02.12.1968
Neðri deild: 21. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í C-deild Alþingistíðinda. (2608)

86. mál, söluskattur

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 1. flm. þessa frv. er nú búinn að fylgja því úr hlaði, en ég saknaði eins í hans ræðu, og ég hygg, að hann og aðrir flm. frv., sem allir eru gæddir mikilli ábyrgðartilfinningu og enginn efast um, hafi gert sér ljóst, hvað það muni kosta ríkissjóð í lækkuðum söluskattstekjum, ef þetta frv. yrði samþ. En þrátt fyrir hans ágætu ræðu hér áðan mun hann hafa gleymt að geta þess, hvað þetta væri há upphæð, og ekki trúi ég því, að jafngrandvar maður og hann reyni ekki að gera sér eftir föngum ljóst, hvað þetta hafi mikil áhrif á afkomu ríkissjóðs. Og ég minnist nú þess alveg sérstaklega, að við 1. umr. fjárl. lýsti þessi hv. þm. miklum áhyggjum sínum yfir fjárhagsafkomu ríkissjóðs og taldi, að þar þyrfti margra úrbóta við, sem vafalaust er mikið rétt í. Þar þarf margt að bæta og margt að gera. En ég stóð nú aðeins upp til þess að fá upplýsingar hjá hv. flm. um þetta mikilvæga atriði, sem mér skilst, að hafi allmikið að segja í afstöðu þm. til málsins á síðara stigi.