09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

234. mál, mat á sláturafurðum

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd., og eins og í 1. gr. frv. segir, þá er gert ráð fyrir, að í staðinn fyrir 3 ár, bráðabirgðaákvæði í l. um meðferð sláturafurða, skuli koma 5 ár. Þetta bráðabirgðaákvæði var sett í l. vegna þess, að mörg af sláturhúsunum uppfylltu ekki til fulls þau skilyrði, sem sett eru fyrir löggildingu sláturhúsa. En þar er m.a. kveðið svo á, að þar skuli vera möguleiki til að frysta og kæla kjötið og annað það, sem tilheyrir útbúnaði sláturhúsa, til þess að þau uppfylli allar kröfur, sem gerðar eru. Enda þótt sum sláturhúsin uppfylli ekki allar þær kröfur, sem gerðar eru til löggildingar, geta þau eigi að síður verið góð að því leyti, að þar geti farið fram slátrun með fullkomnu hreinlæti. Og að því er stefnt, að svo megi verða, enda verður dýralæknir á hverju hausti að skoða sláturhúsin og gefa meðmæli til þess, að heimilt sé að veita undanþágu í hvert sinn. Síðan l. voru sett fyrir þremur árum, sem gerðu auknar kröfur á hendur sláturhúsunum, hefur verið mikið unnið að því að endurbæta þau. Það skal viðurkennt, að það er margt ógert enn, og er ekki hugsanlegt, að því takmarki verði náð, sem stefnt er að, fyrr en í fyrsta lagi

eftir tvö ár. Þess vegna er þetta frv. flutt af nauðsyn, þannig að ekki þurfi slátrun að falla niður í einstökum héruðum, sem ekki hafa sláturhús, er uppfylla fyllstu kröfur.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.