06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1215 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil leggja hér nokkur orð í belg, einkum vegna orða hæstv. ráðh. nú í lokin, þar sem hann ræddi um bílastyrkina og merkingu á bifreiðum ríkisins. Í vetur var ég með fsp. í Sþ. um þessi mál, og þá lýsti hæstv. ráðh. yfir, að hann mundi halda áfram að vinna að þessum málum, og ég vil þakka honum fyrir það, sem hann var að segja hér áðan, því að hér mun áreiðanlega hafa verið stigið mikið skref fram á við varðandi það að koma fastri skipan á þessi mál með því að merkja bílana. Stærsta vandamálið til úrlausnar, eins og hann drap á, er kannske þessi hópur, sem flokkast undir forstjórabifreiðar, að meta það rétt og ganga frá því máli. Það er ekkert óeðlilegt, að það gangi nokkuð seinna með það, en þetta er sannarlega mikið skref fram á við miðað við það, sem var. Það kom fram í svari ráðh. bæði í vetur og mig minnir í fyrra, að um þetta hefur verið mikil ringulreið og menn hafi leikið nokkuð lausum hala með þessa bíla og enginn veit, hver á þessar bifreiðar, því að þær eru yfirleitt ekki merktar, nema hjá Pósti og síma man ég eftir og kannske einhverjum fleiri stofnunum. Sem heild hafa merkingar verið á mjög lágu stigi. Það er því ástæða til að fagna því, að það heldur áfram í áttina að leysa þetta viðkvæma mál. Ég vil líka taka undir orð 3. þm. Norðurl. v. um það, að hér þarf að halda áfram, og ég veit það og vona, að það verði gert.

Það mætti spyrja um ýmislegt fleira varðandi afgreiðslu á ríkisreikningnum. Það mætti spyrja um yfirvinnu í ríkisstofnunum, vegna þess að við sjáum á nokkrum stöðum, að yfirvinna er veruleg, og það fylgir þessu ekki nein sérstök skýring. Það má spyrja: Var eitthvert sérstakt álag, voru veikindaforföll, eða hvað orsakar yfirvinnu sumra ríkisstofnana upp á hundruð þúsunda eða jafnvel hærri tölur?

Það mætti líka spyrja um utanfarir manna og ýmislegt fleira, það er hérna listi um óviss útgjöld í sambandi við n. og þess háttar. Allt þetta þyrfti raunverulega að liggja fyrir, a.m.k. að einhverju leyti, samandregið, þannig að menn gætu séð, hvað þessar tölur næmu miklu hjá viðkomandi stofnunum og gert á þessu samanburð frá ári til árs.

Maður heyrir sagt að sumar stofnanir hafi mikla yfirvinnu og aðrar minni yfirvinnu. Nú þegar mikill hluti manna, sem koma frá skólakerfinu fá ekki atvinnu, kemur sú spurning fram, hvort nauðsyn sé, að svo mikil yfirvinna eigi sér stað í stofnunum, eða hvort það væri hægt að skipuleggja þetta þannig betur, að einhverjir fengju atvinnu og yfirvinna minnkaði. Hér er um mikið vandamál að ræða, sem við fáum litlar upplýsingar um. En ég vildi vekja athygli á því, að yfirvinna er mjög misjöfn hjá ríkisstofnunum, og um þetta þyrfti að koma nokkur greinargerð. Eins er utanfararkostnaður allverulegur hjá sumum stofnunum og væri ekki óeðlilegt að fá um það yfirlit fyrir árið 1967 til samanburðar, svo að kæmi fram síðar meir, hvernig þessi kostnaður væri. Ég vil nú ekki lengja umr. um það, vildi vekja athygli á þessum þáttum.

Að lokum fyrir forvitni sakir: Það kemur hér fram, að greiðsluábyrgð ríkissjóðs 1967, greitt vegna ríkisábyrgðar, varð alls 112 milljónir nettó. Liggur fyrir varðandi árið 1968 einhver breyting til batnaðar eða er þetta alltaf hálfgert vandræðabarn, eins og verið hefur? Maður sér nú, að sumir hafa greitt nokkuð vel, en aðrir ekki, hvernig er þessi hreyfing? Hér eiga nú hlut að máli fjöldamörg útgerðarfyrirtæki, og væri ekki úr vegi að fá að vita um, hvort von er í einhverju til baka eða hvort þetta afskrifast með tímanum?