17.10.1968
Neðri deild: 3. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1263 í B-deild Alþingistíðinda. (1350)

2. mál, Stjórnarráð Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þessari fsp. er fljótsvarað á þann veg, að um þetta mál er í raun og veru ekki mikið meira að segja nú heldur en sagt var á síðasta þingi. Ég hygg, að þá hafi verið borin fram fsp. um það, og aðalefni þess, sem þá kom fram, er, að nú eru fyrir hendi uppdrættir að byggingu, sem virðist nokkurn veginn fullnægja þeim hugmyndum, sem framkvæmanlegar eru í þessum efnum. Fyrri till. voru miklu stærra hús, að undir það áttí að taka meira af lóðum, sem sumpart voru ekki í ríkisins eigu, hafa húsið bæði stærra að flatarmáli og hærra heldur en samrýmist síðasta skipulagi, skipulagsuppdráttum Reykjavíkurbæjar, og þar sem viðleitnin var sú að sameina allar stjórnarskrifstofur í einni byggingu. Frá þessu eru menn nú endanlega horfnir. Og ég hygg, að snemma á síðasta ári hafi þessir uppdrættir verið lagðir fram. Af ýmsum ástæðum, kosningum, sem voru fyrirhugaðar á árinu 1967, og síðan — við getum sagt — miklum önnum við að afgreiða aðsteðjandi vandamál, hefur það dregizt lengur en góðu hófi gegnir að taka um þetta endanlega ákvörðun, og við erum ekki mikið lengra komnir í því heldur en við vorum á s.l. vetri. En til viðbótar er hægt að segja, að leitað hefur verið eftir skoðunum fróðra manna, ef svo má segja, á hagnýtingu þess skrifstofurýmis, sem þarna er ætlað, hvort það sé eins æskilegt eða hagnýtt eins og nútímakröfur standa til. Að vísu má segja, að eðlilegt væri, að arkitektarnir hefðu haft þetta í huga við sína tillögugerð, og það hafa þeir vafalaust haft að verulegu leyti, en það þótti þó að athuguðu máli eðlilegt, að þetta yrði sérstaklega skoðað af embættismönnum Stjórnarráðsins. Það vill þannig til, að í morgun fékk ég frumathugun frá einum embættismanni um þetta. Mér hefur ekki einu sinni gefizt tími til þess að lesa það, en minn hugur hefur staðið til þess, að mjög bráðlega yrði hægt að taka ákvörðun um þetta efni. Auðvitað má endalaust deila um útlit bygginga og stærð og slíkt, en mér sýnist þetta í skaplegu horfi, og ef nú verður ekki kveðin upp fordæming af þessum hagsýsluráðunautum um þær till.. sem fyrir hendi eru, vonast ég til þess, að hægt sé að leggja uppdrættina til grundvallar og þá snúa sér í alvöru að framkvæmd byggingar, sem ég tel bæði af þeim ástæðum, sem hv. þm. gat um, og öðrum ástæðum, að sé orðið fyllilega tímabært að hrinda áleiðis og megi raunar segja, að hafi dregizt óhæfilega að ganga frá.

Það er alltaf hægt að finna afsakanir, en menn hafa látið þetta oft mjög sitja á hakanum fyrir öðru, og ég játa það með hv. 1. þm. Norðurl. e., að það hefur orðið meiri dráttur á samningu þessa frv. heldur en æskilegt hefði verið. Skýringin á því, — hann var ekki með neinar ásakanir á hendur stjórninni af þeim sökum, en það er rétt, að það komi fram, að það er mest mér að kenna, að þetta hefur dregizt. Það voru þrír ágætir menn settir í n. til þess að gera um þetta till. Mér líkuðu ekki þeirra till., ekki vegna þess að þær væru ekki góðar svo langt, sem þær náðu, en að vísu náðu þær of langt í sumum efnum að mínu viti, með því að fara að skipta með l. upp störfum á milli einstakra stjórnardeilda. Ég tel samt, að það hafi verið gott verk unnið með þeirri skiptingu. En þegar ég sá frv., varð mér ljóst, að það var ekki lausn á þeim vanda, sem fyrir okkur hafði vakað hér í þinginu, að leysa þyrfti, og vafðist nokkuð fyrir mér að gera mér sjálfum alveg ljóst, hvað það var, sem ég teldi, að gera þyrfti. Ég tek undir það með hv. þm., að heimurinn ferst ekki, úr því að það er búið að dragast í 10 ár að samþykkja þál., þó að það dragist eitthvað enn “að samþykkja hana, og skal ég sízt leggja nokkuð ofurkapp á, að frv. verði afgreitt nú. Og ég legg áherzlu á það, að ef menn að athuguðu máli telja, að frv. eða l. horfi til aukins kostnaðar fyrir ríkið, þá tel ég ekki tímabært að lögleiða það á þessu stigi. En ég er sannfærður um, að það er engir kostnaðaraukning, sem leiðir af þessari löggjöf út af fyrir sig.

Ég legg áherzlu á það, að venjan er orðin sú, að ef ný ríkisstj. kemur og jafnvel ríkisstj., sem er búin að sitja alllengi, þá er fjölgað rn. og ráðuneytisstjórum nú orðið eftir því, sem þeim þykir henta. Það er jafnvel gert án þess, að því er ég hygg að það sé ætíð borið a.m.k. undir ríkisstj. í heild, þótt það sé kannske samráð milli forsrh. og hlutaðeigandi ráðh. Stundum hygg ég, að hlutaðeigandi ráðh. hafi einn tekið ákvörðun um þetta, að skipta sínum rn.. án þess að hafa um það formlegt samráð við aðra. Þannig er þetta orðið í framkvæmd, og þess vegna er í frv. beinlínis um hömlur á sjálfræði ríkisstj. að ræða frá því, sem verið hefur. Það má segja, að þar sé ráðgerð fjölgun um 2–3 rn. frá því. sem nú er. Það fer eftir því. hvernig þetta er talið. En það er líka fyrirvari um það, að ekki er ætlazt til, að þetta komi í gildi fyrr en smám saman og alls ekki á þann veg, að af því verði aukinn kostnaður í bili fyrir ríkissjóðinn.

Varðandi hitt atriðið, um þessa aðstoðarmenn, fer því fjarri, að það megi kalla þá aðstoðarráðh. Þeirra staða á ekki að verða slík. Og ég fullyrði einnig, alveg eins og kom fram hjá hv. 1. þm. Austf., sem er þessum málum auðvitað allra manna kunnugastur sökum síns langa ráðherradóms, að þá hefur verið leyst úr þessu efni á einn eða annan veg af öllum ráðh. Hann sagði, að sumir hefðu kannske ekki gert það. Ég hygg, að það hafi verið gert af öllum ráðh. Ég gæti hér alveg athugunarlaust nefnt dæmi þess, að það hefur verið farið mjög svipað að eins og hér er gerð till. um, að ráðh. hefur tekið með sér inn í rn. mann, sem hefur horfið aftur. Það er svo hægt að nefna mörg dæmi þess, að menn hafi verið teknir inn í rn. og hafi ílenzt þar sem fastir starfsmenn, án þess að það væri kannske brýn þörf á þeim. Hitt verðum við að hafa í huga, að stöðugar kröfur um aukna afskiptasemi og fjölgun landsfólksins gera það að verkum, að einhver fjölgun á starfsmönnum í Stjórnarráðinu er óhjákvæmileg. Nú getum við ekki sagt, að ráðherrafjöldi eigi að fara eftir mannfjölda. En þegar ráðh. var einn, voru Íslendingar eitthvað, við skulum segja til að byrja með 80–90 þús. Þegar þeir urðu þrír, voru þeir töluvert innan við 100 þús. Þegar ráðh. voru ákveðnir 5, voru Íslendingar eitthvað liðlega 100 þús. Nú eru Íslendingar þó orðnir 200 þús. og þjóðfélagið orðið miklu margþættara og þarfirnar, sem Stjórnarráðið verður að sinna, miklu fleiri og ólíkari heldur en áður var.

Og ég verð að segja, að okkar stjórnarkerfi er veikara en ella vegna þess, hve rn. sannast að segja eru fáliðuð. Hjá okkur geta rn. alls ekki unnið neitt svipað starf eins og mér er kunnugt, að þau gera í okkar nágrannalöndum, sem auðvitað eru stórveldi miðað við okkur og við getum aldrei líkt okkur við. En það er síður en svo, að hér sé bruðlað með starfsmannafjölda. Í forsrn., það kallast hér sérstakt rn., er nú sá háttur á, að sameiginlegur ráðuneytisstjóri er í því og menntmrn. og hefur verið í rúm 20 ár. Ég hygg, að sá maður, sem er þar nú ráðuneytisstjóri, hafi í fyrstu komið inn í Stjórnarráðið sem einhvers konar einkaritari þáv. forsrh. Ég játa það, að þegar ég varð forsrh., fékk ég mann úr dómsmrn., eftir að ég hafði verið um tíma forsrh., og gerði hann deildarstjóra hjá mér, einfaldlega vegna þess að ég var algerlega einangraður í byggingunni. Ég varð að geta haft samband við einhvern mann til þess að taka á móti mönnum og til þess að annast daglegar afgreiðslur. Nú er menntmrn. farið burtu, ráðuneytisstjóri er í öðru húsi. Ég hef eðlilega við hann samstarf, en í forsrn., sem er eftir uppi í því gamla stjórnarráði, situr þessi deildarstjóri og ein skrifstofustúlka. Það er allur mannfjöldinn, sem raunverulega er í þessu rn. Þegar meira liggur við, hef ég auðvitað aðgang að mínum ráðuneytisstjóra og hans undirmönnum í menntmrn. Það má tala um fjölda starfsmanna ríkisins, en sá starfsmannafjöldi er yfirleitt ekki í rn., það þori ég alveg hiklaust að fullyrða og að ráðh. hafi kannske vegna þeirrar ásökunar, sem þeir liggja undir um þenslu ríkiskerfisins, verið einstaklega hógværir í því að hafa mannfjölda í kringum sig. Við skulum líta á stærri viðskiptafyrirtæki hér, bæði einkafyrirtæki og t.d. Samband ísl. samvinnufélaga, þann mikla mannfjölda, sem þar er orðinn, þá margháttuðu greiningu í starfsdeildir og annað slíkt. Sjálft Stjórnarráðið þolir fyllilega samanburð við hvern þessara aðila sem er, og ég segi: Það má miklu frekar ásaka ríkisstj. nú og fyrr fyrir að byggja æðsta stjórnarkerfið of veikt upp heldur en þar hafi verið um heimtufrekju að ræða, sbr. bæði að menn hafa unað við þessa frumstæðu löggjöf frá 1903, 1917 og 1938 og við þetta gamla hús og Arnarhvol, sem auðvitað er hvort tveggja orðið algerlega ófullnægjandi sem starfshýsi, ef við segjum eins og er og lítum á það, hvað einkafyrirtæki hér og aðrir aðilar telja sér nauðsynlegt. Óneitanlegt er, að engin, ekki sérstaklega núv. ríkisstj., heldur engin íslenzk ríkisstj., verður sökuð um, að um leið og þær hafa verið að reyna að berjast fyrir sem almennustum framförum í landinu í heild, að hafa verið ákaflega kröfumiklar fyrir sjálfar sig. Þó má segja, að öðru hverju liggja þær undir ásökunum fyrir það aðgerðarleysi að hafa ekki komið upp stjórnarráði, að geta ekki veitt öruggari forystu í atvinnuvegum og ýmsu þess háttar, sem kemur af þessu.

Eins og ég segi: Þetta frv. breytir ekki öllu í þessum efnum. Það hefur engar stórkostlegar grundvallarbreytingar í för með sér. Ég mundi segja, að það sé ákaflega hógvært í sinni kröfugerð, og ég óska ekki eftir því, að það nái fram að ganga, ef menn telja, að það hafi fyrirsjáanlega aukinn kostnað í för með sér á þessum erfiðleikatímum. En ég held, að ef það mál er skoðað, sannfærist menn um, að svo er ekki, og ég þakka sérstaklega hv. 1. þm. Austf. fyrir hans undirtektir við frv., sem byggjast á því, að hann gjörþekkir meðferð þessara mála og veit, að hér er ekki um neina ofrausn að ræða.