02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1200 í B-deild Alþingistíðinda. (1267)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Út af skýringu þeirri, sem hv. 5. þm. Vesturl. gaf fyrir hönd Ríkisútvarpsins, vil ég leyfa mér að vekja athygli á þeim vinnubrögðum, sem fjármálastjóri Ríkisútvarpsins hefur í sambandi við afgreiðslu þessa máls.

Eins og hjá öðrum þeim, þar sem aths. voru gerðar, fékk hann í hendur aths. þær, sem yfirskoðunarmenn gerðu við reikningsfærsluna, og ég leyfi mér að þakka hv. fjhn. þessarar d. fyrir það, að hún hefur fallizt á þær og tekið undir þá afgreiðslu, sem óskað var eftir. En Ríkisútvarpið sá ekki ástæðu til að gefa skýringu þá, sem hv. 5. þm. Vesturl. er látinn gefa nú. Það var eðlilegt, eins og beðið var um, að Ríkisútvarpið léti í té útskýringu, ef einhver sérstök ástæða var fyrir þessari reikningsfærslu Ríkisútvarpsins, og eftir því var óskað í þeim fsp., sem sendar voru til Ríkisútvarpsins. Það sá hins vegar ekki ástæðu til þess að gera það, heldur sneri út úr aths. og svaraði á þá leið, að hér væri um hrapallegan misskilning að ræða, og það væri þess vegna ekki hægt að gefa svör við fsp. Ég vil taka undir það, að eftir því var leitað, hvort nokkur sérstök ástæða væri til þess, að svo var með farið. Það var hins vegar ekki skýrt, þó að það sé að koma fram nú. Hins vegar vil ég enn á ný undirstrika það, að það er gróft í farið og brot á öllum venjulegum reglum að taka þannig á máli að afskrifa 75–80% af því, sem útistandandi var, eins og Ríkisútvarpið gerði í þessi tilfelli.

Ef lesinn er reikningur Ríkisútvarpsins sjálfs, þá er þar sett upp afskrifað, en ekki fært til fyrningarsjóðs, enda er fyrningarsjóðurinn ekki talinn til eigna á reikningum Ríkisútvarpsins. Þess vegna er ég að undirstrika það, að meðferð málsins af hendi Ríkisútvarpsins er mjög skrýtin og hlýtur að vera í einhverjum ákveðnum tilgangi gerð. Það hefði verið eðlilegra að gefa þær skýringar, sem á vissan hátt gátu skýrt málið, eins og þá, að svo og svo mikið hefði verið útistandandi vegna þess, að aukaútsending hefði verið á innheimtunni. Það var enginn hlutur eðlilegri en að skilja það, og hefði verið tillit til þess tekið. Til þess sá Ríkisútvarpið ekki ástæðu, heldur svaraði fsp. að verulegu leyti út af, og þess vegna verður það að gefa núna út aukaskýringar á máli sínu. Ég vona, að Ríkisútvarpið eða fjármálastjóri þess sjái ástæðu til að breyta þessum vinnubrögðum, og endurtek það, sem áður hefur komið fram og hv. d. hefur tekið undir með afgreiðslu ríkisreikningsins við 2. umr., að þessi vinnubrögð eru óeðlileg og óvenjuleg og þeim verður að breyta.