17.12.1968
Neðri deild: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (207)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég er ekki miklu nær eftir þetta svar frá hv. 5. þm. Vesturl. Það, sem máli skipti í þessu sambandi er, hvernig upphæðinni verður varið. Þetta eru 150 millj. kr., og ég tel, að alþm. eigi heimtingu á að fá að vita, hvernig ætlunin er að verja þessum fjármunum. Blað hv. þm. hefur borið fram þá kröfu, að upphæðin verði notuð til þess að lækka greiðslur ríkissjóðs í útflutningsuppbætur. Mér skilst, að stefna hæstv. landbrh. sé þveröfug, hann ætlist til þess, að útflutningsuppbæturnar verði auknar sem nemur þessari upphæð. Hæstv. ráðh. virtist telja, að í þessum fyrirvara þm. fælist ekkert nýtt, að hann hefði vald til þess að fara með þetta mál, eins og hann hefur gert áður. Á síðasta ári beitti hann því valdi til þess að auka útflutningsuppbæturnar, og því vil ég mjög eindregið mælast til þess að fá að vita það, hvort hæstv. landbrh. ætlar að ráðstafa þessu fé á þennan hátt og hvort hæstv. viðskmrh. er búinn að fallast á þá meðferð, eða hvort hæstv. landbrh. er e.t.v. reiðubúinn til þess, að fara að framkvæma stefnu hæstv. viðskmrh. Þessir tveir ágætu ráðh. hafa að undanförnu lýst stefnumiðum í landbúnaðarmálum á næsta gagnstæðan hátt. Þeir hafa hins vegar aldrei fengizt til þess að ræðast við, svo að aðrir menn fengju að heyra. Hæstv. viðskmrh. talar venjulega um landbúnaðarmál yfir kaupsýslumönnum í Reykjavík. Og þegar sjónvarpið er forvitið, eftir slík ummæli, og kallar á hæstv. landbrh., þá —er andstæðingur hans ekki hæstv. viðskmrh., heldur tveir blaðamenn. Þetta virðist vera eitthvert feimnismál hjá hæstv. ríkisstj., en ég tel, að það sé skylda hennar að láta alþm. vita, hvernig ætlunin er að verja þessum 150 millj. kr.