06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1889)

219. mál, sjómannalög

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Þetta er ákaflega einfalt mál. sem hér liggur fyrir deildinni, sem sé að aftan við 24. gr. sjómannalaga bætist ný málsgr. svo hljóðandi:

„Óheimilt er að framselja eða veðsetja samningsbundnar dánarbætur, og ekki má leggja á þær löghald né gera í þeim fjárnám eða lögtak né halda bótagreiðslu til opinberra gjalda.“

Það, sem þarna segir, er í fullu samræmi við gildandi löggjöf um almannatryggingar, en einhverjir málafærslumenn munu hafa gert tilraun nýlega til að leggja hald á slíkar samningsbundnar dánarbætur. Eftir minni lögfræði ætti nú ekki að vera neinn vafi á því, að þarna væri um ólögmæta kröfugerð að ræða, en hv. flm. málsins í Nd. þótti þó réttara, að af skyldi tekinn með l. allur vafi um það atriði. Það er a. m. k. ekki verr farið en heima setið að gera þetta deginum ljósara, og er því sjútvn. öll á einu máli um það að mæla með samþ. þessa frv.