14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (1121)

117. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem hv. alþm. er án efa kunnugt, hefur í rúman áratug verið í gildi löggjöf, sem mælir svo fyrir, að skrá skuli æviágrip þeirra Íslendinga, sem látast, og hún varðveitt í Þjóðskjalasafni. Sá, sem haft hefur þetta starf með höndum, hefur verið nefndur æviskrárritari og hefur starfað í Þjóðskjalasafni. Þetta embætti varð laust á s.l. vetri, og þótti þá tímabært að taka þessa starfsemi, sem hefur verið gagnleg og merkileg að mörgu leyti, taka skipulag hennar til endurskoðunar. Sérstakt tilefni til þess varð það, að Háskólinn kom fyrir nokkrum árum á stofn svokallaðri erfðafræðideild til rannsóknar á vissum atriðum í sambandi við erfðir og efndi í því sambandi til nokkuð hliðstæðrar skráningar á æviatriðum Íslendinga og fór fram á vegum æviskrárritara. Þess vegna var efnt til viðræðna milli menntmrn. og Háskóla Íslands um möguleika á því að samræma þessi störf, þar eð í ljós kom, að um tvíverknað var að ræða að verulegu leyti. Leiddu þessar viðræður til þess, að samkomulag varð milli rn. og Háskólans um það að taka upp nýja skipun í þessum efnum, m.ö.o. að stofna prófessorsembætti við Háskólann til þess að annast þessa starfsemi, en leggja þá um leið æviskrárritaraembættið niður. Þegar farið var að svipast um eftir manni til þess að gegna slíku prófessorsembætti við Háskólann, þ.e.a.s. embætti, sem væri í ættfræði og mannfræði, þá þótti einsýnt að fá til þessara starfa þann Íslending, sem bezt er að sér allra Íslendinga og þótt miklu víðar væri leitað í ættfræði og þeirri mannfræði, sem ættfræðinni er skyld, en það er Einar Bjarnason núverandi ríkisendurskoðandi. Reyndist hann fús til þess að taka slíkt starf að sér. Þess vegna er þetta frv. flutt, en það gerir ráð fyrir því, að stofnað skuli við Háskóla Íslands prófessorsembætti í ættfræði og sé það tengt nafni Einars Bjarnasonar ríkisendurskoðanda, en hann skuli taka við störfum æviskrárritara samkv. gildandi löggjöf frá 1956, eftir því sem nánar sé fyrir mælt af menntmrn. að fenginni umsögn háskólaráðs. Kostnaðarauki af stofnun þessa embættis mundi ekki verða annar en sem til þess svarar, að laun prófessors eru hærri heldur en laun æviskrárritara. Hér er því í raun og veru ekki um stofnun nýs embættis að ræða, heldur það eitt, að embætti æviskrárritara er breytt í prófessorsembætti, og ætti það að vera trygging fyrir því, að sú merka starfsemi, sem fram hefur farið í Þjóðskjalasafni og á vegum Háskólans, verði betur og skipulegar af hendi leyst hér eftir en hingað til, ef þetta frv. nær fram að ganga.

Að svo mæltu vildi ég leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntmn.