17.10.1968
Neðri deild: 3. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1259 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh., er æðilangt síðan þessu máli var fyrst hreyft hér á hv. Alþ. og það því verið alllengi í athugun, bæði hjá fyrri ríkisstj. og þeirri, sem nú situr. Og niðurstaðan er það frv., sem hér liggur nú fyrir. Það kom fram af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að menn hafa yfirleitt verið sammála um, að það væri skynsamlegt að setja löggjöf um Stjórnarráðið, fyrirkomulag þess, og færa þannig fastari skipan á starfsrækslu þess. Ég vil lýsa því yfir, að ég tel það til bóta að setja löggjöf um það efni.

Um þetta frv. vil ég fara örfáum orðum. Mér finnst vera í því þrjú nýmæli, sem ástæða er til að minnast á. Þau eru að vísu fleiri, en þau eru smá og staðfesting á þeim venjum, sem myndazt hafa.

Mér finnst nýmælin vera þessi: Í fyrsta lagi að lögfesta rn., hversu mörg þau skulu vera og ekki megi setja á fót ný rn. nema með l. Þetta finnst mér vera til bóta. Ég vil ekki á þessu stigi málsins fullyrða, að það sé nákvæmlega hitt á rétta punktinn um fyrirkomulag rn. í þessu frv. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess að íhuga það svo, að ég sjái ástæðu til að lýsa yfir einhverju um það, en mér sýnist, að í þessu sé nokkur varnagli líka um það, að framkvæmt verði smátt og smátt það, sem gert er ráð fyrir, að endanlega verði um skipan rn., því að heimilt er að hafa sama ráðuneytisstjóra fyrir fleiru en einu rn. fyrst um sinn eftir því, sem ástæða þykir til. Mér sýnist þetta ákvæði skynsamlegt. Þá þarf ekki að rjúka til undir eins og setja upp sérstakar skrifstofur og ráðuneytisstjóra fyrir öll þessi rn., sem hér eru ráðgerð, heldur má gera það eftir því, sem hagkvæmt þykir smátt og smátt. Þar að auki er það náttúrlega engin bylting, sem gert er ráð fyrir í frv. varðandi rn. eins og forsrh. réttilega gerði grein fyrir. En sem sagt, þetta fyrsta nýmæli finnst mér vera til bóta.

Annað atriði, sem ég mundi vilja kalla nýmæli, er að setja í lög, að skipta rn. ekki upp á milli ráðh., þegar samsteypustjórnir eru, og þær eru nú yfirleitt ætíð hjá okkur. Fljótt á litið sýnist mér þetta muni líka vera til bóta, því að það hefur valdið verulegum vandkvæðum, að niðurstaðan hefur orðið sú í þessum samningum um samsteypustjórnir að tæta rn. nokkuð í sundur. Ég held, að menn hefðu bara gott af því aðhaldi, sem lagaákvæði um þetta veittu, og ætti að vera hægt að koma fyrir skynsámlegri verkaskiptingu, þótt margir flokkar eigi hlut að máli eða fleiri en einn, þó ekki væru skorin í stykki rn. Ég mundi því telja, að þetta atriði væri líka til bóta.

Þriðja breytingin, sem mér sýnist í þessu vera, er sú, að ráðh. fái heimild til þess að kveðja sér til aðstoðar trúnaðarmenn, sem sitji með þeim í Stjórnarráðinu á meðan þeir eru. Það er meginstefnan í þessu ákvæði. Þetta ákvæði tel ég líka vera til bóta og hefði átt að vera komið í lög eða a.m.k. hefði átt að vera orðin föst venja fyrir löngu. Á þessu hljóta allir þeir menn að hafa skilning, sem einhvern tíma hafa setzt í ráðherrastól. Eins og forsrh. réttilega tók fram, hefur þessu verið hnikað til með ýmsu móti, en stundum orðið að grípa til annarra en hinna æskilegustu aðferða til þess að koma þessu þannig fyrir. Sumir hafa kannske heldur alls ekki getað komið þessu fyrir eins og þyrfti að vera.

Ég álít, að ráðh., hverjir sem þeir eru, veiti sízt af því að hafa með sér einn handgenginn trúnaðarmann, sem þeir geta valið algerlega sjálfir, og þá pólitískan samherja sinn. Hafa mann með sér í því starfi, að notfæra sér embættis- og sérfræðingakerfið, ekki sízt eins og það er orðið. Ég held, að það veiti sízt af því, að nýr ráðh. t.d. eigi kost á því að koma með slíkan mann með sér þegar í stað. Ég tel, að á þessu sé hin ríkasta nauðsyn, að haga þessu svo. Margar þarfir kalla að hjá ráðh., og þetta fyrirkomulag ætti að taka upp hreinlega undanbragðalaust. Ráðh. eiga þá t.d. betra með að glíma við það eilífðarinnar vandamál allra ráðh. á öllum tímum, að hafa samband við þjóðlífið í öllum þess margbreytilegu myndum og ég vil segja samband við sitt eigið þinglið og sitt eigið stuðningslið. Þetta er sífellt vandamál, sem allir ráðh. eiga við að glíma, að þeir ekki slitni beinlínis úr sambandi við það, sem þeir þurfa að hafa tengsl við. Það er ekki aðeins, að þeirra vandi liggi í því að notfæra sér embættismannakerfið og sérfræðingakerfið og láta það ekki buga sig o.s.frv., heldur kemur einnig til þetta stórkostlega vandamál, að sinna þeim geysilega margbreytilegu málum, sem að kalla, anna þó samt, að slitna ekki úr sambandi við þjóðlífið og við sitt eigið þinglið og sitt eigið stuðningslið. Kröftugur trúnaðarmaður af sama sauðahúsi og ráðh. mundi geta gert mikið gagn í öllum þessum efnum.

Það gæti verið freistandi í þessu sambandi að ræða um önnur efni hliðstæð, en ég ætla ekki að blanda þeim inn í þetta, því það verður sjálfsagt rætt um þau sérstaklega. Það eru hliðstæð vandamál annars staðar í okkar stjórnkerfi, sem þarf endilega að leysa og m.a. sum í þessari stofnun, þ.e.a.s. í Alþ. Það er ekki nokkur vafi á því, að það verður að vinda bráðan bug að því að bæta starfsskilyrði þm. og þingflokka, ég vil segja eitthvað í svipaða stefnu og hæstv. ríkisstj. leggur til með þessu frv., að bætt sé starfsaðstaða í Stjórnarráðinu, þeirra pólitísku manna, sem þar eiga að vera og þar eiga að stjórna. En ég skal ekki blanda því neitt inn í þetta, því að ég mun styðja þetta frv. og þetta ákvæði og þau önnur, sem ganga í hliðstæða átt einmitt varðandi það, að ráðh. fái að njóta sín. Og ég vil ekki tengja þann stuðning við neitt annað, aðeins í þessu sambandi minna á, að það eru óleyst vandamál varðandi aðstöðu Alþ. og þm. og þingflokka til starfa, sem þarf að ganga í að leysa. Ég hef flutt þáltill., sem ég ætla, að geti orðið til þess, að það mál yrði rætt, áður en langt um líður.

Ég er stuðningsmaður þessa frv. í höfuðdráttum eins og greinilega hefur komið fram af því, sem ég hef þegar sagt.