25.02.1969
Neðri deild: 56. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (1583)

138. mál, Vestfjarðaáætlun og Norðurlandsáætlun

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Sunnl. vék að eðli byggðaáætlana og innihaldi þeirra annars vegar, og hins vegar að því, hvort ekki væri ástæða til að gera fleiri byggðaáætlanir en þegar hefðu verið ákveðnar.

Ég gat um það áðan, að eins og lög um Atvinnujöfnunarsjóð eru, þá er ætlazt til þess, að sjóðurinn meti það, hvort þörf sé á gerð slíkra áætlana fyrir minni eða stærri landssvæði og þá á hvaða sviðum þær áætlanir skuli gerðar, þannig að ganga verður út frá því, að reglur hafi þegar af löggjafans hálfu verið settar um það, hvernig að þessum málum skuli unnið. Ég tel það engum efa bundið, að það verði áfram unnið að áætlanagerð. Bæði er það nú, að varðandi Vestfirði hefur ekki verið lokið við nema samgönguþátt Vestfjarðaáætlunar. Það hefur verið gerð rammaáætlun varðandi Vestfirði varðandi atvinnumálin einnig og uppbyggingu þess landshluta. Hún var í upphafi gerð af Framkvæmdabankanum og unnin fyrst og fremst af norskum sérfræðingum, eins og mönnum er kunnugt um. Framkvæmdir og nánari útfærsla hefur ekki orðið nema á samgöngumálaþætti þeirrar áætlunar, og ég geri ráð fyrir því, að það verði áfram unnið að öðrum þáttum hennar.

Það má einnig gera ráð fyrir að varðandi bæði samgöngur og aðra þætti vandamála á Austurlandi verði tekið til við gerð áætlunar, strax og auðið er. Þar hefur raunar verið hafizt handa af heimamönnum sjálfum, sem hafa ráðið sér starfsmann til að undirbúa slíka áætlun varðandi atvinnumálin fyrst og fremst, og það má gera ráð fyrir, að vegna þess starfs séu til ýmisleg gögn, sem hægt sé við að styðjast í því efni.

Það hafa oft komið fram raddir um það, að það þyrfti að hraða meir þessum áætlanagerðum, en sannleikurinn er sá, að á því eru margs konar vandkvæði. Þetta eru flókin og vandasöm mál. Í mörgum greinum vantar upplýsingar og þjóðhagslega skýrslugerð, sem nauðsynleg væri til að leggja grundvöll að mati varðandi eðlilega þróun í hinum einstöku landshlutum. Mikið verk hefur verið unnið á þessu sviði varðandi Norðurlandsáætlun, sem mun einnig koma að gagni varðandi aðrar áætlanir, sem gerðar kunna að vera. Þá er þess einnig að geta, að það er mjög takmarkaður mannafli, sem við höfum yfir að ráða í þessu efni, mjög fáir menn, sem hafa þá sérþekkingu, sem nauðsynleg er til þess að vinna að gerð slíkra áætlana. Og varðandi heildaráætlun, þá þótti eðlilegt, að lokið yrði gerð einnar áætlunar, sem er Norðurlandsáætlun, sem hefur verið tekin sem heildaráætlun á þessu sviði, þannig að menn gætu þá stuðzt við reynsluna af þeirri áætlanagerð varðandi gerð frekari áætlana, þannig að þetta væri allt eðlilegra og mundi koma að meira gagni fyrir alla í rauninni, heldur en að byrja á mörgum slíkum áætlunum í einu, sem mundi þá leiða til þess, að öllu yrði lokið seinna og erfiðara að koma þessu í framkvæmd. Enda augljóst í okkar þjóðfélagi að það verður að reyna að velja og hafna og taka það, sem brýnast er að vinna að hverju sinni. Það var almenn skoðun manna, að sámgöngumál á Vestfjörðum væru þar með þeim hætti, þegar hafizt var handa með framkvæmd þeirrar áætlunar, að þar væru þau lökust á landinu og af hinum norsku sérfræðingum var lögð á það sérstök áherzla, að til þess að von ætti að vera um uppbyggingu Vestfjarða, þyrftu samgöngur að komast þar í það horf, að það væri hægt að tengja strjálbýlið þar við sérstaka byggðakjarna. Og þó að þessi samgönguáætlun hafi ekki orðið til þess, að það fjölgaði verulega fólki, þá skulum við hafa það í huga, að það er ekki þar með sagt, að hún hafi ekki haft sitt mikla gildi, því það veit enginn um það, hver áhrif það hefði haft á byggðaþróun á Vestfjörðum, ef ekki hefði verið ráðizt í þessar miklu samgöngubætur.

Nú fram á síðustu ár hefur atvinnuástand á Vestfjörðum verið gott, þannig að það hefur ekki verið vandamálið. Það hafa að vísu skapazt þar erfiðleikar nú alveg síðustu árin tvö. Sama er að segja um Austurlandið. Þar hefur atvinnulífið verið mjög blómlegt þangað til nú fyrir tiltölulega skömmu síðan. En þegar hafizt var handa um Norðurlandsáætlun, var það einnig allra manna mál, að ég hygg, og enginn ágreiningur um það, að þá hefði verið slíkt atvinnuástand á Norðurlandi um lengri tíma vegna algers aflabrests bæði á síldveiðum og raunar öðrum fiskveiðum, að nauðsynlegt væri að huga fyrst að þessum landshluta varðandi atvinnuframkvæmdir.

Ég fer ekki nánar út í þessa sálma, en vil þó segja það, að það er auðvitað öllum ljóst, sem nálægt þessum málum hafa komið, að það er margt fleira, sem ræður úrslitum um það, hvort fólk getur unað á einum stað eða ekki. Þar koma auðvitað til greina, eins og hv. þm. sagði, húsnæðismál, sem kannske eru nú ekki svo ákaflega mikið vandamál, þar sem fólki er að fækka eða ekki er um stórfjölgun að ræða, að þau séu sérstaklega erfið. En það er kannske annað, sem er enn þá erfiðara víða og ræður því, að fólk flytur burtu, jafnvel þar sem atvinnuástand er gott, og það eru menntamál og félagsmál. Það væri allt of langt mál að fara út í þá sálma hér, en þetta hygg ég, að öllum hv. þdm. sé mætavel ljóst og hefur oft verið rætt hér, og það er vissulega þess vegna brýn nauðsyn á að gefa gaum að hinni félagslegu og menningarlegu aðstöðu fólksins, sem býr í strjálbýlinu, því að það er ekki nóg að hafa nóg að bíta og brenna, ef ekki er aðstaða til þess að geta veitt uppvaxandi kynslóð þá menntun, sem nútímaþjóðfélag krefst og fólkið hefur ekki þær félagslegu aðstæður, sem hægt er að fá í þéttbýlinu. Ég er hv. þm. algerlega sammála, en vildi því láta það koma fram hér vegna orða hans, að vitanlega hafa þeir, sem að áætlunargerð vinna, gert sér fullkomna grein fyrir þessum vandamálum og þess vegna m.a. hefur nú um alllangt skeið verið unnið að athugun á byggðaþróun í landinu með hliðsjón af því að gera heilsteypta skólamálaáætlun, þar sem fyrst og fremst verður höfð í huga uppbygging skólakerfisins víðs vegar um landið. Hvenær þeirri áætlun verður lokið, get ég ekki fullyrt á þessu stigi, en ég held, að það sé ljóst mál, að þar sé um hið brýnasta nauðsynjamál að ræða til þess einmitt að tryggja það byggðajafnvægi, sem við erum að tala um.