19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í B-deild Alþingistíðinda. (1774)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur haft fund um þetta frv, og er því meðmælt, að d. ljái því fylgi. Þó er þetta samþykki bundið fyrirvara frá einstökum nefndarmönnum, fjórum af sjö, og munu þeir væntanlega gera nánari grein fyrir, í hverju þeir fyrirvarar liggja. Ég vil taka fram strax, að okkur hefur þótt nauðsyn á að leiðrétta villu, sem komizt hefur inn í frv., þar sem talað er um: „allt að 4 sjómílum frá grunnlínupunktum.“ Við föllumst alveg á það, sem bent var á af hv. 6. þm. Sunnl. við 1. umr., að þetta er í sjálfu sér meiningarleysa, og höfum þess vegna borið fram till. um leiðréttingu, þannig að í stað orðsins „grunnlínupunktum“ komi þarna: „línu, sem dregin er á milli grunnlínupunkta.“ Kannske hefðum við getað verið stuttorðari og sagt aðeins „frá grunnlínu“, en a. m. k. á þetta ekki að geta orkað tvímælis, eins og við höfum orðað það.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki fyrirferðarmikið. Það er varla hægt að segja, að það hafi svo mikið sem eina frvgr. Það er aðeins ákvæði til bráðabirgða og mun það vera frekar óvenjulegt, að frv. láti ekki meira yfir sér. En samt er þetta mjög merkilegt frv. að því leyti, að með því má segja, að verði viss þáttaskil í meðferð landhelgismálsins hér á Alþ. Hingað til hafa kraftarnir beinzt að því fyrst og fremst — og ég vil segja næstum eingöngu — að færa út túngarðinn, ef svo má að orði komast, þ. e. að breikka það svæði frá strandlínunni og frá mynni fjarða og flóa, sem lögsaga landsins nái til að því er snertir fiskveiðar. Og í þessu hefur okkur orðið blessunarlega mikið ágengt á seinustu áratugum frá því lögin um vísindalega verndun landgrunnsins voru sett. Vonandi tekst að halda áfram í sama horfinu og að ná lögsögu yfir landgrunninu öllu, áður en of langur tími líður. Því að það er það, sem við erum sammála um að stefna að í þessu máli. En það er eins og með bóndann, sem færir út túngarðinn, að hann gerir það ekki eingöngu, af því að hann elski grasið sem slíkt, heldur til þess að hafa af því meiri nytjar.

Þegar ég var ungur, var það einsdæmi að sjá stórgrip beitt á ræktað land, en þetta þekkjum við um allt land núna; það þykir henta að hafa mjólkurkýrnar og jafnvel sauðfé að haustinu á túngresi til þess að ná betri arði af búskapnum. Og eins hlýtur það að vera tilgangurinn með stækkun landhelginnar að hafa hennar betri not en við gátum gert, á meðan hún var svo þröng sem hún var fyrir aðeins 20 árum. Og það er einmitt þetta, sem er stóra atriðið við þetta litla frv., að það er fyrsta skrefið í því að nýta þau auðæfi, sem þarna eru á sem hagkvæmastan hátt og eftir því sem bezt hentar á hverjum stað.

Ég skil ákaflega vel að það sé uggur í mönnum, þegar farið er inn á nýja braut, og hef mikla samúð með sjónarmiðum hv. 2. þm. Austf„ sem fram komu við 1. umr., en ég held einmitt, að samanburðurinn við túnræktina ætti að færa honum sem góðum landbúnaðarfrömuði heim sanninn um, að hér er um nokkuð skyld viðhorf að ræða.

Einnig skil ég það, að hv. 11. þm. Reykv. harmaði það, að málið hafði ekki fengið ítarlegri og meiri undirbúning hjá þeirri n., sem skipuð var einmitt til að undirbúa framtíðarlausn eða a. m. k. næsta skrefið í þessu máli. En það hefur atvikazt svo, að það er nauðsyn að gera eitthvað nú þegar í þessum málum, og þess vegna setjum við bráðabirgðaákvæði, sem eiga þó heldur að verða n. til hjálpar en hið gagnstæða, en ekki hindra það starf, sem þessi ágæta n. á væntanlega eftir að vinna, og sú ráðstefna fróðra manna í þessum efnum, sem hún hefur kallað saman í næsta mánuði. Allir þessir hlutir þurfa ekki að rekast á, heldur er hér tekið skref til bráðabirgða, sem á síður en svo að hindra framtíðarlausnina.

Það hefur verið haft orð á því, að það væri einkennilegt, að hér væri ekki farið eftir einni ákveðinni meginreglu um lausn vandamálsins. Þetta tel ég höfuðkost frv. Þetta sýnir, að þeir, sem það hafa undirbúið, gera sér ljóst, að aðstæður eru mismunandi á mismunandi stöðum kringum landið og að það, sem getur verið réttmætt við Vestmannaeyjar, þarf t. d. ekki að vera réttmætt við Grímsey, af því að atvinnuháttum er mismunandi háttað á þessum tveim stöðum. Það er ljóst, að í frv. er gengið lengst til móts við kröfur Vestmanneyinga, og það er að mínum dómi réttmætt, því að þeir eiga þarna mest í húfi, en þar næst eru vissir af íbúum Reykjaness, sem einnig eiga þarna mjög mikilla hagsmuna að gæta — og þá fyrst og fremst Grindvíkingar. Þarna hefur einnig verið borin fram till., sem fer nokkuð í bága við þá stefnu, sem almenn hefur verið áður, þ. e. að fara alls ekki inn fyrir vissa grunnlínu, því gert er ráð fyrir að gefa veiðileyfi á mjög takmörkuðu svæði, sem ná allt upp í landsteina. Þd. til upplýsingar vil ég gefa þá skýringu, að þarna sunnan Reykjaness er yfirleitt hraunsvæði, þar sem togveiðar koma ekki til greina, en innan þess svæðis, sem þarna er gerð almenn undantekning á, eru þrjár bleyður í hrauninu, hver um sig mjög takmörkuð. Þetta eru einmitt staðirnir, þar sem togbátarnir hafa oft fengið góðan afla. Síðan er tekið upp það nýmæli að fylgja strandlengjunni, en ekki grunnlínum sunnanlands, en aftur á móti að norðan er grunnlínunum fylgt, og þetta hygg ég, að sé rétt aðferð og einnig að það sé réttmætt að hafa línuna fjær landi fyrir norðan heldur en sunnan vegna þess, hve ólíkt hagar til á þessum svæðum.

Til þess að mæta óskum Húsvíkinga og annarra aðila við Skjálfandaflóa hefur einnig verið bætt inn í frv. síðan það var flutt, ákvæði, sem á að vernda rétt þeirra, þar sem segir:

„Þó skal við útgáfu veiðileyfa verða tekið tillit til nauðsynlegrar friðunar fyrir botnvörpu á svæðinu frá Rauðanúp vestur að Gjögurtá.“

Í því sambandi langar mig til að segja d. frá símskeyti, sem er rétt nýkomið frá Grímseyingum, þar sem þeir segja svo, með leyfi hv. forseta:

„Grímseyingar vilja hér með lýsa óánægju sinni vegna fram komins frv. um togveiðar í landhelgi og skora á þm. að hlutast til um, að ekki verði ógnað búsetu fólks á smástöðum, sem eiga alla afkomu sína undir sjávarafla, með því að láta togbáta spilla möguleikum á mannsæmandi lífi. — Hreppsnefndin.“

Ég vona, að þetta sjónarmið Grímseyinga og þeirra hagsmunir verði hafðir í heiðri á allan hátt, af hv. rn., þegar til leyfaveitinga kemur. Ég sé nú, að ráðh. eru ekki hér inni í svipinn, en sjútvn. mun beina athygli réttra yfirvalda að þessari réttmætu beiðni íbúanna á norðurhjara Íslands.

Það er ekkert nýmæli um svæðið frá Garðsskaga norður að Horni, því að það er lokað eins og áður, og sama gildir um Austfirði, að þar er ekkert að gert í bili, en þessi svæði bæði bíða þeirrar athugunar, sem fram fer í landhelgisnefnd. Ég held, að það séu varla fleiri atriði, sem ég þarf að taka fram, og leyfi mér að mælast til þess, að hv. d. samþykki frv. með þeirri brtt., sem fram er borin.