02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt 8 öðrum hv. þm. brtt. á þskj. 622. Hv. 6. landsk. þm. gerði rækilega grein fyrir þessum till. við 1. umr. frv., og ég sé ekki ástæðu til að bæta þar við löngu máli, en fáein orð vildi ég segja svona til frekari áréttingar.

Það eru byggðarlög undir Jökli sunnanvert, fámenn að vísu, á Arnarstapa og á Hellnum, og þessi byggðarlög byggja afkomu sína að miklu leyti á sjávarafla. Sá afli fæst allur á smábáta, trillur, mest á færi, en nokkuð á línu. Helztu mið þessara báta eru sunnanvert við nesið næst umræddum byggðarlögum, og á undanförnum árum hafa þau orðið fyrir miklum búsifjum af völdum dragnótabáta frá hinum stóru útgerðarstöðum. Má segja, að ásókn dragnótabáta hafi stofnað í mikla hættu afkomumöguleikum þessara byggðarlaga, enda leggja íbúar þeirra mikla áherzlu á það, að dragnótin verði með öllu bönnuð í Faxaflóa, og eru það eflaust gleðifréttir fyrir það fólk, sem býr í þessum byggðarlögum, að nú skuli í Ed. hafa verið samþ. frv. þess efnis að banna með öllu dragnótina í Faxaflóa. Og eflaust bíður þetta fólk með eftirvæntingu eftir því, að frv. verði einnig samþ. hér í þessari hv. d., þó að einhver dráttur kunni nú að verða á því og ástæðulaust að vera með allt of mikla bjartsýni í því sambandi, koma þar sjálfsagt til sögunnar ýmis sjónarmið og hagsmunir, en við skulum þó vona hið bezta.

En nú gerist það, að ofan á þau vandræði, sem þessi byggðarlög hafa orðið fyrir af völdum dragnótaveiðanna, þá bætist það, að samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, er ætlunin að taka af þessum byggðarlögum þarna undir Jökli — og þarna eiga líka hlut að máli trillumenn frá Hellissandi, sem sækja mikið á þessar slóðir, sem hér um ræðir — það á að taka af þeim drjúgan hluta af þeim miðum, sem. sjómenn frá þessum byggðarlögum hafa sótt á. Það yrði gert með því að leyfa togveiðar alveg upp undir kletta undir Svörtuloftum eða eftir endilöngu Snæfellsnesinu framanverðu. Þetta má ekki verða. Það er algert lágmark, að togveiði verði bönnuð út í mílu undan strandlengjunni þarna, þannig að smábátamenn frá byggðarlögunum undir Jökli geti sótt á þessi mið með færi sín og verið þar í friði, þegar þar er fisk að fá. Ég vænti þess, að hv. þm. sýni það með því að samþykkja þá brtt. um þetta efni, sem við níumenningarnir flytjum, að þeir séu okkur sammála um það, að nóg hafi verið níðzt á þessum fámennu byggðarlögum og nóg sé yfirleitt níðzt á fámennum byggðarlögum við strendur þessa lands, þó að þarna sé ekki þessu bætt ofan á, að taka drjúgan hluta af miðum sjómanna frá þessum byggðarlögum og ofurselja þau togveiðunum.

Varðandi aðrar till. okkar tel ég óþarft að hafa langt mál. Eins og ég sagði, gerði hv. 6. landsk. þm. rækilega grein fyrir þeim hér í ræðu sinni við 1. umr., en þetta vil ég taka fram:

Frv. það. sem hér liggur fyrir, er að mínum dómi neyðarúræði og margt í því mjög varhugavert, að ég ekki segi hættulegt, þar á meðal sú ráðstöfun að ætla togskipum stór svæði á Breiðafirðinum. Afleiðingar af slíku gætu orðið mjög alvarlegar. Afli hefur brugðizt á Breiðafirðinum nú undanfarin tvö ár, og hvað sem líður fullyrðingum formælenda togveiðanna og hvað sem líður yfirlýsingum vissra vísindamanna, þá er það almannarómur í Breiðafirðinum (og sagt hefur verið: sjaldan lýgur almannarómur), að togveiðar hafi átt einna mestan þátt í þessu, og lækningin við þessu meini sé sízt af öllu sú að lögleiða nú togveiðar þarna á stórum svæðum.

Ég hafði hugleitt að flytja þá brtt. við frv., að togveiðar yrðu með öllu bannaðar á Breiðafirði. En ég hikaði við, enda er mér vel kunnugt um það, að ákvæði um þetta í frv, er árangur af löngum og erfiðum samkomulagsumleitunum um þetta með útvegsmönnum og öðrum þeim á Snæfellsnesinu, sem helzt hafa þarna hagsmuna að gæta. Landhelgismálanefndin og aðrir þeir aðilar, sem málið snertir, höfðu lagt mikla vinnu í það að ná samkomulagi um þetta, samkomulagi að nafninu til a.m.k. Nú er hins vegar komin fram till. frá hv. þm. Vestf. um það að loka alveg helmingi þessa svæðis á Breiðafirðinum, þar sem samkv. frv. er gert ráð fyrir að leyfa togveiðar, þ.e.a.s. nyrðra svæðinu. Og verði sú till. samþ., hlýt ég — og ég þykist vita, að í því muni einnig fylgja mér flestir þm. Vesturl. — ég hlýt við 3. umr. að flytja till. um það að loka einnig syðra svæðinu, þ.e.a.s. loka þá Breiðafirðinum öllum fyrir togveiðum. Betra er, að þarna sé alveg lokað heldur en mið þau. sem næst liggja Snæfellingum og mega heita þeirra heimamið, þurfi ein að mæðast undan skemmdum og tjóni, sem kann að verða af togveiðum á Breiðafirði.

Í framhaldi af því, sem ég hef hér sagt, vil ég leggja sérstaka áherzlu á þýðingu þeirrar brtt. frá okkur nímenningunum. að lög þau, sem hér eru á döfinni, verði aðeins látin gilda til ársloka 1970 í staðinn fyrir 1971, þ.e.a.s. gildistími þeirra verði styttur um eitt ár. Ef illa fer, eins og við óttumst margir, yrði tjónið þeim mun minna, sem fyrr gæfist tækifæri til að endurskoða málið og snúa við, þar sem voði kynni að blasa við.

Hinu er svo ekki að neita, að ástand það, sem ríkt hefur í þessum málum á undanförnum árum, þegar landhelgisbrot í stórum stíl töldust sjálfsagðir hlutir, það var algerlega óviðunandi og þjóðinni til skammar. En ástæðan til þess var það stjórnleysi og það skipulagsleysi og dáðleysi, sem valdhafar þessa þjóðfélags hafa gerzt sekir um á öllum sviðum. En þetta ástand má aldrei aftur yfir okkur koma. Og því segi ég það, að þó að hér sé á döfinni löggjöf, sem mörgum virðist næsta hæpin og jafnvel háskaleg, þá hlýtur hún þó að verða til bóta frá því ástandi, sem dáðleysi og stjórnleysi valdhafanna hafði yfir okkur kallað. Niðurstaða mín, þegar ég met þetta mál, verður því sú, að svo illa má stjórna einu landi, að jafnvel hin hæpnasta löggjöf, jafnvel hin verstu lög, geti kallazt bjargráð.