22.02.1968
Neðri deild: 65. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

140. mál, ríkisreikningurinn 1966

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Því miður hef ég ekki fyrir mér allar tölur til þess að geta skýrt þetta mál og bjó mig ekki undir það. Eins og ég sagði í upphafi, hefur verið gerð áður nákvæm grein fyrir því, hver varð heildarniðurstaða í útkomu ársins 1966– bæði tekjuhlið og gjaldahlið, þ.e. hvaða ástæður voru fyrir því, að bæði tekjur og gjöld fóru fram úr áætlun. Fyrir þessu gerði ég rækilega grein í fjárlagaræðunni í haust og gæti vitanlega, ef mér ynnist tími til, sótt hana og gert hv. þm. grein fyrir því máli, eins og það er.

En það er eitt, sem ég vildi vekja athygli á, sem var misskilningur hjá hv. þm. Það var alveg rétt, að tekjur fóru á 9. hundrað millj. kr. fram úr áætlun á rekstrarreikningi. En þá þarf náttúrlega að draga þar frá ótalmarga liði, m.a. alla fjárfestingarliði, þannig að muni ég rétt, var rekstrarhagnaður ríkissjóðs talinn vera eitthvað á 5. hundrað millj. kr. Þegar það mál var gert upp, var gengið út frá því, að greiddur yrði halli áranna 1964 og 1965. Halli ársins 1964 var um 250 millj. kr., og halli ársins 1965 var um 90 millj. kr., þannig að það var ekki ýkjamikið, sem var til ráðstöfunar að öðru leyti. En því miður komu einnig, eins og hv. þm. sagði, til viðbótarniðurgreiðslur, og þegar dæmið að lokum var gert upp, sem ég hygg, að hv. þm. reki minni til, var ég í rauninni gagnrýndur fyrir það — og kannske á nokkurn hátt með réttu, að það væri gat á fjárl. fyrir árið 1967, þar sem ekki væri gert ráð fyrir niðurgreiðslunum nema 10 mánuði ársins. Ástæðan var sú, að dæmið gekk ekki upp eins og það stóð miðað við tekjuafgang ársins 1966 og miðað við það, sem vitað var, að var halli fyrri ára. Það, sem þá var eftir til ráðstöfunar, nægði ekki til að brúa bilið til áramóta, þannig að það vantaði um 50 millj. kr. Og þetta er alveg rétt. Án þess að ég geti, eins og ég hef sagt, farið nákvæmlega út í það, nema skoða það betur, svo að ég sé ekki að fara með villandi tölur. Það veit ég, að hv. þm. vill ekki knýja mig til að fara að gera hér. Ég vil ekki treysta svo á minni mitt. En ég held, að með því einu að minna á þetta, sem fram kom í umr. um málið, komi glöggt í ljós, að þarna hafi ekki verið um að ræða neinn afgang, sem standi upp á okkur að ráðstafa, og því miður er gallinn sá, að þessi tekjuafgangur var í rauninni aldrei fyrir hendi, þannig að hann væri inni á reikningi okkar í Seðlabankanum. Um áramótin var ekki nema um 90 millj. kr. innistæða á viðskiptareikningi ríkissjóðs í Seðlabankanum. Og í Seðlabankanum hefur þessi rekstrarafgangur ríkissjóðs alltaf verið gerður upp á annan hátt heldur en gert hefur verið í ríkisreikningi. Í Seðlabankanum hefur þetta verið gert með þeim hætti að segja, að það væri ekki raunverulegur afgangur hjá ríkissjóði, nema hann væri handbær um áramót. Og ég vil jafnframt til viðbótar geta þess, að til þess að gera upp þessa gömlu skuld við Seðlabankann frá árunum 1964 og 1965 var reiknað með, að við yrðum að nota einnig 100 millj. kr., sem höfðu verið lagðar til hliðar af greiðsluafgangi ársins 1963. Öðruvísi var ekki hægt að gera þetta dæmi upp, og engu að síður vantaði þó, að því er talið var, þegar við vorum að lokum að gera upp fjárlagadæmið fyrir 1967 og höfðum þennan greiðsluafgang í huga, um 50 millj. kr., til þess að endar næðu saman.

En ég vil sem sé, hvað sem þessum 800 millj. kr. viðvíkur, biðja hv. þm. að athuga það, að þar eru ekki öll kurl komin til grafar, þannig að þar er aðeins rekstrarafgangur, en ekki greiðsluafgangur.