13.05.1969
Efri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1251 í B-deild Alþingistíðinda. (1339)

250. mál, vegalög

Frsm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Samgmn. kom saman til fundar í morgun og athugaði frv., og eins og fram kemur í nál. 741, eru menn sammála um að mæla með stuðningi við frv., en einn nm.. 1. þm. Vesturl., ritar þó undir með fyrirvara.

Ég þarf raunverulega ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Hæstv. samgmrh. gerði grein fyrir frv. hér í d. í gær. Þar kemur fram. að aðalefni þess er hækkun á benzínlítra um 1 kr. til að mæta auknum tekjum, vegna þess að þörf er á auknum tekjum í vegakerfið um allt land, og það munu allir landsmenn njóta þess. Tekjuaukning á tímabilinu frá 1969 til 1972 er áætluð um 260 millj., og samkv. yfirliti, sem ég fékk rétt áðan frá fjhn., mun það skiptast þannig, að alls munu fara í þjóðbrautir 96.6 millj., en 193 á landsbrautir. Mér skilst, að það hafi verið búið að ræða þessa tekjuaukningu í þingflokkunum áður og hún hafi verið samþ. þar vegna nauðsynjar á því að gera átak í vegamálunum og raunverulega sé því samstaða um þetta mál í heild, þó að í svona stóru máli geti komið fram lítils háttar mismunandi sjónarmið varðandi einstaka vegi eða vegarspotta, en því miður fær Ed. í þessu máli, eins og fleirum, nauman tíma, og við áttum þess ekki kost að kryfja þetta mál til mergjar og leggjum það því til stuðnings, eins og fram kemur á þskj. 706 eftir umr. í Nd. Ég vildi biðja hv. dm. að líta á það og bera saman við frv. sjálft. Að svo mæltu mæli ég með stuðningi við frv. og hef þessi orð ekki fleiri.