25.02.1969
Neðri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (1582)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Jafnvægi í byggð landsins hefur mjög oft heyrzt hér í þingsölum og umr. um það hafa orðið allmiklar. Vestfjarðaáætlunin og aðrar byggðaáætlanir munu vera sprottnar upp af þessu hugtaki, og hef ég frá fyrstu tíð stutt það mál og verið því hlynntur. Ég geri mér fulla grein fyrir því, að bætt hafnarskilyrði, bættar samgöngur, bæði vegasamgöngur og flugsamgöngur, bætt aðstaða í sambandi við menntamál. allt er þetta til að gera þá staði, sem áætlanirnar ná yfir, byggilegri. Hafnarskilyrði eru að sjálfsögðu grundvallaratriði til aukinnar útgerðar og bættar samgöngur bæði á lofti og á landi eru frumskilyrði þess, að fólk vilji yfirleitt búa úti á hinni dreifðu byggð landsins.

Það, sem hlýtur að vekja athygli í sambandi við Vestfjarðaáætlunina, sem mest hefur verið rædd hér á Alþ., er það, að þrátt fyrir þær aðgerðir, sem þar hafa verið gerðar, og eru vissulega miklar, að þá hefur þar enn haldið áfram að fækka fólki og nokkuð stöðugt hin síðustu fjögur ár, ekki síður en áður. Þetta hlýtur að leiða hugann að því, hvort ekki er eitthvað, sem þarf að gera jafnhliða þeim aðgerðum, sem byggðaáætlanir eru látnar ná yfir. Og kemur þá að sjálfsögðu frekast til, hvort ekki sé nauðsynlegt að bæta eða gera ráðstafanir til aukins framlags til húsnæðismála umfram það, sem hin almenna löggjöf gerir ráð fyrir.

Byggingaráætlun ríkisins hefur fram að þessu, í 1. og 2. áfanga, aðeins náð yfir þéttbýlið hér við Faxaflóa, og hefur hjá þeim aðilum, sem hennar njóta eða undir hana koma, vissulega skapazt nokkur sérstaða og betri aðstaða en hið almenna húsnæðismálakerfi leyfir. Þetta þýðir, að á meðan byggingaráætlun ríkisins nær aðeins til þéttbýlisins hér, er hætta á því að það kunni að draga til sín fólk utan af landsbyggðinni.

Húsnæðismál eru eitt af því, sem fólk leggur ákaflega mikið upp úr, og hygg ég, að það sé það atriðið, sem hvað mest bindur fólkið úti í hinni dreifðu byggð landsins, ef það nær til þess eða hefur aðstæður til þess að eignast þar eigin íbúð.

Ég tel, að það hafi verið vel og rétt af stað farið, þegar byggðaáætlunin í fyrsta áfanga var látin ná yfir Vestfirði. Þessi landshluti hefur í langan tíma verið einn af meiri framleiðslustöðum landsins í sjávarafurðum. Þaðan hefur komið nokkuð stór hluti þess útflutningssjávarafurða, sem fluttur hefur verið út á undanförnum árum, og þar hefur vissulega átt sér stað veruleg gjaldeyrisöflun.

Ég tel það því mjög miður, að þrátt fyrir það, sem búið er að gera á Vestfjörðum til hagsbóta fyrir íbúa þess landshluta, að þá skuli blasa við sú staðreynd að fólki haldi áfram að fækka þar. Ég tel þetta til tjóns fyrir þjóðarheildina, því minn stuðningur við málið frá upphafi hefur byggzt á því, að ég tel það nauðsynlegt, að fólk haldi sig sem mest við framleiðslustörfin allt í kringum landið, en að ekki eigi sér stað of mikill og of ör fólksflutningur hingað á þéttbýlissvæðið við Faxaflóa.

Við erum enn það háðir útflutningi sjávarafurða, að ég tel það mjög réttlætanlegt og sjálfsagt að eyða nokkru fjármagni frá þjóðarheildinni til uppbyggingar í hinni dreifðu byggð landsins, og vildi ég við þessa umr. vekja athygli á, hvort ekki þyrfti að taka fleiri mál inn í byggðaáætlanirnar en fram að þessu hefur verið gert. Og á ég þar sérstaklega við aukna fyrirgreiðslu í sambandi við byggingu íbúðarhúsa.

Þegar er farið að vinna og búið að vinna verulega að áætlunum, byggðaáætlunum fyrir Norðurland, og heyst hefur að hugmyndir séu um, og kannski komið í athugun og undirbúning byggðaáætlun fyrir Austurland, og tel ég það rétt að farið. Hvenær kemur að Suðurlandinu, skal ég ekki segja um, það kann að vera, að þess teljist minni þörf að setja upp þar ákveðna byggðaáætlun, en að því hlýtur þó að koma, því að ef á að gera staði þar jafnbyggilega og talið er, að sé hér við Faxaflóa, eða á þéttbýlissvæðinu hér á Suðvesturlandi, þá hlýtur að koma að því, að þar verður einnig að gera ráð fyrir, að hugmyndin um áætlun nái einnig til þess landshluta.

Ég hef þegar rekið mig á það, að fólk t.d. í þeim hluta Suðurlandskjördæmis, sem ég er frá, hefur mjög spurt um, hvort ekki sé eðlilegt, að þeir vankantar, sem á eru að búa í eyjum úti í hafi, eins og Vestmannaeyjum — og er það aðallega í sambandi við samgöngumál og einnig í sambandi við neyzluvatn — séu sniðnir af eftir megni og hvort það sé ekki mjög eðlilegt, að byggingaráætlun ríkisins komi einnig til með að ná yfir þann stað að þessu leyti. Það er hægt að færa fyrir því full rök, að staður, eins og ég hér nefndi, hann getur ekki talizt byggilegur, nema þar séu fyrir hendi þau frumskilyrði, sem verða að vera, þ.e. nægilegt neyzluvatn og samgöngur við aðra hluta landsins, og þá aðallega við þjóðvegakerfið. Ég skal viðurkenna að ríkisvaldið hefur mjög stutt á undanförnum árum íbúa þessa byggðarlags í sambandi við bæði þessi mál, en ég tel, að öll rök hnígi að því, að þessi tvö atriði, sem ég hef hér nefnt, heyri eðli sínu samkvæmt undir hugtakið um byggingaráætlun bæði Vestfjarða og Norður- og Austurlands, eins og þær hafa nú verið framkvæmdar og gerð grein fyrir þeim.

Ég vildi við þessa umr. vekja athygli á því, með hliðsjón af því, sem því miður hefur gerzt á Vestfjörðum. þar sem fólksfækkun hefur átt sér stað þrátt fyrir Vestfjarðaáætlunina, hvort ekki sé ástæða til fyrir þá nefnd. sem málið fær til meðferðar, áð kanna það, hvort ekki komi einnig einhver fleiri atriði til, sem gætu enn frekar stuðlað að því, að fólk sæi sér hag í að búa í dreifbýlinu, ekki síður en í þéttbýlinu hér suðvestanlands.