09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Jón Skaftason:

Herra forseti. Á þskj. 632 höfum við 4 þm. í þessari virðulegu d. leyft okkur að flytja brtt. við frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1969. Brtt. þessi gengur út á, að heimild fjmrh. samkv. 1. gr. frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1969 til að gefa út ríkisskuldabréf eða spariskírteini til sölu innanlands hækki úr 75 millj. í 95 millj. kr. eða um 20 millj. kr. Þessi aukna heimild verði síðan notuð væntanlega á þessu ári til þess að ráðast í stækkun Fæðingardeildar Landspítalans, og þá fyrst og fremst til þess að koma þar upp kvensjúkdómadeild.

Hér á hv. Alþ. hafa undanfarna daga orðið nokkuð miklar umr. um þessi mál. Enn fremur hefur verið skrifað um það í blöð og þættir hafa verið um það í sjónvarpinu nýverið. Af þessum ástæðum og eins vegna þess, að nú er tekið að líða á starfstíma þingsins skal ég ekki eyða tímanum í það að fara að lýsa ítarlega, hvernig ástand þessara mála er nú og þeim aðstæðum, sem fyrir hendi eru á Fæðingardeildinni. Það hefur áður verið gert, og ég skal heldur ekki fara út í það núna að ræða í ítarlegu máli ýmislegt, sem kom fram í ræðu hæstv. heilbrmrh. í gær, þótt hún að ýmsu leyti gæfi tilefni til þess. Ég vil þó í sambandi við þá ræðu aðeins benda á eitt atriði, sem mér finnst ákaflega einkennandi fyrir afstöðu heilbrigðisyfirvaldanna til þessa máls, en það er sú óvefengjanlega staðreynd, að á árinu 1966 er af samtökum í landinu boðið að gefa geislalækningadeild Landspítalans svonefnt kóbalttæki, sem brýn þörf er fyrir hér á landi. En allan þann tíma frá því, að það loforð var gefið á árinu 1966, og að því er virðist fram á síðustu stundu, virðist engin fyrirhyggja eða nokkur undirbúningur af hálfu heilbrigðisyfirvaldanna hafa verið hafður í frammi til þess að búa um þetta tæki, byggja yfir það og sú bráðabirgðalausn, sem nú er rokið til að framkvæma, virðist gerð í flýti og er enda mjög umdeild af öllum þeim, sem þekkja nokkuð til þessara mála.

Í umr. hér í gær og eins í blaðagreinum lækna hefur Fæðingardeildinni m.a. verið gefið nafnið gleymda deildin, og á það að lýsa því viðhorfi, sem heilbrigðisyfirvöldin virðast hafa haft á undanförnum árum til starfsemi þessarar deildar. Ég vil þó taka það skýrt fram, að ég tel ekki réttmætt að beina ásökunum um sofandahátt í þessum málum eingöngu til hæstv. heilbrmrh., þó að hans sök eðli málsins samkv. hljóti að vera ærið stór, því að mér sýnist það alveg óyggjandi, að þar muni fleiri hafa sofið illilega á verðinum. Þær miklu umr., sem hafa orðið um þetta mál á hv. Alþ., og þau blaðaskrif og umr., sem orðið hafa í fjölmiðlum þjóðarinnar, hafa nú borið mjög verulegan árangur. Eins og hv. alþm. muna, sem hlustuðu á ræðu hæstv. heilbrmrh., sem hér var haldin 26. marz s.l., gaf hann vonir um, að mögulegt kynni að vera að hefja viðbótarbyggingu við Fæðingardeildina fyrst á árinu 1972. Í gær lýsti hann því hins vegar yfir, að eftir nánari athugun mundi verða hægt að hefja þessar framkvæmdir þegar vorið 1970, þannig að fyrir þann mikla þrýsting, sem hefur verið á í þessu máli bæði utan þingsins og innan veggja þess, hefur þó þetta náðst fram, að byrjunin á viðbótarbyggingu Fæðingardeildarinnar verður hafin væntanlega tveim árum fyrr en ætlað var. Einnig lýsti hæstv. ráðh. því yfir hér í gær, að hann teldi viðbótarbyggingu Fæðingardeildarinnar til forgangsverkefna ásamt byggingu nýrrar geðsjúkdómadeildar, og yrðu þetta fyrstu verkefnin, sem í yrði ráðizt, þegar hafizt yrði handa á ný um að reisa nýjar byggingar á Landspítalalóðinni. Ég vil lýsa ánægju minni yfir þessari breytingu á afstöðu yfirvalda til þessa mikla vandamáls. En ég held, að þó að þetta hafi áunnizt, sé a.m.k. ein hindrun enn, sem þarf að ryðja úr vegi, og hún er sú, að ekki v,erði enn þá beðið heilt ár með það að hefja þessar framkvæmdir. Ég tel, að það eitt, sem standi í vegi þess, að raunverulega verði hægt að byrja byggingarframkvæmdir núna þegar á þessu vori eða í sumar, sé spurningin um, hvort mögulegt sé að veita fjármagn til byggingarframkvæmdanna. Aðrar ástæður, sem hér hafa verið hafðar frammi, svo sem um skipulagsmál og teikningar, tel ég næsta lítilvægar. Það er því af þeirri ástæðu, sem ég, ásamt þrem flokksbræðrum mínum, hef í þessari hv. d. leyft mér að flytja þá brtt., sem ég var að skýra frá hér áðan, við frv. til l. um lántökuheimildir vegna framkvæmdaáætlunar árið 1969, þar sem við leggjum til, að aflað sé heimildar til hækkunar á þeim lántökuheimildum um 20 millj. kr., sem gangi þá til þessara byrjunarframkvæmda. Í umr. hér í gær kom það fram, að talið var, að stofnkostnaður þeirrar viðbyggingar við Fæðingardeildina, sem fyrirhuguð er, mundi verða á milli 60–100 millj. kr. Þetta er talsvert fjármagn á okkar vísu, en með hliðsjón af því, að menn eru almennt hér í hv. d. sammála um, að bygging nýrrar Fæðingardeildar sé forgangsverkefni, tel ég, að miðað við það og þá brýnu þörf, sem til staðar er fyrir stækkun deildarinnar, sé það sjálfsagt mál. að hv. alþm. leggi sitt lóð nú þegar á vogarskálirnar til þess að hrinda megi þessu þjóðnytjamáli í framkvæmd. Ekki er á því nokkur vafi, að meðal kvennasamtaka í landinu er ríkjandi mikill vilji til þess að styðja þessa framkvæmd með ráðum og dáð. Og í blöðunum í dag er m.a. skýrt frá því, að eitt kvenfélag í landinu hafi samþykkt að gefa 20 þús. kr. til þessara framkvæmda og beinir um leið þeirri áskorun til samtaka kvenna í landinu, að þær geri 19. júní n.k. að almennum söfnunardegi til stuðnings þessari nauðsynlegu framkvæmd.

Eins og ég sagði áðan, er eitt atriði þessa máls, sem einhver ágreiningur er enn þá um, og það er, hvort rétt sé að bíða með að hefja framkvæmdir við þessa viðbótarbyggingu í eitt ár ennþá eða reyna að byrja strax þegar á þessu ári. Um þetta atriði hafa m.a. fjallað Gunnlaugur Snædal læknir og Guðmundur Jónsson eðlisfræðingur, en við þá er viðtal í Tímanum frá 16. apríl s.l., en þar segja þeir m.a. um þetta tiltekna atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Við höfum gert okkur ljóst, að ef ráðast ætti í þessar byggingarframkvæmdir, þyrfti að gera sérstakt átak í fjármálum sjúkrahússins. En við teljum, að þörfin sé svo brýn fyrir þessar úrbætur í heilbrigðismálum, að ekki sé réttlætanlegt að láta þær bíða eftir öðrum fjárveitingum til Landspítalans. Við höfum aldrei farið leynt með þá skoðun okkar, að þessi lausn væri betri en sú bráðabirgðaúrlausn, sem nú hefur verið valin. Ennfremur eygðum við þann möguleika að ráðast ekki í alla bygginguna í einu, heldur byggja fyrst yfir kóbalttækið og yrði það hús upphaf að framtíðarbyggingunni. Hafa skal í huga, að bygging yfir kóbalttækið er ekkert venjulegt hús. Veggir þess þurfa t.d. að vera allt að meters þykkir og talsverð vinnuaðstaða þarf að vera í kringum tækið. Í þeirri bráðabirgðalausn, sem nú hefur verið valin, eru engir stækkunarmöguleikar fyrir hendi á þeim stað og ýmsir aðrir áríðandi þættir geislalækninga verða enn að bíða um óákveðinn tíma.“

Að lokum sögðu þeir Gunnlaugur Snædal og Guðmundur Jónsson:

„Höfuðágreiningurinn í dag er um, hvort nauðsynlegt sé að bíða eftir heildarskipulagi Landspítalalóðarinnar og læknadeildarhúsnæðis sunnan Miklubrautar, eins og nú er rætt um, eða hvort unnt sé að hefjast þegar handa um framtíðarlausn þessara deilda, vegna þessa sérstaka vanda, sem þær eiga við að stríða og gera alla bið óréttlætanlega.“

Það er sem sagt niðurstaða Gunnlaugs Snædals læknis, sem gerþekkir til aðstæðna á þessum stað, og Guðmundar Jónssonar eðlisfræðings, sem er í þjónustu Landspítalans, að óréttlætanlegt sé, eins og þeir segja, að bíða ennþá eftir, að hafizt verði handa um þessar nauðsynlegu framkvæmdir. Það er af framansögðum ástæðum, sem hv. alþm. verða nú, þegar þeir greiða atkv. um þessa brtt., að gera sér þess fulla grein, hvort verjanlegt sé miðað við aðstæður að láta byggingarframkvæmdir dragast enn um eins árs skeið. Engin skipulagsmálefni sjálfrar Landspítalalóðarinnar né skortur á teikningum virðast verulega hamla því, að hafnar séu framkvæmdir, og hæstv. heilbrmrh. hefur upplýst, að áætlaður byggingartími þessarar viðbótarbyggingar sé 3–4 ár. Hv. alþm. hafa, eins og ég hef áður sagt, heyrt sannorðar lýsingar á því óviðunandi ástandi, sem nú ríkir í þessum málum. Þeir hafa vafalaust allir lesið ítarlegt bréf frá Bandalagi kvenna í Reykjavík, dags. 26. febrúar s.l., sem sent var alþm. um þetta mál. Ennfremur hafa þeir vafalaust orðið allir varir við mjög almennan stuðning við málið um land allt, og þá ekki sízt meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu. Um það vitna m.a. margítrekaðar heimsóknir kvennanna á þingpallana núna dag eftir dag auk skrifa þeirra og ræðna í útvarpi og sjónvarpi. Það er því von okkar flm., að hv. þdm. geti nú allir sameinazt um það að samþykkja þessa brtt. og gera á þann hátt draum íslenzkra kvenna að veruleika, að þegar á þessu ári verði hafizt handa um að reisa viðbótarbyggingu við Fæðingardeild Landspítalans, svo að fæðandi konur og sjúkar konur eigi kost svipaðrar aðhlynningar hér á landi og til staðar er á meðal menningarþjóða austan við okkur og vestan.