06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal á þessu stigi ekki hafa mörg orð um þetta mál, sem hér er til umr., ríkisreikninginn 1967. Eins og hæstv. fjmrh. gat um, hafa yfirskoðunarmenn reikningsins gert við hann nokkrar aths., og að fengnum svörum ráðh. gert till. til Alþ. um það, hvernig málið skuli afgreitt. Ég held, að það sé misskilningur hjá hæstv. fjmrh., og reyndar veit ég, að það er ekki misskilningur, heldur nánast ónákvæmt orðalag, þegar hann talaði í því sambandi um úrskurð yfirskoðunarmanna. En hér er auðvitað ekki um það að ræða, að þeir úrskurði eitt eða neitt í þessu sambandi, heldur gera þeir aðeins till. um það, hvernig með málin skuli farið á Alþ., en Alþ. er á allan hátt óbundið af þeim till., sem yfirskoðunarmenn ríkisins gera í þessu efni.

n., sem fær málið til meðferðar hér, athugar það að sjálfsögðu sjálfstætt, hvort hún telur þau svör, sem ráðh. kann að hafa gefið við hverri aths. fullnægjandi eða ekki, alveg án tillits til þess, hvað yfirskoðunarmenn reikninganna hafa um það talið. Þetta mál er þannig vaxið, að það er náttúrlega eðlilegt, að það sé um það fjallað fyrst og fremst í n., sem fær það til meðferðar og þar séu fengnar þær upplýsingar, sem þurfa þykir og síðan fari svo fram þær umr. um málið hér á þinginu í heyranda hljóði, sem ástæða þykir til.

En ég vil þó á þessu stigi fyrst og fremst gera eina aths., og það er sú aths., sem mér finnst langalvarlegust af aths. yfirskoðunarmanna, þó að þeir reyndar, að því er virðist, sætti sig við svar rn., en hún er um ríkisendurskoðunina og hvernig henni er háttað.

Eins og fram kemur í 20. aths. yfirskoðunarmanna og upplýst er samkv. svari ríkisendurskoðunarinnar sjálfrar, þá á eftir að endurskoða mjög mikið af þeim reikningum, sem liggja til grundvallar þessum ríkisreikningi, sem hér er upp gerður og lagður fram. Það er mjög skilmerkilega gerð grein fyrir því einmitt í svari frá ríkisendurskoðuninni, að þannig sé þessu háttað. Þar er birt yfirlit um reikninga ríkisstofnana, embætta o.fl., sem ekki hafi verið endurskoðaðir fyrir árið 1967 og sumir einnig frá eldri árum, og þetta eru hvorki meira né minna en 25 stofnanir eða embætti, sem mér telst til, að séu þarna óendurskoðaðar af ríkisendurskoðunarinnar hálfu fyrir árið 1967 og jafnvel sum frá eldri árum. Þessi fyrirtæki, sem þarna er um að tefla, eru auðvitað misjafnlega mikilvæg, en sum hver þó óneitanlega mjög þýðingarmikil. Jafnframt kemur það fram, að í þeim innheimtuembættum, sem um er að tefla, þ.e.a.s. í embættum sýslumanna, bæjarfógeta og lögreglustjóra utan Reykjavíkur sé endurskoðunin ekki komin lengra en svo, að það hafi verið lokið endurskoðun fyrir árið 1967 í aðeins S embættum. En að vísu sagt, að lokið sé endurskoðun í öllum embættum til ársloka 1966.

Ég held, að það liggi í augum uppi, að það er ákaflega óheppilegt, að endurskoðun ríkisendurskoðunarinnar sé svo löngu á eftir. Eitt af þeim boðorðum, sem yfirskoðunarmönnum ríkisreikninganna er gefið í 43. gr. stjórnarskrárinnar er það, að þeir eigi sérstaklega að gæta að því, að allar tekjur ríkisins séu innheimtar, en það liggur í augum uppi, að það er ekki á valdi sjálfra yfirskoðunarmannanna að framkvæma þá athugun persónulega. Þess vegna verður í framkvæmdinni að byggja á því, alveg eins og um hina tölulegu endurskoðuð yfirleitt, að hún sé framkvæmd af ríkisendurskoðuninni. En það er hins vegar auðsætt, að þegar ríkisendurskoðunin hefur ekki endurskoðað þetta, þá hafa yfirskoðunarmennirnir í raun og veru ekkert að byggja á, og þá hefur þeirra verk að sjálfsögðu takmarkað gildi. Ég held, að það verk, sem svona er unnið, sé ekki líklegt til þess að bera mikinn árangur. Ég held einnig, að í sambandi við þessi reikningsskil og þær aths., sem hér er um að ræða, sé það langsamlega alvarlegasta aths., að það fer ekki fram endurskoðun hjá hinum einstöku fyrirtækjum og embættum af hálfu ríkisendurskoðunarinnar fyrr en löngu eftir á og ekki fyrr en búið er að loka ríkisreikningum og leggja þá fram og samþykkja á Alþ. Þetta er auðvitað mjög óviðkunnanlegt og alveg óviðunandi. Þetta er auðvitað engum ljósara en ríkisendurskoðuninni sjálfri, og þess vegna kemur einmitt fram í hennar aths. eða svari við aths. það, að hún er mjög óánægð yfir því, að ekki skuli hafa tekizt að gera hér betur, og hún bendir á ástæður sínar fyrir því. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að benda á það alveg sérstaklega, sem ríkisendurskoðunin segir um þetta atriði, en hún segir m.a.

„Hér verður að geta þess, að forstöðumönnum ríkisendurskoðunarinnar er vel ljóst, hve óheppilegt er, að ekki skuli vera hægt að ljúka meiru af endurskoðuninni á viðunandi hátt en raun ber vitni, en ástæðan til þessa er að langmestu leyti skortur á starfskröftum. Þá hefur ekki tekizt að fá fyrir þau kjör, sem ríkisendurskoðunin getur boðið. Þetta hefur launasamninganefndinni verið gert ljóst fyrir töluverðu á annað ár síðan, og raunar hefur henni verið bent á það fyrr.“ Síðan segir: „Meðan svona stendur er ekki hægt að ljúka þeim störfum, sem ríkisendurskoðuninni er ætlað að ljúka, á sæmilegan hátt, hvað þá á þann hátt, sem æskilegt væri.“

Ég verð að segja það, að þetta er harður dómur. Það er ástæða til að staldra við í tilefni af þessum upplýsingum, sem koma frá ríkisendurskoðuninni, og velta fyrir sér, hvort það sé ekki kostandi til eitthvað meiru til þess að fá þessum málum kippt í lag. Því ef þau eiga að vera með þessum hætti, sem verið hefur, þá sýnist mér, að takmarkað gagn muni vera að, og það er alveg augljóst, að þá getur ríkisendurskoðunin ekki veitt stofnunum og embættum það aðhald, sem hún á að gera og nauðsynlegt er, að hún geri. Ég held, að þetta sé atriði, sem hv. n., sem fær ríkisreikninginn til meðferðar, eigi alveg sérstaklega að taka til athugunar. Þessi athugasemd og það, sem ábótavant er að því leyti, þykir mér í sjálfu sér enn varhugaverðara en ýmsar þær einstöku athugasemdir, sem hér koma fram varðandi einstök embætti og stofnanir.

Ég vil þó aðeins, út af því sem hæstv. ráðh. vék hér að, geta um þær eftirstöðvar, sem standa inni hjá sýslumönnum og innheimtumönnum öðrum um áramót, þ.e. sem taldar eru greiddar inn til þeirra, en ekki innkomnar í ríkissjóð. Mér virtust þær skýringar, sem hæstv. ráðh. gaf þar á, ekki vera fullnægjandi. Þær skýrðu að vísu nokkuð og eru eðlileg skýring, svo langt sem þær ná, en hins vegar eru þær ekki skýring á því hversu óeðlilega það dregst hjá tilteknum embættum að skila þessu að því er virðist og að því er sagt er í þessum aths. Satt að segja finnst mér það svo ótrúlegt, sem þar stendur um það efni, að ég á eiginlega bágt með að trúa því. (Fjmrh.: Vildirðu gjöra svo vel og endurtaka þetta.) Já, ég sagði, að það hefðu komið fram skýringar af hálfu fjmrh. á því, hvernig stendur á þessum eftirstöðvum, og þær skýra að vísu nokkuð, en eru þó ekki fullnægjandi að mínum dómi, og sérstaklega ekki að því leyti til, að það er talið, að það hafi dregizt svo óeðlilega lengi hjá einstökum embættum að skila innheimtufénu. Það hefur dregizt svo óeðlilega lengi, að ég sagði, að ég ætti eiginlega bágt með að trúa því, að þetta væri rétt.

Það vill nú svo til, að það hefur einn sýslumaður við mig talað í þessu sambandi. Hann vildi nú telja, að hann hefði skilað mun fyrr en sagt er þarna í þessum aths. Ég veit ekki, hvort þetta getur farið eitthvað milli mála í bókhaldi eða einhverjum millifærslum, en ef þetta er rétt, að þessu sé ekki skilað fyrr en þarna stendur, þá vantar náttúrlega skýringu á því, hvernig á því stendur, að þeir halda þessu svona lengi hjá sér. Hitt getur auðvitað verið, og það þekkir maður, að það sé tekið á móti einhverjum greiðslum frá þessum embættismönnum í janúar eða a.m.k. næstu daga frá áramótum, sem þeir færa greiddar fyrir áramót. Það er kannske ekki rétt, en afsakanlegt, en hins vegar finnst manni þá, að það fé ætti að koma til skila tiltölulega fljótt.

Það er hér gerð sérstök aths. við eitt embætti, embætti húsameistara ríkisins, og það sem þar er gerð athugasemd við m.a. eru bifreiðastyrkir, þeir taldir óhæfilega miklir, leigubifreiðar jafnframt meiri en góðu hófi gegnir og bifreiðastyrkir þessir jafnvel veittir, að mér skilst, án þess að samráð hafi verið haft um það við fjmrn. eða viðkomandi rn. Ég skal nú ekkert segja um það, hvernig þessu er háttað hjá þessu embætti, ég hef ekki aðstöðu til þess að dæma þar um, en þó hvarflar að mér, að hv. yfirskoðunarmenn hafi ekki ráðizt í þessu efni á garðinn, þar sem hann var hæstur.

Ég held, að bifreiðakostnaðurinn hjá hinu opinbera sé mjög varhugaverður og óeðlilegur, og ég og ýmsir fleiri hafa gagnrýnt það, að ýmsum embættismönnum er fengin til afnota ókeypis bifreið og aðrir starfsmenn margir hverjir fá bifreiðastyrki. Þetta allt virðist gert af fullkomnu handahófi. Það má segja, að þetta, sem þarna er bent á í sambandi við þetta eina embætti, sé ekki nema spegilmynd af því, sem títt er í þessum efnum, að því er mér virðist. Satt að segja hafði ég haldið í minni fáfræði, að bifreiðakostnaðurinn hjá hinu opinbera væri einna varhugaverðastur hjá stjórnarráðinu sjálfu, og það hefði verið kannske allra mesta ástæðan fyrir yfirskoðunarmenn að gera aths. við það, því það er alkunnugt, að ráðh. hafa bíl og sumir ráðh. hafa bílstjóra að auki. Ég hygg, að ýmsir starfsmenn rn., æðri og kannske lægri, hafi ýmist bifreiðar eða bifreiðastyrki. Ég vil einmitt í tilefni af þessari aths. sem hefur verið gerð þarna varðandi þessa bifreiðastyrki hjá þessu eina embætti spyrja hæstv. ráðh., hvort honum hafi nokkuð miðað við það að setja almennar reglur um þetta efni. En hæstv. ráðh. hefur látið þau orð falla í öðru sambandi, þegar mál þessi hafa verið rædd, að hann hafi skipað n. til þess að fjalla um þetta mál, og mér hefur skilizt, að frá þeirri n. eða ráðh. væri að vænta setningar almennra reglna um þetta efni, um bifreiðar í opinberri eigu og notkun þeirra og um það, hvaða opinberir starfsmenn eigi að fá bifreiðastyrk. Ég held, að það sé alveg óviðunandi, að um þetta efni séu ekki fastar reglur. Ef það eru ekki fastar reglur um það, þá verður handahóf á þessu og mismunandi hættir tíðkast þá í þessum efnum hjá hinum ýmsu embættum, og jafnvel gert upp á milli manna með þessum hætti. Þessu þarf að kippa í lag og sú aths., sem hér hefur verið gerð varðandi þetta eina embætti, minnir á þá nauðsyn, sem á því er að setja fastar og almennar reglur um þetta. Ég verð að segja það, að það væri nú ólíkt verðugra viðfangsefni fyrir hæstv. fjmrh. — og reyndar þykist ég vita, að honum mundi finnast það skemmtilegra viðfangsefni — en vera í stríði við hina lægra launuðu ríkisstarfsmenn út af nokkrum vísitölustigum. Ég held nefnilega, að í sambandi við þessi bifreiðamál hins opinbera eigi sér stað mikil óþrif, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið, og þetta, sem þarna er flett upp á, sé aðeins dæmi af því, sem víðast muni vera hægt að finna, kannske sérstaklega athyglisvert dæmi, um það skal ég ekki fullyrða, en áreiðanlega er víðar pottur brotinn í þessu efni.

Ég vildi aðeins láta þessi orð falla um þessa aths. til þess að gefa fjmrh. tækifæri til þess að upplýsa, hvernig þessi bifreiðamál almennt eru á vegi stödd. Að öðru leyti mun ég ekki ræða um þessar aths., sem gerðar eru þarna við ríkisreikninginn, en legg áherzlu á það, eins og ég áðan sagði, að þarna er að lokum aðeins um till. yfirskoðunarmanna til Alþ. að ræða, en sú n., sem málið fær til meðferðar, framkvæmir auðvitað á því sjálfstæða athugun alveg án tillits til þessara till. yfirskoðunarmanna og getur gert sínar till. um það, ef hún telur ástæðu til. Ég tel málið þannig vaxið, eins og ég sagði í upphafi, að það sé eðlilegast, að sú gaumgæfilega athugun, sem á þessu fer fram, fari fram í fjhn., sem fær málið til meðferðar. Að allra síðustu undirstrika ég það, sem var tilefnið til þess að ég stóð upp, en það er að vekja athygli á, hversu ríkisendurskoðuninni er ábótavant að þessu leyti. Henni er ekki ábótavant að því leyti, að hún er góð, það sem hún nær, en henni er ábótavant að því leyti, að hún hefur ekki framkvæmt nema að nokkru leyti það verk, sem hún átti að framkvæma og hefði átt að vera búin að framkvæma, þegar þetta mál er lagt fyrir Alþ. til meðferðar, og hún á að vera búin að framkvæma, þegar yfirskoðunarmenn vinna sitt verk, því þeir verða að byggja á þeirri athugun, sem framkvæmd er af ríkisendurskoðuninni. Ef þeir hafa ekki þann grundvöll fyrir sínu starfi, þá verður engan veginn það gagn af þessari athugun þeirra, sem skyldi og þá geta þeir naumast veitt það aðhald, sem ætlazt er til.

Þetta er ekkert hégómamál, því það er einmitt lögð sérstök áherzla á þetta í sjálfri stjórnarskránni, og það má segja, að það sé heldur þýðingarlítið að vera að eyða hér ákaflega löngum tíma í það að samþykkja og afgreiða fjárl., gera áætlun þannig fyrir fram með ítarlegum hætti og kostnaðarsömum vinnubrögðum, ef það er ekki svo hægt að fylgjast með því á eftir með æskilegum og skilmerkilegum hætti, að þeirri áætlun. sem gerð var fyrir fram, hafi verið fylgt. Það er auðvitað það, sem er hlutverk yfirskoðunarmanna fyrst og fremst. Það er að gæta þess, að innheimtar hafi verið allar ríkistekjur, að farið hafi verið eftir lögum og lagaheimildum um útgjöld öll og gætt hafi verið ítrasta sparnaðar í meðferð fjár. En þetta geta þeir aldrei fyllilega gert, nema þeir hafi við að styðjast þá endurskoðun, sem hlýtur að vera framkvæmd af þeirri föstu endurskoðunarskrifstofu, sem þannig á að starfa að þessu, en starf yfirskoðunarmannanna hefur alltaf verið aukastarf. Það er ekki hægt að segja, að það þyrfti endilega að vera það, það mætti gera breytingu á því„en það hefur alltaf til þessa verið algjört aukastarf.