15.04.1969
Efri deild: 74. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

185. mál, sala Þykkvabæjar I í Landbroti

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um heimild fyrir hreppsnefndina í Kirkjubæjarhreppi í V.-Skaft. til þess að selja jörðina Þykkvabæ I í Landbroti hefur landbn. haft til athugunar, og eins og nál. á þskj. 447 ber með sér, þá mælir n. með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Ég vil geta þess hér, að á síðasta þingi lá samhljóða frv. þessu fyrir Nd. og fékk þar fullnaðarafgreiðslu, en barst þessari hv. deild á síðasta degi þingsins og varð því ekki útrætt og hlaut því ekki afgreiðslu deildarinnar. Það hefur ekkert það komið fram í málinu, sem okkur virðist mæla gegn því, að þetta frv. nái fram að ganga. Við höfum kynnt okkur þær umsagnir, sem um það bárust til Nd. á síðasta þingi, enn fremur kynnt okkur hug afkomenda þeirra Helga Þórarinssonar og Höllu Einarsdóttur til þessa máls, og þær athuganir hafa leitt til þess, að við höfum tekið þá afstöðu að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.