02.04.1968
Neðri deild: 89. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

179. mál, vegalög

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þegar málefni þjóðveganna eru til meðferðar hér á þ., hef ég alltaf tilhneigingu til að leggja orð í belg, og nú ætla ég að leyfa mér að bæta nokkrum orðum við það, sem sagt hefur verið í umr. um þetta mál. Mér þykir ekki ólíklegt, að það kunni fleiri að gera, og ég vona, að það sé ekki ætlunin að reka þetta mál með neinum óeðlilegum hraða í gegnum þ. Hér er vissulega um stórt mál að ræða, og það verð ég að segja, að ég hefði talið betur fara á því, að það hefði komið fram fyrr á þ. Það er nú töluvert um það talað, að nauðsyn beri til að ljúka bráðum þ., til þess að hv. þm. geti farið að sinna sínum mílum og hæstv. ríkisstj. að gefa út bráðabirgðal. Fyrir ríkissjóð býst ég ekki við, að það skipti miklu máli, hvort þ. stendur einni vikunni lengur eða skemur. Í þessu sambandi skiptir það mestu máli, að þm. geri skyldu sína við afgreiðslu mála. Það er mikið talað um hagræðingu oft og tíðum hér í þessum sal, en ég held, að það gæti verið ástæða til þess fyrir þessa samkomu og þá, sem hér hafa verkstjórn, hæstv. ríkisstj. og forseta, að gefa því gaum, hvort hagræðingar sé gætt í störfum Alþ.

Það hefur verið svo undanfarið löngum, að þegar komið er undir þinglok, hefur mikið af málum enn verið óafgreitt, og mér sýnist nokkrar líkur til þess, að þannig horfi einnig nú. Það var svo lengi framan af í vetur, að fundir voru fáir og hægt gekk að vísa málum til n. og ýmsar n. hafa ekki getað hafið störf fyrr en mjög seint, en nú eru málin sem óðast að koma frá n. Ég held, að þessu þurfi að breyta, en ég nefni þetta almennt um vinnubrögðin hér á Alþ. sérstaklega í sambandi við þetta mál og í sambandi við það, sem ég sagði, að ég vonaði, að ekki yrði hafður óeðlilegur hraði á meðferð málsins, þannig að mönnum gæfist kostur á að athuga það svo sem þarf. Ég ætla ekki að gera það mjög að umræðuefni, sem rætt hefur verið í umr. fram að þessu. Ég kvaddi mér ekki hljóðs af því út af fyrir sig, að ég vildi þar með styðja eitt eða andmæla öðru, sem fram kom í þessum ræðum, heldur af því, að ég vildi koma að mínum eigin hugleiðingum í sambandi við þetta frv. Ég er heldur ekki eins kunnugur innheimtu skatta í Vegasjóð og ríkissjóð og ráðh. og fjvn. sem hafa verið að ræða það mál nokkuð.

Fyrir nokkrum dögum — eða a.m.k. fyrir skömmu — var til umr. hér í þessari hv. d. frv. til l. um að lækka ríkisútgjöldin 1968 um nálega 200 millj. kr. Sumir hv. þm. héldu því að vísu fram, að þarna væri þó fremur um talnabreytingu en raunverulega útgjaldalækkun að ræða. Ég skal ekki ræða það nánar, en við alþm. höfum líka fengið að sjá framan í skattafrv. á þessu þ. Fyrst kom eitt í þingbyrjun. Svo kom gengislækkunin, sem hefur í för með sér sjálfvirka hækkun aðflutningsgjaldanna eins og gengisbreyting jafnan hefur. Og nú er nýtt skattafrv. fram komið — þetta, sem hér er til umr., frv. um hækkun benzínskatts, gúmmígjalds og þungaskatts af flutningabifreiðum, sem nota olíu í stað benzíns. Það er áætlað í grg. frv., að þessi skattahækkun nemi það, sem eftir er af þessu ári, 109 millj. kr., en 157 millj. kr. á árinu 1969, en hér í umr. hafa verið nefndar hærri tölur. Þetta frv. er að formi til um breytingu á vegal., og peningarnir, sem innheimtir eru samkv. því, ef að l. verður, eiga að renna í Vegasjóð. Vegasjóð vantar fé. Um það er ekki ágreiningur. Hann er svo févana og hefur verið, að viðhald þjóðveganna er af þeim sökum miklu minna en það þyrfti að vera og svo lítið um nýbyggingu þjóðvega — miðað við þörf vegna umferðar, sívaxandi fjölda stækkandi ökutækja, sem nú eru yfir 40 þús. í landinu móti 18 þús. fyrir 10 árum — að fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins samkv. vegal. verður ekki lokið með sama áframhaldi fyrr en á 21. öld. Hæstv. ráðh. var að tala um það áðan, að það mundi taka 400 eða jafnvel 800 ár, og hafði það eftir einhverjum öðrum, að byggja mætti upp vissan þátt þjóðveganna, en mér sýnist a.m.k. auðsætt, að með sama áframhaldi muni það ekki verða fyrr en á næstu öld, sem lokið verður uppbyggingu þjóðvegakerfisins í heild, ef ekki er að gert.

Hér á Alþ. hafa af hálfu þm. verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að fá aukningu, sem um munar á tekjum Vegasjóðs. Í ríkissjóð rennur nú, eins og fram hefur komið í þessum umr., hálfur milljarður eða vel það af tekjum af umferðinni, og það, sem Vegasjóður fær, er þá auðvitað ekki meðtalið, því að hann telst ekki til ríkissjóðs í þessu sambandi. Þetta, sem ríkissjóður fær til sinna þarfa, eru leyfisgjöld og tollar af bifreiðum og varahlutum. Hér á Alþ. hefur því verið haldið fram undanfarin ár, að ríkissjóður eigi að láta af hendi við Vegasjóð bróðurpartinn af þessum 500 eða 600 millj. kr. frá umferðinni eða a.m.k. leyfisgjöldin. Tillaga hefur verið uppi um það, sem hv. 3. þm. Vesturl. gerði hér áðan að umræðuefni. En þetta fékkst ekki fram, meðan góðærið var mest, og sjálfsagt eru þá líkurnar minni, til þess, að það fáist nú, þegar hæstv. fjmrh. segist berjast í bökkum, sem ég efa ekki, að hann fari rétt með út af fyrir sig. En hæstv. ríkisstj. hefur farið aðra leið. Hún hefur látið Vegasjóð taka lán, sem nema víst nú 400–500 millj. kr. Þessi lán hafa verið tekin á nokkrum undanförnum árum — líklega síðan á árinu 1962, og þessu lánsfé hefur verið varið til einstakra stórframkvæmda í vegamálum — þó fyrst og fremst Keflavíkurvegarins. Ég er ekki að lasta þessar lántökur og ekki þessar framkvæmdir, en fólk í flestum byggðum landsins verður næsta lítið vart við þær framkvæmdir, þó að þær séu út af fyrir sig ágætar og hafi kostað mikið fé. Þessu lánsfé sýnist mér hafa verið ráðstafað með geðþóttafrumkvæði, án þess að til sé nokkur heildaráætlun eða heildaryfirlit um uppbyggingarþörf þjóðvegakerfisins í heild og hvernig og hvenær og í hvaða röð henni skuli fullnægt í landinu í heild eða hvort það verði nokkurn tíma gert. Víðs vegar um land frétta menn um þessar stórframkvæmdir fyrir lánsfé á mjög takmörkuðum svæðum, nokkra tugi km, sem hver um sig hefur kostað hálfan eða heilan tug millj. kr. En þegar spurt er um, hvað liði vegabótum í tveim eða þrem sýslum eða svo, er svarað: Peningana vantar enn þá. Og sé spurt, hvenær megi vænta framkvæmdanna á þeim svæðum — eftir tvö, þrjú, fimm eða tíu ár, er heldur ekkert svar- bara þögn eða hálfgerðir útúrsnúningar og háðsglott á vörum stjórnarvalda. Þau geta ekki svarað og vilja ekki reyna til þess að móta stefnu, sem geri þeim mögulegt að gefa svar, sem sanngjarnir menn geta sætt sig við.

Við höfum á þessu þingi, átta alþm. — þegar á öndverðu þingi — gert tilraun til þess að fá stjórnarvöld — og þá náttúrlega sérstaklega hv. samgmrh. — til samstarfs um að skapa ratljósa leið út úr þeirri ísþoku, sem nú hvílir yfir framtíðinni í þessum málum. Við höfum gert till. um tíu ára áætlun og tíu ára þjóðarátak til að koma Íslandi úr tölu vanþróaðra landa í vegamálum. Við viðurkennum staðreyndina, þ.e. fjárskort Vegasjóðs. Við lokum ekki augunum fyrir kveinstöfum hv. fjmrh. Við grípum það fordæmi, sem þegar hefur skapazt með lántökum, og ég á þar auðvitað ekki við bráðabirgðalánin, sem tekin eru stundum hér og þar í héraði gegn greiðslu af næsta árs framlagi. Sú tegund af lánum hefur lengi tíðkazt. Ég er að tala um það fordæmi, sem felst í töku fastra lána til vegaframkvæmda síðustu árin. Við teljum það barnaskap að láta févana Vegasjóð taka þessi lán lengur. Ríkið verður að gera það og standa straum af þeim og við viljum ekki una því lengur, að slík lán séu tekin skipulagslaust — án áætlunar og án heildartakmarks — eða farið sé með þetta sem eins konar laumuspil eftir geðþótta eins og eins ráðh., þm. eða embættismanns. Ef áformað er að afla fjár á þennan hátt til mikilla framkvæmda á það að gerast fyrir opnum tjöldum frammi fyrir alþjóð manna um land allt og stofna til þess með lokatakmarkið fyrir augum, þ.e. fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins samkv. vegalögum, er lokið verði á þeim tíma, sem menn verða ásáttir um og telja fært og eðlilegt. Við höfum í þessari till., sem ég nefndi áðan, talað um 10 ára áætlun í þessu skyni eða skemmri tíma, ef fært þætti — helzt ekki lengri, en a.m.k. þarf að áætla tímann fyrir fram og hafa ekki þessa óvissu lengur fyrir þorrann af byggðum landsins í framtíðinni í vegamálum.

Það er eins í rafvæðingarmálinu. Þar höfum við, þm. Framsfl., þing eftir þing flutt till. um slíka áætlun og með svipuðum rökum, en að því leyti annarrar tegundar, að þar er áætlunarátakið ekki nema brot af vegagerðarátaki nú, sem þjóðin verður að leysa af hendi og hér er rætt um. En þrátt fyrir allt orðagjálfrið um framkvæmdaáætlanir, landshlutaáætlanir og jafnvel áætlanir um þjóðarbúskapinn hefur hæstv. ríkisstj. til þessa dags ekki mátt heyra rafvæðingaráætlun nefnda og annað hvort látið till. um hana daga uppi, vísað þeim frá eða vísað þeim til sjálfrar sín eða nú síðast beinlínis fellt till. í þá átt, eins og gert var við afgreiðslu fjárl. í vetur. Og sagan endurtekur sig í vegamálunum að þessu leyti. Nú fyrir nokkrum dögum var till. okkar áttmenninganna um 10 ára áætlun um fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins, sem jafnframt fól í sér stefnuyfirlýsingu um fjáröflun, vísað frá af stjórnarmeirihluta í hv. allshn. Sþ. Þar var af okkar hálfu, sem að till. stöndum, boðið upp á samkomulag, þ.e. að jákvæð tilraun yrði gerð til að ná samkomulagi í samráði við vegamálastjórann. En það var ekki hægt; ekki einu sinni það. Þarna sátu menn úr ýmsum byggðum landsins, velviljaðir menn í þessu máli, en af einhverjum ástæðum mér óskiljanlegum — sögðu þeir fátt og gáfu aðeins merki um það, hvaða afstöðu þeir hefðu. Mér sýnist hér vera að verki sú kaldræna þverúð eða skilningsleysi á almannaþörf, sem ekki lætur bugast af neinu nema atkvæðaseðlum á kjördegi og alls ekki af rökum, og er illt til þess að vita.

Ég var hér áðan að tala um það, að það hefðu verið tekin lán til vegaframkvæmda undanfarin ár. Þessi lán hafa verið sett inn í vegáætlunina eða heimildir til slíkrar lántöku og jafnframt gerð áætlun um notkunina, eins og gera ber samkv. vegal. Ég ætla aðeins að minnast á eitt atriði í því sambandi og inna eftir því, hvort einhverra upplýsinga sé að vænta um það. Þetta hefur sem sé borizt í tal í umr. um skýrsluna, sem hæstv. ráðh. lætur gera ár hvert um framkvæmd vegáætlunarinnar. En mér skilst, að í vegáætluninni, hinni endurskoðuðu, fyrir árin 1967 og 1968, sem afgreidd var í fyrra, hafi verið gert ráð fyrir því, að varið yrði lánsfé til vegaframkvæmda á þessum tveimur árum samtals nálega 290 millj. kr. eða nánar tiltekið 288 millj. kr. Þetta skiptist þannig, að í hraðbrautir átti að verja um 204 millj. kr. bæði árin, í þjóðbrautir nálega 65 millj. kr. og í landsbrautir rúmlega 19 millj. kr. Nú er ekki nema annað liðið af þessum árum, þ.e. árið 1967, en á því ári átti að verja lánsfé til vegaframkvæmda samkv. þessu rúmlega 138 millj. kr. Og þá er auðvitað átt við þessa tegund lánsfjár, sem ég nefndi, en ekki bráðabirgðalánin, sem hvergi eru í vegáætlun, og ekki má blanda því saman. Nú skilst mér, að samkv. vegaskýrslunni hafi ekki verið notaðar . af þessu nema 57–58 millj. kr., þannig að 80 millj. kr. af þessari lánsheimild hafi ekki verið notaðar á árinu 1967. Þessi heimild mun hafa verið samþ. seint í apríl eða í byrjun maímánaðar í fyrra á Alþ., en vegaframkvæmdir hefjast ekki fyrr en nokkru síðar, þegar jörð er orðin þið. Mér og mörgum öðrum þykir þetta einkennilegt, að svona fyrirætlanir skyldu vera uppi í lok aprílmánaðar eða byrjun maí og hafa svo ekki verið framkvæmdar nema að svona litlu leyti, þegar til raunveruleikans kom. Sumir segja, að þetta standi eitthvað í sambandi við alþingiskosningarnar s.l. vor, að stjórnin hafi verið svona bjartsýn fyrir kosningar, en svo hafi bjartsýnin minnkað eftir kosningar. Ég legg ekkert upp úr því. En einkennilegt er þetta samt.

Þetta snertir náttúrlega ýmsa landshluta, og ég vil minnast á það hér og tel eiginlega fulla ástæðu til að gera það í sambandi við þetta mál, af því að ég hef ekki fengið svar við því áður í sambandi við vegaskýrsluna, að í mínu kjördæmi átti að úthluta ofurlitlu af þessu lánsfé. Það var reyndar sáralítið. Og mér þykir snubbótt, að það skuli ekki hafa verið reynt að efna þetta, svo lítið sem það var. Í Dalvíkurveginn, sem er hluti af Ólafsfjarðarvegi, átti að verja af þessu 1 millj. kr. á árinu 1967 og í Þingeyjarsýslubraut í Aðaldal annarri millj. Og það var lítið miðað við þessa rausn, sem þarna var um að ræða, en hvorugt virðist hafa verið gert á árinu 1967. Það var ekkert unnið í Dalvíkurveginum. Það var að vísu unnið nokkuð í Þingeyjarsýslubraut í Aðaldal, en það var ekki fyrir svona lánsfé, heldur var þar um að ræða fé, sem kríað var út heima í héraði til bráðabirgða og á að endurgreiðast af framlaginu næsta ár, nema hæstv. ríkisstj. sé búin að breyta þessu. Sé svo, er ég henni þakklátur fyrir. Nú var verið að spyrja um það í umr. um vegaskýrsluna, hvernig á þessu stæði og hvort ekki mundi verða ráðin bót á á næsta ári, og þá ætlunin að taka þá þeim mun meiri lán, til þess að farið yrði eftir vegáætluninni.

En nú er þetta frv. fram komið hér á þskj., sem ég hef fyrir framan mig um breyt. á vegal., og það er auðvitað skylt að meta það án fordóma, sem þar er á ferð. Efni þessa frv. er að leggja nýja skatta á umferðina í landinu, þ.e. 1 kr. til viðbótar á benzínlítra, 27 kr. til viðbótar á kg af bílagúmmí og 30–100% hækkun á þungaskatti dísilbíla eftir stærð samkv. því, sem hæstv. ráðh. upplýsti hér áðan. Samtals áætlað, eins og ég sagði, gefur þetta af sér 109 millj. kr. á þessu ári og 157 millj. kr. á næsta ári, en hærri tölur voru nefndar í umr. Þetta eru tölur grg. Þetta er allmikið fé, allverulegur skattur, sem þannig er ráðgert að bæta ofan á aðra nýlega skattahækkun á ökutækin, og ekki verður því neitað, að þessi skattahækkun er á ferðinni á frekar viðsjálum tíma í árferði, sem ekki er nærri eins gott og hefur verið undanfarið. En almennt vil ég um þetta og þessa fjáröflunarleið og fjáröflun til viðbótar í þessu skyni segja það, að þjóðin þarf að mínum dómi að vera við því búin, að fram undan verði að vera stórátök mjög kostnaðarsöm í vegamálum landsins, ef vel á að vera. Það getur verið á komandi tíma óhjákvæmilegt að hækka skatta í þessu skyni. En eins og ég sagði, finnst mér tíminn til skattahækkunar varla vel valinn að þessu sinni. Það er þá líka þess vert að gefa því gaum hvers vegna hæstv. ríkisstj. vill leggja þennan skatt á núna. Það er ástæða til að velta því fyrir sér, þegar maður sér þetta frv., hvort landið í heild megi vænta mikilla og almennra umbóta á þjóðvegunum í hinum ýmsu landshlutum, ef þessi skattur verður á lagður.

Í upphafi grg. þessa frv. segir:

„Aðkallandi er að ráðast í lagningu hraðbrauta, svo sem nánar er að vikið í aths. þessum. Til þess að það geti orðið, verður að afla fjár til Vegasjóðs.“ Og síðar í grg. er sagt, að rætt hafi verið um undirbúning hraðbrautarframkvæmda sem höfuðtilgang fjáröflunar þeirrar, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. Á öðrum stað í grg. er þess þó getið, að fleira komi til greina, og að því er þetta ár varðar, virðist ekki eiga að verja hinu fyrirhugaða skattfé nema að litlu leyti eða a.m.k. minni hluta þess — til vegaframkvæmda á árinu, heldur til að borga umframeyðslu, skuldir og ýmiss konar tæknilega vinnu, sem sumpart er búið að leysa af hendi og sumpart er gert ráð fyrir að leysa af hendi á árinu en ekki nema minni hl. þess til raunverulegra vegaframkvæmda sýnist mér. Hæstv. ráðh. sló dálítið úr og í í sinni ræðu áðan um það, hvað ætti að gera við peningana, en í grg. stendur þetta, og hann ræddi töluvert um það, sem hann nefndi „hraðbrautanefnd,“ sem hefði verið skipuð til þess að gera áætlanir um hraðbrautir og kanna möguleika á útvegun lánsfjár til hraðbrauta — einnig erlendis. Til hraðbrauta teljast samkv. gildandi reglum sem birtar voru, ef ég man rétt, árið 1964, nálega 150 km af þjóðvegunum. En þjóðvegakerfið í heild er 9500 km. Þjóðvegakerfið er þannig sundurliðað samkv. þessari skýrslu frá 1964, að hraðbrautir eru 148.5 km, þjóðbrautir 2960.9 km, landsbrautir 6272.1 km og þjóðvegir í þéttbýli 96.4 km — samtals 9477.9 km eða undir 9500 km, eins og ég sagði áðan. En ég var að tala um hraðbrautirnar og vegamálastjórinn lætur í það skína, að í sambandi við umferðarmælingar eða umferðartalningu, sem hefur átt sér stað, muni hraðbrautir í næstu vegáætlun verða taldar 300–400 km. Ég hef heyrt talað um 400 km, en hæstv. ráðh. talaði hér áðan um 300 km, sem þyrfti að byggja upp, og hefur hann þá sjálfsagt dregið Reykjanesbrautina frá. Ætti þá eftir því að mega gera ráð fyrir að hraðbrautir yrðu taldar í vegáætluninni svona í kringum 350 km, þ.e. sú hraðbraut, sem búið er að byggja upp, og þær hraðbrautir, sem eftir er að byggja upp.

Af þessum 350 km er lítill spotti á Norðurlandi. Mig minnir, að hann væri 1964 talinn 10 km við Eyjafjörð, en hér er að langsamlega mestu leyti svo að segja að öllu leyti — um að ræða vegi á Suðvesturlandi út frá höfuðborginni. Fróðir menn, sem ég hef spurt um það efni, segja, að ætla megi, að km í hraðbraut, eins og gert er ráð fyrir að byggja þær, kosti 5–6 millj. kr. Hæstv. ráðh. nefndi hér áðan a.m.k. 5 millj. kr. Þetta er álíka og 10 km í fullgerðri þjóðbraut eða 20 km í landsbraut. Reyndar er þetta ágizkun, en kannske ekki fjarri lagi. Auðvitað er það mikil nauðsyn að byggja upp hraðbrautirnar og koma á þær varanlegu slitlagi. Og að því verður að vinna, að þeim framkvæmdum miði áfram sem fyrst og sem mest og þó með hliðsjón af vegaframkvæmdum í landinu í heild. En ef miklum meiri hl. af öllu nýbyggingafénu, sem hér er um að ræða að skattinum meðtöldum ætti að verja í 350 km á hraðbrautum nær eingöngu hér út frá höfuðborginni, en aðeins tiltölulega litlum minni hl. í alla 9000 km annars staðar á landinu, held ég, að mönnum þyki víða skammt miða á næstu árum. Þá held ég, að margar framtíðarvonir fari að dvína, og held ég, að mörgu byggðarlaginu verði hætt. Ég er ekki að fullyrða, að það sé þetta, sem áformað er eða koma skal. Þetta eru aðeins hugleiðingar út af orðalagi í grg. frv., sem mér þykir vera nokkuð einstrengingslegt, en ef þetta er það, sem koma skal, ef ekki þykir ástæða til þess í sambandi við þetta frv. að láta þeirri landsbyggð, sem ekki er í námunda við hraðbrautir, neina ljósglætu í té, held ég, að mörgum muni þykja þröng fyrir dyrum.

Vegamálin eru landsmál. Vegakerfið er einn af helztu hornsteinum landsbyggðarinnar. Það verður að hugsa um þessi mál á landsvísu, ef svo mætti orða það. Það má ekki dragast von úr viti að koma vegakerfinu í heild í viðunandi horf. Þing og stjórn verða að skapa sér yfirsýn yfir þetta mikla verkefni. Við eigum að líta á hraðbrautirnar sem nauðsynlegan þátt og auðvitað dýrasta þáttinn í nauðsynlegri heildarframkvæmd fyrir alla landshluta, öll byggðarlög, stór og smá í þessu landi. Ef ekki er hægt að fá menn til að gera heildaráætlun um kostnað við fullnaðaruppbyggingu þjóðvegakerfisins, er auðvitað ekki hægt að gera sér grein fyrir því með verulegri nákvæmni, hvað þetta mikla verk kostar og hvernig haganlegast eða sanngjarnast væri að raða því niður á tiltekið árabil, t.d. 10 ár. En það er e.t.v. hægt með einföldum aðferðum að gera sér í stórum dráttum grein fyrir því fjármagni, sem líklegt má telja, að hér yrði um að ræða.

Ég sem óverkfróður leikmaður gæti t.d. gert mér í hugarlund nú á þessari stundu, að legði þjóðfélagið það á sig að leggja fram og útvega gegn greiðslu síðar 400–500 millj. kr. á ári til nýbyggingar þjóðveganna, þ. á m. hraðbrautanna, yrði uppbyggingu þjóðvegakerfisins í heild — hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta — að miklu leyti lokið eftir svo sem einn áratug. Ég gæti gert mér það í hugarlund. En til þess að nefna slíkar tölur með nokkurri vissu þarf auðvitað að liggja fyrir áætlun sérfróðra manna — a.m.k. lausleg áætlun, þótt ekki sé það endanleg áætlun. En svona aðferð hefur tíðkazt hér í löggjöf — að vísu í miklu smærri stíl — að lögbinda árlega framlög til einhverra framkvæmda 5–10 ár fram í tímann stundum ótakmarkað — til að ná settu marki, og þá hefur yfirleitt verið við þetta staðið. Ég þarf ekki að nefna slík dæmi. En hér er um óvenjulega mikið fjármagn að ræða og það fjármagnsfreka áætlun, að slík hefur e.t.v. ekki verið gerð fyrr, en þó þarf sjálfsagt að taka bróðurpartinn af því eða allt að því — að láni. Það yrði ríkissjóður að gera og standa straum af, þangað til verkinu væri lokið og jafnvel lengur.

Til þess að taka ákvörðun af þessu tagi þyrfti að gera áætlun, eins og ég sagði, en ef menn vilja ekki gera áætlun og eru ekki fáanlegir til þess að ljá því eyra, að það eigi að gera áætlun fyrr en þá e.t.v. einhvern tíma síðar, er sennilega hægt að komast af án hennar fyrst um sinn, en ákveða markmiðið og leiðina í höfuðdráttum til að ná því með einföldum aðferðum og ákveða tímamark og líklega fjármagnsþörf. Það mætti þá t.d. hugsa sér þá aðferð, að fjármagni hvers árs væri skipt milli hraðbrauta, þjóðbrauta og landsbrauta — þessara tegunda veganna — í hlutfalli við líklega og síðar áætlaða heildarþörf hverrar tegundar vegar fyrir sig. Það er hægt að hugsa sér þessa aðferð. Og þó að ekki liggi fyrir áætlun sundurliðuð eftir árum, vita menn það þá a.m.k., að í lok hins tiltekna tímabils, hvort sem það eru 10 ár eða eitthvað annað, á alls staðar eða a.m.k. víðast hvar að vera kominn viðunandi þjóðvegur. Ef svona væri farið að, held ég, að þjóðin mundi sætta sig við, að á hana væru lagðir töluverðir skattar í þessu skyni og þá náttúrlega helzt þannig, að ekki væri endilega byrjað á sérstaklega óhagstæðu ári í því sambandi. Þá hefðu allir landsmenn, hvar sem þeir eru á landinu til nokkurs að vinna.

En skattur á skatt ofan í vegamálum eða til vegamála — 50 millj. kr. í fyrra, 100 millj. kr. í ár, 150 millj. kr. næsta ár — án nokkurs sameiginlegs þjóðartakmarks á þessu sviði er svo sannarlega ekki hin rétta leið. Slíkir skattpinklar ár eftir ár vekja enga sameiginlega þjóðarvon, aðeins gremju og vonleysi margra byggðarlaga, sem sjaldan eða aldrei sjá neina skímu í þessum málum. Það er ákaflega erfitt að styðja slíka aðferð og vita eiginlega ekkert um árangurinn nema þá helzt það, að peningarnir — eða mestur hluti af þeim — eigi að fara í framkvæmdir í litlum hluta landsins, ef það er þá meiningin í raun og veru eins og helzt mætti ráða af grg. þessa frv., en hæstv. ráðh. sló raunar nokkuð úr og í um það efni, eins og ég sagði áðan.

Hugmyndir hér á Alþ. um notkun mikilla fjárupphæða á íslenzkan mælikvarða til vegaframkvæmda eru oft furðustaðbundnar a.m.k. í margra augum — 300 millj. kr. í veg fyrir flugvöll, 50 millj. kr. í jarðgöng gegnum fjall, 100–200 millj. kr. til þess að brúa jökulhlaup á sandi, göng undir fjörð eða brú fyrir fjörð. Allt er þetta nýstárlegt í augum þeirra, sem hafa fyrir augum breiðar byggðir eða tengileiðir milli héraða með meira og minna hálfónýtum eða hálfófærum vegum, sem kallaðir eru alfaraleiðir mannflutninga og viðskipta, lífæðir landsbyggðar. Svona dýrar framkvæmdir, eins og ég nefni hér og þar, geta verið mjög æskilegar eða jafnvel alveg nauðsynlegar og jafnvel án ágreinings. En nauðsyn þeirra — nauðsyn slíkra mjög dýrra framkvæmda á mjög takmörkuðum svæðum, sú nauðsyn — skilst miklu betur, ef hún kemur fram sem liður í allsherjarverki fyrir allt landið, sem menn vita og og sjá svart á hvítu, að ekki þarf að bíða eftir alveg óendanlega lengi. Það þarf í þessu máli stórhug, það þarf takmark og það þarf forsjá. Og það þarf réttlæti gagnvart landshlutum, héruðum og byggðarlögum. Ekkert skrifstofu- eða stjórnarráðspukur, sem menn frétta seint og síðar meir og skilja ekkert í, um skatta og fjárveitingar. Það þarf yfirsýn, það þarf stefnu, skýra stefnu, sem allir mega þekkja og þar sem engu þarf að leyna. Og þá, þegar svo er um búið, en aðeins þá, finnst mér, að hægt sé að mælast til, að þjóðin leggi sig fram í þessum málum, en þá held ég líka, að hún sé öll af vilja gerð til þess að gera það.