22.02.1968
Neðri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

140. mál, ríkisreikningurinn 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til að leita staðfestingar og samþykktar á ríkisreikningnum fyrir árið 1966. Ríkisreikningnum var útbýtt hér á borð hv. þm. í þingbyrjun, en þá án aths. endurskoðenda, því að endurskoðun reikningsins var þá ekki lokið. Hefur verið lagt allt kapp á að hraða þeirri endurskoðun með þeim árangri, að reikningurinn liggur nú hér fyrir endurskoðaður að fullu, og eru birtar með reikningnum í fyrsta lagi aths. yfirskoðunarmanna, í öðru lagi svör rn. við aths. og í þriðja lagi till. yfirskoðunarmanna Alþ. um, hvernig þeir telja, að fara beri með þær aths., sem þeir hafa gert. Áður hefur Alþ. verið gerð rækileg grein fyrir afkomu ríkissjóðs á árinu 1966, bæði útgjöldum og tekjum, og sé é ekki ástæðu til að fara að endurtaka þá sögu hér. Ég sé heldur ekki ástæðu til þess á þessu stigi málsins að fara að ræða aths. yfirskoðunarmanna né svörin við þeim eða úrskurði þeirra, heldur sé rétt, að málið gangi fyrst til n. og síðan verði það rætt við 2. umr., ef hv. n. þykir ástæða til þess að taka einhverja af þessum aths. sérstaklega til frekari athugunar og umræðu.

Ég vil því leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.