16.05.1969
Efri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

159. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það eru tvær breytingar, sem felast í þessu frv., sem hér liggur fyrir, frá núgildandi kjarasamningalögum. Fyrri breytingin er sú að stytta uppsagnarfrest samninganna, eins og nánar er tiltekið í frv., en síðari breytingin er fólgin í því, að nú er það ekki lengur skylda, að allsherjaratkvæðagr. fari fram meðal opinberra starfsmanna um uppsögn kjarasamninga, en þó getur fjmrh. gert kröfu um það, ef honum sýnist. Um þetta frv. er, eins og fram hefur komið bæði á þskj. 308 svo og í framsöguræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins, samkomulag á milli fjmrn. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Eins og nál. á þskj. 757 ber með sér, mælir fjhn. einróma með því, að frv. verði samþ. óbreytt.