24.02.1969
Sameinað þing: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2063 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

Utanríkismál

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þess hefur verið óskað, að gefin væri hér skýrsla um utanríkismál og að umr. um þau færu hér fram. Ég tel þessa ósk eðlilega og sjálfsagða og sjálfsagt að verða við henni. Slíkar umr. fara víða fram í þjóðþingum og þykja sjálfsagðar. Utanríkismálin eru ekkert feimnismál, en vegna smæðar okkar og fámennrar utanríkisþjónustu höfum við minna um þessi mál að segja en flestir aðrir. Ég lofaði því fyrir áramótin, fyrir þinghlé, að þessi skýrsla yrði gefin fljótlega eftir að þing kæmi aftur saman, og það tel ég, að ég hafi staðið við, þar sem ég tilkynnti skrifstofustjóra Alþingis, að ég væri tilbúinn að gefa þessa skýrslu 17. febr. s. l. En mér hafði skilizt, að sumir hv. alþm. bæru brigður á, að við þetta loforð hefði verið staðið, en ég tel, að það hafi verið gert, þar sem skýrslan var tilbúin, viku eftir að þing kom aftur saman eftir þinghlé.

Ég hef líka talið rétt, að allir flokkar, bæði þeir, sem að ríkisstj. standa, og eins hinir, sem mynda stjórnarandstöðuna, fylgdust sem bezt með þessum málum, því að þau eiga að mínu viti að vera hafin yfir þröng flokkssjónarmið og alls ekki að vera áróðursefni á milli flokka, nema vitaskuld að því leyti, sem flokkarnir eru ósammála um grundvallarstefnuna, ef um slíkan ágreining er að ræða. Ég hef þess vegna átt hlut að því, að utanrmn. tæki upp störf á þann hátt, sem til er ætlazt, að fylgjast með og að segja sitt álit a. m. k. um þau utanríkismál okkar, er okkur snerta, og gera um þau till. til Alþingis, eftir því sem ástæða þykir til. Á þann hátt fá allir flokkar í gegnum fulltrúa sína í n. vitneskju um þau mál, sem efst eru á baugi á hverjum tíma, en allir þingflokkarnir eiga, eins og kunnugt er, fulltrúa í n. Þá hef ég líka talið rétt, að allir þingflokkarnir fengju fulltrúa á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og tækju þar þátt í störfum, en á þetta hefur nokkuð skort að undanförnu. Hefur þetta nýja fyrirkomulag gefizt vel, en um það vildi ég segja, að ég tel þýðingarmikið, að flokkarnir veldu til þessarar farar sem mest sömu menn, því að það tekur ávallt nokkurn tíma fyrir nýja menn að setja sig inn í störfin. Hvort tveggja þetta, að gera utanrmn. virkan aðila í meðferð utanríkismála og þátttaka allra flokka í störfum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, ætti að geta orðið til þess, að allir flokkar fengju sem gleggstar upplýsingar um það, sem í þessum málum er að gerast og að samræma eftir því, sem mögulegt er, skoðanir manna á þessum málum, eftir að hafa fengið allar upplýsingar, sem fyrir hendi eru. Til viðbótar kemur svo eins og áður, að allir flokkar eiga aðstöðu til allra starfa í Norðurlandaráði, en þar eru til umr. mörg sérmál þátttökuríkjanna fimm.

Þegar gefa skal skýrslu um utanríkismál hér og nú, þá finnst mér, að mér sé nokkur vandi á höndum. Í fyrsta lagi vegna þess, að slík skýrsla hefur ekki verið gefin áður nema um sérstök málefni, en annars staðar hefur sams konar skýrslugerð verið gefin mörgum sinnum og í hefðbundnu formi, en hér hefur þetta ekki verið gert, og því ekkert fast form fyrir því, hvernig slíkt skuli gera. Í öðru lagi er okkar utanríkisþjónusta mjög fámenn og sendifulltrúar okkar aðeins til frásagnar á fáum stöðum, en annars staðar litlar eða engar upplýsingar að fá umfram það, sem allir vita af frásögnum blaða, útvarps og tímarita.

Okkar utanríkismálastefna byggist, eins og ég hef nefnt hér áður, aðallega á fjórum atriðum. Í fyrsta lagi á náinni samvinnu við hin Norðurlöndin. Í öðru lagi á þátttöku í störfum Sameinuðu þjóðanna. Í þriðja lagi á þátttöku í Norður-Atlantshafsbandalaginu. Og í fjórða lagi á góðri samvinnu við okkar viðskiptalönd án tillits til þess, hvernig þau haga sínum innanlandsmálum og stjórnarfari. Ég skal nú fara nokkrum orðum um þessi atriði.

Norðurlandaþjóðirnar eru skyldastar okkur allra þjóða. Menning þeirra og menningarlíf hefur þróazt af sömu rót. Stjórnarfar þeirra er svipað og okkar og fyrst og fremst byggt á frelsi einstaklingsins og lýðræði. Þegar af þessum ástæðum er eðlilegt, að við höfum við þessar þjóðir nánari tengsl en við aðrar. En fleira kemur til. Við erum allra þjóða smæstir, og einsamlir getum við litlu áorkað, hvorki í okkar málum á alþjóðavettvangi né annarra. En samanlögð íbúatala Norðurlandanna allra er um 20 millj., og á málflutning þeirra er hlustað, hvar sem þau beita sér sameiginlega fyrir afgreiðslu mála. Það að vera með í þeirra hópi gefur okkur styrk, og þá er enn eins að geta, að oft og mörgum sinnum skortir okkur upplýsingar vegna fámennis utanríkisþjónustu okkar. Er þá oftast leitað til Norðurlandanna, en þær upplýsingar, sem okkur skortir, eru þar jafnan, vil ég segja, fúslega veittar. Um þessa afstöðu okkar til Norðurlandanna hygg ég, að flestir Íslendingar séu sammála. Þó hafa komið fram raddir um það, að réttast væri að hafa aðeins eitt sendiráð fyrir Norðurlöndin öll. Það hygg ég, að væri ekki vel ráðið. Svo náið er sambandið milli okkar og þeirra, að ég tel fulla þörf á að hafa stöðugt samband okkar í milli, samband, sem einungis er mögulegt með því að hafa sendiráð á staðnum, eins og nú er. Og það væri ekki heldur vel séð af þeim, ef eitthvert af sendiráðum okkar væri lagt niður, og hefur það greinilega komið í ljós.

Margháttuð samvinna milli Norðurlandanna á sér stað á fjöldamörgum sviðum, en Íslendingar taka þátt í henni bæði á vegum Norðurlandaráðs, á vegum ríkisstjórnanna beint og einnig á vegum fjölmargra stofnana. Utanrrh. koma t. d. saman tvisvar á ári bæði til að bera saman bækur um ýmis alþjóðamál og til að undirbúa fundi Sameinuðu þjóðanna. Þó að skoðanir séu stundum skiptar, eins og eðlilegt er, er þó oftast samstaða um afstöðu til flestra þeirra mála og umr. mjög gagnlegar. Samstarfið við allar Norðurlandaþjóðirnar hefur verið mjög gott á sviði menningarmála, menntamála og kennslumála, þar sem fjöldi íslenzkra námsmanna hefur fengið aðstöðu til náms og menntunar á fjölmörgum sviðum, en á einu sviði hefur þó hallazt nokkuð á, en það er í viðskiptum okkar við Norðurlandaþjóðirnar. Viðskiptajöfnuður okkar við þær hefur verið okkur óhagstæður. Á árunum 1961–1967 var innflutningur okkar frá Norðurlöndum að meðaltali 215.1 millj. d. kr. eða um 1/4 hluti af öllum innflutningnum, en útflutningurinn til þessara landa nam á sama tíma að meðaltali aðeins 136.6 millj. d. kr. Þetta stendur þó væntanlega til bóta, m. a. ef við gerumst aðilar að EFTA. En ef okkur, að vel athuguðu máli, þykir æskilegt að gerast aðilar að EFTA, þá eigum við örugglega hjá Norðurlöndunum góða stuðningsmenn í því máli, og svo er einnig um fjölda annarra mála einnig á alþjóðavettvangi, að hjá Norðurlöndunum eigum við jafnan vísan góðan stuðning.

Þegar Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar í styrjaldarlokin, var yfirlýst stefna þessara samtaka að setja niður deilur á milli ríkja. Þetta hefur ekki tekizt, nema segja megi miðlungi vel. Í nokkrum tilfellum hefur þetta þó tekizt, en í allt of mörgum tilfellum hefur það ekki tekizt. Sameinuðu þjóðirnar geta lítið annað aðhafzt, þegar slíkar deilur koma upp, en að gera samþykktir, sem þó hefur oft og tíðum verið erfitt að fá fram vegna neitunarvalds nokkurra þjóða í öryggisráði. En þó að slíkar samþykktir hafi verið gerðar, hafa mörg ríki, sem þessar ályktanir snerta, haft þær að engu og farið sínu fram. Framkvæmdavald hefur stofnunin ekkert, enda ætlazt til, að deilur þessar verði jafnaðar með friðsamlegum hætti. Friðargæzlusveitir eru þó til nokkrar, en allt of fáar og vanmegnugar, t. d. í Austurlöndum nær, í Kongó og raunar víðar. Raunin hefur orðið sú, að æðimörg þátttökuríkjanna hafa ekki viljað taka þátt í þeim kostnaði, sem þessar sveitir hafa í för með sér, og starf þeirra því orðið minna en æskilegt hefði verið, þó að vissulega hafi orðið nokkur árangur og gagnlegur.

Á allsherjarþingum Sameinuðu þjóðanna mæta fulltrúar frá aðildarríkjunum flestum. Þau eru nú 126 að tölu. Þessir fundir eru því hinn ákjósanlegasti vettvangur til þess að ræða ýmis alþjóðamál, og fyrir okkur Íslendinga alveg sérstaklega, sem höfum ekki diplómatískt samband nema við tiltölulega fáar þjóðir, er þetta mjög þýðingarmikið.

Þegar 23. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna var sett hinn 20. sept. 1968, voru aðeins nokkrar vikur liðnar frá innrás Sovétríkjanna og bandamanna þeirra í Tékkóslóvakíu. Andrúmsloftið í sölum allsherjarþingsins bar þess ótvíræð merki, hve djúpstæð áhrif viðburður þessi hafði haft á ríkisstjórnir jafnt sem almenning um heim allan. Styrjöldin í Víetnam geisaði enn. Undirbúningsviðræður þær, sem hafnar voru í París milli Bandaríkjanna og Norður-Víetnam, höfðu staðið í nokkra mánuði án sjáanlegs árangurs og án þess, að nokkur varanleg lausn virtist framundan á næstu grösum. Viðleitni öryggisráðsins til þess að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs hafði borið næsta lítinn árangur þrátt fyrir þrautseigju og þolinmæði hins sérstaka sendimanns Sameinuðu þjóðanna, Gunnars Jarring, sem mánuðum saman hafði unnið að því með lagni að reyna að þoka deiluaðilum nær samningaborðinu. Sýndist mörgum sem lítil von væri til þess að koma á verulegum sáttum eða friði milli Araba og Ísraels. Borgarastyrjöldin í Nígeríu hafði leitt ótaldar hörmungar yfir íbúa Bíafra, sem hrundu niður af hungri í þúsundatali, konur sem karlar, börn jafnt og gamalmenni. Var þetta í margra augum hróplegt dæmi um vanmætti Sameinuðu þjóðanna til þess að grípa í taumana, þegar um borgarastyrjöld innan eins aðildarríkis, sem nýtur fullveldis og viðurkenningar allra aðildarríkjanna, er að ræða. Átti almenningur að vonum erfitt með að skilja, hvers vegna ekki væri hægt að skerast í leikinn og bjarga lífum sveltandi og saklausra barna. Allt þetta átti sinn þátt í því, að segja má, að á 23. allsherjarþinginu hafi ríkt nokkur tilfinning vanmættis og vonleysis, einkum framan af þinginu. Við þetta bættist, að forsetakosningar stóðu fyrir dyrum í Bandaríkjunum, og biðu allir átekta og með eftirvæntingu eftir að sjá, hverja stefnu nýr forseti og stjórn hans mundi marka.

Atburðirnir í Tékkóslóvakíu höfðu þó ekki eins alvarleg áhrif á störf þingsins og margir höfðu óttazt í upphafi, og er leið á þingtímann fór andrúmsloftið aftur að breytast. Mönnum létti, er sjáanlegt var, að Bandaríkin og Sovétríkin voru ásátt um að láta ekki slitna alveg upp úr sambandinu milli austurs og vesturs vegna nýafstaðinna atburða og sýndust öllu fremur stefna að því að taka upp á ný viðræður um að hefta vígbúnaðarkapphlaupið. Þá var svo að sjá sem Rússar væru þess fremur hvetjandi, að Norður-Víetnamar settust að samningaborði með Bandaríkjunum í því skyni að binda endi á styrjöldina í Víetnam. Á sviði afvopnunarmála varð lítill árangur á 23. allsherjarþinginu. Eini raunhæfi árangurinn, er náðst hafði á því sviði síðustu árin, var samningurinn um stöðvun á útbreiðslu kjarnavopna, sem samþykktur var á fimmta sérstaka aukaþingi samtakanna, sem Ísland hefur undirritað ásamt fjölda annarra ríkja. Ekki voru þó allir ánægðir með sum ákvæði samningsins, og í ágúst 1968 var haldin í Genf ráðstefna þeirra ríkja, sem ekki hafa kjarnavopn, til að ræða ýmis ákvæði samningsins og önnur vandamál í sambandi við sívaxandi framleiðslu kjarnorkuefna, er breyta má í kjarnavopn. Ísland tók þó ekki þátt í þeirri ráðstefnu. Var setningu allsherjarþingsins frestað um eina viku, þvert ofan í ákvæði þingskapa, til þess að bíða eftir því, að ráðstefnunni lyki. Um helmingur aðildarríkjanna hafði þegar undirritað samninginn um stöðvun á dreifingu kjarnavopna, en mörg ríki höfðu ákveðið að bíða eftir niðurstöðu ráðstefnunnar í Genf, áður en þau tækju ákvörðun um að undirrita samninginn, og sum þeirra ríkja, sem höfðu undirritað hann, biðu með fullgildingu eftir því sama. Varð það til þess, að samningurinn var ekki genginn í gildi, er allsherjarþingið hófst. Þá hafði innrásin í Tékkóslóvakíu orðið til þess, að viðræður milli austurs og vesturs um afvopnunarmál höfðu stöðvazt í bili. Átján ríkja afvopnunarnefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf hefur jafnan skilað skýrslu um störf sín ár hvert til allsherjarþingsins, og hafa umræður allsherjarþingsins um afvopnunarmál að mestu grundvallazt á þeirri skýrslu. Af þeim sökum, sem hér hafa verið nefndar, hafði nefndin fáa fundi á seinni hluta s. l. árs og gat litlu af sér skilað til allsherjarþingsins. Það þótti þó bót í máli, að nefndin gat komið sér saman um dagskrá og umræðuefni fyrir fundi sína á árinu 1969. Í þingsályktun um afvopnunarmálin lýsti allsherjarþingið því yfir, að það vonaðist eftir því, að takast mætti að hefja á ný viðræður milli austurs og vesturs, þ. e. milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, og stæðu vonir til þess, að einhver árangur næðist af störfum afvopnunarnefndarinnar á árinu 1969.

Eitt af aðalhlutverkum Sameinuðu þjóðanna, samkvæmt sjöunda kafla stofnskrár samtakanna, er friðargæzla. Þrátt fyrir vanmætti og takmarkað vald hefur Sameinuðu þjóðunum tekizt að stöðva ófrið og bera klæði á vopnin, þegar vilji aðildarríkja og þá sérstaklega stórveldanna hefur verið fyrir hendi. Hins vegar ríkir, eins og kunnugt er, djúpur ágreiningur um það, hvort öryggisráðið eitt geti tekið ákvarðanir um friðargæzlu og stöðvun ófriðar eða hvort allsherjarþinginu sé heimilt með 2/3 meiri hluta atkvæða að ákveða slíkar aðgerðir í þeim tilvikum, sem vilji meiri hluta meðlima öryggisráðsins hefur verið lamaður með neitunarvaldi eins stórveldis. Ríkisstjórn Íslands hefur, eins og önnur Norðurlönd, fylgt þeirri stefnu, að efla beri framkvæmdavald Sameinuðu þjóðanna og að neitunarvald eins stórveldis í öryggisráðinu sé þrándur í götu fyrir því, að stofnunin geti gegnt tilætluðu hlutverki sínu. Þetta sjónarmið kom greinilega fram af Íslands hálfu í hinum almennu umræðum á 22. allsherjarþinginu haustið 1967. Ágreiningurinn varðandi friðargæzluhlutverkið er í stuttu máli þessi: Sovétríkin og Frakkland halda því fram, að einungis öryggisráðið geti tekið ákvarðanir um, að Sameinuðu þjóðirnar beiti herliði til að stilla til friðar milli ófriðaraðila. Bandaríkin og margar Vesturlandaþjóðir halda hinu fram, að öryggisráðið sé ekki einrátt við friðargæzluaðgerðir, heldur að þegar öryggisráðið geti ekki komið sér saman, sé allsherjarþinginu heimilt að ákveða að senda herlið til þess að koma á eða viðhalda friði og spekt í hlutaðeigandi landi, þ. e. að senda þangað friðargæzlusveitir. Hins vegar viðurkenna sömu ríki, að eingöngu öryggisráðið geti ákvarðað að senda herlið til að bæla niður styrjöld, þ. e. að ganga til bardaga við styrjaldaraðila. Þessi grundvallarágreiningur um túlkun á ákvæðum stofnskrár Sameinuðu þjóðanna er enn óleystur og þar með vandamálið um greiðslu á kostnaðinum um friðargæzlu samtakanna í Kongó og Palestínu. Ríkisstj. hafa nú þessa dagana borizt tilmæli frá aðalritara Sameinuðu þjóðanna um aukin frjáls framlög til friðargæzlusveitanna á Kýpur. Íslendingar hafa áður lagt fram nokkurt fé í þessu skyni, en vegna hins erfiða fjárhags nú hefur ríkisstj. ekki talið fært að gera þetta í þetta sinn, þótt leitt sé að geta ekki orðið við þessum tilmælum samtakanna.

Þrátt fyrir þennan grundvallarágreining má segja, að friðargæzluvandamálinu hafi þokað á leið á s. l. ári. Milliþinganefnd um friðargæzlumál, sem skipuð er 33 ríkjum, kom sér saman um grundvallaratriði varðandi stöðu og hlutverk hermálafulltrúa Sameinuðu þjóðanna. Nokkur ríki, svo sem Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Kanada, hafa tilkynnt, að þau hafi til taks sérstakar hersveitir, sem ætíð skuli til taks og Sameinuðu þjóðirnar geti gripið til og notað sem friðargæzlusveitir. Er þess vænzt, að fleiri ríki muni gera slíkt hið sama og þannig muni smátt og smátt myndast gæzlu- og hjálparsveitir, sem Sameinuðu þjóðirnar geti gripið til með litlum fyrirvara.

Nýlendumálin hafa í mörg ár verið ofarlega á baugi í umræðum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Hafa þær umræður óneitanlega haft mikil áhrif og jafnvel úrslitaáhrif í þá átt að hraða þeirri þróun, að nýlendur fengju sjálfstæði. Er nú svo komið, að flestar eða allar hinar stærri nýlendur helztu heimsveldislandanna, svo sem Bretlands og Frakklands, hafa fengið sjálfstjórn eða algert fullveldi og eru orðnar sjálfstæð ríki og meðlimir Sameinuðu þjóðanna. Síðustu tvö eða þrjú árin hafa umræður um nýlenduvandamálin því aðallega beinzt að Portúgal og Suður-Ameríku og að Bretum og öðrum bandamönnum Portúgals í NATO. Jafnframt hafa Afríkuþjóðir beint athygli sinni meir og meir að kynþáttavandamálinu og að apartheit-stefnu Suður-Afríku og hliðstæðri stefnu Suður-Ródesíu og beint skeytum sínum að Bretum, Bandaríkjamönnum og öðrum vestrænum þjóðum fyrir tregðu þeirra til þess að láta til skarar skríða um valdbeitingu gegn Ródesíu og S.-Afríku. Á 23. allsherjarþingi virtust fulltrúar margra þróunarlanda hins vegar hafa gert sér ljóst, að ekki yrði komizt lengra í bili. Fulltrúar margra ríkja í S.-Ameríku og Asíu og jafnvel Afríkumenn virtust komnir á þá skoðun, að það væri gagnslítið og jafnvel óhyggilegt að þvinga í gegn stórorðar ályktanir um valdbeitingu eða aðrar aðgerðir, sem vitað væri fyrirfram, að væru alls óraunhæfar. Mun þessi þróun eiga rót sína að rekja til þess, að æ fleiri ábyrgir fulltrúar gera sér grein fyrir því, að þingsályktanir, sem krefjast aðgerða, sem Sameinuðu þjóðirnar hafa ekki umboð eða vald til að framkvæma, munu einungis bera þann árangur að veikja samtökin og grafa undan því hlutverki, sem þau eiga að geta gegnt til þess að styrkja friðsamlega sambúð þjóða heims.

Á sviði efnahagsmála voru mörg mikilvæg og nytsamleg mál á dagskrá allsherjarþingsins, og segja má, að vel hafi miðað áfram í sumum þeim málum. Samkomulag náðist um skipun nefndar til að undirbúa og skipuleggja 2. þróunaráratug Sameinuðu þjóðanna 1971–1980. Jafnframt var viðskipta- og þróunarráðstefna Sameinuðu þjóðanna, UNCTAD, skipulögð sem fastastofnun, en ætlunin er, að hún verði eins konar miðdepill í skipulagi þróunaráratugsins. Meðal mála, sem Ísland lét til sín taka á þessu sviði, var aukning á framleiðslu eggjahvíturíkra fæðutegunda, og annar fulltrúi Íslands í efnahagsmálanefnd þingsins flutti ræðu í því máli og hvatti til skipulags átaks til þess að koma á fót framleiðslu í stórum stíl á fiskmjöli til manneldis, — það væri ein próteinríkasta fæðutegund, sem mannkynið ætti völ á, og gæti orðið öflugur þáttur í baráttunni gegn hungri og næringarskorti í vanþróuðum löndum. Var Ísland meðflutningsaðili að ályktun varðandi þetta mál.

Að venju var nefndarmönnum okkar skipt niður á allsherjarþinginu á hinar ýmsu þingnefndir, en þær eru 7, eins og kunnugt er. Var leitazt eftir að gera það eftir sérþekkingu og reynslu hvers manns. Sendinefndin hélt með sér fundi að morgni hvers dags, áður en þingfundir hófust, eins og starfsvenja er hjá sendinefndum annarra ríkja. Greindi hver nefndarmaður frá umræðum og tillögum, sem komið höfðu fram í hans þingnefnd, og var tekin afstaða til þeirra í ljósi þeirra fyrirmæla, sem sendinefndin hafði frá utanrrn. hér. Samkvæmt skýrslu frá fastafulltrúa Íslands var samstarf nefndarinnar hið ákjósanlegasta, og ef ágreiningur var um afstöðu Íslands í einstökum þingmálum, fór nefndin eftir fyrirmælum utanrrn., en einstakir nefndarmenn höfðu þó tækifæri til að gera grein fyrir sérstöðu sinni.

Hannes Kjartansson sendiherra flutti aðalframsöguræðu Íslands í allsherjarumræðum þingsins. Rökstuddi hann stefnu Íslands í hinum helztu þingmálum, sem á dagskrá voru. M. a. gerði hann þá grein fyrir stefnu ríkisstj. varðandi aðild Kína, að Ísland teldi óeðlilegt, að alþýðulýðveldið Kína, fjölmennasta þjóðríki veraldar, stæði utan samtakanna. Hins vegar væri ríkisstjórn Íslands andvíg því að reka aðildarríki úr samtökunum, sem haldið hefðu allar settar reglur. Því bæri að stefna að því að finna lausn, er gerði það mögulegt bæði fyrir alþýðulýðveldið Kína og lýðveldið Kína, þ. e. Taiwan, að verða meðlimir. Ísland hefði því gerzt meðflytjandi að þeirri ályktunartillögu, sem Ítalía gekkst fyrir, að skipuð skyldi nefnd til að kanna málið og reyna að finna leið til þess, að alþýðulýðveldið Kína gæti öðlazt aðild að Sameinuðu þjóðunum án þess að útiloka Formósu. Ítalska tillagan var þó, eins og kunnugt er, felld aftur á þessu þingi. 30 ríki greiddu henni atkvæði, en 67 voru á móti og 27 sátu hjá. Þetta mun vera í fyrsta sinn, sem sendinefnd Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hefur átt frumkvæði að því að semja og bera fram eigin þingsályktunartillögur, og þær undirtektir og hið almenna fylgi, sem báðar tillögurnar fengu, eru, að ég tel, landi og þjóð til álitsauka, og mun ég víkja að þeim báðum síðar.

Eitt merkasta nýmæli, sem lagt var fram á þessu allsherjarþingi að tilhlutan Svía, er vandamálið: Vernd á umhverfi mannsins, náttúruvernd í víðtækustu merkingu þess orðs. Mengun andrúmslofts og vatns í kringum stórborgir víða um heim og ýmis önnur náttúruspjöll eru orðin svo alvarleg vandamál, að tímabært þykir að glíma við þau á alþjóðlegum vettvangi. Ísland gerðist ásamt mörgum öðrum meðflutningsaðili að ályktun Svía, að kölluð skyldi saman á vegum Sameinuðu þjóðanna alþjóðaráðstefna um þessi mál árið 1972. Var sú tillaga samþykkt einróma á þinginu.

Önnur tillaga, sem Ísland var meðflutningsaðili að, var tillaga sú, sem utanrrh. Danmerkur átti frumkvæði að, þess efnis að fela framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að kanna með fyrirspurn til ríkisstjórna aðildarríkjanna, með hverju móti þær teldu mögulegt að koma á skrásetningu á vopnasölu milli landa. Noregur og Malta voru einnig meðflytjendur að tillögunni, en till. fékk fremur dræmar undirtektir í fyrstu nefnd þingsins, og var hún ekki borin undir atkvæði.

Hér hefur aðeins verið greint frá nokkrum af helztu málum, sem til umræðu voru á 23. allsherjarþinginu, svo og þeim málum, sem sérstaklega varða Ísland. Alls voru 90 mál á dagskrá allsherjarþingsins að þessu sinni, og fluttar voru samtals 115 ályktunartillögur. Vil ég nú víkja að hinum sérstöku áhugamálum Íslands og tillöguflutningi íslenzku nefndarinnar í því sambandi á síðasta allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Það fer ekki á milli mála, að enn sem fyrr eru landhelgis- og fiskveiðiréttarmál einn mikilvægasti þáttur íslenzkrar utanríkisstefnu. Þau viðfangsefni hafa því verið meðal mikilvægustu verkefna, sem utanrrn. og utanríkisþjónustan hafa fengizt við á undanförnum árum. Stefnan í þessum efnum var glögglega mörkuð með þál. Alþ. frá 5. maí 1959, þar sem sagt er, að afla beri viðurkenningar á rétti okkar til landgrunnsins alls. Og í samningnum, sem gerður var um lausn landhelgisdeilunnar við Breta og Þjóðverja 1961, er það tekið fram skýrum stöfum, að ríkisstj. muni halda áfram að vinna að framkvæmd þeirrar ályktunar varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland. Það þarf heldur engan að undra, sem til allra málavaxta þekkir, að við Íslendingar höfum hug á því að tryggja, að auðlindir hafsins umhverfis landið, sem öll okkar framtíð byggist á, gangi ekki til þurrðar vegna ofveiði og ásóknar fiskiskipa fjölda þjóða. Löngum var talið, að hafið væri óþrjótandi forðabúr og ekki þyrfti að óttast að illa aflaðist, ef á sjó gæfi. En sá tími er því miður liðinn og ný og breytt viðhorf komin til sögunnar í þessum efnum. Það er staðreynd, sem ekki þýðir að horfa fram hjá, að nú virðist sem fiskistofnarnir í N.Atlantshafi séu nánast að verða fullnýttir. Verði sóknin í þá aukin, sem nokkru nemur, mun þar verða um skaðlega ofveiði að ræða. Það er t. d. sameiginlegt álit erlendra fiskifræðinga, að jafnmikið aflamagn sé almennt unnt að veiða á vesturhluta Atlantshafsins með 20% minni sókn, ef veiðarnar væru skipulagðar betur en nú er. Og jafnmikið fiskveiðiríki sem Sovétríkin hefur m. a. nýlega sett fram tillögur um að takmarka aflamagnið á NA-Atlantshafinu við meðaltal undanfarinna ára, svo að ofveiðihættunni verði bægt frá dyrum. Okkar eigin fiskifræðingar hafa komið fram með þær alvarlegu upplýsingar, að svo virðist sem við tökum meira úr þorskstofninum en hann virðist jafnvel þola. Dánartala stofnsins hafi verið komin upp í um 70% á árunum 1960–1964, en æskilegt sé, að dánartalan fari ekki yfir 65% að mati þeirra. Jafnframt liggja fyrir þær upplýsingar, að Íslendingar sjálfir veiða aðeins l8 fiska af hverjum 100 óþroska fiskum, sem á Íslandsmiðum veiðst, hitt taka erlend fiskiskip. Þá hefur nýlega verið skýrt frá því, að heildarafli landsmanna á síðasta ári hafi aðeins numið 550 þús. tonnum, en árið 1966 hafi aflinn verið yfir 1200 þús. tonn. Er þar því um meira en helmingslækkun að ræða á þessum tveimur árum. Þessar staðreyndir, sem ég hef hér gert að umtalsefni, og þessi atburðarás öll sýnir glögglega, hver höfuðnauðsyn það er fyrir okkur Íslendinga að tryggja fiskveiðihagsmuni okkar á komandi árum. 12 mílna fiskveiðilögsagan var mikilsverður áfangi á sínum tíma, og hún var lögtekin í fullu samræmi við aðgerðir annarra þjóða um það leyti og réttarþróunina í heiminum. En í ljós hefur komið, að sú lögsaga kemur ekki nægilega til móts við fiskveiðihagsmuni ýmissa strandríkja, sem mjög byggja á fiskveiðum. Þau telja, að ekki verði komizt hjá því á næstu árum að taka upp einhverja þá skipan, sem tryggir strandríkinu einhvers konar forgangsrétt til veiða á landgrunnsmiðum sínum umfram önnur ríki og kemur í veg fyrir rányrkju á þessum miðum. Við Íslendingar erum ekki einir um það að óska eftir einhverju slíku fyrirkomulagi. Svipaðar hugmyndir komu fram í ræðu, sem fiskimálaráðherra Kanada, Jack Davies, hélt í Boston í nóv. s. l. og þann 1. nóv. var sú hugmynd borin fram í forustugrein í The Fishing News, sem er blað brezku togaraeigendanna, að strandríkið fái lögsögu yfir öllum landgrunnsfiskimiðum og heimili síðan öðrum þjóðum veiðar þar, svo sem æskilegt þykir undir yfirumsjón alþjóðanefndar, sem valin verði í samráði við strandríkið.

Þessi tvö dæmi, sem ég hef hér vitnað til, sýna, að það eru fleiri þjóðir en við Íslendingar, sem gera sér ljóst, að nauðsyn er að koma á nýrri, alþjóðlegri skipan varðandi forréttindi strandríkisins til fiskveiða á landgrunnsmiðum sínum. Og það væri líka vissulega sanngirnis- og réttlætismál, að sú þjóð, sem byggir efnahag sinn á fiskveiðum, njóti betri réttar til fiskimiðanna í næsta nágrenni við strendur sínar en þjóðir, sem byggja lönd, sem eru í þús. mílna fjarlægð.

Á síðasta ári hefur utanrrn. unnið markvisst að áframhaldandi sókn í þessum efnum og náð mikilsverðum áföngum á alþjóðavettvangi á þessu sviði. Hefur það starf verið unnið aðallega á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, þar sem utanríkisþjónustan hefur fengið samþ. till. um vernd fiskstofnanna á úthafinu gegn ofveiði og rányrkju og einnig ýtt úr vör gerð alþjóðareglna til þess að hindra mengun sjávar. Jafnframt höfum við einnig borið fram hagsmunamál okkar innan fiskveiðinefndar þeirrar, sem fer með stjórnun og eftirlit fiskveiðanna á NA-Atlantshafi.

Á 5. fundi NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, sem haldinn var í París sumarið 1967, bar íslenzka sendinefndin fram till. um það, að allar togveiðar yrðu bannaðar hálft árið á stóru svæði fyrir utan fiskveiðilögsöguna norðaustur af landinu, eða frá línu, sem dregin er réttvísandi frá Rifstanga, og að annarri línu, sem er dregin réttvísandi í austur frá Dalatanga. Byggðist till. þessi á niðurstöðum athugana n. alþjóðahafrannsóknaráðsins á ástandi fiskstofnanna við Ísland, sem fyrr er getið. Sérstakur fundur var haldinn með fulltrúum 5 þjóða í janúar á s. l. ári og málið aftur rætt á 6. fundi NA-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar, sem haldinn var hér í Reykjavík í maímánuði. Varð niðurstaðan sú, að íslenzkir fiskifræðingar munu skipuleggja sameiginlegar fiskifræðirannsóknir margra þeirra þjóða, sem n. skipa, sem beinast skulu að því að leiða í ljós ástand fiskstofnanna hér við land og á nálægum hafsvæðum. Lýkur rannsóknunum eftir tvö ár, og verður þá unnt að taka frekari ákvarðanir um bann við veiðum á ákveðnum svæðum úthafsins hér við land eða hvaða veiðitakmarkanir eru þar nauðsynlegar til viðhalds fiskstofnunum. Má því segja, að mál þetta sé komið á rekspöl og hér verið að leggja vísindalega undirstöðu fyrir frekari aðgerðir til verndar fiskstofnunum utan íslenzku fiskveiðilögsögunnar.

Er þá komið að þætti Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Á því allsherjarþingi, sem nú er nýlokið, 23. allsherjarþinginu, hefur Ísland látið verulega að sér kveða og haft forystu í hópi þjóða í þeim efnum, sem varða hagsmuni strandríkja og varðveizlu fiskstofna í hafinu utan fiskveiðilögsögunnar. Höfum við flutt tvær till. á þinginu í þessum efnum, og svo vel tókst til, að þær hlutu báðar samþykki. Má það kallast vel af stað farið á þessum vettvangi, því það vita allir sem til þekkja, að í þessum hópi 126 þjóða fer það ekki alltaf svo, að smæstu ríkin komi þannig hagsmunamálum sínum í höfn. Megum við Íslendingar því sannarlega vel una við þær viðtökur, sem þessar tvær till. okkar hlutu á þessu veraldarþingi þjóðanna. Ekki aðeins teljum við okkur með því hafa þokað góðum málum og gagnlegum nokkuð áleiðis, heldur vöktu báðar íslenzku till. allmikla athygli og urðu jafnframt til þess að kynna sjónarmið okkar heima fyrir og hagsmuni í fiskveiðiréttarmálum. Getur það komið okkur að góðu gagni síðar meir.

Fyrri till. okkar fjallaði um það, að alþjóðareglur skuli settar, til þess að komið verði í veg fyrir, að fiskstofnarnir bíði tjón af mengun sjávar. Jafnframt skuli þegar í stað hafin athugun á því, hvaða réttindi eigi að veita strandríkjum til þess að vernda fiskstofnana, þegar mengun hefur átt sér stað eða hætta er á henni í hafinu fyrir utan fiskveiðilögsöguna. Er ljóst, að fyrir Íslendinga og aðrar þær þjóðir, sem byggja á fiskveiðum, getur hér orðið um mikilvæga, nýja réttindaheimt að ræða. Tillaga þessi er fram komin vegna þess, að mjög fer nú vaxandi, að þjóðir vinni þær auðlindir, sem á hafsbotni finnast, svo sem gas, kol og olíu, en við slíka námuvinnslu er ætíð hætta á því, að alls kyns eiturefni komist út í hafið, sem fiskstofnunum getur stafað stórhætta af, því að slík efni geta borizt óravegu með hafstraumum á skömmum tíma. Þótt undarlegt megi virðast, eru ekki í dag til neinar alþjóðareglur, sem miða að því að hindra, að slík mengun geti átt sér stað. Í hafsbotnsnefnd Sameinuðu þjóðanna bar því íslenzka n. upp till. á s. l. sumri um, að Sameinuðu þjóðirnar láti semja slíkar reglur, og verði einn þáttur þess verks að kanna, hvaða ný réttindi eigi að veita strandríkinu á þessu sviði utan landhelginnar. Till. fékk góðan byr í hafsbotnsnefnd og var borin fram á allsherjarþinginu í vetur. Þar óskuðu 40 ríki eftir að gerast meðflutningsmenn að till., þ. á m. Bandaríkin, Sovétríkin, Bretland og Frakkland. Hlaut till. mikið fylgi og var samþ. í einu hljóði með 119 atkv. skömmu fyrir þinglokin í desember. Verður nú strax hafizt handa um framkvæmd rannsóknar, sem till. gerir ráð fyrir, hvernig bezt verði hindrað, að mengun frá vinnslu á hafsbotni hafi skaðleg áhrif á fiskistofnana og annað líf í sjónum. Skipuleggur framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna rannsókn þessa, en sérfræðinganefnd nokkurra alþjóðastofnana mun væntanlega annast hana. Þegar álit liggur fyrir, mun málið aftur koma fyrir þ. Sameinuðu þjóðanna, og gefst okkur, sem öðrum þjóðum, þá tilefni til og tækifæri til þess að greina frá áliti okkar að nýju. Er þess að vænta, að niðurstaða þessa frumkvæðis af okkar hálfu verði sú, að saminn verði ítarlegur alþjóðasamningur um varnir gegn mengun sjávar, og er það vissulega þarft mál og tímabært.

Þá skal getið um hina tillöguna, sem Ísland bar fram á þingi Sameinuðu þjóðanna í vetur. Sú till. fjallaði um vernd fiskistofnanna í úthöfunum og aukna alþjóðasamvinnu um skynsamlega varðveizlu þeirra og nýtingu. Var þessi till. Íslands flutt við umr. um dagskrármál í annarri n. á allsherjarþinginu um auðæfi hafsins. Hafa Sameinuðu þjóðirnar síðustu tvö árin látið gera ítarlega, sérfræðilega greinargerð um það, hvernig auðæfi hafsins verði bezt nýtt, og var skýrsla sérfræðingan. til umr. í n. Íslenzku sendin. þótti nauðsynlegt, að allsherjarþingið mótaði stefnuna í þessum mikilvægu málum á grundvelli sérfræðingaskýrslu þessarar og gæfi hinum ýmsu sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna fyrirmæli um það, að hvaða verkefni bæri fyrst og fremst að starfa á þessum vettvangi. Hér er um að ræða tvö meginmarkmið. Í fyrsta lagi, að fiskstofnar úthafsins gefi meira af sér en hingað til, en það er einmitt á úthafinu sem meiri hluti fiskveiða okkar fer fram. Í öðru lagi er mikilvægt, að fiskstofnum úthafsins sé veitt nægileg vernd gegn ofveiði, svo að þeim sé ekki hætta búin af þeim sökum. Bar íslenzka sendin. því fram till. sína um nýtingu og vernd fiskstofnanna í úthöfunum. Segir þar m. a., að tryggja verði með aukinni alþjóðasamvinnu, að fiskstofnar úthafanna hljóti fullnægjandi vernd, svo að arður þeirra verði jafnan í hámarki, annað sé ekki afsakanlegt af samfélagi þjóðanna, þegar til þeirrar staðreyndar er litið, að meira en helmingur mannkyns býr við næringarskort í dag. Er í till. skorað á allar þjóðir að auka samvinnu sína á þessu sviði með sérstöku tilliti til þarfa þróunarlandanna. Jafnframt er sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna, sem að fiskimálum starfa, falið að auka starf sitt, að því er varðar vernd fiskstofnanna, og efla samvinnu sína og stuðla að sem beztri nýtingu auðæfa hafsins. Leggur till. framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna þá skyldu á herðar að gefa 25. þingi Sameinuðu þjóðanna skýrslu í samráði við efnahags- og félagsmálaráð samtakanna um það, sem áunnizt hefur um vernd fiskstofnanna og betri nýtingu þeirra á grundvelli hinnar íslenzku tillögu.

Fljótt kom í ljós, að till. þessi átti verulegu fylgi að fagna á þinginu, og sögðu fulltrúar ýmissa ríkja, að hér væri borið fram þarft og merkilegt mál, svo mjög sem fæðuskorturinn er orðinn alvarlegt vandamál í veröldinni í dag. Ættu Sameinuðu þjóðirnar að láta sig það meira varða en hingað til hefur verið. Þegar till. kom síðan til atkvæða á allsherjarþinginu hinn 17. des. s. l., var hún samþ. með 99 atkv. án mótatkvæða, en 8 sátu hjá. Með þessari till. höfum við vakið athygli á breiðum vettvangi á því vandamáli, sem einna stærst er í okkar augum: Nauðsyn þess að hindra rányrkju á fiskimiðum og tryggja sem beztan arð fiskstofnanna. Vitanlega er okkur mikilvægast, að slíkt sé tryggt á okkar eigin miðum hér í N-Atlantshafinu, en þess er ekki síður þörf víða annars staðar. Mátti það merkja af þeim hljómgrunni, sem íslenzka till. fékk í umr. og atkvæðagreiðslunni. Er það vissulega líka þróun í rétta átt, að við Íslendingar ræðum ekki sýknt og heilagt eingöngu um okkar eigin hagsmunamál á alþjóðavettvangi, heldur leggjum þar jafnframt jákvætt til málanna á breiðari grundvelli það sem öllum þjóðum eða flestum er í hag. Það höfum við gert með flutningi þeirra tveggja till., sem hér hafa verið nefndar:

Það starf, sem hefur verið unnið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, er áfangi í sókn okkar í fiskveiðiréttinda- og fiskverndarmálum. Við hljótum að njóta góðs af öllum þeim ráðstöfunum, sem framkvæmdar eru á alþjóðavettvangi og miða að því að hindra ofveiði og auka arð fiskstofnanna. Með tillögugerðinni um alþjóðasamning gegn mengun hafsins og skaðlegum áhrifum hennar á fiskstofnana hafa Íslendingar einnig haft forgöngu um alþjóðlegt nauðsynjamál. Þetta starf allt vekur jafnframt athygli þjóða veraldar á því, að þetta land byggir þjóð, sem lætur sig miklu varða farsæla lausn þessara mála og jafnframt, að hún á flest sitt undir skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins. Mun það án efa koma okkur að góðu haldi í starfi okkar í framtíðinni.

Á allsherjarþinginu nú í desember var kjörin nefnd, sem hefur fengið það verkefni að gera uppkast að alþjóðasamningi um nýtingu auðlinda hafsbotnsins. Var Ísland eitt þeirra 42 ríkja, sem í nefnd þessa voru kjörin. Síðustu ár hefur athygli manna beinzt í æ ríkara mæli að hafsbotninum og þeim miklu auðlindum, sem þar hafa fundizt. Hafa mörg ríki þegar sett lög um réttindi sín til hafsbotnsins eða landgrunnsins undan ströndum sínum og allra þeirra auðlinda, sem í grunninu kunna að finnast. En eins og kunnugt er, hefur allmikið magn jarðgass þegar fundizt í landgrunni Noregs og Danmerkur og á botni Norðursjávar er fyrir nokkrum árum hafin umfangsmikil námuvinnsla.

Fram til þessa höfum við ekki gert formlegt tilkall til þeirra auðæfa, sem finnast kunna í hinu íslenzka landgrunni, eða yfirráðaréttar íslenzka ríkisins yfir því. En vegna hinnar öru þróunar og breyttra viðhorfa í þessum efnum hefur utanrrn. nú samið frv., þar sem svo er fyrir mælt, að íslenzka ríkið eigi fullan og óskoraðan yfirráðarétt yfir landgrunninu, að því er tekur til rannsókna á auðæfum þess og vinnslu og nýtingu þeirra. Skulu öll slík auðæfi vera eign Íslendinga, og er það mark sett í lagafrv., að þessi réttindi okkar skuli ná svo langt út frá ströndum landsins sem unnt er að vinna auðæfi landgrunnsins. Og eins og ég tók fram, þegar ég mælti fyrir þessu frv., hafa ekki fram til þessa farið fram neinar rannsóknir á því, hvaða efni íslenzka landgrunnið hefur að geyma, og ekki er víst, að þar séu fólgnir neinir fjársjóðir, þrátt fyrir hina góðu reynslu nágranna okkar. En ríkisstj. hefur þótt það sjálfsagt öryggis- og varúðaratriði að skera úr því með slíku lagafrv., að landgrunnið er eign Íslendinga, og öðrum þjóðum er ekki heimilt að hefja þar rannsóknir eða námuvinnslu nema með leyfi íslenzkra stjórnvalda.

Í aprílmánuði s. l. gaf ég hér á Alþingi skýrslu um afstöðu ríkisstj. til Atlantshafsbandalagsins og varnarsamningsins við Bandaríkin, tvö náskyld málefni, en þó aðskilin. Spunnust þá nokkrar umr. út af þessari skýrslu, enda er hér um að ræða tvö þýðingarmikil atriði í utanríkisstefnu okkar Íslendinga. Eru þessi mál stöðugt til íhugunar og umr. manna á meðal, og síðast var umr. um þau hér í þingsölunum skömmu fyrir jólin, og lét ég þá orð falla á þá leið, að tækifæri mundi gefast bráðlega til að ræða þessi mál nánar í almennum umr. um utanríkismál.

Skal ég þá fyrst víkja að Atlantshafsbandalaginu. Sögulegur aðdragandi að stofnun bandalagsins og þróun þess, eftir að það tók til starfa, er flestum ljós, og gerði ég þessu nokkur skil í skýrslu minni hinn 19. apríl s. l. Þó að mikið hafi verið deilt um þátttöku okkar í NATO á sínum tíma, held ég, að í raun og sannleika sé ekki ágreiningur um sögulegar aðstæður, er lágu til grundvallar því, að við tókum þá ákvörðun að gerast aðilar að varnarbandalagi Vesturlanda. Jafnvel andstæðingar bandalagsins bera ekki lengur brigður á þær. Er við endurheimtum að fullu sjálfstæðið úr höndum Dana, var sú þunga skylda lögð á herðar hins nýja lýðveldis að varðveita þetta sjálfstæði og tryggja öryggi landsins og frelsi þjóðarinnar. Þetta er eitt höfuðverkefni utanríkisþjónustu hvers fullvalda ríkis. Fyrir 50 árum töldu Íslendingar þessum málum borgið með einhliða yfirlýsingu um ævarandi hlutleysi, og var Dönum falið að tilkynna erlendum ríkjum þetta. En haldleysi þessarar yfirlýsingar kom einmitt skýrast í ljós, þegar við Íslendingar þurftum vorið 1940 sjálfir að taka öll okkar eigin mál í eigin hendur, áður en sambandslögin höfðu runnið sitt skeið á enda. Þegar við stofnuðum okkar utanríkisráðuneyti og þurftum fyrst í reynd að marka okkar pólitísku utanríkisstefnu, sem ekki eingöngu laut að sambandinu við Dani, þá var það einmitt vegna þess, að hlutleysið hafði brugðizt. Það er eftirminnilegt tímanna tákn, að við tókum við stjórn okkar eigin utanríkismála á rústum hlutleysisstefnunnar.

Segja má, að við höfum fyrst vikið frá hlutleysisstefnunni í verki, er við, tveim árum eftir að styrjöldinni lauk, gengum í Sameinuðu þjóðirnar, sem upphaflega eru hernaðarbandalag sigurvegaranna í seinni heimsstyrjöldinni. Svisslendingar, sem mest leggja upp úr hlutleysi allra þjóða og vopnum búast til að verja það, hafa ekki enn í dag gengið í Sameinuðu þjóðirnar. Að lokinni styrjöldinni settu menn trú sína á Sameinuðu þjóðirnar, en fljótlega kom í ljós, að smáríkjum yrði ekki sú stoð í þeim, sem vonir stóðu til. enda má segja, að forsendan fyrir friðargæzluákvæðum í stofnskrá Sameinuðu þjóðanna sé einmitt samkomulag stórveldanna, sem neitunarvaldið hafa í öryggisráðinu. En þegar möndulveldin höfðu verið lögð að velli með sameiginlegu átaki bandamanna, upphófst fljótlega kalt stríð á milli austurs og vesturs. Lögðu kommúnistar undir sig Austur-Evrópuríkin hvert af öðru, en Vesturlönd, sem fyrst í stað höfðu fagnað friði og afvopnazt með undraverðum hraða, tóku nú að ugga um sinn hag. Ljóst var framsýnustu mönnum, að bindast yrði samtökum, ef takast ætti að spyrna við fæti. Þróuðust þessi mál síðan stig af stigi, unz þar kom, að ákveðið var að stofna Atlantshafsbandalagið, er kommúnistar höfðu hrifsað völdin í Tékkóslóvakíu og sett Vestur-Berlín í herkví 1948, en hvort tveggja átti sér stað á því ári. Var okkur Íslendingum boðin þátttaka frá upphafi, og eftir vandlega athugun var lagt til hér á Alþingi og samþykkt að gerast stofnaðilar að NATO. Höfum við borið gæfu til, að víðtæk samstaða hefur náðst milli lýðræðisflokkanna þriggja og þar með meginþorra allra landsmanna um þetta grundvallaratriði. Hefur þar afstaðan mótazt af málefninu sjálfu og engu öðru. Er það tvímælalaust vilji þjóðarinnar í þessu mikilvægasta máli allra sjálfstæðra og fullvalda ríkja.

Öll er þessi saga undanfarinna 20 ára kunn og óþarfi að rekja hana hér í löngu máli enn einu sinni. En aðalatriðið er, að við Íslendingar gerumst aðilar að Atlantshafsbandalaginu af frjálsum vilja, og þar hefur okkur farnazt vel. Enginn beitti okkur þvingunum til inngöngu, en sem oftar fylgdum við að málum frændþjóðum okkar, sem næst okkur standa á Norðurlöndum, Norðmönnum og Dönum.

Við erum fullgildir aðilar að Atlantshafsbandalaginu og skrifuðum undir samninginn ásamt fulltrúum 11 annarra ríkja hinn 4. apríl 1949, og er það í sjálfu sér mikilvæg viðurkenning á sjálfstæði okkar og fullveldi, að við erum hlutgengir í samstarfi bandalagsþjóðanna, þar sem eru stórveldi á borð við Bandaríkin og ýmis minni ríki, eins og Holland og Belgía t. d., sem þó eru margfalt fjölmennari en við, og störfum saman á jafnræðisgrundvelli. Er við gerðumst stofnaðilar að NATO, gerðum við það með fyrirvara, eins og við þrír ráðh. úr ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar greindum frá í skýrslu okkar um undirbúningsviðræðurnar í Washington í marzmánuði 1949, og skal ég koma að því síðar, er ég ræði um varnarsamninginn við Bandaríkin.

Eftir því sem alþjóðasamningar gerast, er Atlantshafssamningurinn tiltölulega einfaldur í sniðum. Hann er aðeins 14 greinar. Þetta er raunar einn af höfuðkostum samningsins. Grundvallarhugmyndin er augljós og skýrt sett fram. Tilgangurinn er að bindast samtökum um varnir aðildarríkjanna og treysta öryggi þeirra. Í fyrsta lagi skal reynt að efla friðinn og afstýra átökum í milliríkjaviðskiptum, og í annan stað skal aðstoða hvert eitt aðildarríki, sem kynni að verða fyrir árás. Í 5. gr. samningsins segir, að vopnuð árás á einn eða fleiri aðila sambandsins skuli vera talin árás á þá alla, og verða þá gerðar sameiginlegar ráðstafanir til að hrinda árásinni og tryggja aftur öryggi bandalagsþjóðanna. Þetta er undirstöðuatriði, sem legið hefur til grundvallar öllu samstarfi bandalagsþjóðanna á undanförnum tveim áratugum. Aftur á móti er ekki að finna ítarleg ákvæði í Atlantshafssamningnum um uppbyggingu bandalagsins. Samkv. 9. gr. er þó kveðið á um stofnun ráðs, sem skipað skuli fulltrúum allra aðildarríkjanna. Bandalagið hefur getað þróazt eftir þörfum og tekið ýmsum breytingum allt frá upphafi. Skemmst er að minnast, að Frakkar drógu herlið sitt undan sameiginlegri yfirherstjórn bandalagsins, sem fyrst hafði verið sett á laggirnar í apríl 1951. og voru þá viðhlítandi breytingar gerðar þannig, að varnarstyrkur bandalagsins er talinn sízt minni en áður, er endurskipulagningunni var lokið.

Nú ætla ég ekki að fara hér nánar út í uppbyggingu bandalagsins. Upplýsingar þar að lútandi liggja fyrir hverjum, sem vill kynna sér þær. En ég bendi aðeins á, að bandalagið fylgist jafnan með breyttum tímum og hefur aðlagað sig nýjum kringumstæðum. Atlantshafsráðið situr á stöðugum fundum árið um kring, og ráðherrafundirnir eru haldnir a. m. k. tvisvar á ári. Þar er stefnan mörkuð og síðan stöðugt unnið að framkvæmd hennar, en að auki hafa oft á undanförnum árum gefizt tækifæri til endurskoðunar á störfum bandalagsins og stefnumarki. Má þar fyrst til nefna skýrslu vitringanna þriggja, sem svo eru nefndir, frá árinu 1956, en þeir lögðu áherzlu á efnahags- og vísindasamstarf bandalagsþjóðanna auk hins pólitíska samstarfs í varnarmálum. Og nú síðast Harmelskýrsluna frá 1967 um framtíðarverkefni bandalagsins, eins og þau horfa við eftir 19 ára samstarf aðildarþjóðanna. Vík ég nánar að þessari skýrslu Harmels síðar, en fyrst vildi ég ræða nokkuð um uppsagnarákvæði Atlantshafsbandalagsins, sérstaklega vegna þess að um þau hefur verið allmikið rætt manna á meðal undanfarin missiri, og hefur þá stundum gætt nokkurs misskilnings.

Samningurinn gildir um óákveðinn tíma, og hann er óuppsegjanlegur fyrstu 20 árin. 13. gr. hljóðar svo: „Þegar 20 ár eru liðin frá gildistöku samnings þessa, getur hver aðili sagt honum upp með eins árs fyrirvara, talið frá afhendingu tilkynningar þess efnis til ríkisstj. Bandaríkjanna, en hún skýrir ríkisstj. annarra aðila frá afhendingu slíkra tilkynninga.“

Samningurinn fellur sem sagt ekki úr gildi núna eða að enduðum 20 árum. Hann heldur áfram gildi, og eru gildistímabilinu ekki takmörk sett. En nú fyrst eftir 20 ár gefst möguleiki á að segja samningnum upp með eins árs fyrirvara, og engrar endurskoðunar er krafizt á þessu ári samkv. ákvæðum samningsins. En eins og gefur að skilja, hafa þessi mál verið mikið til umr., þar sem nú fyrst væri möguleiki á að segja samningnum upp. Miklar umr. í frjálsu samfélagi þeirra sjálfstæðu og fullvalda ríkja, sem aðild eiga að Atlantshafsbandalaginu, eru ekkert nýtt fyrirbæri. Eins og ég hef þegar sagt, er stöðugt verið að marka sameiginlega stefnu og breyta samstarfinu, eftir því sem þörf krefur. Ég vil leggja höfuðáherzlu á þá staðreynd, að ekkert bandalagsríkjanna hyggur á að notfæra sér þennan möguleika, eins og er a. m. k., heldur þvert á móti eins og skýrt kom fram á síðasta utanríkisráðherrafundi í Brüssel í nóvembermánuði s. l. Þar náðist fullkomin samstaða fulltrúa allra 15 aðildarríkjanna um áframhaldandi gildi bandalagsins til þess að tryggja öryggi aðildarþjóðanna og til þess að byggja á viðleitnina til samkomulags í Evrópu, eins og lesa má í 12. gr. fréttatilkynningar fundarins. Þar er einnig ítrekað, að samningurinn sé gerður til óákveðins tíma og jafnframt tekið fram, að atburðirnir að undanförnu, og er þar átt við Tékkóslóvakíu, sanni enn á ný, að áframhaldandi tilvera bandalagsins hafi aldrei verið nauðsynlegri en nú. Þetta skrifuðu allir ráðherrarnir undir, en sá franski, Michel Debré, bætti við, að svo framarlega sem atburðir næstu ára mundu ekki leiða til róttækrar breytingar á samskiptum austurs og vesturs, teldi franska ríkisstj., að bandalagið yrði að halda áfram, svo lengi sem það virtist nauðsynlegt.

Öll ber þessi fréttatilkynning ráðherrafundarins vott um mikla einingu bandalagsríkjanna, og skal ég aðeins minna á til viðbótar það, sem segir í 7. gr.: Eru aðildarríkin sannfærð um, að stjórnmálaleg samstaða þeirra hefur enn ómetanlegt gildi í því skyni að hamla gegn árás og annarri valdníðslu. Það er umfram allt einbeittur ásetningur þeirra að standa við gagnkvæmar skuldbindingar sínar í samræmi við Atlantshafssamninginn og vernda aðildarríki bandalagsins gegn sérhverri vopnaðri árás. Þetta er samdóma álit allra utanrrh., er þeir síðast komu saman.

Afstaða Frakka er þó óbreytt til sameiginlegu herstjórnarinnar. Þeir taka ekki þátt í henni. En af hverju? Þeim, er vilja benda á Frakka sem fordæmi, væri rétt að rifja það upp. Ástæðan er m. a. sú, að Frakkar telja öryggi sínu ekki nægjanlega borgið, á meðan Bandaríkin hafa úrslitavald um það, hvenær kjarnavopn verða notuð til varnar í Evrópu. Frakkar vilja vera í aðstöðu til að geta ákveðið sjálfir, hvenær hleypt verði af kjarnasprengju í Evrópu, komi þar til vopnaðra átaka. Þeir ætla þess vegna að koma sér upp kjarnorkuherafla og treysta á eigin mátt, af því að þeir eygja þann möguleika, að Bandaríkjamenn verji ekki Evrópu með kjarnavopnum, ef þeir eiga yfir höfði sér eyðileggingu síns heimalands. Vestur-Evrópa verði þá kannske gefin eftir til að komast hjá kjarnasprengjuregni yfir Bandaríkin. Gaullistar óska að geta stutt frönskum fingri á atómgikkinn án atbeina annarra samherja, en Frakkar hafa ekki sagt sig úr bandalaginu og virðast ekki ætla að gera það. Þeir hafa ekki og ætla sér ekki að segja upp Atlantshafssamningnum. Þeir vilja m. ö. o. njóta áfram þeirrar verndar, sem í honum felst. Annars er hér komið út í sálma, sem erfitt er kannske fyrir okkur Íslendinga, vopnlausa smáþjóð, að bera skynbragð á. Ballance of terror eru orð, sem heyrast oft í þessu sambandi eða jafnvægi skelfingarinnar vegna ógnana á báða bóga, og hallast á hvoruga. Stundum hefur staðið tæpt, en til allrar hamingju hefur þetta geigvænlega jafnvægi haldizt á undanförnum tveimur áratugum, jafnvel þó að það hafi í eðli sínu tekið miklum breytingum, allt frá er Bandaríkjamenn einir áttu kjarnavopn og gátu komið þeim í skotmörk i margra þús. km fjarlægð, og þar til nú í dag, að risaveldin tvö, Bandaríkin og Sovétríkin, geta þetta bæði. Og það sem meira er, bæði geta svarað í sömu mynt, jafnvel eftir að kjarnasprengjum hefur rignt yfir þau. Möguleikar til þess að gereyða mótaðilanum án hættu á gagnárás af sömu stærðargráðu eru því ekki fyrir hendi, þannig að fræðilegar líkur á gereyðingarstríði með kjarnavopnum hafa minnkað, að því er talið verður. Jafnvægið á þó kannske eftir að raskast bráðlega, ef fleiri kjarnorkuveldi koma til með langdrægar eldflaugar. Við þessa þróun, sem orðið hefur fram að þessu á sviði kjarnavopna og flugskeyta, hefur athygli varnarmálaráðherra NATO beinzt aftur að venjulegum vopnabúnaði svokölluðum, þannig að verjast megi hvers konar árás og hvenær sem er án þess að grípa strax til kjarnavopna.

Á síðustu ráðherrafundum hefur verið ákveðið að efla varnir bandalagsríkjanna og auka fjárveitingar til þeirra. Stóð síðasti fundur varnarmálaráðherranna 16. jan. s. l. Eftir þann fund var frá því skýrt, að heildarútgjöld NATO-þjóðanna námu á s. l. ári samtals 104 þús. millj. dollara, en þar af lögðu Evrópuþjóðirnar fram 20 þús. millj., og er búizt við því, að hlutfallslega fari útgjöld Evrópuþjóðanna vaxandi, þannig að þær taki á sig stærri hluta af varnarbyrðinni en hingað til. Þetta eru næstum stjarnfræðilegar tölur og erfitt fyrir Íslendinga að átta sig á þeim. En rétt aðeins til að gefa betri innsýn í þessi mál skal ég einungis nefna, að Luxemburg, sem næst stendur okkur af NATO-löndunum að fólksfjölda með rúml. 300 þús. íbúa, veitti 660 millj. ísl. króna til varnarmála á s. l. ári. Miðað við fólksfjölda eingöngu væri sambærileg tala hjá okkur um 300–400 millj. kr. Danir og Norðmenn verja hvor í sínu lagi um það bil 30 milljörðum til varnarmála. Sambærileg tala hjá okkur, hvort heldur miðað er við fólksfjölda eða prósentur af þjóðartekjum, mundi vera um og yfir 1000 millj. kr. Væru aðrar NATO-þjóðir valdar til samanburðar, mundi útkoman vera enn verri. Svona tölur eru okkur Íslendingum framandi, þar sem við þekkjum ekki neinn lið á fjárlögum, sem heitir Útgjöld til landvarna. Er þetta þó nokkurt umhugsunarefni, en ég þreyti ekki þingmenn á fleiri samanburðartölum, því að hver sem er getur velt þessu fyrir sér, þar sem birtar eru opinberlega allar upplýsingar um útgjöld NATO til hernaðarmála.

Nýlegar ákvarðanir um hækkun fjárframlaga til varnarmála eru beinar afleiðingar af atburðunum í ágústmánuði s. l., er fimm aðildarríki Varsjárbandalagsins undir forystu Sovétríkjanna réðust inn í Tékkóslóvakíu með herafla til þess að kúga ríkisstj. þar til þess að breyta stefnu í innanlandsmálum, þvert ofan í vilja svo að segja allrar þjóðarinnar. Við þessa atburði beindist athyglin enn á ný að varnarkerfi Atlantshafsbandalagsins, en afturkippur kom í viðleitni til bættrar sambúðar við kommúnistaríkin í Vestur-Evrópu. Fram að þessu hafði á undanförnum misserum verið megináherzla lögð á það að reyna að ná betra samkomulagi við Sovétríkin og alþýðulýðveldin í Austur-Evrópu í þeirri von, að þokast mætti í áttina til lausnar á grundvallardeilumálum í álfunni. Þessari stefnu hafði einkum verið fylgt innan Atlantshafsbandalagsins, eftir að Harmel-skýrslan, sem áður var nefnd, var samþykkt á ráðherrafundinum í des. 1967. En skýrsla þessi var árangur af rækilegri endurskoðun á starfsemi bandalagsins og framtíðarverkefnum þess, sem hafizt var handa um árið 1966 að frumkvæði Pierre Harmels, utanríkisráðherra Belgíu. Öll aðildarríkin stóðu að þessari samþykkt ráðherrafundarins 1967, en í henni segir á þá lund, að bandalagið hafi tvö meginverkefni og að þeim báðum beri jafnan að vinna ötullega. Í fyrsta lagi eru landvarnirnar, og skal jafnan halda við hernaðarmætti bandalagsþjóðanna og efla pólitíska einingu þeirra til þess að koma í veg fyrir árásarstyrjöld á samningssvæðinu í Evrópu og Norður-Ameríku. Þegar öryggi bandalagsþjóðanna er þannig tryggt, skal í öðru lagi leitazt við að koma samskiptum milli Austur- og Vestur-Evrópu á traustari grundvöll í þeirri von, að jafna megi endanlega pólitískan ágreining um undirstöðuatriði, og ber þar Þýzkalandsmálið hæst. Þetta tvennt, hernaðarstyrkur í varnarskyni og pólitískur vilji til bættrar sambúðar, fer saman, og skal leita allra ráða til að leysa vandamál austurs og vesturs, svo að á komist varanlegur friður í Evrópu, er byggi á réttlátri framtíðarskipan álfunnar, og verður þá fyrst öryggi hinna einstöku ríkja tryggt til frambúðar. Jafnframt verður þá árangurs að vænta í afvopnunarmálum með því að minnka stig af stigi vopnabúnaðinn á báða bóga. Eins og ég sagði og fram kemur í fréttatilkynningu síðasta utanríkisráðherrafundar, kom nokkur afturkippur í þessi mál við atburðina í Tékkóslóvakíu, en eigi að síður verður haldið áfram á sömu braut og hingað til.

Viðhorfin breytast sífellt, en grundvöllurinn er sá sami, Atlantshafssamningurinn heldur gildi sínu um ófyrirsjáanlega framtíð. Atlantshafsbandalagið hefur náð tilgangi sínum að því leyti, að samningssvæðið allt hefur verið blessunarlega laust við vopnuð átök á undanförnum tveimur áratugum. Til styrjaldar hefur ekki komið á því svæði, sem samningurinn nær til, og valdajafnvægi við kommúnistaríkin í Austur-Evrópu hefur komizt á fyrir tilvist bandalagsins. En ástandið er þó engan veginn tryggt og getur á svipstundu breytzt til hins verra. Þetta hafa atburðir síðustu missera minnt á, svo að ekki verður um villzt, atburðir í Evrópu og utan hennar. Má þar nefna innrásina í Tékkóslóvakíu, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, styrjöldina í Víetnam, hörmungarnar í Nígeríu og fleiri og fleiri. Þar sem undir niðri eru óleyst grundvallarvandamál, er spenna fyrirliggjandi, og vopnuð átök eru víða í heiminum, sem breiðzt geta út fyrr en varir. En grundvallarvandinn í öryggismálum Evrópu verður ekki leystur til frambúðar, meðan álfunni er skipt í tvo hluta, Þýzkaland er klofið og Berlínarmúr skilur á milli. Þar bíður stórt pólitískt mál úrlausnar. Byggt verður á þeim árangri, sem náðst hefur í NATO, og áfram unnið að frambúðarlausn öryggismála aðildarríkjanna, en bandalagið verður ekki leyst upp, fyrr en eitthvað betra hefur komið í staðinn. Íslendingar hyggja ekki á úrsögn frekar en aðrar aðildarþjóðir, þar með taldar frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, sem við lítum gjarnan til, er við reynum að átta okkur á aðstöðunni á alþjóðavettvangi og mótum stefnuna í alþjóðamálum okkar.

Á s. l. ári hafa orðið miklar umræður um Atlantshafsbandalagið í Noregi og Danmörku, en niðurstaðan er sú, sem kom fram í yfirlýsingu síðasta utanríkisráðherrafundar NATO, sem ég gat um áðan. Sósíaldemókratar stóðu að aðild að NATO á sínum tíma, og þótt stjórnarskipti hafi orðið í báðum þessum löndum og þar haldi nú aðrir flokkar og aðrir menn um stjórnvölinn en fyrir 20 árum, þá halda Norðmenn og Danir ótrauðir áfram í Atlantshafsbandalaginu og hyggja ekki á breytingar í þeim efnum. Það gerum við heldur ekki, og er það tvímælalaust vilji mikils meiri hl. landsmanna, eins og margoft hefur komið fram á undanförnum árum. Yfir 80% atkvæðisbærra manna hafa jafnan lýst stuðningi við stefnu þeirra þriggja flokka, sem vilja eiga áframhaldandi aðild að varnarsamstarfi vestrænna þjóða í Atlantshafsbandalaginu. Andstæðingar aðildar okkar að NATO hafa verið og eru enn a. m. k. aðeins lítið brot af þjóðinni.

Þá kem ég nánar að varnarsamningnum við Bandaríkin frá 1951. óþarft ætti að vera að rekja hér enn einu sinni ástæðurnar fyrir því, að hann var gerður á sínum tíma, eða þróun þeirra mála síðan. Þetta gerði ég að nokkru í skýrslu minni hér á þingi hinn 19. apríl s. l., en þessi saga er flestum kunn og mörgum ofarlega í huga, enda eru samskipti okkar við varnarliðið stöðugt undir smásjá almennings, eins og vera ber, og sífellt til umr. á opinberum vettvangi, nú síðast vegna furðulegra till., sem settar voru nýlega fram í viðræðuþætti í útvarpinu. Á ýmsu hefur gengið í þessum málum, en sú kenning, sem þar kom fram, er þó með þeim fjarstæðukenndari og öfgafyllstu, sem ég hef heyrt getið um. Í þessum efnum sem öðrum er okkur hollast að láta ekki stundarerfiðleika villa okkur sýn, þannig að við missum sjónar á meginmarkmiðum. Hversu hagkvæmlega sem slungnir fjármálamenn geta útlistað reikningsdæmi sín og samanburð við Spánverja, uppgripatekjur af varnarliðinu til úrlausnar núverandi efnahagserfiðleikum okkar Íslendinga, þá er ég hræddur um, að það yrði okkur skammgóður vermir, ef við viljum vera áfram sjálfstæð þjóð. Við megum aldrei vera háðir tekjum af dvöl erlends herliðs hér á landi, því að ef svo færi, mundi fljótlega þverra sjálfsvirðing okkar og siðferðisvitund og erlendar þjóðir hætta að viðurkenna Ísland sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta. Söguleg dæmi um slíka ógæfu eru of mörg og ekki öll gömul. En í þessu sambandi er rétt að rifja upp aðalatriðin, að því er viðvíkur varnarsamningnum við Bandaríkin. Eins og ég sagði áðan, gerðum við fyrirvara, þegar við gerðumst stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu. Við fullvissuðum okkur m. a. um það, að við mundum ekki þar með taka á okkur sjálfkrafa neinar skuldbindingar um áð hafa hér erlendan her í landinu á friðartíma. Okkur er algerlega í sjálfsvald sett, hvort hér er varnarlið í landinu, og það fer einungis eftir okkar eigin dómi og ástandinu í heiminum og friðarhorfum. Þetta hefur verið ljóst frá upphafi og má segja, að við njótum allra fríðinda af þátttöku í öflugu varnarbandalagi, en leggjum ekki annað af mörkum en það, sem við sjálfir teljum okkur fært.

Er varnarsamningurinn var gerður vorið 1951, var talið óverjandi vegna hættuástands í heiminum, að Ísland væri óvarið með öllu, eins og lýst er í inngangsorðum að samningnum, sem lögfestur var hér á Alþ. um haustið. Við þær atkvgr. í báðum þd. varð jafnvel meiri samstaða meðal þm. lýðræðisflokkanna þriggja en 1949, er atkv. voru greidd um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu. 1951 voru kommúnistar eða þeir, sem við venjulega köllum svo, en eru ýmsum öðrum nöfnum nefndir, þeir voru raunverulega einangraðir og einir á báti á móti. Aðalatriði samningsins frá 1951 er það, að Bandaríkin taka á sig beina ábyrgð á vörnum Íslands innan ramma Atlantshafsbandalagsins, og hefur sú samvinna okkar við Bandaríkin öll verið þannig, að við getum vart á annað betra kosið, þegar á heildina er litið. Er þó stærðarmunur mikill á aðilum, en Bandaríkin hafa aldrei látið okkur kenna aflsmunar, heldur eru okkar samskipti ávallt byggð á jafnrétti, og þurfum við þó ekki að leita langt að dæmum um samskipti risaveldis við smáríki, sem er á annan veg farið og byggjast á öðrum forsendum, þar sem er Breznevkenningin um rétt Sovétríkjanna til íhlutunar, hvar sem er, í hinu svokallaða sósíalska samveldi. En það, sem meira er, við bjuggum þannig um hnútana, þegar varnarsamningurinn var gerður 1951, þar sem endurskoðunar- og uppsagnarákvæði samningsins eru, að við getum einhliða slitið varnarsamvinnunni við Bandaríkin, ef okkur býður svo við að horfa, t. d. ef við teljum, að okkur nægi tryggingin í Atlantshafssamningnum sjálfum til öryggis þjóðinni. Það hefur líka reynt á þessi ákvæði 7. gr. varnarsamningsins eftir ályktun Alþingis vorið 1956, eins og ég rakti í ræðu minni í aprílmánuði s. l. En svo fór þó að lokum, að við ákváðum sjálfir um haustið að segja samningnum ekki upp, því að endurskoðuninni var frestað. Þá var vinstri stjórnin svonefnda nýmynduð og átti eftir að sitja að völdum næstu tvö árin, eftir að viðræðunum við Bandaríkin var hætt með erindaskiptum við sendiherra þeirra hér 6. desember 1956. Í þessum orðsendingum segir, að varnarliðið muni dvelja áfram hér á landi, þar sem ástandið í alþjóðamálum sé ótryggt. Jafnframt er áréttaður fyrirvari frá 1949 um dvöl erlends herliðs hér á landi á friðartímum, enda sé endanleg ákvörðun í þessum málum í höndum Íslendinga einna.

Þótt við höfum góða reynslu af samskiptum við varnarliðið, þá er okkur óefað hollast að hafa ekki erlent herlið hér á landi til langdvalar. Þess vegna þurfum við stöðugt að endurmeta allar aðstæður og athuga, hvort breyting getur talizt æskileg á skipun þessara mála. Þetta hefur ríkisstj. gert og gerir enn. Það er ekki aðeins stjórnmálaástandið í heiminum og þá Evrópu alveg sérstaklega, sem þarf að fylgjast með og íhuga, heldur einnig breytingar á hernaðarþýðingu Íslands, sem vegna legu sinnar er miðpunktur á samgönguleið yfir Norður-Atlantshaf. Þrátt fyrir hraðfleygar og stórstígar framkvæmdir í smíði gereyðingarvopna og hernaðartækni allri, ef þannig má að orði kveða um þróunina á svo ógnvekjandi iðju, þá mun það álit sérfræðinga, að herfræðilegt mikilvægi Íslands fari ekki minnkandi. Þrátt fyrir stöðugt öflugri eldflaugar og atómvopn og stöðugt næmari tækjabúnað til þess að finna og fylgjast með hugsanlegum árásaraðilum, þá fer hernaðarþýðing Íslands sízt minnkandi og þar af leiðandi varnarþörfin einnig. Eitt vopnið, sem mikið hefur verið rætt um á undanförnum árum, eru kjarnorkueldflaugar um borð í kjarnorkuknúnum kafbátum, sem siglt geta í lengri tíma um öll heimsins höf og jafnvel undir ísnum á Norður-heimskautinu. Þessa kafbáta eiga bæði risaveldin, og breytingarnar í hernaðartækninni verða á báða bóga. Þar er stöðug samkeppni. En óneitanlega höfum við Íslendingar orðið áþreifanlega varir við tíðari ferðir sovézkra herskipa á Norður-Atlantshafi. Hér hafa á s. l. ári verið sovézk herskip upp undir landsteinum, og í fyrsta skipti héldu Varsjárbandalagslöndin flotaæfingar á Atlantshafi s. l. vor. Öll eru þessi herfræði hlutir, sem við Íslendingar þekkjum ekki mikið til, og efalaust þurfum við að afla okkur betri sérfræðilegrar þekkingar á hernaðarmálefnum, þannig að við getum sjálfir lagt sérfræðilegt mat á allar aðstæður. En það er þó kannske ekki eins nauðsynlegt og ætla mætti, ef haft er í huga, að við gerum aldrei meira en styðjast við álit hernaðarsérfræðinganna og hafa það til hliðsjónar eingöngu, hvort heldur slíkt álit kemur frá Bandaríkjamönnum beint eða frá Atlantshafsbandalaginu í heild eða frá öðrum aðilum, sem við getum leitað til. Endanleg ákvörðun okkar Íslendinga byggir aldrei nema að nokkru leyti á áliti sérfræðinga. Ákvörðunin um dvöl erlends herliðs hér á landi og raunar einnig um aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu hlýtur alltaf að vera pólitísk. Þar verður meiri hluta vilji þjóðarinnar að ráða, þegar allt kemur til alls, og þeir samningar, sem löglega kjörin stjórnvöld hafa gert í nafni þjóðarinnar, eru líka þannig úr garði gerðir, að vilji þjóðarinnar nær fram að ganga, þegar að því kemur, að Alþingi ákveður að breyta stefnu þeirri, sem hingað til hefur verið framfylgt í öryggis- og varnarmálum landsins. En allar slíkar ákvarðanir þarf að taka að vandlega athuguðu máli. Hafi reynslan kennt okkur eitthvað í þessum efnum, er það vissulega það að rasa ekki um ráð fram, því að skjótt skipast veður í lofti í vályndum heimi.

Mér er það ljóst, að það eru fleiri atriði, sem snerta utanríkismál, sem kannske hefði verið rétt að ræða um.

En ég læt þetta nægja í bili, og ef þau mál, sem ég hef ekki minnzt á, koma hér fram í umr., þá skal ég reyna að svara þeim, eftir því sem ég get. En viðskiptamálin, sem kannske hefði verið ástæða til að minnast á, eru þannig framkvæmd hjá okkur, að viðskiptasamningar eru gerðir á vegum utanrrn., en framkvæmd viðskiptasamninga við erlend ríki er í höndum viðskmrn. og EFTA-málið hefur með samkomulagi milli okkar ráðh. verið í höndum viðskmrh., og um þau hefur líka verið rætt talsvert að undanförnu.

Af Evrópuráðinu er tiltölulega lítið að segja. Við höfum tekið þátt í því. Við höfum átt þar menn í mannréttindanefnd og í mannréttindadómi, og við höfum fylgzt þar með málum og fylgt t. d. Norðurlöndunum í afstöðunni til Grikkja, en þeir hafa verið mjög gagnrýndir þar, og fleira mætti raunar nefna, en ég tel ekki ástæðu til þess að fara lengra út í það hér. Ég tel, að með þessu, sem ég nú hef sagt, sé minnzt á aðalmálin, sem uppi hafa verið í utanríkismálum á síðustu misserum.