06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1041 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég gat ekki orðið sammála hv. samnefndarmönnum mínum í menntmn. um afstöðu til þessa máls. Og vil ég með nokkrum orðum gera grein fyrir þeim ástæðum, sem til þess liggja.

Við 1. umr. þessa máls var nokkuð að því vikið, að þetta mál ætti að meta eftir því, hvort menn teldu ættfræði grein, sem hefði mikið gildi og ætti að leggja stund á hér með þjóðinni. Að mínu viti er þetta mál alls ekki um það, ættfræði hefur verið stunduð frá því að byggð hófst hér í landi. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að í fornbókmenntum okkar er mikið af ættartölum, og þær eru þar til stuðnings því efni, sem um er fjallað í þessum sígildu verkum, og sjálft þjóðskipulagið á þjóðveldisöld stuðlaði að því, að ættfræði skyldi stunduð og mikils metin. Þjóðveldið var í raun og veru ættarsamfélag, þar sem framkvæmdavaldið vantaði, en sú skylda var lögð á ættirnar að standa að því að fullnægja dómum og halda uppi í hvívetna rétti og heiðri ættarinnar í þjóðfélaginu. Þessi áhugi á ættfræði hefur jafnan síðan verið vakandi með þjóðinni, og við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að eiga á öllum öldum menn, sem hafa lagt stund á ættfræði og komizt mjög langt í þeirri fræðigrein, þó að hún hafi ekki til þessa verið tengd Háskólanum. Enda er það svo, að íslenzka þjóðin mun vita meira um uppruna sinn og ættir heldur en nokkur önnur þjóð í Evrópu. Þetta vil ég í upphafi leggja áherzlu á, að ég tel þetta frv. ekki um það, hvort við eigum að telja ættfræði fræðigrein, sem sjálfsagt sé að hafa í miklum metum, eða ekki.

Ég held, að þetta mál sé mjög vel skilgreint með fáum orðum í umsögn háskólaráðs um frv., en sú umsögn er prentuð hér sem fskj. með málinu. Þar segir svo: „Hér er fyrir að fara persónulegu prófessorsembætti.“ Þetta er meginefni málsins, og af þessum sjónarhól vil ég skoða þetta frv. Ef við lítum á, hvernig aðstaða verði bezt veitt til þess að sinna ættfræði, þá hljótum við að gera okkur grein fyrir því, að ættfræði er og verður fyrst og fremst rannsóknastarf, sem byggist á athugunum og rannsóknum á heimildum, sem fyrir eru, og að kannaðar séu þær heimildir, sem verða til með samtíðinni á hverjum tíma. Og hvar er nú þessar heimildir að finna? Þær eru aðallega í söfnum landsins, Þjóðskjalasafni fyrst og fremst, og e.t.v. að einhverju leyti í Landsbókasafninu. Og þær heimildir á þessu sviði, sem verða til eins og ég orðaði það áðan með samtíðinni á hverjum tíma, eru sendar þessum stofnunum, fyrst og fremst Þjóðskjalasafni. Nú eru málavextir þannig, að á undanförnum vikum hefur hér á hv. Alþ. verið fjallað um endurskoðun á löggjöf um söfnin, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn, Listasafn og Handritastofnun. Fyrir fáum dögum er búið hér í þessari hv. deild að leggja síðustu hönd á þessa lagasetningu. En var þá í sambandi við þá lagasetningu gert ráð fyrir því að breyta að einhverju leyti þeim grundvelli, sem ættfræðirannsókn hlýtur að hvíla á, og auka afskipti Háskólans af þeim málum og stuðla að því, að Háskólinn eftirleiðis hefði meira um heimildirnar að fjalla heldur en verið hefur? Nei, svo er alls ekki. Í þessum nýsettu l. er það áréttað, sem áður var í eldri löggjöf, að hlutverk Þjóðskjalasafns Íslands er að annast innheimtu og varðveizlu á öllum þeim skjalasöfnum opinberra embætta og stofnana ríkisins, sem orðin eru afhendingarskyld samkvæmt gildandi reglugerð um Þjóðskjalasafn á hverjum tíma, að skrásetja öll skjalasöfn hvert um sig og gefa út prentaðar eða fjölritaðar skrár um þau til leiðbeiningar um notkun þeirra, að safna öðrum skráðum heimildum þjóðarsögunnar innanlands og utan, þar með ljósritum slíkra heimilda, sem finnast í erlendum skjalasöfnum, að halda opnum lestrarsal fyrir almenning, þar sem hægt sé að sinna fræðistörfum og færa sér varðveitt skjöl og heimildir skjalasafnsins í nyt.

Fyrir 13 árum voru sett lög, sem enn eru í fullu gildi, en hljóta efnislega að taka breyt., ef frv. það, sem hér liggur fyrir, verður samþ. Það eru lög um skráningu Íslendinga til stuðnings mannfræði og ættfræðirannsóknum hér á landi. Í þessum l. er kveðið svo á, að gera skuli spjaldskrá yfir alla Íslendinga, sem vitað er um frá landnámstíð og ekki hafa verið færðir á spjaldskrá af Hagstofu Íslands. Þjóðskjalasafnið hefur með höndum skrásetningu samkvæmt þessum l. og til þess að annast þetta starf á vegum Þjóðskjalasafns skal ráða starfsmann, æviskrárritara, er lagt hefur stund á íslenzka ættfræði og mannfræði og sýnt hæfni og áhuga á því sviði. L. kveða enn fremur á um það, hvernig hann skuli standa að þessu starfi. Æviskrárritari skal annast um samningu spjaldskrár þeirrar, sem ég gat um, hann skal vinna að því að fá áhugamenn um þessi málefni til liðs við sig, þannig að þeir taki að sér skrásetningu í einstökum héruðum eða byggðarlögum samkvæmt fyrirsögn hans. Sömuleiðis á hann að leita til félaga, er að þessu vilja vinna, svo sem sögufélaga og átthagafélaga, og hann á enn fremur að standa í nánu sambandi við Hagstofu Íslands, en hún á að veita æviskrárritara afrit af þeim gögnum, sem hún fær varðandi látna menn o.s.frv., og embættismennirnir út um land, svo sem prestarnir, hafa á hendi skýrslugerðir annars vegar á vegum Hagstofunnar og hins vegar á vegum Þjóðskjalasafns. Með þessum l. er lagður alveg skýr og ákveðinn grundvöllur undir þá starfsemi, sem hér er um að ræða og hefur verið haldið uppi í þessu horfi s.l. 13 ár. Nú er þetta mál, sem hér er um að ræða, alveg eins og háskólaráð orðar það, að hér er fyrir að fara persónulegu prófessorsembætti. En í leiðinni, ef svo má segja, þá er ætlunin að breyta þeim grundvelli, sem ættfræðistarfsemin hvílir nú á samkv. gildandi l., losa starf æviskrárritara úr tengslum við Þjóðskjalasafn, en leggja starfið í hendur þessa prófessors, sem á að taka við starfi við Háskóla Íslands. Mér sýnist, að ef litið er á þessa skipulagsbreytingu, þá sé hún meira en hæpin. Ég hef áður rakið, hvernig grundvöllurinn er lagður, sem þessi starfsemi hvílir nú á og hún hlýtur að hvíla á framvegis, vegna þess — og ég endurtek það, sem ég sagði fyrr — að ættfræði er og verður fyrst og fremst rannsóknastarf, athugun á heimildum, sem fyrir hendi eru, og þær heimildir eru tengdar við söfnin.

En þetta frv. er bundið við nafn ákveðins manns, og ég dreg það ekki í efa, að sá maður, sem um er rætt í þessu frv., hafi unnið mjög gagnleg störf á þessu sviði, og ég dreg það ekki í efa, að það sé mikils virði, að starfskraftar hans geti notazt í sambandi við ættfræði. En nú er þess að gæta, að frv. sjálft kveður svo á, að aldurshámark opinberra starfsmanna skuli taka til þessa prófessors, en það þýðir, að hann mun ekki gegna þessu starfi nema til sjötugsaldurs. Nú hygg ég, að þessi maður sé kominn á sjötugsaldur nú þegar og að hann eigi þá ekki eftir af þeim starfstíma, sem honum verður markaður með þessari löggjöf, ef sett verður, nema eitthvað 7–8 ár af sínum starfstíma. Ég fæ ekki séð, að íslenzkri ættfræði verði eitthvað sérstaklega vel borgið með því að veita þessum mæta manni aðstöðu til þess að starfa í Háskólanum og bera prófessorsnafnbót fáein ár. Að íslenzkri ættfræði þarf að vinna ekki aðeins á allra næstu árum, heldur um langa framtíð, og að henni þarf að vinna ekki af einum prófessor, heldur að hagnýta í þágu fræðigreinarinnar svo vel sem kostur er á þann áhuga, sem til staðar er með þjóðinni í þessu efni. Ég tel því, að það væri mjög eðlilegt að halda þannig á þessu máli að veita þeim manni, sem hér er um að ræða, starfsskilyrði í tengslum við Þjóðskjalasafn til þess að verja starfskröftum sínum núna næstu árin til þess að sinna þessari grein, sem hann er áreiðanlega mjög vel fær um að leggja stund á. Og nú vill svo til, að embætti æviskrárritara er laust, og þarna virðist því vera fyrir hendi alveg opin leið að tryggja aðstöðu þessa fræðimanns og veita honum sem bezt starfsskilyrði til þess að sinna ættfræðirannsóknum án þess að gera þá skipulagsbreytingu, sem að er stefnt með þessu frv.

Þá vil ég með fáum orðum víkja að afstöðu Háskólans til þessa máls. Ég skal viðurkenna það, að ég er ekki jafn kunnugur málefnum Háskóla Íslands eins og sumir aðrir, sem sæti eiga í þessari hv. d., en það getur ekki farið fram hjá neinum, sem um þetta mál fjallar, að afstaða Háskólans til þessa máls er á þann veg, að þar hefur gætt nokkurrar varfærni, að ég ekki segi tregðu í sambandi við stofnun þessa embættis. Háskólinn hefur að sjálfsögðu mikinn áhuga á að færa út kvíarnar, fá prófessorum fjölgað og taka til meðferðar í kennslu og rannsóknum fleiri og fleiri fræðigreinar. Þetta er mjög eðlileg afstaða Háskólans, og þess er vissulega þörf í vaxandi þjóðfélagi, þar sem nýir þjóðfélagshættir og aukin tækni ryður sér til rúms, að vöxtur og viðgangur Háskólans haldist fyllilega í hendur við vöxt og breytingar þjóðfélagsins sjálfs. Og ég hef það fyrir satt, að fyrir nokkrum árum hafi á vegum Háskólans verið gerð áætlun um nokkurt tímabil um það, hve mörgum embættum skyldi komið upp á tilteknu tímabili við Háskólann og í hvaða fræðigreinum. En ég held, að það sé alveg ótvírætt, að það embætti, sem hér er fjallað um, sé ekki tekið með í þá áætlun, og það bendir til þess, að sjálfum forsvarsmönnum Háskólans hafi fundizt, að ýmislegt annað ætti að sitja í fyrirrúmi fyrir því að stofna prófessorsembætti í ættfræði.

Í umsögn heimspekideildar, sem prentuð er sem fskj. með nál. um málið frá menntmn. Nd., er beinlínis tekið svo til orða: „Loks vill deildin leggja áherzlu á, að verði hún knúin til þess með lagaboði að taka við embætti þessu, þá væri þar með í raun og veru um algjöra stefnubreytingu af hálfu hins háa Alþingis að ræða frá þeirri stefnu, sem mörkuð er í 12. gr. háskólalaganna, 1. málsgr.“ Og nokkrir af kennurum heimspekideildar skiluðu séráliti, og í áliti þeirra segir: „Við álítum, að stofnun prófessorsembættis í ættfræði við deildina sé ótímabær.“

Nú liggur það hins vegar fyrir, að lagadeild hefur fallizt á, að ættfræðiprófessorinn taki sæti í þeirri deild, ef embættið verður stofnað, en það mun koma fram í umsögn lagadeildar, að deildin leggi jafnframt áherzlu á, að stofnun þessa prófessorsembættis í ættfræði verði ekki til þess að seinka eða torvelda stofnun annarra embætta við deildina, sem Háskólinn hefur áður lagt áherzlu á, að stofnuð yrðu.

Þetta, sem ég hef minnzt á um afstöðu Háskólans eða þessara tveggja háskóladeilda, er vissulega nokkuð á annan veg en við höfum átt að venjast í sambandi við önnur frv. um fjölgun prófessora hér á hv. Alþ., þar sem fyrirsvarsmenn Háskólans sjálfs hafa að vonum átt frumkvæði að og verið miklir áhugamenn um, að þau frv. yrðu afgreidd á þann veg, sem þeir töldu bezt hæfa fyrir stofnunina.

Það má nú segja, að það sé óþarft að víkja að því, sem gerist með öðrum þjóðum í þessu efni, en þó vil ég nú leyfa mér að rifja upp nokkur atriði, sem fram hafa komið við meðferð þessa máls og sýna, hvernig staðið er að svona málum með öðrum þjóðum. Sá hæstv. ráðh., menntmrh., sem ber fram þetta frv. og beitir sér fyrir samþykki þess, er vissulega sjálfur menntamaður, og ekki aðeins það, hann er jafnframt víðförull maður. En þó mun það hafa verið svo, að menntun hans og sú þekking, sem hann hefur aflað sér af eigin sjón og raun hjá öðrum þjóðum, nægði honum ekki til þess að benda á fordæmi fyrir þessu máli. En inn í fundarsal Nd. mun hafa verið borin alfræðiorðabók, ein hin fullkomnasta, sem til er, og með því að leita í henni að dæmum hjá öðrum þjóðum, kom það í ljós, að dæmi fundust ekki um ættfræðiprófessor við háskóla á Norðurlöndum og ekki við háskóla í Bretlandi. Hins vegar mun vera sagt í alfræðiorðabókinni, að svona embætti eigi sér hliðstæður í Þýzkalandi. Eftir að þetta kom fram í umr. í Nd.. létu nokkrir kennarar við heimspekideild Háskólans frá sér fara grg., sem birt var í blöðum, og í þeirri grg. kemur það fram, að þeir hafi — eftir að þeir fengu fréttir af þessum umr. í Nd. — farið að kynna sér námsskrár og embætti háskóla í Þýzkalandi. Og í þessari grg. prófessoranna við heimspekideild eru taldir upp háskólar á 19 eða 20 stöðum í Þýzkalandi, og þar kemur það fram, að prófessorarnir hafa ekki fundið í skilríkjum frá þessum háskólum dæmi um það, að prófessor í ættfræði starfaði við þessar stofnanir. Þrátt fyrir þetta fullyrða prófessorarnir í heimspekideild ekki, að það sé með öllu útilokað, að slík embætti séu til í Evrópu. og geta þess, að þeim sé kunnugt um a.m.k. í eða 2 forstöðumenn safna, sem hafi fengið prófessorsnafnbót í skjalavörzlu og ættfræði. Ég minni á, að þetta hefur komið fram í sambandi við umr. um þetta mál, og þetta sýnir, að með þessu frv. er lagt út á braut, sem ekki er algengt að farin sé með öðrum þjóðum. Það verður því niðurstaða mín að leggja það til sem minni hl. í menntmn., að frv. þetta verði fellt, og ef hv. þd. fellst á þetta sjónarmið, þá virðist mér, að af því leiði einungis, að l., sem sett voru 1956 um æviskrárritara, starf hans og starfsgrundvöll, standi áfram óbreytt og æviskrárritari starfi samkv. þeim l. Og þar sem þetta embætti er nú laust, þá fæ ég ekki betur séð en það gæti legið vel fyrir, að sá mæti maður, sem hér er um rætt, fengi þetta starf, honum yrðu búin svo góð starfsskilyrði í tengslum við Þjóðskjalasafn sem kostur er og þannig gæti hann fengið aðstöðu til að vinna að því áhugamáli, sem hann hefur víst í hjáverkum lagt hönd að í mörg ár, og þjóðin notið starfskrafta hans þau tiltölulega fáu starfsár, sem hann á eftir, þar til hann nær aldurshámarki opinberra starfsmanna, en að ekki yrði gerð nein skipulagsbreyting í sambandi við þessi efni, heldur hvíldi ættfræðistarfið og þær rannsóknir, sem því eru tengdar, fyrst og fremst á þeim grundvelli, sem lagður hefur verið, og í sambandi við söfnin, þær stofnanir, þar sem heimildirnar eru og verða, sem þetta rannsóknarstarf hlýtur fyrst og fremst að byggjast á.