menntunin er, að allar Evrópuþjóðir þurfa að átta sig á því, að þær eru ekki fyrst og fremst í efnahagsstríði við auðlindir Bandaríkjamanna, heldur menntunina í því landi — og ekki bara þessa háskólamenntun, sem okkur þykir mikið varið í og er góð, heldur einnig og ekki síður ýmsa tæknilega menntun. Því var haldið fram, að Bandaríkjamenn væru langt á undan öðrum þjóðum í slíkri sérhæfingarmenntun, Rússar kæmu þar næstir og þó langt á eftir og Bretar væru svo skástir hér í V-Evrópu. Ég skal viðurkenna það, að mér og sjálfsagt mörgum öðrum þykir þessi einhæfa menntun heldur hvimleið. Við viljum helzt vera jafnvígir bæði á raunvísindi og húmanísk fræði, en í lífsbaráttu þjóðanna ræður sérhæfingin óhugnanlega miklu; við verðum að gera okkur grein fyrir þessu. Þetta styður svo hvað annað, eins og sagt var í þessari grein, sem ég áðan minntist á. Vegna velmegunarinnar, sem bandarísk menntun hefur skapað þar í landi, sogast færustu vísindamenn annarra landa þangað, og þannig breikkar bilið jafnt og þétt. Ymsar þjóðir hér í nágrenni okkar vita þetta og eru að reyna að gera ráðstafanir til þess að mæta þessum vanda. Mér er sagt, að í Noregi hafi verið gert stórátak í aukinni menntun að undanförnu, og þannig kann það að vera víðar, ég er ekki svo kunnugur því. En við þurfum að endurskoða skólakerfið.

M.a.o.: Hvað líður þessari margumtöluðu endurskoðun skólakerfisins? Nú á að breyta til á fræðsluskrifstofunni, hjá íþróttafulltrúa og öðrum starfsmönnum við þessi mál, en hvað líður sjálfri endurskoðuninni á skólalöggjöfinni og á námsefninu? Ég veit, að við fengum ný skólakostnaðarlög; mér er kunnugt um það. Við ætlum að fara að breyta þeim núna og ég hef ekki gleymt því, en ég á hér fyrst og fremst við, hvort við þurfum ekki að endurskipuleggja námsefnið og kennsluaðferðirnar og taka upp nýtízkuaðferðir í þessum efnum; ég held það. Ég veit það, að þeir, sem eiga börn í skóla hér í Reykjavík a.m.k. — það er mér kunnugt af eigin raun — eru ekkert ánægðir með það, hvernig kennslan er og hvernig fyrirkomulagið er í skólunum. Það er t.d. til engrar fyrirmyndar að hafa stundaskrána þannig, að börnin þurfa að fara að heiman kl. 8 eða 9 á morgnana og koma ekki heim fyrr en kl. 7–8 á kvöldin, eins og dæmi eru um og ég get nefnt, ef á þarf að halda. Og þannig mætti fleira til tína. Ég er ekkert að segja það, að þeir sem starfa að fræðslumálunum hér og hæstv. ráðh. þar með taldir, vilji ekki vel í þessum efnum, en ég vil bara vara við því, að við förum að spara á þessum málum, ef við getum komið sparnaði við annars staðar — a.m.k. ef sá sparnaður þarf að kosta það, að við slökum á kröfunum; við höfum ekki efni á því. Það er gott að hagræða skólamálunum eins og talað er um í þessu frv. og spara á þann hátt, ef það er hægt, en ég óttast, að það komi niður á menntuninni, og þá borgar sá sparnaður sig illa.

Og hvernig er með námsaðstöðuna úti á landi, úr því að farið er að tala um þetta? Hún er náttúrlega engan veginn nógu góð. Ég vék að því, að foreldrar hér í Reykjavík væru óánægðir. Það eru þó alveg smámunir á móti því, sem maður heyrir víða utan af landi, þar sem menntunaraðstaðan er engin, þegar komið er upp fyrir skyldunám og kannske tæplega það. Og nú sýnist manni, að með þessu frv. eigi að minnka eða draga úr starfsemi þeirra manna, sem þó helzt hafa haft það verkefni að fylgjast með því, að menntunaraðstaðan úti á landi væri ekki lakari en hún þyrfti að vera samkv. lögunum. Nú á að draga úr fjárveitingum til námsstjórakerfisins og flytja alla námsstjórana inn í menntmrn. Ég skal ekki segja, hvernig þessum málum á að skipa í framtíðinni, en ég óttast, að þetta verði ekki til bóta.

Þá langar mig til að minnast hér aðeins örfáum orðum á 14. og 15. lið, en þeir fjalla um mat á síld og öðrum fiski. Hér á að spara 4 millj. kr. eða um helming fjárveitingarinnar. Ég hef séð, að það var lagt fram hér frv. í gær um eftirlit á mati á fiski og fiskafurðum. Það er samið af n., sem tók til starfa 14. sept. 1960, svo að það er nú ekki flanað að neinu og mætti ætla, að hér væru vel ígrundaðar till. á ferðinni, og ég býst við, að þær séu það; ég vonast a.m.k. til þess. Á grundvelli þessa frv., skilst mér svo, að eigi að koma við áður alveg óþekktri hagræðingu í því að meta fisk og aðrar sjávarafurðir. Það getur vel verið, að þetta sé hægt — ég þekki þetta ekki svo, en mig langar bara til þess að minna á það, hversu nauðsynlegt það er fyrir okkur að halda uppi vönduðu gæðaeftirliti á þeirri útflutningsvöru, sem héðan fer. Það er mjög nauðsynlegt fyrir okkur að afla markaða, og það hefur talsvert verið gert til þess — þó ekki nærri nóg. En það er líka nauðsynlegt — og ekkert síður — að halda þeim mörkuðum, sem búið er að afla. En hvernig hefur það tekizt? Engan veginn nógu vel, og það tekst fyrst og fremst ekki, vegna þess að kaupendur hafa ekki getað treyst því, að varan sé eins góð og hún á að vera. Menn vita ekki, hvað þeir eru að kaupa oft og einatt, þegar þeir eru að festa kaup á þessum vörum, og meðan íslenzk framleiðsla, hvort sem hún raunverulega er ætluð til útflutnings eða innanlandsneyzlu, er ekki vegna eigin krafna, ef svo mætti segja, alltaf nægilega góð, þá verður hið opinbera að halda uppi þessu eftirliti. Það er að mínum dómi algjörlega nauðsynlegt. Ég er ekkert að segja, að þetta sé endilega einhver ólæknandi þjóðarlöstur hjá okkur að geta ekki ástundað vöruvöndun. Ég veit, að í sumum greinum er það gert, en þess er bara að gæta, að margar af þessum framleiðslugreinum eru nýjar og sumar eru starfræktar í tilraunaskyni, og það er ekki rétt gagnvart öðrum heldur að leyfa hverjum sem er að spilla fyrir sölumöguleikum ísl. afurða með óvandaðri vöru. Sumir, og vafalaust margir, leggja áherzlu á að selja alltaf fyrsta flokks vöru, en það er bara ekki nóg, ef við hliðina á þeim er selt sem ísl. framleiðsla eitthvað annað, sem ekki stenzt kröfurnar og spillir sölumöguleikum allrar framleiðslunnar. Það er nauðsynlegt að hafa gát á þessum málum. Þetta frv. er nýframborið, eins og ég áðan minntist á, og það er vel mögulegt — ég skal ekkert mótmæla því að svo stöddu — að það hafi fundizt upp svo stórfelld hagfræði í fiskmati og síldarmati, að hægt sé að fella niður helminginn af þeim fjárveitingum, sem til þess eru ætlaðar; það er gott, ef svo verður.

Þá langar mig til þess að víkja örfáum orðum að 12. lið, sem fjallar um utanríkisþjónustuna. Utanríkisþjónustan og sendiráð Íslands erlendis eru auðvitað margrætt mál hér á hv. Alþ. Það er eitt af því, sem mörgum hefur komið fyrst í hug, þegar þeir hafa ætlað sér að leggja fram sparnaðartill. við fjárl. bæði nú og löngu fyrr. Það er mín skoðun, að við þurfum fyrst og fremst markaðsráðunauta. Við þurfum fyrst og fremst menn, sem afla okkur markaða, og viðhalda þeim og selja íslenzkar vörur erlendis og afla þeim álits. Hvort við köllum þessa menn sendiherra eða eitthvað annað, það er algjört aukaatriði. Það er þetta, sem þessir menn þurfa fyrst og fremst að leggja rækt við. Það hefur verið upplýst hér, að komið hafi til tals að leggja niður sendiráð okkar í Ósló og Stokkhólmi. Hæstv. fjmrh. upplýsti áðan, að þetta hefði komið til tals. Það voru menn raunar búnir að frétta, því að í sjónvarpi frá Ósló var einmitt frá því skýrt, að íslenzkir valdhafar hefðu haft þetta fast í huga, en þá hefðu komið upp ákveðin mótmæli frá valdamönnum þessara þjóða- og þá alveg sérstaklega Per Borten forsrh. Norðmanna — og þeir hefðu tekið þessu mjög illa. Fréttir bárust jafnframt af því, að sú hugmynd hefði skotið upp kollinum — ég veit ekki, hvort það var á þingi Norðurlandaráðs eða einhverjum aukaþingum í sambandi við það — að Norðurlöndin öll gætu og ættu að hætta að skiptast á gagnkvæmum sendiherrum. Séu ríkisstj. annars staðar á Norðurlöndum reiðubúnar að ræða þetta, finnst mér, að við ættum að taka þetta mál upp í fullri alvöru. Það mundi henta okkar sparnaðarþörf ágætlega að geta lagt niður þrjú sendiráð á Norðurlöndum í fullri vinsemd við þær ríkisstj., sem þar sitja. Við höfum Norðurlandaráð. Það heldur þing á hverju ári og samþykkir hinar merkustu till., eins og allir alþm. þekkja, og þar gæti náttúrlega verið ákjósanlegur vettvangur fyrir forystumenn Norðurlandanna að skiptast á skoðunum — ekkert síður þó að sendiráðin væru lögð niður, heldur einmitt miklu fremur. Auk þess eru samgöngur nokkuð tíðar orðnar milli þessara vina- og bræðraþjóða. Þetta er því athyglisverð hugmynd, sem ég býst fastlega við, að hæstv. ríkisstj. hljóti að taka til athugunar og reyna að koma í framkvæmd.

En það er víðar en hér og annars staðar á Norðurlöndum, sem það er hugleitt að fella niður sendiráð. Og mig langar til þess að sýna það og sanna með því að benda á grein, sem birtist þann 10. marz s.l. í blaðinu „Sunday Express“ í London. Þar er verið að skrifa um nýgerðar breytingar eða skipanir Breta í sendiherrastöðurnar í Washington og París. Það var hr. John Freeman, sem var skipaður sendiherra í Washington, og tengdasonur Winstons Churchills — hvað heitir hann nú aftur — Christopher Soames, sem var skipaður sendiherra í París. Og þegar höfundur greinarinnar er búinn að gera þessum sendiherrum nokkur skil, þá kemur þessi kafli, sem mig langar til þess að lesa hér í eigin þýðingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Sendiráðin höfðu einu sinni tilgang. Það var að koma á framfæri skilaboðum á milli ríkisstjórna, sem ekki var hægt að senda eftir neinum öðrum leiðum, einnig að gefa skýrslur um önnur ríki og hvað þau væru að gera. Þessi verkefni eru nú eins úrelt og það mundi vera að geyma hesta í bílskúrnum. Ef hr. Wilson vill koma skilaboðum til Johnsons forseta, getur hann notað símann. Ef Wilson af einhverjum misskilningi skyldi langa til að tala við de Gaulle, gæti hann flogið til Parísar og náð heim í kvöldmatinn. Nú geta engin áríðandi skilaboð farið um sendiherrana, og önnur skilaboð er ekki ómaksins vert að senda. Ef hr. Wilson eða hver, sem vera skal, vill vita, hvað er að gerast í franskri eða amerískri pólitík, þarf hann ekki að bíða eftir skýrslum frá sendiherra sínum. Í dagblöðunum fær hann skýrslur, sem eru a.m.k. eins vel skrifaðar og oftast nær byggðar á meiri þekkingu. Hvers vegna stokkum við ekki upp í þessari utanríkisþjónustu? Að vísu þyrftum við fyrsta kastið að greiða dálagleg eftirlaun, en þessi tilgangslausa eyðsla mundi samt einhvern tíma taka enda. Ég býst við, að við þyrftum á nokkrum konsúlum að halda til að hugsa um skipreika sjómenn og vegalausa ferðalanga, og sjálfsagt er, að þeir, sem hefðu áhuga á að halda boð á eigin kostnað, ættu að mega gera það í nafni drottningarinnar. Sannarlega væri það ekki svo vitlaus hugmynd að halda uppboð á eftirsóttustu sendiherraembættunum. Það er misskilningur að halda það, að staða Bretlands sé undir einstaklingsbundnum verðleikum nokkurra sendiherra komin eða íburðarmiklum veizlum, sem þeir halda. Staða Bretlands byggist á atriðum eins og því að geta lagt fram eða útvegað réttar vörur á réttum tíma. Hún byggist á réttri efnahagsstefnu og traustum efnahag. Séum við sterk, þurfum við enga sendiherra, en séum við veik, koma engir sendiherrar að nokkru gagni. Þetta vita allir og játa í kyrrþey; samt er hin fánýta eyðsla látin halda áfram. Flestir þeir, sem afskipti hafa af opinberum málum, lifa í voninni um að hljóta vel þroskaðan ávöxt að launum fyrr eða síðar og hika þess vegna við að minnka framboðið á þeim.“

Ég skal ekkert segja um það, hvort þessi síðasti kafli á við hér. Ég tel það satt að segja mjög vafasamt, en hann virðist eiga við í Bretlandi. En þessi grein sýnir það, að það er alls ekki fráleit hugmynd, sem menn eru að velta fyrir sér hér, að hætta eða draga verulega úr þessum sendiherraskiptum. Hæstv. ríkisstj. hefur sýnt virðingarverða viðleitni í því að byrja á því að draga úr þessu með því að ætla að kalla heim 5 sendiráðunauta og spara á því 3 millj. kr. á þessu ári. Það er ágætt.

Bæði um það og annan sparnað í þessu frv. vil ég bara segja að vonandi kemur hann ríkissjóði að notum, án þess að tjón hljótist af fyrir þá starfsemi, sem fyrir sparnaðinum verður. Þetta frv. er kallað bandormur í daglegu tali vegna þess, hvernig það er byggt upp. Það er alveg rétt, að þetta er ekki einsdæmi. Það var bandormur hér 1940, og síðan hafa nokkur frv. verið borin fram og lög sett, sem eru eins upp byggð, þ.e. þau fjalla um breytingu á mörgum lögum. Og flestar af þessum gr. eru eins og hæstv. fjmrh. gat um, afleiðing þeirra breytinga, sem samkv. 1. og 2. gr. verða á fjárveitingum til ýmissa liða á fjárl. 1968. Þannig fjallar 3. gr. t.d. um lántöku vegna hægri umferðar, 5. gr. um námsstjórana og 4. gr. um lán af geymdum fjárveitingum o.s.frv.

En svo koma nokkrar greinar, sem virðast alls ekki eiga þar heima, eins og skrattinn úr sauðarleggnum, ef svo mætti segja. Þannig er t.d. í 7. gr. allt í einu farið að fjalla um framtíðarskipulag fræðslumálanna — ekki bara fyrir fjárlagaárið 1968 og 1969 eins og ein önnur grein, heldur til frambúðar. Og eftir því sem mér heyrðist hér í gær var aðalröksemdafærslan fyrir því, að þessi breyting þyrfti að koma í þessu frv., sú, að hæstv. menntmrh. virðist skorta lagaheimild til að sameina undir einu þaki ýmsa af þessum þáttum starfseminnar. Ég tel, að ekki þurfi lög til þess að flytja fræðslumálastjóra innan úr Borgartúni, íþróttafulltrúa úr Arnarhvoli og fjármálaeftirlitið af Laugavegi undir eitt þak, ef það þak væri einhvers staðar að finna. Ég býst við því, að þessi sameining hafi fyrst og fremst ekki verið framkvæmd vegna þess, að það er ekkert húsnæði til. Í upphaflega frv. var ráðgert, að þessi breyting tæki gildi, þegar húsnæði hefði fengizt. Það mun sennilega vera einsdæmi í lögum, að gildisdagur þeirra sé miðaður við húsnæðisástandið, en einu sinni verður allt fyrst. Þessu er nú búið að breyta. Þetta var lagað í Nd., og enda vitanlega ekki hægt að láta þetta sjást. En þessi breyting er vægast sagt mjög einkennileg, og ég hlustaði aðeins í gær á báða ráðh., hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., leiða rök að því, hvers vegna þessi breyting væri nauðsynleg. Ég botnaði satt að segja heldur lítið í þeim málflutningi, því að í öðru orðinu var það sagt, að það mundi engin breyting verða, fræðslumálastjóri yrði áfram fræðslumálastjóri og gerði allt, sem hann hefur gert, sömuleiðis íþróttafulltrúi o.s.frv., en samt átti að leiða af þessu heljarmikinn sparnað að vísu ekki á þessu ári, en á næsta ári og þaðan í frá. Það getur vel verið, að það megi endurskipuleggja margt í þessum málum; ég skal ekkert draga úr því. Ég hef ekki kunnugleika á því, svo að það getur verið. Sjálfsagt væri það til mikilla bóta að hafa þessa starfsemi alla undir einu þaki. En til þess þarf vitanlega enga lagabreytingu. Mér hefði þótt mjög æskilegt, að ekki sé meira sagt, að það væri nú upplýst, þótt seint sé, hvernig á að koma þessum málum fyrir eftir breytinguna. Það er talað um það í frv., að l. frá 1930 um fræðslumálastjóraembættið eigi að falla niður, og það á að gera miklar breytingar á skólakostnaðarlögunum, þessum nýju frá því í vor, sem þá þóttu nú ágæt. Er þá ætlunin með þessu að setja ný lög, sem koma í stað þessara laga síðar, og ef það er ætlunin af hverju er það þá ekki gert núna? Eða á framvegis að skipa þessum málum eftir geðþótta hæstv. menntmrh., eins og öðrum þræði mátti skilja á ræðu hans í gær? Á fræðslumálastjórinn að sinna þeim verkefnum, sem honum eru samkv. l. frá 1930 nr. 35 falin og þar eru talin upp sem afmarkað verksvið, eða á hann að vera starfsmaður hæstv. menntmrh. og vinna þau verk, sem hann felur honum? Þetta er vissulega spurning, sem nokkurs virði er að fá svarað, og mér finnst satt að segja ótrúlegt annað en þeir hv. þm., sem ætla sér a.m.k., að samþykkja þessa breytingu og bera ábyrgð á henni, vilji fá að vita, hvað þeir eru að gera og hvernig þessu á að vera varið. Það mundi mér a.m.k. þykja eðlilegt ef ég ætlaði að takast á hendur slíka ábyrgð.

Svipaðs eðlis eru ákvæðin í 8. gr., sem fjalla um það að fella niður framlagið til Landnáms ríkisins; þau eiga að gilda til tveggja ára. Ég skil satt að segja ekki þörfina á því að tiltaka tvö ár. Það verða væntanlega samin fjárl. fyrir 1969 eða frv. að fjárl. og þá hægurinn hjá, held ég, að sleppa þessari fjárveitingu, ef það verður tilætlun valdamanna þá, að landnámið skuli annað árið verða af þessum peningum. Nóg um það, hvort landnám eigi að halda áfram að fá fjárveitinguna eins og nú hagar til í landbúnaði - út í það skal ég ekki fara og alls ekki deila við hæstv. fjmrh. um það. Eins og hann vék að, þá hefur verið bent á það í hv. Nd., að full þörf væri fyrir þessa fjárveitingu til skyldra framkvæmda, t.d. til að reisa nýbýli og til þess að auka fóðuröflun og draga þannig úr innflutningi fóðurbætis, sem er ákaflega dýr og er, eftir því sem mér skilst, landbúnaðinum nú mjög þungur í skauti. En eins og ég sagði hér áðan, þá ætla ég ekki að deila við hæstv. ráðh. um það, hvaða liðir það eru, sem felldir verða niður. Það er matsatriði, og vitanlega ræður hann því hvaða liðir það eru, sem hann telur mesta ástæðu til þess að farga.

Ég vil þá ekki víkja að fleiri liðum frv. Mig langar aðeins, áður en ég lýk máli mínu, að minna á það, að í aths. við 1. gr. er talað um það, að ókleift hafi reynzt að framkvæma svo mikla lækkun fjárveitinga, án þess að um nokkra skerðingu þjónustu á ýmsum sviðum sé að ræða, og þar segir, að þó hafi tekizt í meginatriðum að haga fyrirhugaðri útgjaldalækkun svo, að hvorki sé haggað meginstefnu varðandi þjónustu ríksins né að nokkru ráði dregið úr verklegum framkvæmdum. Það er sérstaklega orðið „meginstefna“ þarna, sem ég hnaut um, þegar ég var að lesa þessar aths. Það er nokkuð „ flott“, finnst mér, að geta enn talað um meginstefnu í þeim fjárl., sem búið er að velta og snúa eins oft og þessum. En þó má vel vera, að þetta sé alveg rétt, og ég hygg, að það sé alveg rétt, sem þarna segir, að meginstefnunni sé haldið, þ.e. þeirri meginstefnu hæstv. ríkisstj. að neita nú sem löngum fyrr að kannast við þá óhrekjanlegu staðreynd, að efnahagsstefna hennar hefur ekki ráðið við það að leysa vanda ísl. efnahagsmála. Meðan góðærið hélzt, meðan aflabrögð jukust ár frá ári og verðlagið erlendis fór yfirleitt hækkandi á útflutningsvörum okkar, þá gat þetta gengið, en strax og fór að blása á móti, þá strandaði skútan. Og síðan í fyrra hefur blásið á móti. Það er alveg rétt; ég hef enga löngun til þess að gera lítið úr því.

En þrátt fyrir þennan mótblástur eru kjör hér og þjóðartekjur enn þá mjög háar samkv. þeim skýrslum, sem eru nýjastar, eins og t.d. þessu blaði þarna frá Efnahagsstofnuninni í París. Árið 1966 vorum við með 1810 dollara neyzlu á mann og í öllum þeim löndum, sem þar er greint frá og neyzlan rakin, þá er það aðeins eitt land, Bandaríkin, sem eru hærri. Öll hin, sem þarna er vitnað í, eru lægri og sum þeirra miklu lægri, t.d. Noregur með 1100 dollara á mann, svo að eitthvað sé tekið af því, sem næst okkur er. Mig minnir, að ég hafi einhvers staðar séð það, að Efnahagsstofnunin hér áætli þjóðartekjurnar 24 milljarða kr. og meðaltekjur hverrar fjölskyldu þá um 1/2 millj. kr. á ári.

Meðan þessu fer fram, þá er náttúrlega mjög alvarlegt, að atvinnuvegirnir skuli ramba á heljarþröminni og alþýða manna skuli þurfa að fara í löng og erfið verkföll til þess að fá skerta vísitölu á mánaðarlaun upp að 10 þús. kr. Er ekki eitthvað annað bogið í slíku þjóðfélagi heldur en það, að þetta verkafólk fái of há laun? Og er ekki kominn tími til þess að draga eitthvað úr þeirri óhófseyðslu, sem hækkar meðaltal eyðslunnar svona gífurlega, að við erum næsthæstir af öllum þeim þjóðum, sem þessi stofnun hefur athugað?

Já, er ekki kominn tími til þess, að hér sé stjórnað í stað þess að láta reka á reiðanum eins og gert hefur verið? Ég er viss um, að hæstv. ráðh. mundu ekki aðeins skapa sér aukið álit og vinsældir, sem þeir gætu kannske vel bætt svolitlu á sig af, heldur mundu þeir einnig vinna landi og þjóð ómetanlegt gagn, ef þeir spyrntu nú við fótum og viðurkenndu það, sem allir vita, að stefna þeirra er röng og skaðleg, og færu að framkvæma það, sem þeim var falið í kosningunum í vor, að hafa forustu og hætta þessum fálmkenndu bráðabirgðaráðstöfunum, sem m.a. lýsa sér í þessari 3. útgáfu fjárl. fyrir árið 1968. Ég held það, og ég vildi með mikilli vinsemd beina þessari ráðleggingu, ef ég mætti gerast svo djarfur, til hæstv. ráðh. Það verður áreiðanlega ekki illa tekið upp, þó að það komi einhvers staðar við. Það er ekki hægt að stjórna án þess að koma einhvers staðar við m.a.s. í þeirri viðleitni sem hér er til umr., þ.e. sparnaði upp á 60–70 millj. kr., og hæstv. fjmrh. gat réttilega um að kæmi einhvers staðar við. Það eru ekki allir ánægðir, sem fyrir því verða. Það er alveg rétt. En samt hygg ég, að þjóðin sem heild sé ánægð með þá viðleitni, sem hér kemur fram. Því lengra sem haldið verður á þeirri braut, því betra fyrir okkur alla og þá ráðh. ekkert síður.

Við munum ekki, framsóknarmenn hér í þessari hv. d., hindra hæstv. ríkisstj. í þeim góðu áformum, sem hún kann að hafa í sparnaðaráttina. Við munum ekki tefja þetta frv., og ég tel alveg víst, að við munum starfa að því eins og eftir verður leitað, að þetta frv. geti orðið að I. Ég mun a.m.k. gera mitt til þess.