08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

120. mál, áfengislög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera að umtalsefni frv., breytingu á áfengislögum, almennt. Ég skrifaði undir það nál. okkar í allshn. með þeim fyrirvara, að ég hefði leyfi til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Það mun ég gera. Ég ætla hér að mæla fyrir svolítilli brtt. við 14. gr. frv.

14. gr. frv. fjallar um það, eins og hv. þm. hafa fyrir framan sig, að af ágóða Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins skuli árlega leggja í Gæzluvistarsjóð framlag, eins og ákveðið er í lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra frá 1964, og skuli fara um meðferð þessa fjár eftir ákvörðun heilbrigðisstjórnar eins og þau lög segja fyrir um. Nú vil ég geta þess, að fyrr á þinginu flutti ég ásamt hv. 4. þm. Sunnl. frv. á þskj. 268 um það að hækka það framlag til Gæzluvistarsjóðs, sem samkv. lögum um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra á að renna þangað, en það er eins og menn muna, 2½% af tekjum af áfengissölu.

Þetta frv. mitt og hv. 4. þm. Sunnl. hefur nú verið til meðferðar hjá hv. heilbr.- og félmn. þessarar d. og eftir þeim fregnum, sem ég hef haft af afdrifum þess þar, kemur það í ljós, að n. er ekki á einu máli um afstöðu sína til þessa frv., þar sem hv. meiri hl. vill vísa því til ríkisstj., en minni hl. vill samþykkja frv. Nú ber ég fyllsta traust til hæstv. ríkisstj. að því leyti, að ég tel, að hún hljóti að sjá það, að þetta framlag til meðferðar ölvaðra manna og drykkjusjúkra, sem á fyrst og fremst að renna til þess að byggja nýjar sjúkradeildir, er orðið allt of lágt. Það var ákveðið nokkuð ríflega á árinu 1964, þegar það fyrst var tekið upp, 7½ millj. kr., en með þeirri verðrýrnun peninganna, sem orðið hefur síðan, hljóta allir að sjá, og þá hæstv. ríkisstj. einnig, að hér er orðið langtum of lítið framlag. Þess vegna hef ég út af fyrir sig fyllstu trú á því, að lagfæringar verði á þessu gerðar, en þessi málsmeðferð hv. n. þýðir þó a. m. k. eins árs frest, að þetta framlag hækki, og það finnst mér ekki mega. Mér finnst ekki mega fresta því með hliðsjón af ástandi þessara mála, eins og ég reyndi að lýsa því hér við 1. umr. um frv. á þskj. 268. Í þessum sjóði, Gæzluvistarsjóði, er nú um 9 millj. kr. óráðstafað, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað fengið nákvæmastar. En það er aðkallandi nauðsyn að byggja sjúkradeild fyrir þessa menn, sem lögin eiga sérstaklega að vernda, og sú bygging hefur verið til athugunar í rn. lengi, eftir því sem mér er tjáð, og nauðsyn þessa er þar ljós, en fjármagnið vantar. Og það hefur ekki verið talið fært að hefjast handa um byggingu slíkrar deildar með svo lítið fjármagn sem 9½ millj. kr. er. Þessi brtt., sem ég er hér að mæla fyrir, er örlítið breytt frá frv. Í frv. var talað um 2½% framlag af tekjum af áfengissölu. Ég hef nú breytt þessu þannig og við flm., að framlagið skuli á árinu 1969 eigi vera lægra en 15 millj. kr., þ. e. breytt í tiltekna fjárhæð. Það höfum við gert til þess að koma til móts við þá, sem hér hafa látið uppi efasemdir um það, að það væri óheppilegt, bæði í þessu tilfelli og öðrum, að ákvarða fjárframlög af tilteknum tekjustofnum miðað við hundraðshluta, og talið, að það væri betra, svo menn vissu, að hverju verið væri að ganga, að ákveða tiltekna fjárhæð, en miðað við þær tekjur af áfengissölu, sem varð t. d. á s. l. ári, eru þessar upphæðir mjög áþekkar, 2½% af áfengissölunni á s. l. ári mundi hafa numið eitthvað nálægt 15 millj. kr., og þess vegna er þessi upphæð sett þarna.

Ég vil aðeins segja frá því í þessu sambandi, að málefni ölvaðra manna og drykkjusjúkra, þ. e. drykkjusjúklinga, voru til umræðu í borgarstjórn Reykjavíkur ekki alls fyrir löngu. Þar var einróma samþykkt áskorun, sem hefur verið lögð fram hér á lestrarsal, til hv. Alþingis að samþykkja það frv. sem ég og hv. 4. þm. Sunnl. lögðum fram um aukið framlag til Gæzluvistarsjóðs, annaðhvort í því formi, sem frv. er, eða einhverju öðru formi, sem kæmi að svipuðum notum, og sá fyrirvari hygg ég að hafi lotið að því, að menn voru með efasemdir um það, að heppilegt væri að ákveða framlagið í prósentum og vildu frekar hafa það í ákveðinni fjárhæð. Ég er fús til þess, ef mönnum þykir of fljótt, menn eru ekki alveg tilbúnir kannske til að greiða atkvæði um þessar till. við 2. umr. — væri ég fús til þess, ef óskir kæmu fram, að taka till. aftur til 3. umr. Ég mun þó ekki gera það, nema óskir komi fram um það, en að öðru leyti leyfi ég mér að leggja þessa brtt. fram hér skriflega og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða, þannig að hún megi koma fyrir, en brtt. er svona:

Brtt. við frv. til l. um breyt. á áfengislögum nr. 58 24. apríl 1954 frá Einari Ágústssyni og Birni Fr. Björnssyni. Við 14. gr. frv. bætist ákvæði til bráðabirgða svo hljóðandi: Á árinu 1969 skal framlag til Gæzluvistarsjóðs, skv. 1. mgr. þó eigi vera lægra en 15 millj. kr. Ástæðan til þess, að við flytjum þessa till. um bráðabirgðaákvæðið er einfaldlega sú, að við ætlum þessu aðeins að gilda á yfirstandandi ári, í trausti þess, að fyrir næsta fjárlagaár hafi hæstv. ríkisstj. lokið þeirri endurskoðun, sem deildin, og þá væntanlega Alþ., ætlar að fela henni á þessum málum öllum.