09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1566 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Það er smátt, sem hundstungan finnur ekki. Ég hef í nokkur ár lesið með mikilli athygli samþykktir frá jafnvirðulegum samtökum hér á landi og samtökum innflytjenda, þar sem þeir lýsa því, að þeir séu kúguð stétt, vegna þess að þeir hafi ekki heimild til þess að flytja inn bökunardropa í stríðstertuframleiðslu þjóðarinnar. Þeir hafa borið fram kröfur um það ár eftir ár, að þeir fái frelsi til þessa verkefnis og enn fremur til þess að flytja inn ilmvötn og andlitsvötn og ég veit ekki hvað þessir vökvar heita. Og nú hefur hæstv. ríkisstj. flutt frv., sem upphaflega hafði þann einn tilgang að láta undan þessu kvabbi heildsalastéttarinnar. Nú veit ég ekki til þess, að neytendur hafi neitt kvartað undan þeirri tilhögun, sem höfð hefur verið á þessum innflutningi. Ég veit ekki betur en hér hafi fengizt mjög fjölbreytt magn af hvers konar ilmvötnum og að umboðsmenn fyrir þessa vökvategund, sem munu víst vera jafnmargir og vökvarnir eru, hafi átt mjög auðvelt með að koma vöru sinni á framfæri gegnum ríkisverzlunina. Ég hef ekki heldur orðið var við það, að þessi tilhögun á bökunardropainnflutningi hafi neitt hamlað stríðstertuframleiðslu þjóðarinnar. Það, sem hér er um að ræða, er einvörðungu það, að heildsalar vilja fá að taka það verkefni, sem fært hefur ríkissjóði nokkrar milljónir króna í tekjur. Hér er verið að leggja til, að ríkissjóður afsali sér þessum milljónum, en að einkaframtakið fái að stinga þeim í eigin vasa. Þetta mun að vísu ekki vera fjarskalega há upphæð; þó að maður tali um milljónir, hrökkva menn ekki í kút í þjóðfélagi, þar sem lítið er talað um annað en milljarða nú orðið. Hins vegar finnst mér þetta athyglisvert að því leyti, að þarna er um að ræða augljósa öfugþróun. Á Íslandi er markaður svo lítill. að það er ekkert vit í því, að tugir eða jafnvel hundruð manna stundi innflutning á vörutegundum eins og þessum. Það á aðeins einn aðili að gera, það er eina vitið, og þannig er þessu háttað um fjölmörg önnur atriði, eins og við vitum. Sú tilhögun, sem verið hefur á þessu, er hagkvæm, hún er sú ódýrasta, sem hægt er að hafa, og þannig eigum við að skipuleggja innflutningsmál okkar. Ég vil vekja athygli á því, að það verður enginn sparnaður hjá ríkisverzluninni við þetta, vegna þess að hún sinnir þessum verkefnum með venjulegum störfum; ekki verður unnt að spara neitt í rekstrinum, þó að þessi verkefni séu eftirlátin heildsölum. Þarna er aðeins um að ræða að tekjur ríkisins verða minnkaðar, og ég þekki hæstv. fjmrh. illa, ef hann sér ekki til þess, að það tekjutap verði bætt upp á einhverju öðru sviði. Mér finnst það í rauninni vera alveg furðulegt og ósæmandi fyrir hæstv. ríkisstj. að láta undan þessu nauði og nuddi heildsala. Það er gersamlega ástæðulaust að breyta þeirri tilhögun, sem verið hefur, og mér finnst að hv. alþm. ættu að hafa vit fyrir hæstv. ríkisstj. á þessu sviði.