14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í B-deild Alþingistíðinda. (196)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Frsm. meiri hl. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft til athugunar frv. það sem hér liggur fyrir. N. hefur rætt frv. á tveim fundum og eigi orðið sammála um afgreiðslu þess, eins og fram hefur komið, og hún hefur skilað tveim nál. Frv. var ekki sent út til umsagnar, enda held ég að segja megi, að n. hafi út af fyrir sig verið sammála um það, að nauðsyn bæri til þess að hraða meðferð þess, svo að takast mætti að afgreiða málið, áður en þm. færu í jólaleyfi. Hins vegar barst n. bréf frá Framleiðsluráði landbúnaðarins, þar sem greint er frá því, að á fundi ráðsins 10. þ.m. hafi eftir allmiklar umræður verið samþykkt að leggja til, að 1. gr. frv. yrði breytt þannig, að við hana bættust orðin: „að fengnum till. Framleiðsluráðs“. M.ö.o., greinin hljóðaði á þessa leið: „Fé því, sem kemur vegna útfluttra landbúnaðarafurða á reikning þann, sem um getur í 4. gr. l. nr. 74, 1968, skal ráðstafa í þágu landbúnaðarins skv. ákvörðun landbrn., að fengnum tillögum Framleiðsluráðs.“ Meiri hl. n. lítur svo á, að ekki sé ástæða til að taka ákvæði þess efnis inn í frv., enda liggur fyrir, að Framleiðsluráð hefur fulla aðstöðu til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við landbrn. og hæstv. landbrh., og breytti engu, þótt ákvæði þess efnis væru tekin inn í frv. Í frv. er skýrt kveðið á um, að því fé, sem hér er um að ræða, skuli varið í þágu landbúnaðarins, og við 1. umr. málsins lýsti hæstv. landbrh. því yfir, að það yrði vandlega athugað, með hvaða hætti það kæmi landbúnaðinum að sem mestum notum. Meðan á þeirri athugun stendur, má telja sjálfsagt og nauðsynlegt, að Framleiðsluráð, og e.t.v. ekki síður stjórn Stéttarsambands bænda beint, kynni hæstv. landbrh. ýtarlega skoðanir sínar á því, á hvern hátt fénu skuli varið. Og ekki er að efa, að þau sjónarmið verða þung á metunum, þegar til ákvörðunar kemur.

Með þessu frv. er ráðgert, að gengishagnaði af landbúnaðarvörum verði ráðstafað eftir ákvörðunum landbrn., eins og gert var eftir gengisbreytinguna í fyrra, og ekki hefur komið fram mikil gagnrýni á það, hvernig með það mál var farið og hvernig gengishagnaðinum var varið þá. Meiri hl. n. treystir því, að einnig nú takist vel til um ráðstöfun gengishagnaðarins bændastéttinni til sem mestra hagsbóta, og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.