19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1667 í B-deild Alþingistíðinda. (1781)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Ég get verið fáorður. Aðrir menn ýmsir hafa gert grein fyrir fyrirvörum sínum, og það er svo með þetta mál, að svo er margt sinnið sem skinnið; satt er það. En er það ekki tilgangur með þinghaldi að reyna að ná einhverjum sameiginlegum kjarna úr því, sem í fljótu bragði sýnast vera ólíkar skoðanir, þ. e. reyna það, sem meiri hl. álítur þó til bóta, þó að enginn einstakur fái allt, sem hann gjarnan vildi. Ég vona, að hv. 3. þm. Norðurl. v. hafi ekki misskilið orð mín, þegar ég nefndi fyrsta skrefið, þannig að ég væri að halda því fram, að nú ættum við að komast upp að fjórum mílum eða þrem frá strandlengju, þar sem það væri unnt, og brjótast jafnvel enn þá lengra, þar sem þess væri nokkur kostur, unz við værum komnir upp í hvern kálgarð landsmanna; þetta er fjarri því að vera mín skoðun á málinu. Þvert á móti er ég í mjög veigamiklum atriðum sammála hv. 2. þm. Vesturl. um það, að hér þarf að sýna hina ítrustu gætni.

Ef ég á að vera einhverjum ósammála af þeim, sem hafa talað, þá er það einna helzt Í 1. þm. Reykv., þegar hann talar um, að það sé misráðið að taka fram fyrir hendurnar á n., og skírskotar til þess, að hér sé ekki um ákaflega langan tíma að ræða. En það, sem á veltur, er það, að hér er ekki um langan tíma að ræða, en erfiðan og óheppilegan tíma. Atvikin haga því svo, a. m. k. þar sem ég þekki til í einni verstöð á Reykjanesi, að þar mundi meiri hluti minni bátanna missa þessa vertíð, ef þeir komast ekki á togveiðarnar. Með hvaða rétti þeir hafa stundað togveiðar, hef ég — í þeirri von, að ég verði í kjöri aftur — talið ráðlegt að leiða hjá mér, en svo mikið er víst, að þeir telja öruggt, að ekki verði úr veiði hjá þeim, ef þeir þurfi nú að fara að breyta um veiðiaðferð. En viðvíkjandi því að taka fram fyrir hendurnar á landhelgisnefndinni, þá vil ég benda á, að það er ekki rétt, að það sé alltaf tími til að bíða eftir úrskurði hinna beztu manna. Við skulum bara hugsa okkur, að sjúklingur liggi á skurðarborði og það sé einhver ákaflega merkilegur sjúkdómur að honum. Á þá að kalla saman læknaþing eða á a. m. k. að halda fund með öllum prófessorunum, meðan hann liggur með opinn magann á skurðarborðinu, eða á að gera það bezta, sem menn hafa vit á í bili. Ég er hræddur um, að anzi oft sé það úrræðið, sem við verðum að hafa.

Það hafa komið fram tvær brtt. Önnur er frá 2. hv. þm. Vesturl.- um að segja „skal“ í staðinn fyrir „má“. Það er alveg eins gott að segja hlutina afdráttarlaust. Ég fyrir mitt leyti vil styðja þá till. og skora á d. að samþykkja hana. Till. hv. 6. þm. Sunnl. hefur að vísu vissa hluti til síns ágætis, en menn sækja oft mið, sem ekki eru beint fram undan verstöðinni eða innan sömu grunnlínupunkta. Ég veit, að á Reykjanesinu mundi það vera stór hnekkir fyrir þá, sem búa norðanvert á nesinu, ef þeir mættu ekki sækja mið í hrauninu sunnan Reykjaness, og sama hygg ég vera um Reykvíkinga og e. t. v. fleiri. Mér sýnist samkv. frvgr., að rn. geti sýnt gát í því, hve mikið af leyfum það veitir og þá m. a. með tilliti til þess, hvaðan menn koma. Ef þessi till. væri samþ. óttast ég, að hún gæti stefnt málinu í nokkra hættu — a. m. k. ættum við ekki að samþykkja hana án athugunar í sjútvn. Ég vildi mælast til þess við hv. 6. þm. Sunnl., sem ég veit, að er málinu hlynntur almennt, að taka till. aftur annaðhvort algjörlega með tilliti til þess, að nú er aðeins um þetta eina skamma veiðitímabil að ræða, eða þá a. m. k. fyrir 3. umr.