10.12.1968
Neðri deild: 26. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

104. mál, tollheimta og tolleftirlit

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Í 7. gr. þessa frv. eru ákvæði þau um tollhafnir, aðaltollhafnir og aðrar tollhafnir, sem hæstv. ráðh. vék að áðan í framsögu

sinni. Í þessari gr. segir, að aðaltollhöfn sé höfn, þar sem för í utanlandsferðum eiga að fá fyrstu og síðustu afgreiðslu hér á landi og þar sem hvers konar tollmeðferð vöru má fara fram. Síðan eru taldar í gr. þær hafnir. sem vera skulu aðaltollhafnir, og eru þær tólf talsins. Því næst segir, að tollhafnir séu hafnir, þar sem ferma má og afferma ótollafgreiddar vörur og geyma má og tollafgreiða slíkar vörur án sérstakrar heimildar. Þar fer á eftir upptalning þeirra hafna, sem teljast tollhafnir, þar sem ferma má og afferma ótollafgreiddar vörur, en eru ekki aðaltollhafnir. Og þessar tollhafnir, sem ekki eru aðaltollhafnir, eru 21, þannig að aðaltollhafnir eru samtals 33 á öllu landinu. Af þessu geta menn séð það, að það eru mjög margar hafnir og þar með verzlunarstaðir, sem ekki eru tollhafnir samkv. þessu frv., hvorki aðaltollhafnir né almennar tollhafnir. En um þá staði, sem ekki eru tollhafnir samkv. þessari gr., segir svo í gr.:

„Þegar sérstaklega stendur á, geta viðkomandi tollstjórar í samráði við tollgæzlustjóra veitt til þess leyfi hverju sinni, að ferma megi og afferma vörur úr fari utan tollhafna,“ þ.e.a.s. á öðrum höfnum en tollhöfnum samkv. frv. „Þeim, sem slíkt leyfi fær, er skylt að hlíta þeim skilyrðum, sem tollstjórar setja fyrir undanþágunni, og greiða allan kostnað, sem af henni leiðir.“ Ég vil leyfa mér að beina því til þeirrar hv. n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi gaumgæfilega þessa gr. Ég veiti því athygli, að hér vantar í tollhafnaskrána verzlunarstaði, þar sem búið er að reka verzlun mjög lengi og sem eru verzlunarstaðir margra sveitarfélaga. Enda liggur það í augum uppi, þegar maður ber saman tollhafnaskrána hér í frv. og þær tölur, sem kunnar eru um helztu verzlunarstaði við sjó hér á landi, að þessar hafnir, sem ekki eru taldar tollhafnir. eru nokkuð margar. Og mér sýnist við fljóta athugun, að sumar af þeim höfnum, sem samkv. frv. eru ekki tollhafnir og eiga því undir högg að sækja um að fá skip frá útlöndum, séu mjög sambærilegar að því er vörumagn og verzlunarsvæði varðar, við hafnir, sem tilgreindar eru hér sem tollhafnir. Mér sýnist þarna vera um málefni að ræða, sem þurfi gaumgæfilegrar athugunar við, og vil sem sé beina því til hv. n., að hún athugi sérstaklega þessa gr. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða þetta langa frv., sem hér liggur fyrir, hef heldur ekki kynnt mér það svo, að ég hafi aðstöðu til þess að svo stöddu.