03.03.1969
Efri deild: 53. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 2161 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir það, sem hann sagði hér áðan, og lofa því að lengja ekki þessar umr., sem fara hér fram utan dagskrár og á kostnað hins eiginlega fundarefnis. En ég kemst ekki hjá því að endurtaka það hér vegna þess, sem hæstv. ráðh. sagði, að mér finnst hér vera um grundvallarágreining að ræða milli þess, sem ég sagði, og þess, sem hæstv. fjmrh. sagði, þegar hann talar stöðugt um samning, um að það þurfi að taka upp samningaviðræður við B.S.R.B. og það verði gerður nýr samningur, þegar verkalýðsstéttirnar eru búnar að koma sínum málum fyrir. Ég álít hins vegar, að hér sé um að ræða dóm, þann dóm, sem ég áðan vitnaði í. Það var reynt að semja og málinu vísað til kjaradóms. Kjaradómur kvað upp þennan skýlausa dóm, sem ég vitnaði í áðan. Samkv. honum á að reikna nýja vísitölu á grundvelli framfærslukostnaðar í Reykjavík 1. febrúar og greiða laun samkv. henni 1. marz. Ég hef lesið forsendur þessa dóms, eins og hæstv. ráðh. ráðlagði mér. Og ég veit, að í þeim er miðað við, að launin séu sambærileg við það, sem samið var um við aðrar stéttir í marzmánuði í fyrra. En það er bara hvergi tekið fram í dómnum, að það skuli vera samband þarna á milli. Dómurinn er alveg skýlaus og ekki skilyrtur á nokkurn hátt. Það er þess vegna að mínum dómi verið að taka af opinberum starfsmönnum laun, sem þeir samkv. kjaradómi áttu að fá hinn 1. marz s. l. Ég veit ekki, hve mikið. Það hefur ekki verið reiknuð vísitalan enn þá, en augljóst er og ekki verður það deiluatriði, að hún hlýtur að hækka talsvert. Ég skal ekki orðlengja um þetta. Ég bara undirstrika þennan mismun, sem er á skilningi okkar, mín og hæstv. fjmrh. á þessu, og ég hygg nú, að opinberir starfsmenn a. m. k. skilji kjaradóm þeim skilningi, sem ég hef hér verið .að draga fram.

Ég vil svo aðeins, af því að ég var eitthvað óskýr í máli þarna áðan, taka það fram, að ég er ekki að kenna hæstv. fjmrn. um það, að vísitalan var ekki reiknuð. Það er vitanlega annar aðili, sem það gerir, eins og hæstv. ráðh. undirstrikaði. Ég fellst ekki á neitt af þeim rökum, sem komu fram í yfirlýsingu þeirrar n., sem á að reikna vísitöluna vegna þess, að í fyrsta lagi var um stjórnarfrv. að ræða, sem venjulega fá nú hér greiða afgreiðslu á hv. Alþ. Það er nú komið fram nál. frá hv. heilbr.- og félmn. Ed. shlj. um að mæla með frv., svoleiðis að ef einungis stóð á því að vita, hverjar þessar fjölskyldubætur yrðu í framtíð, mátti nú treysta á, að þetta frv. yrði samþ., og í öðru lagi tel ég víst, að frv. hefði getað fengið hér framgang í þinginu með meiri hraða eins og mörg önnur mál, sem minni samstaða hefur verið um, ef eftir því hefði verið leitað. Og svo í þriðja lagi það, að samkv, lögum á að reikna vísitöluna samkv. þeim framfærslukostnaði, sem er fyrir hendi á hverjum tíma, svo að ég tel þetta nú vera fyrirslátt frekar heldur en rök.

En ég skal ekki orðlengja frekar um þetta. Ég sem sagt bara endurtek það að lokum, að þessi kjaradómur er alveg skýr og það er ekki í sjálfum kjaradómi neins staðar tengt saman, hvað opinberir starfsmenn eiga að fá í laun og svo aðrar stéttir, sem það semja um. Það er hins vegar getið um það í forsendunum. Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh.