09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1486)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa sérstökum stuðningi mínum við þá till., sem hv. 2. þm. Reykn. var að mæla hér fyrir áðan á þskj. 632. Hann minntist réttilega á það, að þetta væri sérstakt áhugamál kvenna, og það hefur sérstaklega komið fram, að þetta er áhugamál kvenna hér í Reykjavík, en mig langar þá til að segja frá því jafnframt, að þetta er áhugamál kvenna víðar um land en hér í Reykjavík og nágrenni, því að ég er hér með í höndunum bréf frá Sambandi eyfirzkra kvenna, sem er stílað til alþm. Norðurl. e. og sjálfsagt þar á meðal til hæstv. fjmrh. og vil ég leyfa mér að lesa þetta bréf með leyfi forseta; það er skrifað á Möðruvöllum 7. apríl 1969:

„Samband eyfirzkra kvenna beinir þeirri áskorun til þm. Norðurlandskjördæmis eystra, að þeir á Alþ. og utan styðji og vinni að framgangi þess, að nú þegar verði hafizt handa um fyrirhugaða stækkun Fæðingardeildar Landspítalans í Reykjavík, og við þá stækkun verði komið upp sérstakri kvensjúkdómadeild með fyllstu aðstöðu til nútíma geislalækninga. Telur sambandið knýjandi nauðsyn að kvensjúkdómadeild taki til starfa sem allra fyrst.

Virðingarfyllst f.h.

Sambands eyfirzkra kvenna.

Ásrún Þórhallsdóttir formaður.“

Mig langaði til þess að segja frá þessu bréfi vegna þess, að það sýnir þann hug, sem konur bera til þessa máls hvar sem þær eru á landinu, og ég þykist einnig mega segja frá því, að Samband norðlenzkra kvenna hefur á þessu mikinn áhuga og jafnvel þó að stjórn þess hafi mér vitanlega ekki látið neitt frá sér fara um efnið, þá hef ég þó átt tal við konur úr stjórn þess sambands og þær eru þess sinnis, að þessu máli þurfi mjög að hraða.

Annars var annað, sem ég ætlaði að minnast hér á. Mig langaði að mega minna á brtt. á þskj. 647, sem flutt er af 4 alþm. við þetta frv. um það, að á eftir 6. gr. komi svo hljóðandi:

„Fjmrh. er heimilt að taka lán fyrir hönd ríkissjóðs allt að 5 millj. kr. og endurlána til byggingar stúdentaheimilis.“

Það hefði náttúrlega átt að standa þarna „Félagsheimilis stúdenta“. Þessi till. er sprottin af því, að nú um margra ára skeið, a. m. k. 5–6 ár, ef ekki meira, hefur verið á döfinni undirbúningur að byggingu svo kallaðrar Félagsmálastofnunar stúdenta. Þetta hefur verið sameiginlegt áhugamál allra stúdenta og ég held, að það sé ekki neinn ágreiningur um það, að þetta er það málefni, sem stúdentar vilja, að hafi forgang af því, sem þeir sérstaklega berjast fyrir. Nú hefur hins vegar ekki verið enn hægt að byrja á þessari byggingu, og m.a. er ástæðan sú, að verðbólgan hefur leikið sjóði þessarar stofnunar ákaflega hart, sem kemur fram í því, að breytingar á áætluðum kostnaði þessarar byggingar hefur sífellt verið að breytast og það svo, að það er komið yfir 100% hækkun á áætluðum byggingarkostnaði frá því, sem var 1965, að því er stjórn Félagsmálastofnunar stúdenta tjáði fjvn. nú í vor. En sem dæmi upp á það, hvernig verðbreytingarnar hafa verið, er það, að 1965 er áætlaður kostnaður þessarar byggingar 14.4 millj. 1967 er kostnaðurinn áætlaður 17 millj., 1968 25 millj. og nú 1969 í apríl er til ný áætlun, og þar er gert ráð fyrir, að kostnaðurinn verði 31.2 millj. — Hugsað hefur verið að fjármagna þessa framkvæmd þannig, að af fjárlagafé á árunum 1964–1969 er þegar búið að veita 4.8 millj., frá háskólanum af happdrættisfé sem stofnfé þessarar Félagsmálastofnunar af hálfu háskólans 5 millj. Þá mun vera loforð eða vilyrði frá ríkisstj. um 5 millj. kr. og einnig nýtt loforð eða vilyrði frá háskólaráði um 5.5 millj. kr. Einnig hefur Félagsmálastofnunin von um að geta fengið lán í bönkum, a.m.k. nokkur bráðabirgðalán um ca. 5 millj. kr. Ef þetta stenzt er hér um að ræða ca. 25 millj. kr., sem Félagsmálastofnunin hefur úr að spila til þess að koma byggingunni áfram. En þá vantar upp á til þess að hægt sé að hafa upp í byggingarkostnaðinn 5–6 millj. a.m.k. Og þess vegna er það, að við höfum nokkrir þm. leyft okkur að bera fram þessa brtt., sem ég er hér að tala fyrir, að fjmrh. verði heimilt að taka sérstakt lán fyrir hönd ríkissjóðs allt að 5 millj. til þess að endurlána í þessa byggingu. Um bygginguna er það að segja, að hana verður að reisa í einum áfanga, annað er varla talið hagkvæmt. Mötuneyti og eldhús og annað, sem því fylgir, tekur langmest rúm í þessu húsi og langmest af kostnaðinum. Það er aðaluppistaðan í húsinu, þannig að sá áfangi einn er talinn vera upp á 28–29 millj. kr. Þetta er sá áfangi, sem einna nauðsynlegast er að ljúka, og það sýnist því varla praktískt annað en ljúka öllu húsinu í einu lagi. Ég vil vænta þess, að hv. alþm. sjái sér fært að styðja þessa till. Hér er um mikið nauðsynjamál fyrir stúdenta að ræða. Þetta mál er búið að bíða í mörg ár, eins og ég hef sagt frá, og verðlagsþróunin hefur verið ákaflega óhagstæð sjóðnum og fjáröflunarmöguleikum stofnunarinnar og greinilegt, að það er nauðsyn að fara að hefjast handa um það að koma byggingunni áfram. En samkv. upplýsingum Félagsmálastofnunarinnar eða stjórnar hennar, sem hefur gengið á fund fjvn., er varla við því að búast, að þetta takist nema með alveg sérstökum stuðningi Alþ. og velvild alþm.