29.03.1968
Efri deild: 77. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (839)

158. mál, ráðstafanir til lækkunar ríkisútgjalda

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er búið að ræða þetta frv. mjög mikið bæði við 1. og 2. umr. í þessari hv. d., enda er frv. mjög víðtækt, þar sem mjög mörg atriði koma til greina, og er því ekki óeðlilegt, að menn hafi margt við það að athuga. Að meginefni er þetta frv. miðað við það að draga nokkuð úr útgjöldum ríkisins á árinu 1968 á þann hátt að lækka á því ári greiðslur, sem ákveðnar hafa verið í fjárl. þessa árs. Það getur verið álitamál, þegar í þetta er ráðizt, hvaða leiðir eigi að koma þar til greina, og ætla ég mér ekki að fjölyrða um það eða gera sérstakar aths. við 1. gr. frv., sem er víðtækust að þessu leyti.

Það hefur verið vitnað til þess, að fordæmi séu í löggjöf um lagasmíð með þessu sniði, og hefur þá verið vitnað til l. frá 1940.r g vil leyfa mér að ítreka það, sem kom fram við 2. umr. hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að þau l., sem sett voru með þessu sniði og gengu undir nafninu bandormur undir árslok 1939 og voru staðfest sem l. nr. 5 1940, fjölluðu eingöngu um vissar ráðstafanir eða frestun á vissum framkvæmdum á árinu 1940. Þau voru svo takmörkuð við það eina ár, að það þótti nauðsynlegt að setja samsvarandi l. aftur síðar á árinu 1940, þar sem hliðstæðar ráðstafanir voru ákveðnar fyrir árið 1941, en þá eingöngu bundnar við fjárlagaár. Það sem gerir þetta mál sérkennilegt að þessu leyti, er, að smeygt er inn í þetta mál ákvæðum, sem ekki eru bundin við árið 1968 og leiða ekki af sér sparnað á því ári, þó að meginefni þess sé um lækkun á gjöldum á árinu 1968. Á þetta hafa aðrir ræðumenn rækilega bent, og þarf ég ekki í sjálfu sér að geta um þetta. Þessa verður vart á nokkrum stöðum í þessu frv., en það er þó sérstaklega 7. gr. þess, sem virðist alls ekki eiga heima í þessu frv. á þann hátt, sem nú er frá henni gengið.

Í 7, gr. þessa frv. segir ótvírætt, að fræðslumálaskrifstofan skuli vera deild í menntmrn. og jafnframt skuli falla úr gildi l. nr. 35/1930 um fræðslumálastjórn og önnur ákvæði, sem brjóta kunna í bága við þetta. Það er tekið fram að ákvæði þessarar gr. komi raunar til framkvæmda, þegar ráðh. ákveður, en eftir að búið er að samþykkja, að l. um fræðslumálastjórn falli úr gildi, eru þau ekki grundvöllur fyrir ákvörðunum ráðh. eða fyrir starfi fræðslumálastjóra. Nú kveða þessi l., sem á að fella úr gildi, á um embættisstöðu fræðslumálastjóra, og samkv. þeim l. hefur verið sett reglugerð, þár sem þetta er útfært nokkru nánar en í l. sjálfum.

Nú liggur það í augum uppi, að reglugerð, sem sett er samkv. l., getur ekki haft gildi, eftir að búið er að fella l. sjálf niður, sem reglugerðin er grundvölluð á. Ég held, að það sé ótvírætt, að með niðurfellingu l. falli reglugerðin, sem sett er samkv. þeim, úr gildi sjálfkrafa.

Ég vildi leyfa mér að benda hv. þd. á nokkur ákvæði, sem eru í reglugerðinni, um störf, sem fræðslumálastjórinn á að annast. Þar segir m.a., að fræðslumálastjóri stýri framkvæmdum í kennslu- og skólamálum undir yfirstjórn menntmrn. og hann hafi í hendi fullnaðarafgreiðslu þeirra mála, sem rn. felur honum sérstaklega. Fræðslumálastjóri skal í umboði rn. auglýsa með hæfilegum umsóknarfresti kennarastöður þær, sem lausar eru og ráðstafa á. Skulu umsóknirnar stílaðar til rn., en sendar skólanefnd og fræðslumálastjóra. Er fræðslumálastjóra skylt samkv. þeim l. og reglugerð, sem ég vitna hér til, að láta fylgja umsögn sína til rn. um þær umsóknir, sem hann kallar eftir. Fræðslumálastjóri á að gera till. til menntmrn. um ráðningu farkennara, þar sem til þeirrar ráðstöfunar er gripið. Fræðslumálastjóri á að gera till. til menntmrn. um skipan prófdómenda við framhaldsskóla, sem undir menntmrn. heyra, nema Háskóla Íslands. Fræðslumálastjóri gerir till. til rn. um skipun skólanefndarformanna, bæði er aðalskipanir fara fram og eins, ef sæti verður laust milli aðalskipana. Fræðslumálastjóri skal árlega gera till. til menntmrn. um byggingu skólahúsa og skólastjórabústaða og fjárframlög úr ríkissjóði til þeirra bygginga. Þetta eru aðeins nokkur verkefni, sem fræðslumálastjóra eru falin samkv. þeim l., sem nú á að fella niður, og þeirri reglugerð, sem samkv. þeim l. hefur verið sett. Og ég endurtek það, að ég tel, að reglugerð hafi ekki gildi, eftir að l., sem hún er grundvölluð á og sett samkvæmt, eru felld niður af hv. Alþ. Það er því alveg augljóst mál, að með þeim lagaákvæðum, sem nú eru í gildi, er fræðslumálastjóra og skrifstofu hans mörkuð nokkuð sjálfstæð staða gagnvart menntmrn., þó að hún starfi vitanlega undir yfirstjórn rn., og fræðslumálastjóra er beinlínis lögð sú skylda á herðar að afgreiða sjálfstætt ýmis erindi til rn.

En í þessari stuttu lagagrein er gengið svo langt, að ég tef það ekki viðunandi, þar sem greinin alls ekki á heima í þessu frv., sem hér er fjallað um, og það mundi í engu raska þeim sparnaðartill., sem hæstv. fjmrh. beitir sér fyrir, þó að þessi 7. gr. yrði felld niður eða henni breytt.

Ég vil leyfa mér við þessa síðustu umr. í þessari hv. deild að bera fram brtt. við 7, gr. frv. Brtt. er of seint fram borin og er skrifleg, og vil ég biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni, en till, er á þá leið, að 7. gr. frv. orðist þannig:

Ríkisstj. undirbýr fyrir næsta reglulegt Alþ. frv. um hagkvæma skipan á yfirstjórn fræðslumála.“ Verði þessi till. samþ., er málið tekið upp á þann hátt, að ríkisstj. fær fyrirmæli um að láta vinna að þeirri skipulagsbreytingu, sem hér er stefnt að, og undirbúa hana, en þá mundi málið koma til kasta Alþ. í eðlilegri mynd næsta haust, og þá yrði fjallað um það í báðum d. og menntmn., svo sem sjálfsagt má telja um málefni eins og þetta.