06.04.1968
Neðri deild: 92. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (956)

179. mál, vegalög

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Hæstv. samgmrh. sagði í svari sínu til mín áðan, að hraðbrautaframkvæmdir væru aðkallandi og við hefðum ekki efni á að draga þær — allra sízt á erfiðum tímum. Allir eru sammála um það, að hraðbrautir eru aðkallandi. Og það er í sjálfu sér ákaflega auðvelt verk að komast svo að orði hér, að ekki sé hægt að draga þær á erfiðum tímum. Hitt held ég, að hverjum manni sé ljóst, sem horfir af raunsæi á aðstæður okkar, að því aðeins getum við lagt hraðbrautir og keypt vaxandi bílafjölda, að atvinnuvegir okkar rísi undir þessum þjónustustörfum. En ástandið á því sviði er engan veginn jafnblómlegt og hæstv. ráðh. talar um, enda hygg ég, að hann trúi ekki sjálfur sínum eigin ummælum um það efni. Það er alveg öruggt og víst, að við munum ekki geta haldið áfram þeirri stefnu að láta bílafjöldann aukast um 2/3 á sama tíma og togarafjöldinn minnkar um 2/3, að láta þann hluta bátaflotans, sem aflar hráefnis handa frystihúsunum, dragast saman, að láta frystihúsin lenda í sívaxandi vanda, að láta innlendan neyzluvöruiðnað dragast saman og að horfa upp á það einmitt núna, að það, sem upp úr stóð, síldveiðarnar, séu að komast í sama vandann og allt annað. Ef við hugum ekki að þessum undirstöðuverkefnum, verður allt tal um hraðbrautir einvörðungu draumórar. Við erum ekki að samþykkja neinar hraðbrautir með þessu frv. Það, sem stuðlar að hraðbrautunum á Íslandi, er ný stefna í efnahags- og atvinnumálum, og ég vil enn þá lýsa eftir því, að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því, áður en Alþ. er sent heim, hvaða hugmyndir hæstv. ríkisstj. hefur um þau efni.

En það er rétt hjá hæstv. ráðh., að aðalerindi mitt hingað áðan var það að ræða við hann um þá afstöðu ríkisstj. að fela erlendum verkfræðingum að vinna störf, sem íslenzkir verkfræðingar gætu hæglega unnið, því að þar er örugglega um að ræða mikið alvörumál, og ég gerði mér vonir um það, að hæstv. ráðh. kynni að geta haft skilning á því atriði. Hann rökstuddi afstöðu ríkisstj. með því, að okkur skorti nægan fjölda af verkfræðingum til að sinna þessum verkefnum, en ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að eins og nú er ástatt, vinna tugir íslenzkra verkfræðin a erlendis, vegna þess að þeir fá ekki verkefni á Íslandi, og mér er kunnugt um það, að hér á landi eru nú verkfræðingar nýútskrifaðir, sem ekki hafa fengið nein viðhlítandi verkefni. Það væri einnig hægurinn á hjá íslenzkum stofnunum, sem starfa á þessu sviði, að afla sér erlends vinnuafls, ef á þarf að halda í sambandi við tiltekin verkefni. Það er hagkvæmara fyrir okkur að ráða hingað til starfa erlenda verkfræðinga fyrir okkur en verða að senda þetta dýrmæta vinnuafl út úr landinu. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni, setur Alþjóðabankinn alls ekki þau skilyrði, að skipta þurfi við erlenda verkfræðinga í sambandi við slík verk sem þessi, og hæstv. ráðh. viðurkenndi það. Hann sagði, að verkið yrði að vera þannig undirbúið, að fyrirtækin, sem það gerðu, hefðu kynnt sig að því að geta leyst slík verkefni af hendi.

Ég er alveg sannfærður um það, að auðvelt væri fyrir hæstv. ríkisstj. að afla íslenzkum verkfræðingum þessarar viðurkenningar hjá Alþjóðabankanum, líka vegna þess að Alþjóðabankinn hefur áður viðurkennt störf íslenzkra verkfræðinga á þessu sviði, eins og ég gat um áðan, t.d. í sambandi við hitaveituna og fleiri verkefni. Það er alkunna, að íslenzkir verkfræðingar eru vel menntaðir og vel verki farnir, og þótt það megi vel vera, að þá geti skort reynslu á einhverjum sviðum, þá hafa þeir á öðrum sviðum reynslu, sem engir aðrir hafa — þá reynslu, sem fæst af þekkingu á þeim sérstöku aðstæðum, sem eru á Íslandi.

Fyrirtæki það, sem hæstv. ráðh. hefur falið að undirbúa þetta verk, KAMPSAX, er raunar ekki fyrirtæki ráðgjafarverkfræðinga. KAMPSAX er ekki óháðir ráðgjafarverkfræðingar, heldur verktakar. Þetta fyrirtæki hefur áður starfað hér á landi. Það vann t.d. að gerð Sprengisands hér í Reykjavík — hafnargarðsins, en vegi og brýr hefur þetta fyrirtæki aðallega lagt í Austurlöndum, þar sem aðstæður eru ákaflega frábrugðnar því, sem þær eru hér á landi. Ég er alveg sannfærður um það, að auðvelt væri fyrir hæstv. ríkisstj. að ganga svo frá málum, að íslenzkir verkfræðingar yrðu teknir fullkomlega gildir sem jafnokar erlendra starfsbræðra sinna. Ég vil minna á það, að einmitt meðal nágrannaþjóða okkar á Norðurlöndum, í Danmörku, Svíþjóð og Noregi, er verkfræðimenntunin ákaflega mikilvægur þáttur í efnahagskerfinu. Verkfræðingar í þessum löndum eru í miklum metum. Þeir fá störf víða um heim, og þetta hefur orðið skandinavískum iðnaði ákaflega mikil lyftistöng.

Ég tel, að það sé alveg tvímælalaust verkefni fyrir íslenzk stjórnarvöld að reyna að aðstoða íslenzka verkfræðinga við að öðlast hliðstæða stöðu, vegna þess að þá skortir ekkert á í menntun og hæfni. Mér þætti fróðlegt, ef hæstv. ráðh. vildi greina frá því, hvaða hugmyndir hann gerir sér um það, hverjar greiðslur KAMPSAX muni fá. Það hljóta að liggja fyrir einhverjar almennar áætlanir um það, og væri fróðlegt að vita um það. Einnig þætti mér fróðlegt í þessu sambandi, ef hann vildi greina frá því, hversu margir erlendir verkfræðingar vinna nít að störfum í Straumsvík og við Búrfell. Það eru tiltölulega fáir íslenzkir verkfræðingar, sem starfa þar, en ég hygg, að þeir erlendu séu býsna margir, og mér er fullkunnugt um það, að verkfræðingar hér telja, að þeir eigi nú að mæta neikvæðum viðhorfum hjá hæstv. ríkisstj. Það er fullkomið alvörumál.