13.05.1969
Efri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1502)

216. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1969

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég er sammála hæstv. fjmrh. um, að æskilegast væri, ef hægt væri að útrýma atvinnuleysi skólafólks gegnum atvinnuvegina, eða að atvinnuvegirnir gætu veitt öllum þessum fjölda vinnu nú, þegar skólarnir loka hver af öðrum. En ég er ákaflega hræddur um, að það verði ekki, og ég byggi þá skoðun m.a. á því, að enn hefur ekki tekizt að útrýma atvinnuleysi hjá öðrum en skólafólki. Það hefur að vísu mikið minnkað hér í Reykjavík, þar sem ég er kunnugastur, en ég hygg þó, að nokkur hundruð manns séu enn þá hér á atvinnuleysisskrá. Það þarf væntanlega fyrst að sjá þessu fólki fyrir vinnu, áður en hægt er að ráðstafa öllum þeim fjölda skólanema, sem koma út úr skólunum þúsundum saman, núna eftir nokkrar vikur. Ég veit það, að atvinnumálanefndirnar hafa talsvert hugleitt þetta mál, t.d. Atvinnumálanefnd Reykjavíkur. Hún hefur látið fara fram könnun á því vandamáli, sem við er að glíma, og hún hefur sjálfsagt þó nokkuð margar till. til úrbóta á því í fórum sínum. En ég er ákaflega hræddur um það, að það verði lítið hægt að gera án fjármagns, og að það verði of lítið hægt að gera fyrir það takmarkaða fjármagn, sem Atvinnumálanefnd ríkisins hefur verið af hent í þessu skyni, 300 millj. kr., og þegar hefur verið að verulegu leyti ráðstafað til annarra hluta. Það er vissulega alveg rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að svona mál þarf að vinna eftir áætlun og plani, ég er alveg sammála því, en hvenær á að gera þessa áætlun, ef ekki núna, því að það liður óðum að því, að þetta fólk kemur á markaðinn, og sumt er þegar komið. Þess vegna varpaði ég því fram hér til athugunar, hvort þm. gætu ekki hugsað sér að gera núna einhverja áætlun um útrýmingu þessa vandamáls, og þá væntanlega með því móti að leggja til hliðar eitthvert fjármagn í þessu skyni. Eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, ég skal ekki tefja tímann yfir þessu, þá hef ég ekki hér ákveðna till. fram að bera, en menn hafa velt fyrir sér ýmsum framkvæmdum, sem þurfa mikið vinnuafl, án þess að kosta mjög mikið fjármagn. Ég skal ekki á þessu stigi nefna það, sem ég hef sérstaklega í huga til að lengja ekki umr., en það eru nokkur atriði, sem ég gæti vel hugsað mér að benda á, og ég mun athuga það nú milli umr., hvort ég sé mér ekki fært að bera fram brtt. við þetta frv. í þessu skyni.